SKÁLD.IS

Konur skrifa um konur sem skrifa

María Skagan

María Jónsdóttir Skagan fæddist þann 27. janúar 1926 á Bergþórshvoli í Vestur-Landeyjum, Rangárvallasýslu. Hún ólst þar upp til 18 ára aldurs. Foreldrar hennar voru hjónin sr. Jón Jónsson Skagan, prestur á Bergþórshvoli f. á Þangskála á Skaga 3. ágúst 1897, d. 4. mars 1989 og Sigríður Jenný Gunnarsdóttir Skagan frá Selnesi á Skaga, f. á Sævarlandi í Laxárdal 21. janúar 1900, d. 19. febrúar 1991.

María stundaði nám við Héraðsskólann að Laugarvatni í einn vetur og fór síðan í Verslunarskóla Íslands. Ung varð hún fyrir alvarlegum meiðslum á hrygg sem komu í veg fyrir frekara nám. Hún starfaði þó um árabil á skrifstofu Ríkisféhirðis. Árið 1960 komu hryggmeiðsli hennar í veg fyrir að hún gæti haldið áfram störfum og hvarf hún af vinnumarkaði.

Skáldskapurinn átti hug Maríu allan og lét hún ekki líkamlega vanheilsu koma í veg fyrir að hún sinnti honum. Hún stundaði þýðingar og skrifaði þætti í Sunnudagsblað Tímans þar sem hún starfaði sem blaðakona. María hafði sérstaklega gott vald á móðurmálinu og orti allt sitt líf. Hún skrifaði einnig smásögur og gaf út skáldsögu á höfundarferli sínum. Sögur hennar og ljóð voru lesin í útvarpi og nokkrir sönglagatextar eru til eftir hana. María var bundin við hækjur og að endingu við rúmið í tugi ára. Hún tók því með jafnaðargeði að sögn samferðamanna sinna enda hafði hún skáldskapinn sér til hugarhægðar.

Fyrsta bókverkið sem María kom að var úrval sagna sem hún þýddi og ritstýrði í bókinni Í meistarans höndum sem kom út árið 1967. Var bókin gefin út til styrktar hjálparsjóði Sjálfsbjargar en María vann ötullega að uppbyggingu félagsins með ritstörfum sínum. Gaf hún ágóðann af sölu þessarar bókar og einnig hagnað af seinni verkum til félagsins.

Fyrsta skáldsaga hennar Að hurðarbaki- Spítalasaga kom út 1972. Í kynningu á bókinni segir að hún sé ,,hugnæm og magnþrungin saga um menn og konur í frumskógi lífsins, þar sem eitt skref eða eitt sekúndubrot getur breytt lífþræðinum á hengiflugi hamingjunnar. Bókin gerist á endurhæfingarhæli á Norðurlöndum og er þar brugðið upp svipmyndum af fólki, sem á við mismunandi örðugleika að etja.“

María sendi frá sér ljóðabækurnar Eldfuglinn (1977), Í brennunni (1982), Draumljóð (1986). Fjórða og síðasta ljóðabók hennar Ég ligg og hlusta kom svo út árið 1994. Eftir hana komu einnig út smásagnasöfnin Stóri vinningurinn og Kona á hvítum hesti.

María Skagan flutti í Sjálfsbjargarhúsið eftir að heilsu hennar hrakaði og bjó þar ævina á enda. Stofnaði hún til söfnunarátaks fyrir sundlaug Sjálfbjargar sem skipti sköpum og opnaði sundlauginn árið 1981, á alþjóðaári fatlaðra.    

Hún lést 2. nóvember 2004.


Ritaskrá

  • 2000    Með brest í boga
  • 1994    Ég ligg og hlusta
  • 1986    Draumljóð
  • 1983    Í brennunni
  • 1979    Stóri vinningurinn
  • 1979    Kona á hvítum hesti
  • 1977    Eldfuglinn
  • 1972    Að hurðarbaki