SKÁLD.IS

Konur skrifa um konur sem skrifa

Málfríður Einarsdóttir

Málfríður Einarsdóttir fæddist í Munaðarnesi í Stafholtstungum, Borgarfirði, 23. október 1899.

Málfríður var dóttir Einars Hjálmssonar, bónda þar, og konu hans, Málfríðar Kristjönu Björnsdóttur, ljósmóður, sem lést þegar litla stúlkan fæddist ásamt tvíburabróður, sem dó samdægurs. Hún var sett í fóstur vikugömul til föðurfólks síns að Þingnesi í Bæjarsveit og ólst þar upp síðan en faðir hennar lét hana afskiptalausa.

Málfríður, systir skáldkonunnar Sigríðar Einars sem kenndi sig alltaf við Munaðarnes, var í skóla að Hvítárbakka í Borgarfirði, næsta bæ við Þingnes. Hún stundaði nám við Kennaraskóla Íslands og brautskráðist þaðan 1921. Heilsubrestur kom í veg fyrir frekara skólagöngu en hún smitaðist af berklum í Kaupmannahöfn og átti lengi í margs konar veikindum, andlegum og líkamlegum. Málfríður stundaði lengst af heimilisstörf auk ritstarfa, m.a. saumaði hún súrrealískar myndir og ræktaði blóm (sjá Ingunn Þóra Magnúsdóttir. 1986)

Kvæði og greinar eftir Málfríði birtust í dagblöðum og tímaritum og hún lagði til efni í Ríkisútvarpið frá því á síðari hluta sjötta áratugarins, bæði ljóð og sögur, frumsamdar og þýddar en hún var ötull þýðandi. Hún notaði dulnefnið Fríða Einars framan af. Hún þýddi m.a. nokkrar barnabækur, ljóð eftir Baudelaire, Ferdinand Pessoa og Heinrich Heine, valda kafla úr Hinum guðdómlega gleðileik eftir Dante og Dverginn eftir Pär Lagerkvist.

Fyrsta bók Málfríðar, Samastaður í tilverunni, er eins konar endurminningabók og kom út 1977 en þá var Málfríður 78 ára. Þar rekur hún lífshlaup sitt á frumlegan og skemmtilegan hátt og segir frá uppvexti á bernskuheimilinu, lífinu í Kaupmannahöfn og Reykjavík, og aðbúnaði á berklahælinu á Vífilsstöðum.

„Lýsingar Málfríðar á gamla sveitasamfélaginu eru nöturlegar; á fátæktinni, vinnuhörkunni, sjúkdómunum, barnadauðanum, kuldanum og vosbúðinni, svo fólk koðnaði niður langt fyrir aldur fram bæði andlega og líkamlega. Hún skrifar um hinar þrúguðu íslensku konur, sem hafi „norpað hér í þessu hvumleiða landi án þess að eiga okkur nokkurn skóla að ganga í og fátt við að una nema helst karlmenn, svo dáskemmtilegir sem þeir voru flestir“ (Kristín Svava Tómasdóttir, 2013: 134).

Bókin hlaut fantagóðar viðtökur. Efnistök voru óvenjuleg og módernísk og hefðbundnu ævisöguhugtaki var hér með gjörbylt. Furðu vakti að þessi snjalli rithöfundur skyldi stíga fram á sjónarsviðið svo seint á æviskeiðinu en Málfríður hafði þó lagt stund á ritstörf um árabil áður en hennar fyrsta bók fékkst útgefin.

Úr sálarkirnunni kom út ári síðar. Auðnuleysingi og Tötrughypja, að viðbættri sögu af Hvotta veslingi og mér kom út 1979, Bréf til Steinunnar 1983 og Tötra í Glettingi, 1986. Rásir dægranna (1986) inniheldur hluta af eftirlátnum ritverkum hennar og í eftirmála þeirrar bókar kemur fram að til séu bæði frumsamin ljóð og þýðingar sem enn hafa ekki komið út á bók (sjá Helga Kress 2006 og Kvennasögusafn Íslands).

Málfríður er merkur rithöfundur með þróttmikinn og leikandi stíl, ljóðrænan, kjarnyrtan og gróteskan, hún er óborganlega fyndin og hefur afburðagott vald á íslensku. Bækur hennar, sex talsins, komu út á árunum 1978-1986 en tvær komu út að henni látinni. Bækur Málfríðar eru á mörkum skáldskapar og sjálfsbókmennta, með margvíslegum hugrenningum og pælingum, ferðasögum og mannlýsingum; í verkum hennar er viðtekinni merkingu hluta og hugtaka í ríkjandi menningu hafnað og líkaminn er útgangspunktur (sjá Ragnhildur Richter 1994). Hún skrifar um tilfinningar sínar, vanlíðan og þunglyndi (sem hún kallar Svörtupísl) og frásagnarháttur hennar varpar óvenulegu ljósi á samband sögumanns, söguhöfundar og raunverulegrar manneskju. Á áttræðisaldri þótti hún meðal frumlegustu rithöfunda landsins. Sjálf sagðist hún í viðtali hafa verið klaufi að skrifa og huglaus og ekki verið tilbúin fyrr að senda nokkuð frá sér.

Maður Málfríðar var Guðjón Eiríksson, kennari og húsvörður, en hann lést 1970. Þau bjuggu lengi á efstu hæð pósthússins í Austurstræti, þar sem Guðjón var húsvörður. Áttu þau soninn Þorstein. „Fjarska vorum við Guðjón lengi saman og oftast var mér vel við þann mann“ (Úr sálarkirnunni). Málfríður lést 25. október 1983.

Hér má heyra Steinunni Sigurðardóttur lesa úr Samastað í tilverunni og spjalla við Málfríði.

Heimildir

 • Guðrún Steinþórsdóttir 2013. „Sú skúfun varð ævilöng“. Um rithöfundinn Málfríði Einarsdóttur og verk hennar Úr sálarkirnunni. Ópr. meistaraprófsritgerð. Skemman, http://hdl.handle.net/1946/14668
 • Helga Kress 2006. „En ég er hér ef einhver til mín spyrði.“ Borgfirskar skáldkonur í íslenskri bókmenntahefð. Borgfirðingabók
 • Ingunn Þóra Magnúsdóttir 1986. Um strammaskáldskap Málfríðar. Tímarit Máls og menningar 47(2):215-225)
 • Kristín Svava Tómasdóttir 2013. Bókin um píslirnar. http://bokvit.blogspot.is/2013/12/bokin-um-pislirnar.html
 • Merkir Íslendingar. Málfríður Einarsdóttir. Mbl.is. 23. október 2012. https://www.mbl.is/greinasafn/grein/1441277/
 • Ragnhildur Richter 1994. „Þetta sem ég kalla „mig” það er ekki til”. Fléttur, Rannsóknastofa í kvennafræðum, Háskóli Íslands, Reykjavík

 


Ritaskrá

 • 1986  Rásir dægranna, eftirlátin rit
 • 1983  Tötra í Glettingi
 • 1981  Bréf til Steinunnar
 • 1979  Auðnuleysingi og Tötrughypja, að viðbættri sögu af Hvotta vesalingi og mér
 • 1978  Úr sálarkirnunni
 • 1977  Samastaður í tilverunni

 

Verðlaun og viðurkenningar

 • 1980  Skálda- og listamannalaun
 • 1979  Starfslaun úr Launasjóði rithöfunda
 • 1980  Starfslaun úr Launasjóði rithöfunda
 • 1978  Viðurkenning frá Menntamálaráði

 

Þýðingar

 • 1982  Pär Lagerkvist: Dvergurinn

 

Að auki þýddi Málfríður nokkrar barnabækur, ljóð eftir t.d. Baudelaire, Pessoa og Heine og valda kafla úr Hinum guðdómlega gleðileik eftir Dante.

Tengt efni