SKÁLD.IS

Konur skrifa um konur sem skrifa

Arnheiður Sigurðardóttir

Arnheiður Sigurðardóttir var fædd að Arnarvatni 25. mars 1921.

Foreldrar hennar voru Sigurður Jónsson, skáld á Arnarvatni, og Hólmfríður Sólveig Pétursdóttir, dóttir Péturs Jónssonar á Gautlöndum, sem stóð framarlega í flokki þingeyskra bænda í menningarbyltingunni sem átti sér stað í Þingeyjarsýslu fyrir aldamótin 1900. Þegar foreldrar Arnheiðar giftust var Sigurður ekkjumaður með sex ung börn sem Hólmfríður gekk í móðurstað og síðan eignuðust þau Sigurður fimm börn.

Arnheiður þráði að mennta sig allt frá því hún var lítil stúlka, en sá draumur virtist fjarlægur bæði vegna þess að efni foreldranna voru ekki mikil og að sjaldgæft var að konur legðu stund á háskólanám á þeim tíma sem hún var að alast upp. Hún átti þó eftir að leggja á menntabrautina, eins og titill endurminninga hennar, Mærin á menntabraut (1997), bendir á. Vert er að árétta að titillinn er tvíræður, mærin vísar að sjálfsögðu einnig til þeirra landamæra sem konur af hennar kynslóð áttu erfitt með að stíga yfir.

Arnheiður stundaði nám við Héraðsskólann á Laugarvatni, fór að því loknu í Kennaraskólann í Reykjavík og lauk þaðan kennaraprófi vorið 1944. Að prófi loknu kenndi hún við ýmsa skóla í nokkur ár en hugur hennar stóð alltaf til frekara náms. Hún stundaði nám við Kennaraháskólann í Kaupmannahöfn í eitt ár og kenndi samfellt eftir það í nokkur ár. Vorið 1954 lauk hún stúdentsprófi og hóf nám í íslensku við Háskóla Íslands. Þaðan lauk hún meistaraprófi 1962. Meistararitgerð hennar fjallaði um híbýlahætti á miðöldum og var hún gefin út af Menningarsjóði 1966 og er talin vera stórmerkt brautryðjendaverk. Arnheiður fór í námsferðir til Norðurlanda og Sovétríkin heimsótti hún í boði Lestrarfélags kvenna 1956.

Arnheiður starfaði um tíma á Handritastofnun Íslands, á Hagstofu Íslands og að loknu meistaraprófi var hún lengst af í hálfu starfi við Orðabók Háskólans. Arnheiður las fyrst kvenna útvarpssöguna í Ríkisútvarpið, það var hennar eigin þýðing á Brotið úr töfraspeglinum eftir Sigrid Undset.

Arnheiður byrjaði að fást við prófarkalestur og þýðingar meðfram háskólanáminu og áður en yfir lauk skipaði hún sér í flokk allra bestu þýðanda á Íslandi. Hún lagði sig sérstaklega eftir að þýða skáldverk eftir konur. Hún þýddi meðal annar aftur Kofa Tómasar frænda (1963) en áður hafði komið út þýðing sem Guðrún Lárusdóttir þýddi kornung í upphafi tuttugustu aldar. Þýðingar Arnheiðar eru einkar vandaðar og nefna má að hún þýddi mörg verk eftir Sigrid Undset, Selmu Lagerlöf, Pearl S. Buck og Karen Blixen. Síðasta þýðing hennar var ævisaga þeirra síðastnefndu eftir Parmeniu Migel.

Arnheiður giftist aldrei og var barnlaus. Hún lést úr lungnabólgu í Reykjavík 5. október 2001.

Heimildir:

Íslenskar konur – ævisögur (Ragnhildur Richter, ritstýrði og skrifaði inngang), Reykjavík: Mál og menning, 2002

Minningargrein eftir Ásgerði Jónsdóttur í Morgunblaðinu 31. okt. 2001


Ritaskrá

 • 1997    Mærin á menntabraut. Skyggnst um öxl
 • 1966    Híbýlahættir á miðöldum

 

Þýðingar

 • 1987  Parmenia Migel: Karen Blixen. Ævisaga
 • 1986  Pearl S. Buck: Dætur frú Liang
 • 1974  A. J. Cronin: Endurminningar læknis og rithöfundar
 • 1972  Pearl S. Buck: Í huliðsblæ og fleiri sögur
 • 1971  Carit Etlar: Varðstjóri drottningar
 • 1971  Sigurd Hoel: Ættarsverðið
 • 1967  Svetlana Allilujeva: Endurminningar: 20 bréf til vinar
 • 1966  Mary McCarthy: Klíkan (með Ragnari Jóhannessyni)
 • 1966  Leonore Lönborg: Sabína
 • 1966  Sigrid Undset: Maddama Dórothea
 • 1965  Selmu Lagerlöf: Anna Svärd
 • 1965  Sigrid Undset: Leikur örlaganna
 • 1964  Selmu Lagerlöf: Karlotta Lövenskjöld
 • 1963  Harriet Beecher Stowe: Kofi Tómasar frænda
 • 1958  Karen Blixen: Síðustu sögur
 • 1959  Karen Blixen: Vetrarævintýri
 • 1957  Karl Örbech: Lóretta
 • 1955-1957  Sigrid Undset: Kristín Lafranzdóttir (með Helga Hjörvar)
 • 1954  A. J. Cronin: Töfrar tveggja heima. Endurminningar

 

Tengt efni