Soffía Auður Birgisdóttir∙ 7. nóvember 2021
ÞÝÐANDINN ARNHEIÐUR SIGURÐARDÓTTIR eftir Soffíu Auði Birgisdóttur
16. október síðastliðinn var haldið málþing til heiðurs Arnheiði Sigurðardóttur frá Arnarvatni fæddist. Þar fluttu erindi Helga Kress, Ragnhildur Ricther, Guðrún Kvaran, Kristrún Guðmundsdóttir og Soffía Auður Birgisdóttir. Hér er birt erindi Soffíu Auðar um þýðingar Arnheiðar, en hún var stundum kölluð "Íslenski Blixenþýðandinn".
Fyrsti þáttur sjálfsævisögu Arnheiðar Sigurðardóttur, Mærin á menntabraut, ber yfirskriftina „Skáldið á Arnarvatni og konurnar tvær“. Efni þessa kafla getur vart talist hefðbundið upphaf á sjálfsævisögu en hins vegar koma þarna strax fram helstu hjartans mál Arnheiðar; skáldskapur, þýðingar og kvenréttindi. Skáldið sem yfirskriftin vísar í er faðir Arnheiðar, Sigurður Jónsson frá Arnarvatni, og birtir hún í þessum upphafskafla kvæði hans "Fjalladrottning móðir mín" í heild sinni, öll átta erindin, auk brots af kvæði sem hann orti til fyrri konu sinnar og kallast "Stjarnan".
Konurnar tvær sem vísað er til í yfirskriftinni eru eiginkonur Sigurðar, Málmfríður Sigurðardóttir, sem hann missti frá sex börnum, og móðir Arnheiðar, Hólmfríður Pétursdóttir, sem tók að sér börnin sex og eignaðist sjálf fimm til viðbótar.
Arnheiður Sigurðardóttir
Það er áhugavert að í þessum fyrsta kafla kemur einnig við sögu Bríet Bjarnhéðinsdóttir sem var veturinn 1886 á Arnarvatni og kenndi þar fjórum stúlkum. Arnheiður nefnir að Bríet hafi setið löngum á tali við frændur þrjá, Jón Þorsteinsson, Jón frá Múla og Jón Stefánsson, sem þekktur varð síðar undir skáldanafninu Þorgils gjallandi. Arnheiður skrifar: „Kvenfólkið á Arnarvatni var ekkert hrifið af Bríeti og þaulsetur hennar á tali við þá frændurna reiknuð konur það henni til karlsemi, jafnvel vergirni“ (Mærin á menntabraut, 8, síðutöl innan sviga hér á eftir vísa til þessarar bókar).
Arnheiður nefnir ekki að kvenréttindabarátta Bríetar hafi haft áhrif á sig en einhverra hluta vegna finnst henni mikilvægt að nefna nafn hennar í fyrsta kafla sjálfsævisögu sinnar, sem og þá staðreynd að hún situr gjarnan á tali við karlmenn og aðrar konur virðast lítt hrifnar af því. Þótt Arnheiður hafi sjálf, að því er virðist, ekki tekið opinberlega þátt í kvenréttindabaráttu þá er ljóst að henni er umhugað um að koma skáldverkum kvenna á framfæri og mikill hluti þeirra bóka sem hún þýðir eru eftir konur; með því er hún að sjálfsögðu að auka hlut kvenna á íslensku bókmenntasviði.
Strax á fyrstu blaðsíðu sjálfsævisögu Arnheiðar kemur listin að þýða bókmenntir við sögu þegar hún segir frá þýðingarafreki Jóns frá Múla, föðurbróður Arnheiðar. Hún segir svo frá:
Á árunum milli 1880 og 1890 var í húsmennsku á Arnarvatni hálfbróðir föður míns, Jón, sem síðar kenndi sig við Múla og varð þjóðkunnur undir nafngiftinni Jón frá Múla. Hann tók sér svo stöðu undir kvöld mitt í baðstofunni og flutti og þýddi jafnharðan sem hann las Sögur herlæknisins eftir Zakharías Tópelíus. Þessi flutningur hans vakti mikla hrifningu og var lengi í minnum hafður (en það getur þó ekki hafa verið nema hluti af þessu mikla skáldverki). (7)
Þetta er skemmtileg mynd af karlinum sem tekur sér stöðu í baðstofunni og þýðir af munni fram við „mikla hrifningu“. Hér á eftir ætla ég að skoða hvernig Arnheiður tók sér löngu síðar stöðu á íslensku bókmenntasviði sem þýðandi heimsbókmennta. Hún átti eftir að geta sér gott orð sem þýðandi þótt hún væri í upphafi óörugg og hikandi. Eftir því sem hún sjálf segir réðst hún fyrst í að þýða skáldverk vegna eigin draums um að semja sögu. Þegar Arnheiður var kennari við Reykjaskóla í Hrútafirði um miðja tuttugustu öld las hún bók Stefáns Zweig, Veröld sem var, í norskri þýðingu, og vísar í orð hans um „að sá sem þráir að verða skáld, geti ekki búið sig betur undir það en að þýða skáldverk eftir eitthvert ágætt skáld.“ Hún skrifar:
Mig hafði innst inni dreymt um að semja sögu, helst frá miðöldum, og minnug á þessa ráðleggingu hins mikla og vitra skálds, Stephans Zweigs, réðst ég annan veturinn á Reykjum í það vandasama verk að þýða Den afrikanske Farm (Jörð í Afríku) og var um vorið búin að þýða meiri hlutann af því mikla ritverki, en lauk því svo um sumarið. En undir haustið sýndi ég Brynjólfi Sveinssyni menntaskólakennara nokkra kafla úr þessu ritverki, og þá sagði hann að ég ætti skilyrðislaust að fá þýðinguna útgefna og benti mér á bókaútgáfuna Norðra á Akureyri. Þangað fór ég og sýndi forstöðumönnum þar kafla úr þýðingunni og umsögn Brynjólfs um þá. Mér var vel tekið hjá Norðra, en þegar til kom þorði ég ekki að láta þýðinguna á prent, því ég óttaðist rangþýðingar í henni og að þýðingin væri ekki samboðin þeim snillingi sem Karen Blixen var. (108)
Jörð í Afríku kom út 1952 í þýðingu Gísla Ásmundssonar, stuttu eftir að Arnheiður þýddi bókina sem hún heyktist síðan á að gefa út. Það virðist mikil sóun að leysa af hendi slíkt þýðingarverk, sem varla hefur verið auðvelt, án þess að gefa það út en á móti má segja að sú vinna hafi verið góður undirbúningur fyrir aðrar þýðingar Arnheiðar sem síðar átti eftir að þýða tvær aðrar bækur Karenar Blixen sem komu út seint á sjötta áratugnum og fleira þýddi hún eftir Blixen eins og ég mun nefna á hér á eftir.
Skemmtileg er frásögnin af fyrstu þýðingartilraunum Arnheiðar. Haustið 1940, þegar hún er nítján ára gömul, er hún á Húsavík hjá eldri systur sinni, Huld, „að hjálpa henni við sláturverkin“ og eftir það dvelur hún til hvíldar í nokkra daga í húsmæðraskólanum á Laugum, þar sem móðursystir hennar var skólastýra. Í bókasafninu þar finnur hún Forsythe-söguna á dönsku en söguna hafði hún lesið áður og hrifist af. Hún skrifar:
Næsta dag var ég svo að dunda við að snúa á íslensku upphafskaflanum í öðru bindi Forsythe-sögunnar, Indian summer nefndist hann á frummálinu, en þessi kafli hafði hrifið mig mest af öllu í þessu mikla ritverki. Um hádegisleytið hafði ég snúið tveimur fyrstu blaðsíðunum, en þá vildi móðursystir mín fá að sjá hvað ég hefði með höndum. Ég var mjög feimin, vildi bara helst henda þessu, en móðursystir mín var ekki á því, og svo fékk ég henni þessar blaðsíður mjög hikandi. En þegar hún hafði lesið þær gekk hún að bókaskápnum og tók fram þykka bók í grænu bandi. Þetta voru sambundin þrjú fyrstu bindin af The Forsythe-Saga. Þessa bók gaf hún mér og mælti svo um að ég ætti eftir að fást í framtíðinni við mikið af því, sem ég nú væri að gera mér að leik. Oft og einkum þegar ég var að fást við þýðingar, t.d. Sigrid Undset, Selmu Lagerlöf og þá ekki síst Karen Blixen (og líka Pearl S. Buck) óskaði ég þess að móðursystir mín væri lifandi og sæi hvernig orð hennar höfðu orðið að áhrínisorðum. (48)
Hik og feimni Arnheiður við að sýna þýðingarverk sitt minnir á systurina í Grasaferð Jónasar Hallgrímssonar en hér er þó enginn karlmaður sem býðst til að eigna sér þýðingar hennar heldur kona sem hvetur hana áfram. Af þessari frásögn má sjá að Arnheiður hefur fengist við þýðingar áður en hún tók til sín orð Stefáns Zweig um að í því fælist góður undirbúningur fyrir skáld að þýða verk annarra skálda.
Á árunum 1955-1987 koma út yfir 20 bækur sem Arnheiður þýðir, þrjár þeirra bera reyndar nöfn tveggja þýðenda. Þannig er Helgi Hjörvar skráður meðþýðandi að Kristín Lafranzdóttir eftir Sigrid Undset og Ragnar Jóhannesson þýddi hluta skáldsögu Mary McCarthy, Klíkan. Flestar bækurnar sem Arnheiður þýðir eru verk þekktra kvenrithöfunda, auk Karenar Blixen þýðir hún skáldsögur eftir Selmu Lagerlöf, Sigrid Undset, Pearl S. Buck, Leonore Lönborg, Harriet Beecher Stowe, Mary McCarthy og síðasta þýðingarverk hennar var Ævisaga Karenar Blixen eftir Parmeniu Migel. Fyrir þýðingu á þeirri bók er reyndar einnig skrifuð Eygló Guðmundsdóttir en af frásögn Arnheiðar má ráða að hennar hlutur hafi fremur verið hefðbundið starf ritstjóra og yfirlesara því Arnheiður hafði þýtt allt verkið þegar Eygló kemur að því.
ÍSLENSKI BLIXENÞÝÐANDINN
Hér gefst ekki tími til að kafa ofan í þýðingar eða þýðingaaðferðir Arnheiðar en ég ætla beina kastljósinu aðeins að þýðingum hennar á verkum Karenar Blixen því af því sem Arnheiður skrifar sjálf um þýðingar sínar má álykta að hún hafi verið einna stoltust af þeim þýðingum. Hún kynnist Karen Blixen fyrst þegar hún er unglingur í Mývatnssveit. Sá frægi bókmenntamaður Benedikt á Auðnum sendi bækur til unglinganna á Arnarvatni og Arnheiður segir svo frá:
Einu sinni sendi Benedikt mér fræga bók sem komið hafði út og vakið heimsathygli en það var bókin Syv fantastiske fortællingar eftir Karen Blixen. En mér fannst bókin undarleg og ekki skemmtileg. Allmörgum árum seinna uppgötvaði ég að Karen Blixen var einhver merkilegasti höfundur sem ég hafði kynnst. (221)
Þessa fyrstu bók Karenar Blixen þýddi Arnheiður aldrei og enn hefur hún ekki komið út á íslensku þótt annað hafi verið fullyrt í frétt í Þjóðviljanum 17. des. 1959 þar sem sagt er frá þýðingu Arnheiðar á Vetrarævintýrum Blixen, þar segir: „Þýðinguna hefur gert Arnheiður Sigurðardóttir, en hún þýddi einnig Sjö furðusögur, bók Karenar Blixen, sem Ísafoldarprentsmiðja h.f. gaf út fyrir jólin í fyrra.“ Þetta er ekki rétt, en það voru Síðustu sögur eftir Karen Blixen sem höfðu komið út árið áður í þýðingu Arnheiðar. Fleiri rangfærslur koma reyndar fyrir í fréttum um þýðingar Arnheiðar, t.a.m. var fullyrt í frétt í Morgunblaðinu um útgáfu Vetrarævintýra að um „heimsfræga skáldsögu“ væri að ræða en bókin hefur að geyma smásögur og virðist oft sem þeir sem skrifa fréttirnar viti lítið um það sem þeir eru að skrifa.
Þótt Arnheiði hafi fundist Sjö furðusögur Karenar Blixen undarlegar og ekki skemmtilegar þegar hún las þær á unglingsaldri átti hún síðar eftir að heillast af verkum þessa höfundar og þrír kaflar í sjálfsævisögu hennar snúast um þýðingar hennar á sögum Blixen, auk þess sem hún minnist oftar á hana á fleiri stöðum. Þegar hún er við nám í Danmörku dvelur hún um jólin hjá hjónunum Hildi og Sigfúsi Blöndal og þar færir Hildur henni Den afrikanske farm og varð hún afar hrifin af þessari yndislegu bók, eins og skrifar „og las í henni langt fram á nótt“ (86).
Eins og ég gat áður þýðir Arnheiður alla bókina meðan hún starfaði sem kennari í Reykjaskóla í Hrútafirði en þorði þegar til kom ekki að gefa þýðingu sína út. Hún sendi þó einn kafla bókarinnar, um antilópuna Lúllu, til ritstjóra Eimreiðarinnar og þar birtist hann árið 1951. Arnfríður telur söguna vera það fyrsta sem birtist á íslensku eftir Karen Blixen, en það er reyndar ekki rétt því saga eftir hana birtist 1935 í safni smásagna eftir erlenda höfunda sem kallaðist Krónuútgáfan (í þýð. Árna Ólafssonar).
Það er svo meðfram háskólanámi sínu sem Arnheiður ræðst í að þýða hinar stórkostlegu sögur Karenar Blixen, Vintereventyr og Sidste fortællinger. Af eigin frumkvæði býður hún Pétri Ólafssyni, forstjóra Bókaútgáfu Ísafoldar að þýða Vetrarævintýri en eftir nokkra umhugsun biður hann hana að þýða fremur Síðustu sögur „sem væri talin ein af þremur merkustu bókum sem út hefðu komið í heiminum á liðnu ári“. Arnheiður gleðst mjög við þetta og í næsta páskafríi hefst hún handa. Hún er með bæði danska og enska gerð bókarinnar og að auki náði hún sér í norska þýðingu svo hún stæði vel að vígi. En verkið reynist torsótt og hún skrifar: „[…] gekk mér svo illa við bókina að ég reyndi við hverja söguna á fætur annarri og réð ekki við neitt“ (146). En hún verður að skila verkinu því útgefandinn segir frá því í viðtali við Morgunblaðið að von sé á bókinni í þýðingu Arnheiðar Sigurðardóttur. Á páskadagsmorgun fer Arnheiður til kirkju og lýsir þeirri kirkjuferð sem einhvers konar dulrænum atburði:
Á páskadagsmorgni fór ég til kirkju klukkan átta í niðamyrkri þoku, en þegar presturinn kom í prédikunarstólinn og fór með blessunarrík orð, þá braust allt í einu farm sólgeisli og lýsti upp prestinn og stólinn eins og gull þeir væru. Þetta var dásamleg sjón og ég fór glöð heim, tók bókina hennar Blixen og byrjaði að þýða Herragarðssöguna og það gekk bara vel. (147)
En hafi Arnheiður fengið guðlegan innblástur við þýðingarverkið er ljóst að hún lagði einnig mikið á sjálfa sig við þessa þýðingavinnu, tekur fram að verkið hafi verið bæði vandasamt og erfitt. Athyglisvert er að hún sækir til annarra bókmenntaverka til að „hressa upp á orðaforða sinn“, eins og hún skrifar, og les til að mynda goðafræði Grikkja og Rómverja „með frábærlega fallegum orðum Jóns Gíslasonar“. Hún gluggar í Þúsund og eina nótt, les Varnarræðu Sókratesar „og það kom sér vel þegar ég var að þýða Skikkjuna“, skrifar hún (147). Þeir sem þekkja sögur Karenar Blixen vita að frásagnarlist, heimspeki og goðafræði mynda grunn að flestum sögum hennar, svo Arnheiður sækir svo sannarlega í rétta brunna við þýðingarstarf sitt. En ennþá efaðist hún um getu sína, þótt hún hefði þega hér er komið þýtt margar bækur, og þýðingu þorir hún ekki að senda frá sér fyrr en hún hefur fengið Sigurð Nordal til að blessa yfir þýðingu og hvetja sig áfram. Hún er að vinna við þessa þýðingu allt sumarið „því Karen Blixen var ekkert lamb að leika sér við“, eins og hún skrifar.
Bókin kom svo út í desember 1958 og verkið hlaut góða dóma. Í framhaldinu gefur Pétur Ólafsson hjá Ísafold grænt ljós á að hún þýði einnig Vetrarævintýri og sumarið 1959 situr hún hvert kvöld við það verk. Efasemdir um eigin getu kvelja hana þó enn og hún fær Axel Guðmundsson, „sem var Þingeyingur eins og ég og kunnur fyrir þýðingar sínar“ til lesa þýðingu sína yfir. Hann er ánægður með verkið og „þegar hann fékk mér aftur söguna miklu Sorgarakur sagðist hann ekki hafa hróflað þar við einu orði eða setningu og þýðingin á þessari sögu væri að sínu viti frábær“ (152). Arnheiður fær að lesa Sorgarakur og aðra sögu úr bókinni sem útvarpssögur og fær mikið lof fyrir. Þegar bókin kemur út í desember 1959 er Arnheiður kölluð „Blixenþýðandinn“, sem henni finnst mikill heiður.
Vetrarævintýri hlaut mjög góða dóma og t.a.m. sagði Sigurður A. Magnússon að „Vetrarævintýrin gnæfðu hátt í öllu jólabókaflóðinu. Þýðingin væri gerð með ágætum og síðast en ekki síst bæri bókin blæ af höfundi sínum, Karen Blixen.“ Arnheiður getur þess einnig að eftir jólin hafi hún fengið „kveðju eða orðsendingu frá Sigurði Nordal, þar sem hann sagði það hafa gerst, er sárasjaldan hefði áður komið fyrir sig – að hann hefði haft jafngaman af að lesa þýðingu af bók eins og bókina sjálfa á frummálinu“ (153).
Fleiri bækur eftir Karen Blixen þýddi Arnheiður ekki en hins vegar þýddi hún söguna „Bréf soldánsins“ sem kom út í Jólalesbók Morgunblaðsins 1967 og þýðing hennar á greininni „Mine Livs Ekkoer“ birtist í Samvinnunni undir titilinum „Einkunnarorð ævi minnar“ árið 1971. Til að enda umræðu mína um Blixenþýðingar Arnheiðar vil ég bara segja að þær eru mjög góðar, á vönduðu og blæbrigðaríku máli.
SIÐFERÐISKENND ARNHEIÐAR MISBOÐIÐ
Þótt Arnheiður hafi haft á orði að Karen Blixen væri ekkert lamb að leika sér við og stundum fundist sem hún réði ekki við verkefnið mætti hún einnig í þýðingarvinnu sinni annars konar vanda og það var þegar siðferðiskennd hennar var misboðið. Reyndar lenti hún fyrst í slíkum vanda þegar hún fékk verkefni hjá Handritastofnun „sem var allt annað en ánægjulegt, en það var að búa til prentunar Rímur af Bósa sögu og Herrauðs, í einu orði sagt, andstyggilegt verkefni“, eins og hún skrifar (174) og má sennilega skilja sem hrekk karlkyns samstarfsmanna hennar að fá henni þetta verkefni.
Á sjötta áratugnum var Arnheiður í fjárhagsvandræðum og leitar hún þá til Péturs Ólafssonar í Ísafold og sárbænir hann að lofa sér að þýða einhverja helst létta bók og hún skrifar:
Hann sýndi mér þá bók sem hann sagði að nú færi sigurför um heiminn. Það var The Group eftir ameríska skáldkonu Mary McCarthy. Pétur kallaði bókina Klíkuna og bauð mér að þýða hana, og þegar hann fékk mér hana sagði hann ofurlítið kankvís að það yrði fróðlegt að sjá, hvernig mér tækist til við annan kafla bókarinnar. Þegar ég hafði lesið bókina, hafði ég líka lesið það ferlegasta klám sem ég hef nokkurn tíma lesið eða heyrt. Í öðrum kafla þessarar klámfengu bókar var svo nákvæmlega sagt frá og lýst samförum karls og konu, að það hlaut að standa lesandanum ljóslifandi fyrir hugarsjónum og ég fann að þennan kafla bókarinnar gat ég alls ekki þýtt. Þá færði ég Pétri bókina og sagðist ekki ráða við hana, en Pétur vildi ekki taka við henni og bað mig að hugsa mig betur um. (177)
En Pétur Ólafsson vildi ekki sleppa Arnheiði frá þessu verkefni og tekur hún þá til bragðs að fá kunningja sinn, Ragnar Jóhannesson og fá hann til að þýða bókina á móti sér. Og hún skrifar:
Hann féllst á að gera þetta, og svo skiptum við bókinni milli okkar. Mig minnir að við fengjum níu kafla hvort um sig. Hann þýddi fyrsta kaflann, en ég sjálf lokakaflann, sem var stórfenglegur. En þótt hann hefði þýtt annan kaflann, þann klámfengna, þá var ég ekki búin að bíta úr nálinni, því í minn hlut koma að fjalla heilmikið um getuleysi (impotence) og einnig um pallus erectus. (179-180).
Klíkan kom síðan út 1966 í sameiginlegri þýðingu Arnheiðar og Ragnars og vakti að vonum mikla athygli.
LOKAORÐ
Þegar Arnheiður var við nám í Menntaskólanum á Laugarvatni, tvítug að aldri árið 1941, fékk hún það verkefni hjá íslenskukennara sínum að skrifa ritgerð um hvers hún óskaði sér helst í framtíðinni og átti hún að lýsa þremur óskum. Sú fyrsta var að hún óskaði sér að hún hefði sérgáfu, svo hún vissi hvert hún ætti að beina hæfileikum sínum og kröftum. Önnur ósk hennar var að henni mætti auðnast að hlynna að íslenskri tungu „og var þetta nú eiginlega aðalóskin,“ skrifar hún. Þriðja óskin var að hún hefði óskeikula réttlætiskennd (51). Ekki get ég dæmt um síðustu óskina en ljóst má vera að Arnheiður fékk hinar tvær fyrri vel uppfylltar. Sérgáfa hennar, næm tilfinning fyrir íslensku máli og bókmenntum, nýttist vel í því starfi hennar að hlynna að tungunni með þýðingum sínum og auðga þar með íslenskar bókmenntir. Einnig auðnaðist hlynnti hún að íslenskri tungu á með kennslu, með starfi sínu á handritadeild og á Orðabók háskólans, með rannsóknum sínum og skrifum, en það er á sviði þýðinga sem afraksturinn er einna mestur.
Þegar ég var að kynna mér þýðingarstarf Arnheiðar velti ég stundum fyrir mér hvort þýðingar hennar væru enn lesnar. Þóttist reyndar viss um að sögur Karenar Blixen væru alltaf í umferð en var meira efins um hinar bækurnar sem hún þýddi. Þá vildi svo skemmtileg til að ég rakst á eftirfarandi færslu á facebook, 10 október síðastliðinn. Þar skrifar Sigríður Ragnarsdóttir:
Hef að undanförnu verið að rifja upp gömul kynni við ýmsa norræna höfunda, sem ég hef ekki lesið jafnvel í áratugi. Sigrún á Sunnuhvoli eftir Björnstjerne Björnsson, Sigrid Undset, Hamingjudagar heima í Noregi, sem hafði mjög mikil áhrif á mig sem barn en sérstaklega Föðurást eftir Selmu Lagerlöf, sem var flutt í útvarpinu 1958. Við systurnar hágrétum yfir tragískum örlögum "Keisarans af Portúgal" (minnir á Lé konung) og var ég þó bara 8 eða 9 ára. Núna er ég með Kristínu Lafransdóttur tilbúna á náttborðinu og slatta af smásögum Karenar Blixen. Get varla beðið. Hvernig gat ég gleymt að halda áfram að lesa þessar sögur aftur og aftur? Fóru norrænar bækur og sveitarómanar úr tísku?
Margir taka undir þessi orð Sigríðar og segjast lesa þessar bækur ennþá. Þetta fannst mér skemmtilegt að lesa og fékk staðfestingu á að þýðingar Arnheiðar væru alla vega ekki alveg gleymdar og grafnar.