SKÁLD.IS

Konur skrifa um konur sem skrifa

Málfríður Friðgeirsdóttir

Málfríður Friðgeirsdóttir fæddist 9. júní 1859 (eða 1858, ósamræmi í heimildum) í Áshildarholti í Skarðshreppi í Skagafjarðarsýslu. Foreldrar hennar voru Hólmfríður Jónsdóttir og Friðgeir Árnason og með þeim fluttist Málfríður ung vestur í Laxárdal í Húnavatnssýslu þar sem hún ólst upp. Rúmlega tvítug fór Málfríður sem bústýra til Magnúsar Björnssonar í Selhólum og eignaðist með honum eina dóttur, Helgu (1885-1946). Þremur árum síðar eignaðist hún son, Friðrik (1888-1924), með Jóni Kaprasíussyni á Gvendarstöðum. Málfríður flutti með börn sín á Sauðárkrók og árið 1894 giftist hún Þorkeli Jónssyni beyki. Þau eignuðust ekki börn saman en ólu að mestu upp fjögur barnabörn Málfríðar, þrjú börn Helgu og son Friðriks. Að auki bjuggu gamalmenni oft á heimili þeirra. Málfríður missti son sinn þegar hann hrapaði í Drangeyjarbjargi, 36 ára að aldri. Eiginmann sinn missti hún skömmu síðar. Dóttir hennar og tengdasonur misstu bæði heilsuna, tengdasonur hennar lést langt um aldur fram en dóttirin lifði í mörg ár, að miklu leyti í sturlun, bjó ein við slæman kost á Sauðárkróki og þvældist um.

Málfríður var stórbrotin kona og skaphörð. Hún var hávaxin, svipmikil og sköruleg. Hún var handsterk með ólíkindum og sigraði sterkustu menn í krók þegar hún var komin á tíræðisaldur. Kjarkur hennar og dugnaður var óbilandi allt til enda þrátt fyrir erfiðleika og áföll. Málfríður starfaði allmikið að félagsmálum, einkum bindindismálum og var heiðursfélagi í stúkunni „Gleym mér ei“ á Sauðárkróki.

Málfríður var hagmælt og setti saman tækifærisvísur og kvæði sem safnað var saman á bók 1950.

Málfríður andaðist á heimili sonarsonar síns, Málfreðs Friðriks Friðrikssonar, 31. mars 1954, tæplega 96 ára að aldri.

Ort til barnanna
 
Álmagrér og auðarslóð
ávallt dyggðum fjölga.
Mikið eru mæt og góð
Friðrik minn og Helga.
Sjafnarhita siðug gná,
sem burt flytur trega.
Hjá mér situr, hýr á brá,
Helga viturlega.
Elsku hjartans Helga mín,
hjá þér kýs eg þreyja,
yndisbjarta auðarlín,
unz eg nái deyja.
 
Ort til sonarsonar, Málfreðs Friðriks Friðrikssonar
 
Eyðir kvíða æ hvert sinn
álmagrérinn rjóður,
elsku hjartans Málfreð minn,
mér sem ert svo góður.

Heimildir:

Skjalasafn Skagafjarðar og Skagfirzkar æviskrár III.


Ritaskrá

1950    Vísur og vers

Tengt efni