SKÁLD.IS

Konur skrifa um konur sem skrifa

Skáld-Sigga

Sigríður Gunnlaugsdóttir, Skáld-Sigga, fæddist um 1760. Hún tók eitt sinn fótaskjól ófrjálsri hendi, segir í bók Hannesar Péturssonar, Misskipt er mannanna láni II (1982) og gleymdi því aldrei:

 
Háleista af kvíguskinni
hnuplaði ég einu sinni,
á berum fæti brúkaði hann.
Af því hann var illa fenginn
óttaðist ég kotadrenginn. 
Illt er að verja ósómann.
 

Skáld-Sigga giftist Gísla Gíslasyni 18. ágúst 1789, þau bjuggu á Hnjúkum í Húnavatnssýslu og áttu fjögur börn. Örbirgð og hungur urðu til þess að þau  rötuðu í mikla ógæfu. Gísli freistaðist til að taka tvo villuráfandi sauði og skera þá til að bjarga fjölskyldunni frá hungurdauða. Fyrir það voru þau hjón dæmd til þrælkunar. Dómnum var áfrýjað en sýslumaður komst ekki á þing því hann fékk gulu. Þá kvað Sigga (undir bragarhættinum stikluvik):

 
Engu hnjaski mæta má
maðurinn gulusjúki;
kæsisaski kemst ei frá
kappinn vaski þingið á.

 

Loks kvað Magnús Stephensen upp mildan dóm og var það mál manna að það væri ekki síst vegna skörulegrar framgöngu Skáld-Siggu og höfðingjadirfsku hennar við að tala máli þeirra hjóna. En þjófsorðið loddi við hana æ síðan.

Síðar skildu þau Gísli. Um Siggu er skráð í sálnatali að hún hafi verið „læs; hegðun við sæmandi; skýr og réttvel að sér í andlegu.“

Skáld-Sigga orti um fræðimanninn Gísla Konráðsson

 

Þér úr augum hrýtur hagl,
heiftugur eins og naðra;
þú hefur kveðið bölvað bagl
bæði um mig og aðra.
 

Sigga var fullgilt alþýðuskáld á sinni tíð þótt ekki sé hennar getið sem skyldi. Einn og einn sérvitringur festi kveðskap hennar á blað en enginn safnaði honum gagngert og eru vísur hennar að mestu glataðar. En sjá má það sem varðveist hefur í bók Hannesar Péturssonar.

Að lokum er vert að færa til bókar kvæði Skáld-Siggu um Gísla, mann sinn, og ekki er það ástarljóð:

Sástu mann, svipþungan, fullvaxinn,
gráleitan, grettir oft kampaskinn,
teprar augu, viprar vör,
vanur á kæki, 
góma beitir hvössum hjör,
hláturs með skræki,
hárþunnur, hnútar í skalla,
hugstoltur, ræður sér valla,
níðorður um nábúa alla; 
einatt segir: a og nú.
 
Lyginn, svikull, latur, þrár,
hann lofar sig sjálfur, 
lyginn, svikull, latur, þrár,
hann lofar sig sjálfur.

Undarlegt má teljast að kviðlingur þessi með nokkrum ágöllum villtist inn í ljóðmæli Bólu-Hjálmars í útgáfu Jóns Þorkelssonar, endurpr. í útgáfu Finns Sigmundssonar. Kviðlingurinn finnst hvergi í eiginhandarriti Hjálmars. Traustar heimildir segja að höfundurinn sé Sigríður Gunnlaugsdóttir. Þetta er ekki eina dæmið um að skáldskapur kvenna sé eignaður körlum. 

Heimild:
Hannes Pétursson 1982. Misskipt er mannanna láni, bls 11-43.

Ritaskrá

Kveðskapur Sigríðar Gunnlaugsdóttur, Skáld-Siggu, er að mestu glataður. En nokkuð er að finna í bók Hannesar Péturssonar, Misskipt er mannanna láni (1982), „Gleymd kona og geldsauðir tveir“ bls. 11-43.