
Sólveig Pálsdóttir
Sólveig Pálsdóttir er fædd í Reykjavík 13. september 1959. Hún lauk fjögurra ára leiklistarnámi frá Leiklistarskóla Íslands 1982 og starfaði sem leikkona um árabil. Meðfram leiklistarstörfum vann hún að dagskrárgerð hjá RUV og stýrði barna,-unglinga og viðtalsþáttum.
Sólveig lauk BA – gráðu í almennri bókmenntafræði frá Háskóla Íslands 1996 og kennsluréttindanámi nokkru síðar. Hún var íslensku, tjáningar- og leiklistarkennari við Hringsjá, náms- og starfsþjálfun í 17 ár. Auk fastrar kennslu kenndi hún árum saman ýmiss námskeið á vegum stofnana og fyrirtækja.
Sólveig var formaður menningarnefndar Seltjarnarness í átta ár og hefur stýrt margskonar menningarviðburðum. Í dag sinnir hún verkefnastjórnun meðfram ritstörfum.
Fyrsta bók Sólveigar kom út árið 2012 og síðan hefur hún sent frá sér fjórar skáldsögur til viðbótar og eina minningasögu. Skáldsögur hennar eru á sviði glæpa- og spennusagna.
Bækur Sólveigar hafa notið vinsælda hjá öllum aldurshópum, tvær þeirra eru komnar út hjá Aufbau Verlag í Þýskalandi. Sólveig hefur setið fyrir svörum á nokkrum bókmenntahátíðum, svo sem á Bristol Crimefest, Newcastle Noir og Iceland Noir.
Sólveig býr á Seltjarnarnesi. Er gift og á þrjú uppkomin börn.
Ritaskrá
- 2020 Klettaborgin
- 2019 Fjötrar
- 2017 Refurinn
- 2015 Flekklaus
- 2013 Hinir réttlátu
- 2012 Leikarinn
Verðlaun og viðurkenningar
2020 Blóðdropinn fyrir Fjötra
2019 Bæjarlistamaður Seltjarnarness