Undína
Helga Steinvör Baldvinsdóttir, sem tók sér skáldanafnið Undína, er fædd 3. desember 1858 í Litlu-Ásgeirsá í Víðidal, Vestur-Húnavatnssýslu.
Þegar Helga var tæplega fimmtán ára að aldri fluttist hún með foreldrum sínum til Vesturheims. Hún kvaddi nauðug ættjörðina og þar var hugur hennar til æviloka. Fjölskyldan settist að í Ontario og síðar Norður-Dakota.
Helga giftist ung Jakobi Jónatanssyni Líndal. Hjónabandið var erfitt vegna drykkju hans og endaði með skilnaði. Fluttist Helga þá með börn sín til föður síns í Manitoba og bjó þar um skeið. Síðar giftist hún Skúla Árna Stefánssyni Freeman og eignaðist með honum einn son. Bjuggu þau á Kyrrahafsströnd. Skúli lést af slysförum eftir fárra ára hjónaband og sonur Helgu af fyrra hjónabandi nokkrum árum síðar. Helga vann fyrir sér og börnum sínum með prjónaskap, fatasaumi og handavinnu, og varð þekkt fyrir listrænan útsaum.
Helga dvaldist mestan hluta ævi sinnar í sveit. Hún nam þrisvar land eða tók þátt í landnámi, og bjó stundum mjög afskekkt.
Helga fór snemma að fást við ljóðagerð og hélt því áfram fram undir miðjan aldur, en þá hætti hún alveg að yrkja. Ljóð eftir hana birtust í vestur-íslensku blöðunum, fyrst Heimskringlu, en síðar Öldinni og kvennatímaritinu Freyju. Hún hafði mikinn hug á að gefa út ljóðabók en skorti fé til útgáfunnar. Vinur hennar, skáldið Jóhann Magnús Bjarnason, vélritaði síðar fyrir hana ljóðin og lágu þau í handriti hans fram til ársins 1952, en voru þá gefin út undir nafninu Kvæði. Þá voru liðin rúm tíu ár frá láti skáldsins.
Síðustu ár ævi sinnar bjó Undína hjá dóttur sinni í Poulsbo, Washington-fylki, og þar lést hún 23. október 1941.
Heimild: Stúlka: Ljóð eftir íslenskar konur í ritstjórn Helgu Kress, 2001.
Ritaskrá
- 1952 Kvæði