SKÁLD.IS

Konur skrifa um konur sem skrifa

Ása Ketilsdóttir

Ása Ketilsdóttir er kvæðakona og sagnaþulur. Hún fæddist 6. nóvember árið 1935 á Ytra-Fjalli í Aðaldal og ólst hún upp þar. Foreldrar hennar voru Jóhanna Hólmfríður Björnsdóttir húsfreyja og Ketill Indriðason bóndi og skáld. Gamlar hefðir og þjóðlegur kveðskapur voru höfð í heiðri á æskuheimili Ásu. Móðir Ásu kunni mikið af vísum og kvæðum og sagði hún gjarnan börnunum sögur á meðan hún vann húsverkin. Gólfþvottar voru seinlegir því þá „var legið á hnjánum á strigapoka og trégólfin sandskúruð með blautri tusku. Börnin sátu á meðan upp í rúmum og hlustuðu á sögurnar, lengdin á sögunni var oft mæld í stærðinni á gólfinu. Sagan af Rauðabola var til dæmis fleiri gólfa saga.“1 Þá kvað faðir hennar rímur sem var orðið býsna sjaldgæft á þessum tíma og þótti sérviskulegt.

Ása giftist Halldóri Þórðarsyni og frá árinu 1958 ráku þau bú á Laugalandi í Skjaldfannardal, við Ísafjarðardjúp, þar sem Steinn Steinarr skáld fæddist fimmtíu árum áður. Árið 1995 dó Halldór en Ása hélt áfram búskap með aðstoð sona sinna. Því samfara hefur Ása bæði ort ljóð og sönglög. Árið 2010 kom út hljóðbókin Vappaðu með mér Vala en þar kveður Ása, syngur og segir sögur. Árið 2012 sendi Ása síðan frá sér ljóðabókina Svo mjúkt er grasið og auk þess hafa ljóð eftir hana og greinar birst eftir hana í ýmsum tímaritum.

Ása minnist bernskuslóða sinna í ljóðinu Vetrarsýn, sem birtist í tímaritinu Són árið 2014, en þar er horft til allra höfuðátta frá Ytra-Fjalli í Aðaldal: 

Vetrarsýn

Í gömlu trjánum gestafjöldi er þeir gleðja sig við frosin reyniber. Undir greinum fá þeir frið og skjól það fýkur mjöll og óðum lækkar sól. Lágar heiðar hylur þoka og snær við hraungarðana kúrir rjúpan vær. Í beinahrúgu kátur krummi fer hann kann að meta það sem boðið er. Í brattri hlíð vex birkihríslan mín búin vetrarskrúða fannhvítt lín. Skógur hylur skriður, mel og börð nú skeflir yfir frjóan mjúkan svörð. Ég horfi yfir engi hlíð og tún og eygi Kinnarfjalla ljósu brún. Langt í norðri hreykir hraunið sér sem húmdökkt strik á ljósum dúki er. Það frýs að læk og lindir þverra í hlíð en lengi kaldavermslin haldast þýð. Í huga mínum leynist gömul lind ég leiði sjón að kærri bernskumynd.

Hér má síðan hlýða á Ásu fara með stemmu við eigin stöku. 

1 Fengið af Sagnavefnum og þangað er einnig myndin af Ásu sótt. 


Ritaskrá

  • 2012 Svo mjúkt er grasið
  • 2010 Vappaðu með mér Vala: Ása Ketilsdóttir kveður, syngur og segir sögur (umsjón með útgáfu: Rósa Þorsteinsdóttir og Skúli Gautason)