SKÁLD.IS

Konur skrifa um konur sem skrifa

Magnea Þuríður Ingvarsdóttir 9. september 2025

ÁTTASKIL

 

Fyrir nokkrum dögum kom út ljóðabók eftir Ásu Ketilsdóttur. Þetta er önnur ljóðabók höfundar sem áður gaf út ljóðabókina Svo mjúkt er grasið (2012).

Nú er hún enn á ferð með ljóðabókina Áttaskil og ég er glöð að fá hana í hendurnar og fagna vel bundnum ljóðunum. Það eru ekki margir sem fást við þetta gamla ljóðaform í dag, að berja saman góða stöku með ólíkum bragarháttum, eins margbreytilegir og skemmtilegir og þeir eru. Fæ aldrei nóg af og dáist að fagurfræðinni sem þeir gefa okkur. Ása kann þetta svo sannarlega.

Ljóðin í bókinni eru mjög kvenlæg, að mínu mati. Hún yrkir átakanlegt ljóð um ömmu sína í sjö erindum, það hefst svona:

 

Ég sit við hlóðir, horfi í eld
hugsa svo langt til baka.
Gamalli fjöl í hendi held
hlusta á eldinn braka.
 
[...]
 
Amma mín bjó við ævikjör svöl
æðaber höndin og slitin.
Einna líkust örþunnri fjöl
sem er eins og mold á litinn.
 
Fjölinni gömlu í hendi ég held,
hugsa svo langt til baka.
Minning sem verður ei metin né seld,
mér er hún næturvaka.

 

Ása fjallar um sorgir og væntingar til lífssins á persónulegan máta. Persónugerir Máríuerluna og við sem lesum, við skiljum og tökum eftir. Á bls. 44 má lesa:

 

Í suðvestan þeynum hún sveif í hlað
og settist þar dálitla stund.
Með háværum trillum hún tilkynnti það
og tísti sem gladdi lund,
að loks væri hún komin og kát hún var,
kjólinn sinn gráa strauk.
Kollhúfu svarta hún kankvís bar
og kom sér fyrir á hrauk.
 
Farðu samt varlega vinkona góð
vélabrögð heimsins eru mörg.
Kisu fýsir í fuglablóð
og finnst þú álitleg björg.
Eins gæti komið hret og hríð
svo harðni á dalnum um stund.
En gleðjumst meðan golan er blíð
og gott er að eiga þinn fund.
 
Þú flýgur ei oftar um úthafin breið
til ættstöðva þinna hér.
Ólukku kattarklóin beið,
þig kramdi, og því er nú ver
að örlögin grimmu enginn flýr
allt er bókað og skráð.
Erlan mín smáa ei aftur snýr
ævilokum er náð.
 
Í bókinni eru ógrynni ljóða, blaðsíðurnar eru 120 og Ragnar Ingi Aðalsteinssson fylgir henni úr hlaði. Segir að Ása sé skáld náttúrunnar. Dimma gefur út og er það í  tilefni 90 ára afmælis Ásu.
 
Takk fyrir þessi fallegu ljóð elsku Ása.
 

 

Tengt efni