SKÁLD.IS

Konur skrifa um konur sem skrifa

Þorbjörg D. Árnadóttir

Þorbjörg Dýrleif Árnadóttir fæddist 8. febrúar 1898 á Skútustöðum við Mývatn. Foreldrar hennar voru Auður Gísladóttir og sr. Árni Jónsson.

Þorbjörg lauk prófi frá Verslunarskólanum 1916 og hóf nám við Bispebjerg-spítala í Kaupmannahöfn 1919 og lauk þaðan prófi 1923. Hún stundaði  hjúkrunarstörf í Reykjavík en hélt síðan til Seattle til náms árið 1925.

Þorbjörg var skipuð yfirhjúkrunarkona Vífilstaðaspítala 1929 og frá 1931 stundaði hún hjúkrun í Reykjavík og Ósló til 1937 en þá fór hún aftur til Seattle. Þar lauk hún meistaraprófi í heilsuvernd 1945, fyrst íslenskra hjúkrunarkvenna. Hún kom til Íslands 1946 og vann við kennslu og ritstörf eftir það en auk skáldsagnagerðar ritaði hún fjölmargar greinar um hjúkrunarmál.

Þorbjörg orti ljóð og skrifaði fjórar skáldsögur, fræðibók og ferðasögu. Fyrsta skáldsaga hennar, Sveitin okkar, þjóðlífssaga, er sögð frá sjónarhóli barns sem elst upp á íslensku sveitaheimili í byrjun síðustu aldar. Allt er fagurt og skemmtilegt en sumt er hulið barnsskilningi og sitthvað drífur á dagana. Signý, hjúkrunarnemi í framandi landi, er líklega byggð á hennar eigin reynslu af hjúkurnarnámi erlendis. Öldurót er um Egil, sigldan búfræðing sem þráir það eitt að vera bóndi og Dísu konu hans, um búskap þeirra og stórstígar breytingar í þjóðfélaginu; bílar og vinnuvélar, sími og flugvélar halda innreið sína í líf sveitafólksins; „sannkallað öldurót“ (140).  Persónurnar eru jarðbundnar, heiðarlegar og umfram allt vinnusamar, þær reisa ný hús í stað torfbæjanna og breyta grýttum jarðvegi í frjóan svörð: „Var ekki vinnan framlag mannsins í lífinu? Þráðarspottinn í lífsvefnum, greiðslan fyrir gjafir lífsins?“ (137). Leynigöngin er ástarsaga sem gerist á heilsuhælinu Furuhlíð á tímum heimstyrjaldarinnar síðari og dregur fram margvíslega sálarangist. Þorbjörg skrifaði einnig leikrit sem heitir Draumur dalastúlkunnar (sjá umfjöllun um það.

Þorbjörg lést í Reykjavík, 7. maí 1984.

Gögn um Þorbjörgu eru varðveitt á Kvennasögusafni

Hér má heyra upplestur úr dagbók Þorbjargar frá árinu 1918

Mynd af Þorbjörgu er fengin úr Eimreiðinni, 1970, mynd af Þorbjörgu ungri fylgdi minningargrein um hana í Mbl., 13. maí 1984


Ritaskrá

  • 1969  Öldurót
  • 1964  Signý, hjúkrunarnemi í framandi landi
  • 1959  Pílagrímsför og ferðaþættir
  • 1955  Leynigöngin
  • 1951  Móðir og barn. Heilsufræði. Safnað, samið og þýtt
  • 1950  Draumur dalastúlkunnar (leikrit)
  • 1949  Sveitin okkar (þjóðlífssaga)