
Anna S. Snorradóttir
Anna Sigrún Snorradóttir var fædd 16. október 1920. Foreldrar hennar voru Snorri Sigfússon, skólastjóri og námsstjóri, og Guðrún Jóhannesdóttir, húsfreyja á Flateyri og Akureyri. Anna giftist 1949 Birgi Þórhallssyni, fyrrverandi framkvæmdastjóra og eiganda Sólarfilmu. Þau áttu þrjú börn.
Anna lauk stúdentsprófi frá M.A. 1942. Hún stundaði nám í Englandi og í Svíþjóð á árunum 1945-47, m.a. var hún í starfsnámi hjá BBC í London.
Anna var kennari við Barnaskóla Akureyrar 1942-1945. Hún veitti fræðsludeild KEA forstöðu 1948-1949. Hún var búsett í Kaupmannahöfn 1952-1958 og vann við skrifstofustörf hjá Flugfélagi Íslands 1952-1954. Lengst starfaði hún hjá Ríkisútvarpinu, 1959-1970, og vann aðallega við dagskrárgerð fyrir börn. Hún hefur flutt margs konar útvarpsefni síðan. Anna vann stjórnunarstörf í Sólarfilmu frá 1972 þar til hún lét af störfum þar vegna aldurs. Árið 1989 setti hún saman kver um Mark Watson, velunnara íslensa hundakynsins og Glaumbæjar í Skagafirði sem er elsta byggðasafn landsins.
Hún skrifaði reglulega greinar í blaðið Dag á Akureyri (1942-1952), einnig tvö ár í Samvinnuna og var í 7 ár í útgáfustjórn Húsfreyjunnar. Hún þýddi barnabækur (e.t.v nafnlaust, upplýsingar vantar) og gaf út nokkrar ljóðabækur.
Ritaskrá
2008 Í hentugum tíma
2006 Fimmtíu limrur
2004 Kona í rauðri kápu
1993 Bak við auga
1990 Þegar vorið var ungt
1989 Mark Watson og Glaumbær