SKÁLD.IS

Konur skrifa um konur sem skrifa

Lóa Hlín Hjálmtýsdóttir

Lóa Hlín Hjálmtýsdóttir er fædd 4. febrúar árið 1979.

Lóa útskrifaðist sem stúdent frá Fjölbrautaskólanum í Breiðholti en nam síðan myndlist við Listaháskóla Íslands og lauk BA-prófi í þeirri grein. Þá hefur hún einnig lokið myndskreytinganámi í Parson New School of Design, New York og meistaragráðu í ritlist við Háskóla Íslands.

Lóa er meðlimur og stofnandi hljómsveitarinnar FM Belfast síðan 2005 og er auk þess einn af eigendum World Champion Records.

Lóa er fjölhæfur listamaður; hún er myndlistarkona, teiknari, myndskreytir, myndasöguhöfundur, skopmyndateiknari, söngkona, grínhöfundur og karókístjórnandi. Þekktust er hún fyrir myndasögurnar sínar en hún byrjaði að birta þær opinberlega 1996 í framhaldsskólablöðum.

Lóa hefur í áraraðir birt myndir á samfélagsmiðlum undir nafninu Lóaboratoríum. Myndasögurnar eru oftast einn rammi eða stök mynd sem segir litla sögu og gjarnan er texti skrifaður inn á myndina. Sögurnar eru iðulega mjög fyndnar en eins og Úlfhildur Dagsdóttir hefur bent á gerir Lóa „meðal annars tilraunir með konur og kynhlutverk og þá kannski sérstaklega kvenhlutverk, femínisma og jafnrétti“ í myndum sínum. Lóa sækir til dæmis í eigin reynslu og skopast óspart af hversdagslegum atvikum og samfélaginu. Yfirleitt vinnur hún myndirnar á íslensku fyrir íslenska lesendur en hún skrifar þó stundum enska texta við myndasögur sínar auk þess sem sögur eftir hana hafa verið þýddar yfir á ensku.

2018 var samið leikrit upp úr sögum Lóu sem sýnt var í Borgarleikhúsinu. Fyrir árið 2020 setti hún sér það markmið að teikna eina mynd á dag en afrakstur þeirrar vinnu má finna í bókinni Dæs (2021). Lóa hefur sent frá sér fleiri myndasögubækur og einnig birt smásögur, myndasögur og greinar í Tímariti Máls og menningar, Iceland Review, The Guardian, Reykjavík Grapevine, smásagnasafninu Uppskriftabók, Jólabók Blekfjelagsins, Fréttatímanum, Mannlífi og Málinu, sem var fylgiblað Morgunblaðsins.

Árið 2020 kom út fyrsta skáldsaga Lóu, barnabókin Grísafjörður, sem hún myndskreytti einnig. Sagan er bráðskemmtileg, fyndin og fjörug og var hún bæði tilnefnd til Íslensku bókmenntaverðlaunanna og Barna- og ungmennabókaverðlauna Norðurlandaráðs.

Heimildir

Úlfhildur Dagsdóttir,  „Hlæjandi meyjar. Tilraunastofan Lóaboratoríum“, Tímarit Máls og menningar 3/2020.  Greinin er aðgengileg hér. 


Ritaskrá

  • 2022  Héragerði: ævintýri um súkkulaði og kátínu
  • 2022  Mamma Kaka
  • 2021  Dæs
  • 2020  Grísafjörður: ævintýri um vináttu og fjör
  • 2017  Why are we still here
  • 2015  Lóaboratoríum. Nýjar rannsóknir hafa mögulega leitt eitthvað í ljós
  • 2014  Lóaboratoríum
  • 2011  Generalizations about nations
  • 2009  Alhæft um þjóðir
  • 2005  Very nice comics 1 (með Hugleiki Dagssyni)

 

Verðlaun og viðurkenningar

  • 2023  Barnabókaverðlaun Reykjavíkurborgar fyrir Héragerði
  • 2020  Verðlaun bóksala fyrir Grísafjörð

 

Tilnefningar

  • 2022  Til íslensku bókmenntaverðlaunanna fyrir Héragerði
  • 2020  Til Íslensku bókmenntaverðlaunanna fyrir Grísafjörð
  • 2020  Til Barna- og ungmennabókaverðlauna Norðurlandaráðs fyrir Grísafjörð

 

Þýðingar

  • 2019  The Neigbourhood (Larissa Darlene Kyzer þýddi á ensku)

 

Tengt efni