SKÁLD.IS

Konur skrifa um konur sem skrifa

Guðrún Steinþórsdóttir og Helga Jónsdóttir27. október 2021

HVUNNDAGSRANNSÓKNIR OG GRÍSIR Á BAHAMA - Viðtal við Lóu Hlín Hjálmtýsdóttur

Lóa Hlín Hjálmtýsdóttir hefur getið sér gott orð fyrir stórskemmtilegar myndasögur en hún hefur einnig samið leikrit, sjónvarpsþætti, áramótaskaup og nú síðast barnabókina Grísafjörð sem sló í gegn hjá lesendum. Við hittum Lóu á vinnustofu hennar í Hafnarstrætinu þaðan sem fylgjast má með mannlífi miðbæjarins og fólki gæða sér á pylsum. Hún spjallaði við okkur um myndlistina, sögurnar, ævintýrin í hversdagsleikanum og tengsl sín við forvitnilega Vestur-Íslendinga.
 
Þú ert eflaust best þekkt fyrir myndasögurnar þínar og hefur birt þær á ýmsum miðlum í gegnum tíðina. Viltu segja okkur frá þeim?
 
Árið 2014 fór ég að gera daglegar myndasögur í fyrsta sinn og birti þær fyrst á Facebook. Svo fór ég að vinna fyrir Fréttatímann og í kjölfarið átti ég allt í einu myndabanka. Margt af því sem ég hef gert í gegnum tíðina tengist mikið internetinu. Ég á í mjög alvarlegu ástar-haturs sambandi við samfélagsmiðla því það er atvinnuskapandi fyrir mig og líka íþyngjandi eins og fyrir alla sem eru á þeim og hata þá en geta samt ekki hætt.
 
Þar á undan var ég líka að vinna fyrir Grapevine. Þá var ég að gera myndasögur á ensku sem mér fannst ótrúlega erfitt því ég er ekki með enskan húmor. Það var ótrúlega flókið. Stundum spyr fólk af hverju gerirðu ekki brandara á ensku? Svona eins og maður þurfi alltaf að vera í einhverjum landvinningapælingum. En mér finnst íslenska vera svo skemmtileg og líður líka eins og orðin séu ekki jafn notuð. Það er auðveldara að búa til eitthvað nýtt á þessu tungumáli heldur en á ensku þar sem ótrúlega margir eru búnir að segja ógeðslega marga hluti. Mér finnst eins og það sé eitthvað eftir. Og ef ég hef reynt að þýða þá líður mér svo kjánalega. Ég sé oft ekkert tilganginn með því. Af því það hljómar bara eins og maður eigi alltaf að vera að hugsa stórt, út fyrir landsteinana en ég er ekkert voðalega mikið í þannig pælingum.
 
En þegar þú ert að skapa, hvort koma þá á undan myndirnar eða textinn?
 
Það er bara mjög misjafnt. Ég finn það núna til dæmis þegar ég er að skrifa fyrir börn þá koma oft textahugmyndir ef ég er að teikna og öfugt, það færist svona einhvern veginn á milli og vinnur með hvort öðru. Mér finnst oft auðveldara að vinna texta upp úr teikningum heldur en öfugt. Ég er vanari að vinna þannig.
 
Ég var í myndlist í LHÍ og svo var ég að læra teikningar í skóla í Bandaríkjunum. Árið 2013 sótti ég síðan um í ritlist í Háskólanum. Ég er með krónískt imposter-syndrome og líður alltaf eins og ég þurfi að vera með menntun í öllu sem ég geri, að annars megi ég ekki gera það. Þá hugsaði ég, „ég get ekki verið að vinna með texta nema ég sé búin að læra að vinna með texta“. Eins og núna; ég var að fá texta úr próförk og er að draga rosalega furðulegar ályktanir um skoðun prófarkalesarans á mér sem íslenskumælandi manneskju. Mjög gott. Og ég tek öllum leiðréttingum rosalega illa og þarf alltaf að komast yfir það.
 
Ertu sem sagt að gefa út bók á næstunni?
 
Nei. Eða ég veit það ekki alveg. Hún er ekki tilbúin. Það er verið að prófarkalesa hluta af bók en ég get ekki farið yfir það því ég get ekki opnað skjalið af því ég á eftir að taka því mjög persónulega. Ég er alltaf að spá „hvenær vex ég upp úr þessu?“ en svo er svarið bara „aldrei nokkurn tímann“.
 
Þú hefur gefið út tvær bækur sem heita Lóaboratoríum og Lóaboratoríum: Nýjar rannsóknir. Þú skilgreinir „Lóaboratoríum“ sem „rannsóknarstofu Lóu Hlínar Hjálmtýsdóttur teiknara og tónlistarkonu“. Og segir að viðfangsefni hennar séu „mannleg eymd, óþægileg fjölskyldumynstur, líkamshár, ofneysla af ýmsu tagi og margt margt fleira.“ Í hvaða skilningi er þetta rannsóknarstofa? Ertu að miðla einhverjum sannleika eða uppgötvunum gegnum myndasögurnar?
 
Ég er náttúrulega bara að filtera mína upplifun á heiminum í gegnum sögurnar. Og nota þær eins og fólk notar mikið twitter og statusa og þannig. Þetta snýst líka bara um að finna einhvern tilgang í einhverju hversdagslegu. Þetta er eitthvað til að henda reiður á veruleikanum. Því ég virðist alltaf vera í vandræðum með hversdaginn og venjulega hluti sem eiga ekki að vera neitt mál. Ég var einu sinni á kvíðalyfjum og allt í einu var ég bara „vó! Ég get bara hringt í bankann og talað við skattinn“ og það var ekki eitthvað major mál sem ég þurfti að undirbúa mig fyrir. Svo þetta er eitthvað svoleiðis. Eiginlega allir vinnuveitendur sem ég hef haft hafa sagt við mig að ég sé of viðkvæm fyrir hlutunum þannig að ég þarf greinilega að skoða þetta og líka búa til fjarlægð og yfirsýn og eitthvað. Þetta er eitthvað svoleiðis. Þannig að það er spurning hvort þetta sé eitthvað endilega rannsóknarstofa. Þetta er hliðargagn og kannski hefur einhver annar gagn af því líka en þetta er fyrst og fremst gert fyrir sjálfa mig. Og varðandi bækurnar þá ég hef aldrei átt frumkvæðið af því að gera bók.
 
Var Dæs þá ekki hugsuð sem bók til að byrja með?
 
Nei. Þetta var hugsað til að halda mér við efnið því ég var að reyna að hætta að taka að mér verkefni. Það er svona afkomuótti sem fylgir freelance-i og ég var að reyna að hætta að taka að mér hluti sem voru ekki relevant fyrir það sem ég kann. Því í svona freelance-lífi endarðu ógeðslega oft í alls konar verkefnum og eftir því sem þú verður eldri og með meiri reynslu treystir fólk þér betur og þá ertu allt í einu búin að gleyma hvað þig langaði að gera og ert bara að reyna að halda þér á lífi og framfleyta þér. Þær í bókaforlaginu Sölku, sem ég er búin að vinna fyrir með hléum í svona 16 ár, stungu upp á að gera bók úr þessu efni og það er auðvitað mjög gaman að gera bók þegar þú færð hana í hendurnar.
 
En viltu segja okkur frá ferlinu og aðdragandanum, hvert var verkefnið áður en hugmyndin að bókinni kom?
 
Þá vann ég 366 myndasögur yfir heilt ár. Alveg ótrúleg heppni að hafa ákveðið að gera þetta og halda mig við efnið af því að síðan einkenndist árið af alveg rosalegri inniveru og einveru fyrir marga.
 
Var ekkert erfitt að gera eina myndasögu á dag?
 
Jú suma daga. Stundum skuldaði ég líka daga og ég ákvað bara að leyfa mér að vinna það upp svo ég myndi ekki hætta.
 
Áttu þér einhverja uppáhaldsmynd eða myndasögu úr Dæs?
 
Já það er fyrsta dæs myndin, því það eru fimm dæs myndir og bókin dregur nafn sitt af því og svo hljómar það auðvitað líka eins og að deyja á ensku. Mér fannst það eitthvað skemmtilegt. Þetta er fólk og aðallega konur að gefast upp á ýmsum stöðum. Þessi gafst upp í blómabeði og svo er þetta bara fólk að dæsa hér og þar.
 
Hvernig kom það upphaflega til að þú fórst að senda frá þér bækur?
 
Við Hugleikur Dagsson erum æskuvinir og hann var alltaf að reyna að fá mig til þess að gera fleiri myndasögur á meðan að ég var alltaf að reyna að finna fullkomið starf með myndlist. Ég var búin að prófa ógeðslega mikið af vinnum og var alltaf uppgefin. En Hugleikur var alltaf að hvetja mig áfram, líka til þess að hafa félagsskap af því að það eru ekkert voðalega margir sem eru í myndasagnagerð á Íslandi. Þeim fjölgar alltaf sem betur fer. Hann dró mig á fund með Forlaginu þegar ég var komin með rosalega mikið af efni. Þau eru sko þrjú systkinin sem hafa verið svolítið hjálpsöm með þetta, sem sagt Úlfhildur systir Hulla vann á Borgarbókasafninu og hún fékk mig til að sýna þar. Þá fór ég að gera myndasögu á dag og þá átti ég alltaf meira og meira efni. Þormóður, bróðir hans Hulla, fékk mig síðan til að vera með myndasögur í blaði sem fylgdi alltaf með Mogganum 2005. Þannig að þau hjálpuðu mér öll að gera þetta.
 
Ég er með rosalega fljótandi metnað, metnaðurinn minn er meira bara að líða vel. Það er ekkert rosalegt frama-drive í því. En þegar ég var búin að sýna hjá Úlfhildi og vinna fyrir Þormóð, þá dró Hulli mig inn á þennan fund með Forlaginu og þegar ég skynjaði að maðurinn sem við vorum að tala við efaðist um að þetta væri góð hugmynd var ég bara „já það er rétt hjá þér“ og fór að sannfæra hann um að þetta væri mjög slæm hugmynd. Þá allt í einu fór hann að tala eins og þetta væri góð hugmynd. Svo þegar við komum út sagði Hulli að þetta væri skrítnasta samningatækni sem hann hefði orðið vitni að. Líf mitt er svona Curb Your Enthusiasm þáttur þar sem ég er bara að vera til vandræða fyrir sjálfa mig allan daginn.
 
Var þetta þá aðdragandinn að Lóaboratoríum bókunum?
 
Já en ég gerði fyrstu bókina 2009, það var Alhæft um þjóðir. Hulli sagði mér auðvitað líka að gera það en þá var hann með bókaforlag sem hét Ókeibæ og gaf hana út. En ég hugsaði ekkert „nú ætla ég að gefa út bók“ því fyrir mér hljómar það eins og óyfirstíganlegt verkefni. En ég er raunar komin með betri takt í þessu núna og er farin að gera hluti án þess að einhver sé að segja mér að gera það. En ég þarf greinilega alltaf einhverja utanaðkomandi hvatningu.
 
Sumar af eldri sögum þínum eru gróteskar en nýrri teikningarnar og sögurnar í Dæs eru öllu mildari.
 
Kannski er ég bara að reyna að hegða mér betur núna. Myndasögurnar í fyrri bókunum eru mikið tengdar vanræksluforeldrum. Mamma og pabbi áttu mikið af alkavinum þegar ég var barn og gamlir vinir mínir áttu dysfunctional foreldra og þetta tengist því mjög mikið. Eitthvað er fullkomlega eðlilegt í manns veruleika en er það ekki í stóra samhenginu. Eins og heima hjá einni vinkonu minni þegar ég var lítil var ekkert til nema brenndar jólakökur og við vorum alltaf að borða þær heima hjá henni. Og þar var líka alveg galtómur ísskápur og það var bara eðlilegur veruleiki.
 
Myndirnar mínar breyttust eftir að ég átti barn, mér finnst ég bera meiri ábyrgð svo fyrri bækurnar eru öðruvísi.
 
Síðan eru sumar af eldri myndunum sem mætti túlka sem hrollvekjur, til dæmis teikningin sem birtist í Lóaboratoríum af konunni sem hefur drepið mann.
 
Þetta er alveg rosalega gömul teikning. Ætli hún sé ekki næstum tuttugu ára og ég tók hana bara með inn í af því það var aldrei neinn staður fyrir hana. Þessi kona heitir Amanda Tryggvason og er Vestur-Íslendingur. Ég teiknaði nokkrar myndir af henni af því að stundum finnst mér bara eitthvað svo ótrúlega fyndið og mér fannst fyndið að vera Vestur-Íslendingur. Af því að Vestur-Íslendingar eru svo áhugaverð tegund af því að þau eru rosalega stolt af því að vera Íslendingar og við erum ótrúlega leiðinleg við þau. Síðan segja þau „ama mín“ sem er mjög fyndið. Ég fór einu sinni að spila á Vestur-Íslendinga hátíð og þau voru að troða upp á mig einhverri vínartertu og ég sagði „pff þetta er randalín“. Svo fattaði ég bara vá hvað ég er mikið asshole. Þetta var sem sagt áður en ég áttaði mig á hvað ég var hrokafull, þá var ég með hana Amöndu Tryggvason sem var alltaf eitthvað svona hálfklædd bara að gera eitthvað rugl.
 
Ég er sko búin að finna upp tvo Vestur-Íslendinga. Það var nefnilega annar teiknaraklúbbur sem ég var í og okkur fannst öllum svo erfitt að rukka og díla um verð á teikningum svo ég sagði „af hverju búum við bara ekki til fake umboðskonu?“ Ég var að ímynda mér Meryl Streep í Devil Wears Prada, hún leit þannig út í hausnum á mér, og svo var hún Vestur-Íslendingur og rosalega hörð í samningum. Ég var sem sagt að reyna að fá hinar til að taka hana og nota hana til að skrifa undir email. Búa bara til sérstakt email fyrir hana og hún bara dílar við fólkið. Úff ég vona að enginn Vestur-Íslendingur lesi þetta.
 
En svo hefurðu líka gert leikrit. Hvernig vannstu það?
 
Konurnar í leikhópnum Sokkabandinu höfðu allar verið að skoða myndasögurnar og þær vildu prófa að gera leikverk úr þeim. Þannig fékk ég tækifæri til þess að vinna með þeim. Verkefnið komst í gegnum einhverja síu og fór í Borgarleikhúsið og þá var ég í samstarfi við Hrafnhildi Hagalín, dramatúrg uppi í Borgarleikhúsi og gat fengið að viðra hluti við hana sem var mjög áhugavert. Ég tók samtöl og senur og bjó til heildstæða sögu úr því. Ég vildi gera það þótt það hefði kannski legið best við að gera sketsa úr þessu því þetta er ekki alltaf sama fólkið, Amanda er þarna til dæmis. Ég var í einhverju stuði fyrir málamiðlanir. Það sem ég hafði upphaflega í huga var miklu skrýtnara heldur en útkoman. Af því að það sem mér finnst alltaf fyndnast er það sem þú getur ekki útskýrt af hverju er fyndið. Ég var til dæmis með einn karakter í huga sem var einhvers konar innri maður, mjög ógeðsleg vera sem er eins og innyfli og tyggjó blandað saman. Hann er alltaf að segja þér að gera eitthvað sem er ekki góð hugmynd. Mig langaði svo að búa hann til með latexbúningi en ég náði náttúrulega ekki að sannfæra neinn. En leikhús er eiginlega bara uppáhaldsstaðurinn minn og ég væri til í að vinna við að vaska upp í Borgarleikhúsinu því það er ógeðslega skemmtileg stemning þarna. Það er líka gaman að vera í samstarfsverkefnum því ég er voðalega mikið ein að dingla mér, svara email-um og teikna.
 
Þú hefur bæði unnið að sjónvarpsþáttunum Hulla og svo auðvitað skrifað Áramótaskaupið. Hvernig hefur sú reynsla verið?
 
Það er ótrúlega gaman. Það sem ég lærði við að gera áramótaskaupið var að koma með fullt af tilboðum og ekki taka neinu persónulega. Það var líka gaman að fá að hanga með rosalega fyndnu og skemmtilegu fólki.
 
Ég finn stundum lista sem ég hef gert í gegnum tíðina, óskalista, og það er svo gaman að finna þá og sjá að maður er búinn að uppfylla mikið af atriðum sem mann dreymdi um til dæmis þegar maður var í listnámi eða áður en maður fór í listnám. Ég fann einmitt einn lista um daginn og varð svo glöð því ég var búin að uppfylla allt á listanum nema að kaupa mér saumavél.
 
Var áramótaskaupið á þessum lista?
 
Nei, að skrifa með öðrum. Áramótaskaupið var of stórt, alltof langt í burtu. Það er bara eins og ég hefði skrifað: Verða besta vinkona Ladda. Ég hitti hann reyndar í þættinum hjá Gísla Marteini. Ég er rosalega mikið eitís barn og Laddi er hluti af æsku minni. Ég var alltaf að hlusta á Ladda-plötur og Strumpana. En ég var semsagt boðin til Gísla Marteins 2020 og ég hugsaði ef ég smita Ladda af Covid þá er það hræðilegt. Og ég var með það á heilanum og vildi ekki fara í þáttinn en svo fór ég og fékk þá loksins tækifæri til að spyrja Ladda: „Þegar þú varst að talsetja Strumpana...“ og svarið er besta svar í heimi því hann talaði fyrir alla. Hann talaði fyrst helminginn af handritinu og svaraði síðan sjálfum sér í næstu töku. Þetta er sturlað! Þú þarft að vera rosalega klár til að geta þetta. En ég held að það sé mikilvægt að gera svona lista þótt það hljómi kjánalega því þá held ég að maður sé ómeðvitað að vinna í að uppfylla óskirnar.
 
Hvað kom til þess að þú skrifaðir Grísafjörð?
 
Hún var upphaflega hugsuð sem leikrit því ég var spennt fyrir leikritum eftir Lóubóratoríum og var byrjuð að skrifa söguna og líka af því að mig langaði svo að fara á staðinn sem persónurnar fara á í bókinni en hann er á Bahamaeyjum. Ég sá hann á Insta og var bara WHAT svín sem taka á móti manni. En hugsaði að það væri örugglega alltof dýrt. En semsagt ég var á fundi með Sölku, því ég er búin að vera að teikna Snuðru og Tuðru, eftir Iðunni Steinsdóttur sem Salka gefur út, í 16 ár. Og þá var ég með munnræpu því ég var búin að drekka svo mikið kaffi og var mjög æst yfir hugmyndinni minni. Og þær spurðu hvort ég vildi ekki bara senda þeim handritið og þá varð það verkefni til.
 
Í Grísafirði eru mjög skemmtilegar persónur og það er gaman að heyra þig tala um hvað það er mikil persónusköpun á bakvið myndasögupersónurnar líka, hvað er mikið í hausnum á þér sem við lesendur sjáum ekki. Þannig að það liggur kannski beint við að skrifa heila bók þar sem saga persónanna kemur alveg fram. Hvernig kom til dæmis ein aðalpersónan, Albert einstæðingurinn sem býr fyrir ofan tvíburana í blokkinni, til þín?
 
Albert var upphaflega kona en þá var pínu eins og ég væri að gera fitubrandara en það breyttist þegar hann var orðinn að karli, það var skrýtið en hentaði betur. Mér fannst líka gaman að hafa svona stóran mann sem var viðkvæmur. Þegar ég var barn átti ég vin sem var fullorðinn. Hann var rosalega stór og var í áhugamannaleikfélagi með mömmu minni. Ég bauð honum í sjö ára afmælið mitt og hann kom með litlu frænku sína því ég held honum hafi þótt ógeðslega skrýtið að koma í afmælið mitt. Hann lék sko sterku karlana í leikfélaginu því hann var svo stór svo persónan tengist honum örugglega líka. Ég var alltaf að kaupa vín fyrir hann í frumsýningarpartýum, það var kannski spes. Hann skrifaði á afmæliskortið: „Til hamingju með fjögurra ára afmælið.“ og ég faldi kortið svo hann yrði ekki fyrir skömm í boðinu. Þegar ég hugsaði það seinna fannst mér skrýtnast að mamma mín og pabbi skyldu segja já við að bjóða honum. En hann var í alvöru vinur minn. Hann lék í bíómynd sem hét Skytturnar og er drepinn þar. Ég fór á frumsýninguna og var ekki orðin níu ára. Hann deyr í sundlaug, þetta er algjört horroratriði og ég lenti bara í áfalli. Hann var besti vinur minn, ég á enn leikföng sem hann gaf mér. Þetta var tær vinátta. Þegar ég sá myndina Fúsi þá leið mér eins og hún væri um mig þegar ég var lítil og um Eggert vin minn.
 
Albert er voða huglaus og viðkvæmur, kannski dálítið vonlaus persóna.
 
Hann grét sko meira í upphaflegu útgáfunni! Ég var alltaf að lesa fyrir son minn og hann spurði afhverju grætur Albert svona mikið? Og ég var bara okey, henti út heilum kafla þar sem persónan var þvílíkt þunglynd.
 
Það er áhugavert að heyra að Albert hafi verið kona fyrst því við vorum einmitt að hugsa um þessi tvö tvíburapör sem spegla hvort annað og þar sem strákurinn í yngra parinu er áhyggjufullur og ofhugsar allt á meðan stelpan er svo hvatvís og ævintýragjörn og það er eins með eldri systkinin.
 
Já einmitt. Fyrst hugsaði ég: er þetta einum of? En það er gaman að hafa spegilmynd yngri systkinanna því það er eins og maður sjái inn í framtíðina, hvað getur orðið um fólk með svona karaktereinkenni.
 
Kynjastaðalímyndunum er líka snúið við.
 
Já og það er miklu skemmtilegra finnst mér að skoða það þannig. Líka að hafa tvíbura því maður er tvær manneskjur; ég sjálf er til dæmis sjúklegur ofhugsari en líka rosalega hvatvís. Það er líka tvíhyggjudæmi í hausnum á manni um að maður geti ekki verið bæði eins og maður sé lógísk vera.
 
Margt í þessari bók minnir líka á myndasögurnar þínar, hvernig persónur hegða sér í allskonar aðstæðum eins og þegar þær eru að fara í flugið og afinn klæðir sig í öll fötin til að létta ferðatöskuna og það sést líka á myndinni sem fylgir. Var þetta sambærilegt ferli hjá þér að gera myndirnar og skrifa bókina?
 
Ég var að gera þetta á sama tíma. En þetta atriði er alvöru atriði úr lífinu!
 
Í sögunni var það fyrst Albert sem gerði þetta en svo fannst mér meika meira sens að kaupsjúka kona afans hefði ofpakkað svona svakalega og þess vegna breytti ég um persónu og lét afann klæða sig í öll fötin. Mér fannst heldur ekki passa að fjölskylda myndi þiggja ferðalag frá manni sem þau þekktu ekki neitt. Svo ég varð að breyta bókinni töluvert til að láta hana ganga upp, því það er svo erfitt að halda lógíkinni ef maður breytir einhverju sem gerist aftarlega þá breytist ekki það sem á undan kemur ósjálfrátt svo óvart getur maður búið til mjög mikið misræmi. Og það fannst mér flóknast við söguna að endurskrifa og ég varð að finna út úr hlutum svo þeir hljómuðu ekki fáránlega í hausnum á mér. Það voru allskonar senur sem ég vildi hafa en ég varð að finna út úr því hvaða persónum þær hentuðu best.
 
Þegar ég fór að skrifa fyrir börn varð ábyrgðin eins og sjálfsofnæmi. Ég þekki svo mikið af dysfuntional fullorðnu fólki og hef því alltaf haldið að ég þurfi að standa mig svo ótrúlega vel. Barnið mitt er örugglega ofverndað í köku á meðan ég var komin með lyklavöld að blokkinni sex ára. Ég er að reyna að gera öðruvísi en fullorðið fólk sem ég þekki, til dæmis passa mig hvernig ég tala sem er svo mikil ábyrgð. Þess vegna hafði ég mömmuna í sögunni líka ekki fullkomna týpu. Hún sofnar í sófanum og rankar við sér og áttar sig á því að börnin hennar eru heima hjá fullorðnum manni sem hún þekkir ekki neitt og vill ekki vera fordómafull.
 
Textinn er stundum blár, er einhver merkingarleg pæling á bak við það?
 
Ég var ekki með þessa pælingu. Þetta tengist því að hafa textann þægilegri fyrir börn að lesa. Það hefði samt verið geggjað, ef maður læsi bara bláu orðin og það kæmi önnur saga.
 
Bókin var tilnefnd til Barnabókaverðlauna Norðurlandaráðs, hvernig var það?
 
Það var frábært, en samt pínu óþægilegt að fara þarna inn með fyrstu barnabókina sem ég skrifaði. Þvílík pressa.
 
Kom það þér á óvart?
 
Já. Ég vissi ekki einu sinni að þessi verðlaun væru til.
 
 
En svo fékkstu líka tilnefningu til Íslensku bókmenntaverðlaunanna.
 
Já. Það var ógeðslega gaman. En mér fannst það líka erfitt því mér leið eins og ég væri ekki lengur í skjóli að gera tilraun.
 
Ætlar þú að skrifa fleiri barnabækur?
 
Já ég er að vinna í framhaldinu af Grísafirði sem er sjálfstætt framhald þar sem maður kynnist ömmu krakkanna, fyrrverandi konu afans. Ég er að reyna að vera með fleiri myndasögur í bland því ég var mjög ánægð með þær síður og hefði viljað hafa þær fleiri en var í tímaskorti því ég var að vinna þetta með hundrað milljón öðrum hlutum.
 
Það er einmitt fyndið því hún heitir Grísafjörður og maður er alltaf að bíða eftir þeim stað en svo gerist mestöll sagan í blokk í Reykjavík en í lokin kemur smá ferðasaga.
 
Já mamman kallar líka Reykjavík Grísafjörð því henni finnst það vera verri staður en Ísafjörður. Hún er frá Ísafirði því fyrsta minningin mín er þaðan. Mamman heitir Ella í höfuðið á frænku minni og Inga og Baldur eru börn sem bjuggu í blokkinni sem ég ólst upp í þannig að það vantaði bara að Albert héti Eggert. Ég man ekki afhveju hann heitir Albert mér fannst það bara gott nafn. Hann hét upphaflega Alma og það var ekki út af Ölmu landlækni, ég var bara með á heilanum að Alma þýðir sál og þá hét persónan það upphaflega og þá kom Albert út úr því sem tvíburi hennar.
 
Hvað er framundan hjá þér?
 
Ég þarf að klára barnabókina sem ég er að skrifa en hún kemur út í vor og svo er ég líka að skrifa áramótaskaupið. Ég hef sett lítið af myndum á netið því ég er að nota allar myndirnar mínar og hugmyndir í sýningu sem verður í Listasafni Árnesinga í Hveragerði í febrúar. Svo er ég að fara af stað með spennandi verkefni því ég fékk styrk hjá Hönnunarsjóði til að búa til matarstell með teikningunum mínum úr endurunnum matarstellum úr Góða hirðinum. Ástæðan fyrir því að ég hef ekki verið að gera bolla, slæður og boli og er ekki alltaf að gefa út bækur er sú að mér finnst svo erfitt að vera að láta framleiða hluti á þessum tímapunkti í mannkynssögunni, það fer með mig að hugsa um það. Svo ég fór að hugsa um hvernig ég gæti gert þetta án þess að valda meiri skaða og ég keypti vél sem getur brennt myndir á gamalt dót, svo ég sótti um þróunarstyrk fyrir það. Ég dýrka að gramsa í flóamörkuðum og hlakka til að búa til ný stell.
 
 
Við þökkum Lóu Hlín kærlega fyrir skemmtilegt spjall og hlökkum til að halda áfram að fylgjast með myndasögunum, nýju bollastelli og framhaldslífi Ingu, Baldurs og Alberts.

 

Tengt efni