Sveinbjörg Sveinbjörnsdóttir
Sveinbjörg Sveinbjörnsdóttir fæddist í Reykjavík 1947.
Sveinbjörg lauk BA prófi í íslensku frá Háskóla Íslands árið 1979, meistaraprófi í enskum bókmenntum frá University of Denver 1985, kennsluréttindum frá Háskóla Íslands árið 1991 og nam einn vetur í kennslufræði við University of British Columbia í Vancouver. BA prófi í frönsku frá HÍ lauk hún árið 2017.
Sveinbjörg var kennari í nær 40 ár, lengst af við Fjölbrautaskólann við Ármúla þar sem hún kenndi bæði við dagskólann og í fjarnámi auk þess að vinna sem kennslustjóri málabrautar um nokkurra ára skeið. Hún sérhæfði sig einnig í aðstoð við lesblinda nemendur.
Sveinbjörg hefur fiktað við ljóðagerð frá unga aldri og skrifað greinar um ýmsa þætti móðurmálskennslu í tímarit móðurmálskennara, Skímu. Heimildaskáldsaga hennar Aldrei nema kona kom út hjá bókaútgáfunni Sæmundi í ágúst 2020. Þar fylgir hún þremur ættliðum kvenna í Skagafirði á átjándu og nítjándu öld. Þetta eru fátækar konur og lífsbaráttan er hörð en með þrautseigju og æðruleysi tekst þeim að komast af þrátt fyrir erfitt árferði og harðneskjulegt samfélag.
Ritaskrá
- 2022 Aldrei nema vinnukona
- 2020 Aldrei nema kona