SKÁLD.IS

Konur skrifa um konur sem skrifa

Steinunn Inga Óttarsdóttir17. desember 2025

„FALLERAÐAR KONUR OG FJÖLÞREIFNIR KARLAR“ – VIÐTAL VIÐ SVEINBJÖRGU SVEINBJÖRNSDÓTTUR

Sveinbjörg Sveinbjörnsdóttir er höfundur þriggja skáldsagna sem allar fjalla um blákaldan veruleika íslenskra vinnukvenna á fyrri tíð: Aldrei nema kona (2020), Aldrei nema vinnukona (2022) og Aldrei aftur vinnukona (2024). Í bókum hennar er dregin upp sannferðug mynd af ævi og hlutskipti kvenna í bændasamfélagi 19. aldar sem annars er að litlu getið í heimildum. Steinunn Inga rakst á Sveinbjörgu og tók hana tali á dimmum desemberdegi.

Hvaðan kemur Sveinbjörg og hvar ertu núna stödd í lífinu?

Ég er fædd 1947 og uppalin að mestu leyti í Reykjavík en eins og flest börn af minni kynslóð var ég send í sveit þar sem ég dvaldi í 6 sumur. Það var mín gæfa að lenda hjá góðu fólki í Leirársveit, föðurbróður mínum og fjölskyldu hans. Ég tók  stúdentspróf frá Öldungadeild Hamrahlíðarskóla, BA próf frá HÍ í íslensku og meistarapróf í enskum bókmenntum frá University of Denver og hef kennt þessi fög í framhaldsskólum. Ég hef búið víða enda ævin orðin löng en eftir að ég komst á eftirlaun hef ég dvalið mest í Eyjafirði. Þar er gott næði til að skrifa.

Ég sá e-s staðar að systir þín Ásta semur ljóð, Valdimar Gunnarsson sambýlismaðurinn þinn var að senda frá sér bók (um skrýtinn karl úr fortíðinni) - er mikið af bókmenntaumræðu og skáldskap í kringum þig?

Já, lestur hefur alltaf verið mitt líf og yndi og ég er alin upp við að hlusta á sögur. Pabbi sagði okkur krökkunum endalausar sögur frá því þegar hann var barn og lenti í ýmsum ævintýrum og skakkaföllum. Foreldrar mínir keyptu bækur af Máli og menningu og bókasafnið var heimsótt reglulega þegar ég var krakki og þangað sæki ég enn þótt ég freistist oft til að kaupa bækur sjálf.  Ég er eiginlega að drukkna í bókum því ég á líka heimili í Reykjavík og þar eru troðfullir bókaskápar eins og  hér á Rein í Eyjafirði. Við erum þrjár systurnar og ræðum reglulega um það sem við erum að lesa eða skrifa og ég er svo heppin að sambýlismaður minn er gamall íslenskukennari eins og ég enda skortir okkur aldrei umræðuefni. (Innskot SIÓ: ég var nemandi Valdimars í Menntaskólanum á Akureyri og hann ber að vissu leyti ábyrgð á því að ég leiddist út í bókmenntalífið).

Sagt er að konur byrji að snúa sér að ritstörfum þegar þær eldast, þegar hægist um og það gefst meiri tími til að sinna hugðarefnum. Á það við um þig?

Já, að vissu leyti. Ég hafði brennandi áhuga á starfi mínu sem kennari og tók iðulega að mér meira en góðu hófi gegndi en svo sinnti ég einnig hugðarefnum, söng með Kvennakórnum Léttsveit Reykjavíkur og var  í frönskunámi í nokkur ár. Heimilisstörfin tóku auðvitað sinn toll og uppeldi tveggja drengja en við  eiginmaður minn heitinn, Davíð Óskarsson, deildum heimilisstörfunum nokkuð jafnt. Þegar hann lést fyrir tíu árum urðu miklar breytingar á lífi mínu, ég hætti að kenna, lauk frönskunáminu, fór í heimsreisu og haustið 2017 var ég búin að finna  Valdimar og hreiðra um mig í Eyjafirði.

Bækurnar þínar þrjár: Aldrei nema kona (2020) og Aldrei nema vinnukona (2022) og Aldrei aftur vinnukona (2024) eru vel byggðar, vel skrifaðar og höfða til allra sem hafa áhuga á fortíðinni sem mótaði okkur.  Hvers vegna skrifar þú sögulegar skáldsögur?

Ég ólst upp við miklar umræður um ættfræði. Móðurafi minn skrifaði ættfræðibækur og mamma tók við keflinu af honum ásamt pabba  og þau söfnuðu alls konar ættfræðiritum. Þegar ég kom mér fyrir hjá Valdimar á Rein var hann á kafi í ættfræðigrúski, vann sem sjálfboðaliði fyrir Icelandic Roots, ættfræðivef Vestur-Íslendinga. Ég dróst náttúrlega inn í þessa vinnu sem felur í sér leit að fólki í kirkjubókum og ættfræðiritum.  Fljótlega fór ég að verða forvitin um mínar eigin ættir, sérstaklega formæður mínar í móðurætt sem afi hafði aldrei sýnt neinn áhuga á að fjalla um, kannski vegna þess að þegar grannt er skoðað og farið aftur á 19. öld má þar finna falleraðar konur og fjölþreifna karla. Amma mín var aftur á móti mjög vönd að virðingu sinni enda prestfrú. Þegar ég fór að fletta sögubókum fann ég litlar heimildir um hina hversdagslegu alþýðukonu en frásagnir af körlum voru ekki af skornum skammti.

Hvaðan kemur áhugi þinn á því hvaðan við komum, á ævi og kjörum kvenna fyrri alda? Á það erindi til okkar í nútímanum? Hvernig?

Áhuginn kemur í gegnum ættfræðigrúskið en fljótlega sá ég hvílíkar hörmungar konur á 18. og 19. öld upplifðu. Mótefni gegn bólunni svokallaðri kom rétt eftir aldamótin 1800 og þá fór að fækka dauðsföllum vegna hennar og þegar ég var að skoða barnadauðann eftir mislingafaraldur var covid skollið á og umræða um bólusetningar fyrirferðarmiklar í fjölmiðlum. Mér fannst skipta máli að leggja áherslu á barnadauðann og minna á mikilvægi bólusetninga.  Líf og starf 19. aldar konunnar er auðvitað gjörólíkt okkar og erfitt að skilja hvernig sumar þeirra gátu staðið undir þeim áföllum sem á þeim dundu. Umræða um flóttafólk hefur líka verið áberandi og ég vildi benda á að í lok 19. aldar fór a.m.k. fjórðungur þjóðarinnar vestur um haf, flestir á flótta undan fátækt, óblíðri veðráttu, erfiðum starfsskilyrðum og fátt í boði fyrir ungt fólk.

Liggur mikil rannsókna- og heimildavinna að baki bókunum þínum? Hvernig og hvar skrifar þú? Hvernig er vinnulagið þitt?

Þegar ég skrifaði fyrstu bókina las ég allt sem ég náði í um Skagafjörð 18. og 19. aldar.  Ég var svo heppin að Skagfirðingar hafa skrifað mikið um menn og málefni þótt konur séu þar sjaldan til umræðu. Ég fann líka margt á netinu og fór í nokkrar vettvangsferðir í Lýtingsstaðahrepp sem ég hafði aldrei skoðað. Við Valdimar skoðuðum öll bæjarstæði sem nefnd eru í sögunni og nánasta umhverfið.  Ég skrifaði alltaf á Rein, þar náði ég hugarró og ákveðnni stemmingu sem ég fann ekki annars staðar. Ég skrifaði stutta kafla inn á milli rannsóknarferða og lestrar. Svo skiptir miklu máli að ræða um efnið og þar var ég ekki á flæðiskeri stödd. Valdimar og systur mínar hvöttu mig áfram og gáfu mér góð ráð. Þegar ég hafði lokið hverjum kafla skrifaði ég örstutt ljóð sem ég hafði fremst, svona til að kynna hvað væri framundan. Áður en ég skrifaði bækurnar um Þuríði vinnukonu fór ég tvær vettvangsferðir til Norður-Dakóta og Manitoba og hitti þar fjarskylda ættingja sem gáfu mér ýmsar upplýsingar. Það var líka mikilvægt að skoða umhverfið, náttúruna og landslagið.

Konurnar sem þú skrifar um eru skyldar þér, formæður þínar. Kölluðu þær á þig úr forneskjunni? Eru allar persónurnar raunverulegar, er allt satt sem stendur í bókunum þínum? Skiptir það kannski engu máli?

Já, formæðurnar bókstaflega kölluðu á mig. Persónur bókanna eru allar byggðar á fólki sem var til og heitir sínum réttu nöfnum. Mér finnst það skipta máli og forðaðist þar af leiðandi að skrifa það sem gæti ekki staðist. Það er auðvitað ekki allt satt sem stendur í bókunum, ég varð að skálda heilmikið í eyðurnar og þess vegna kalla ég þetta skáldsögur. Ég varð t.d. að búa til sennilega skýringu á tilurð barna eins og þegar Steinunn Oddsdóttir eignast tvo syni sína, annan eftir ofbeldisfulla sambúð og hinn er greinilega rangfeðraður vegna ástar hennar á manni sem hefði að öðrum kosti verið dæmdur fyrir hórdóm. Í vinnukonubókunum bjó ég til tvö ástarsambönd svona til að krydda frásögnina. Þar hafði ég engar heimildir um hvað gerðist bak við luktar dyr.

Pælir þú í mörkum skáldskapar og heimilda eða sagnfræði? Er þar skapandi flæði eða hamlandi fyrir söguna sem þú vilt segja?

Ég var dálítinn tíma að finna jafnvægið og hvernig ég ætti að byggja upp sögurnar. Ég var heppin að finna slóðir kvennanna í kirkjubókunum og þræddi mig eftir þeim. Þegar vinnukona hefur vistaskipti fer hún oftast gangandi og ég þurfti að meta vegalengdir, farartálma og hugsanlegt samferðafólk. Það er hægt að lesa ótalmargt á milli línanna í kirkjubókunum og dómabókum og sjá þannig fyrir sér atburðarásina.

Hvað með mál og stíl 19. aldar, þurftir þú að pæla í tungutakinu á bókum þínum út frá því eða hvernig vannstu með það?

Ég lúslas textann til að gæta þess að ég notaði ekki orð sem tilheyrði ekki heimi sagnanna. Ég reyndi samt ekki að fyrna mál mitt heldur hafa stílinn frekar látlausan. Auðvitað rakst ég einstaka sinnum á skemmtileg gömul orðatiltæki þegar ég var að grúska og nýtti mér þau.

Hver er tilgangurinn með skrifum um þessar konur? Langar þig að hrista upp í söguskoðuninni? Sagan á 18. og 19. öld er sögð og skráð af körlum sem höfðu kost á menntun og embætti en konurnar höfðu ekki slík tækifæri og er að litlu getið. Viltu rétta hlut þeirra? Eða viltu benda á misréttið og ánauð vinnufólks sem var í gangi í íslensku bændasamfélagi?

Upphaflega vildi ég bara fjalla um ævi formæðra minna á einfaldan hátt en það varð frekar þurr upptalning. Þess vegna reyndi ég að draga fram tilfinningalíf þeirra, viðbrögð við þeim erfiðleikum sem þær mættu og setja líf þeirra í sögulegt samhengi. Aldrei nema kona fjallar um þjóðfélag í kyrrstöðu, lítið hafði breyst um aldir. Bækurnar Aldrei nema vinnukona og Aldrei aftur vinnukona gerast í samfélagi sem hægt og bítandi er að taka breytingum og þá skapast ný tækifæri eins og sjá má í fólksflóttanum til Vesturheims.   

Hafa bækurnar þínar fengið góða dóma? Fylgistu með bókmenntaumfjöllun almennt? Er hún mikilvæg, fyrir höfunda, fyrir lesendur?

Já, auðvitað fylgist ég með bókmenntaumræðunni og bókmenntaumfjöllun skiptir höfunda miklu máli. Þeir þurfa að vita hvort þeir eru á réttri leið til þess að geta bætt um betur. Ég hef ekki fengið annað en jákvæða dóma en held að ég sé sjálf harðasti dómarinn.

Þú kenndir í framhaldsskóla í áratugi, hvað finnst þér um stöðu íslenskunnar? Mun hún lifa? Hvað þarf til að hressa hana við? Eitthvað sem þú vilt segja um íslenskar nútímabókmenntir? Eða lestur/læsi almennt?

Það er erfitt að svara þessu í stuttu máli en ég held að íslenskan muni lifa en auðvitað tekur hún breytingum hér eftir sem hingað til. Við þurfum auðvitað að leggja töluvert á okkur sem þjóð til að viðhalda málinu. Svo má ekki gleyma því að víða erlendis eru hópar fólks sem leggur það á sig að læra þetta undarlega tungumál sér til ánægju og yndisauka. Mér finnst stórkostlegt að fylgjast með ungum rithöfundum sem margir hverjir leika sér skemmtilega að málinu og eru óhræddir við að brjóta hefðir.

Hvað veitir þér innblástur? Yrkir þú ljóð?

Lestur bóka og umræður um bókmenntir ýta oft við mér en það er líka svo margt forvitnilegt í gömlum skræðum sem kveikir nýjar hugmyndir. Svo þarf ég ekki annað en að sjá gamlar bæjarrústir til þess að hugurinn fari á flug. Ég yrki stundum ljóð eins og sjá má í fyrstu bókinni en tel mig ekki mikið ljóðskáld.

Hvað er framundan hjá þér? Eru fleiri bækur í smíðum? Er fleira úr fortíðinni sem kallar á þig? Eða nútímanum, hvað finnst þér um hann?

Ég læt unga fólkinu eftir að skrifa um nútímann. Þar er svo margt sem ég skil ekki fullkomlega en fortíðin vekur með mér endalausa forvitni. Ætli ég fari ekki að skoða rætur  mínar á Vesturlandi fljótlega eftir áramótin ef mér endist aldur til.

Það hljómar stórvel! Bestu þakkir Sveinbjörg fyrir spjallið og fyrir að gefa okkur öllum innsýn í heim formæðranna sem bogruðu í köldum torfbæjum við óblíð kjör, ofbeldi og misrétti. Sannarlega eiga þær athygli, þakklæti og virðingu skilið.

 

 

Viðtöl SIÓ við skáldkonur 2025-2026 eru styrkt af Hagþenki

Viðtalið við Sveinbjörgu er nr 2 í röðinni

 

 

Tengt efni