Astrid Vik Skaftfells
Astrid Vik Skaftfells fæddist í Vik í Noregi 23. október 1910.
Astrid giftist 1939 Marteini Skaftfells kennara (1903-1985). Þau bjuggu nánast allan sinn búskap í Hamrahlíð 5 í Reykjavík. Þeirra sonur er Hákon Skaftfells, f. 2. janúar 1945.
Astrid lærði hjúkrun og starfaði við sitt fag í Noregi og fyrst eftir að hún fluttist til Íslands starfaði hún á Hvítabandinu. Hún lærði einnig svæðanudd og tók fólk heim í það en var að öðru leyti heimavinnandi.
Þau Astrid og Marteinn áttu mörg sameiginleg áhugamál. Þau höfðu bæði áhuga á heilsurækt og hollu mataræði og skildu, að samband er milli heilsu og lífernis. Þau aðhylltust kenningar náttúrulækningastefnunnar og einnig iðkuðu þau jóga frá ungaaldri og sóttu þangað styrk. Í þessum efnum voru þau langt á undan samtíðinni og í hópi brautryðjenda hér á landi, segir í minningargrein um hana/þau. Þar segir ennfremur: „...stofnuðu heildsölufyrirtækið Elmaro og hófu innflutning á ýmsum heilsuvörum og fæðubótarefnum. Mættu þau oft litlum skilningi yfirvalda á nauðsyn þess að flytja slíka vöru til landsins, en gáfust ekki upp. Smám saman spurðist það út að fá mætti hjálp við ýmsum kvillum með því að leita til þeirra og fá ráðgjöf um mataræði og fæðubótarefni auk þess sem hjartahlýja þeirra yljaði margri hrelldri sál. Því er ekki að undra, að mjög gestkvæmt var á heimili þeirra og gestrisni þeirra annáluð.“ Fram kemur í minningargrein um Martein að ekki hafi alltaf blásið byrlega fyrir frumkvöðlastarfi þeirra hjóna á þessum vettvangi. Fljótlega fóru „vissir sterkir aðilar, sem ætla má að hagsmuna hafi átt að gæta í sambandi við innflutning lyfja, að reyna að hindra innflutning þessara efna“ og varð þetta áratuga ritdeilur og barátta en aldrei hvikuðu þau hjónin.
Eitt sinn birtist mynd af syni þeirra á forsíðu Heilsuverndar og segir þar um kápumynd:
„KÁPUMYNDIN er af Hákon Magnúsi Skaftfells, syni Astrid Vik Skaftfells og Marteins M. Skaftfells, kennara í Reykjavík. Á myndinni er Hákon litli 4 ára, njótandi norskrar sólar, sem hann sýnilega kann vel að meta. Hákon er nú nærri 5 1/2 árs, 119,5 cm. hár, ekki feitur, en mjög þéttholda og áreiðanlega í hópi hinna þróttmestu meðal sinna jafnaldra. Umgangskvillar hafa oftast farið framhjá honum. Fengið vott mislinga og kvef á hverjum vetri, þó ekki fyrr en nokkru eftir að grænmeti hefir þrotið. Kjöt og fiskur heyra til undantekninga í fæði hans, enda hefir mataræði hans verið hagað sem mest í samræmi við manneldisvísindi náttúrulækningastefnunnar. Hann er nú 25 kg. án fata.“
Astrid skrifaði eina bók sem var lesin í útvarpsþættinum Morgunstund barnanna og myndskreytti sjálf. Það var Æfintýri bókstafanna, sem hún samdi á norsku, og maðurinn hennar þýddi yfir á íslensku. Hún fékk birtar greinar og sögur í blöðum og tímaritum, td. Vinnunni 1948 og sjómannablaðinu Víkingi. Myndir Astridar af öllum bókstöfunum prýddu bókina Söguþræðir sem er með söguþráðum úr þúsund bamabókum sem Anna Margrét Birgisdóttir kennari og bókasafnsfræðingur valdi.
Astrid teiknaði einnig myndir við bókina Englahatturinn ; Þegar ég var töframaður (1954) eftir Halvor Floden sem skáldkonan Oddný Guðmundsdóttir þýddi.
Astrid lést 6. maí 2003.
Ritaskrá
- 1942 Æfintýri bókstafanna