SKÁLD.IS

Konur skrifa um konur sem skrifa

Oddný Guðmundsdóttir

Oddný Guðmundsdóttir fæddist árið 1908 á Hóli á Langanesi. Hún lauk gagnfræðaprófi á Akureyri árið 1929 og stundaði síðan nám og störf á bæði Norðurlöndunum og í Sviss. Frá árinu 1940 var Oddný farkennari í um þrjátíu ár víða um land en lengst á Vestfjarðakjálkanum. Oddný fór allra sinna ferða á hjóli og þótti henni það lítið mál að hjóla frá Langanesinu til Reykjavíkur. 

Oddný skrifaði talsvert; skáldsögur, smásögur og greinar auk þess sem hún vann að þýðingum. Þá voru einnig leikrit eftir hana flutt í útvarpi. Hluta úr grein Oddnýjar sem birtist í bókinni Konur skrifa og kom út 1980 má lesa á vefsíðunni Strandir.is: Úr dagbók farkennara. Oddný lést á Raufarhöfn árið 1985.

Meistaraprófsritgerð Steinunnar Ingu Óttarsdóttur um Oddnýju, „Aldrei skal ég þagna á því meðan ég tóri“ má lesa í Skemmunni. Auk þessi gerði Steinunn útvarpsþátt um Oddnýju, Ein gegn öllum sem fluttur var á rás eitt um hvítasunnuna 2019 og endurfluttur 19. október. Sjá grein á skáld.is um skáldskap Oddnýjar eftir Soffíu Auði Birgisdóttur.


Ritaskrá

  • 1983 Íslenzk aulafyndni
  • 1983 Orðaleppar og aðrar ljótar syrpur
  • 1982 Haustnætur í Berjadal
  • 1981 Kvæði og kviðlingar
  • 1979 Síðasta baðstofan
  • 1967 Skuld
  • 1954 Á því herrans ári
  • 1949 Tveir júnídagar
  • 1946 Veltiár
  • 1943 Svo skal böl bæta

Tengt efni