SKÁLD.IS

Konur skrifa um konur sem skrifa

Þóra Kristín Ásgeirsdóttir

Þóra Kristín Ásgeirsdóttir fæddist í Reykjavík 10. ágúst 1966 en hún ólst upp í Keflavík frá þriggja ára aldri með viðkomu í Kaupmannahöfn. 

Þóra Kristín tók þátt í baráttunni fyrir sýnileika og réttindum samkynhneigðra á ofanverðum 9. áratugnum og var varaformaður Samtakanna 78, 1987-1988. Þá kom hún fram í sjónvarpsviðtali ásamt Þorvaldi Kristinssyni þar sem rætt var um bókmenntir samkynhneigðra árið 1985 og ræddi veruleika lesbískra kvenna í Mannlífsviðtali árið 1987.

Hún hefur starfað við fjölmiðla frá því fljótlega eftir tvítugt og komið við á langflestum fjölmiðlum landsins, þar má nefna Helgarpóstinn og Pressuna sálugu, Eintak, Morgunpóstinn, Alþýðublaðið, Dag Tímann, tímaritin, Heimsmynd, Mannlíf og Morgunblaðið. Lengst af starfaði hún þó sem fréttamaður á Ríkisútvarpinu og síðar á Stöð 2. Hún var einnig í nokkur ár ritstjóri Smugunnar, vefrits um stjórnmál og mannlíf og fréttastjóri á Fréttatímanum. Þóra Kristín var um skeið varaformaður og síðar formaður Blaðamannafélags Íslands. Hún fékk verðlaunin blaðamaður ársins árið 2009, fyrir sjónvarpsfréttir á vefnum árið 2008 í aðdraganda og kjölfar bankahrunsins.

Á fyrri hluta tíunda áratugarins sendi Þóra Kristín frá sér þrjár bækur. Þær eru Guðbergur Bergsson, metsölubók, viðtalsbók við Guðberg Bergsson rithöfund, 1992, Herbrúðir, 1994, og Götustrákur á spariskóm 1996. 2018 sendi hún frá sér bókina Hasim - götustrákur í Kalkútta og Reykjavík.

Þóra Kristín hefur verið samfélagsrýnir og vinsæll pistlahöfundur á ýmsum fjölmiðlum með hléum, nú síðast á Stundinni. Árið 2018 gerðist hún upplýsingafulltrúi fyrir Íslenska erfðagreiningu þar sem hún starfar enn í dag.


Ritaskrá

  • 2018  Hasim - götustrákur í Kalkútta og Reykjavík
  • 1996  Götustrákur á spariskóm
  • 1994  Herbrúðir
  • 1992  Guðbergur Bergsson, metsölubók, viðtalsbók við Guðberg Bergsson rithöfund

Verðlaun og viðurkenningar

  • 2018  Hasim - götustrákur í Kalkútta og Reykjavík: Fyrstu verðlaun bóksala sem besta ævisagan
  • 2009  Blaðamaður ársins

Tengt efni