SKÁLD.IS

Konur skrifa um konur sem skrifa

Anna Pálína Árnadóttir

Anna Pálína Árnadóttir fæddist í Hafnarfirði 9. mars 1963.

Anna Pálína lauk stúdentsprófi frá Flensborgarskóla í Hafnarfirði 1983 og B.ed. prófi frá Kennaraháskóla Íslands 1988. Hún stundaði ennfremur tónlistarnám við Tónlistarskóla FÍH á árunum 1990–1994 og hjá einkakennurum, innlendum sem erlendum.

Anna Pálína var kennari við Austurbæjarskóla 1988–1990 og dagskrárgerðarmaður hjá Ríkisútvarpinu frá 1992 til 2004.

Anna Pálína var afkastamikil á tónlistarsviðinu, hélt tónleika víða innanlands og utan jafnt fyrir börn og fullorðna, kom fram fyrir Íslands hönd á norrænum tónlistarhátíðum og var ötull talsmaður norrænnar vísnatónlistar. Hún sat í stjórn tónlistarfélagsins Vísnavina 1992–1998 og var formaður félagsins 1993–1998. Þá var hún framkvæmdastjóri Norrænna vísnadaga 1994 og 1996.

Ásamt eiginmanni sínum, Aðalsteini Ásberg Sigurðssyni, rak hún útgáfufyrirtækið Dimmu frá 1992.

Anna Pálína hlaut ýmsar viðurkenningar á tónlistarferli sínum og vakti mikla athygli með fyrirlestrum sínum um að lifa með hinum óboðna gesti, krabbameini, og bók hennar um það efni, Ótuktin, kom út 2004.

Anna Pálína lést á heimili sínu í Reykjavík 30. október 2004.

Mynd: Spotify


Ritaskrá

  • 2004  Ótuktin

 

Verðlaun og viðurkenningar

  • 2002  Starfslaun Reykjavíkurborgar
  • 2000  Starfslaun listamanna

 

Tilnefningar

  • 2003  Til Íslensku tónlistarverðlaunanna fyrir Guð og gamlar konur

 

 

Tengt efni