SKÁLD.IS

Konur skrifa um konur sem skrifa

Guðrún Jónsdóttir frá Prestbakka

Guðrún Jónsdóttir frá Prestbakka var fædd á Staðarhóli í Saurbæ i Dalasýslu 18. júlí árið 1916. Foreldrar hennar voru hjónin séra Jón Guðnason og Guðlaug Bjartmarsdóttir. Guðrún var elst sjö systkina. 

Guðrún lauk prófi frá Héraðsskólanum á Reykjum í Hrútafirði árið 1932 og var síðan við kennaranám og fékkst við kennslu uns hún fór til náms í Danmörku vorið 1939. Hún þráði alltaf að mennta sig meira. Guðrún var mikil ævintýrakona, ferðaðist mikið og skrifaðist á við fjölda fólks um heim allan. Gerðist kaþólsk og fór m.a. til Rómar og „þekkti vel til guðfræði og trúarsiða hinnar heilögu almennu kirkju. Lengri og ævintýralegri ferðir fór hún þó um svið þekkingar og menntunar,“ segir í minningargrein um hana.

Guðrún var við nám og störf erlendis með hléum í á annan áratug, en kom heim til íslands árið 1953 og starfaði við kennslu og við ritarastörf hjá Tryggingastofnun ríkisins, á Náttúrufræðistofnun Islands og á jarðvísindastofu Raunvísindastofnunar Háskóla íslands uns hún fór á eftirlaun árið 1984. Það var þá sem hún lét draum sinn um frekari formlega menntun rætast. Hún hóf nám í mannfræði við Háskóla íslands (með undanþágu því hún var ekki með stúdentspróf) og útskrifaðist með BA-gráðu í greininni í mars árið 1990. Árið eftir hélt hún til framhaldsnáms í Bergen í Noregi og lauk þar cand.mag.-prófi í sömu grein í árslok 1992, þá á áttræðisaldri. Síðustu árin vann hún að því að skrifa doktorsritgerð um krabbameinslækningar fyrir daga nútímalæknavisinda.

25. júlí 1954 giftist Guðrún Guðmundi Steini Einarssyni, kennara við Heyrnleysingjaskólann í Reykjavík, en hann lést 1985. Þau reistu sér hús í Kópavogi og áttu tvo syni.

Guðrún fékkst ætíð mikið við ritstörf. Meðal annars skrifaði hún tvær skáldsögur á yngri árum, auk þess sem margar smásögur hennar birtust í blöðum og tímaritum hér heima og erlendis. 

Guðrún lést á Landakotsspítala í Reykjavík 5. maí 1996.


Ritaskrá

  • 1946  Ekki heiti ég Eiríkur
  • 1940  Fyrstu árin

 

 

Tengt efni