SKÁLD.IS

Konur skrifa um konur sem skrifa

Elín Kona Eddudóttir

Elín Kona Eddudóttir er fædd í Reykjavík árið 1965 og ólst upp í Laugarneshverfinu. Hún gekk í Laugarnesskóla og Laugarlækjarskóla.

Elín á fjölbreyttan námsferil að baki, hún lauk prófi sem hárgreiðslusveinn frá Iðnskólanum í Reykjavík 1984, nam ferðamálafræði við Háskólann á Hólum og lauk þaðan BA prófi 2013, auk þess að afla sér landvarða- og staðarvarðaréttinda. 2014 hóf hún nám í kennslufræðum við Háskólann á Akureyri og vinnur þar að meistarprófsritgerð.

Elín starfaði sem hársnyrtir á árunum 1984 til 1988. Eftir það sneri hún sér að sveitastörfum og vann síðan við dýrahirðingu og leiðsögn í Húsdýragarðinum 1990-1994. Elín starfaði í móttöku og við næturvörslu á Fosshóteli í Stykkishólmi á árunum 1996-2000. Þá hefur hún einnig starfað sem matráða í leikskóla, í bakaríi og við fiskvinnslu.

Elín hefur starfað sem ljóðskáld frá árinu 1993. Hún yrkir til að mynda tækifærisljóð og söngtexta eftir pöntunum. Einnig tekur hún sér að prófarkalesa ritgerðir og fleira.

Elín hefur flutt ýmsa fyrirlestra og birt greinar í blöðum og tímaritum. Þar má nefna fyrirlestrana ,,Ég og Guðrún frá Lundi", sem flutt var við opnun Konubókastofu í Rauða húsinu á Eyrarbakka 2013 og á hátíðinni „Vor í Árborg“ sama ár og síðan birt í ársriti Kvenréttindafélags Íslands, 19. júní 2013 og ,,Er ég skipti um áhugamál frá því að reykja til þess að hjóla" sem fluttur var í Heilsuviku á Hvolsvelli 2013.

Eftirfarandi greinar eftir Elínu hafa birst í Stundinni: ,,Börn eiga alltaf að hafa rödd í lýðræðis- og jafnréttissamfélagi" (4. júní 2017), ,,Ferðumst innanhúss" (10. apríl 2020) ,,Reglan „að vera skrítin“ (11. febrúar 2021) og ,,Nafnakall í þokukenndu mannanafnalandi  (27. ágúst 2021).

Fyrsta ljóðabók Elínar Konu kom út á vormánuðum 2023 og ber titilinn Eiginkona Bipolar 2 og byggir á lífsreynslu höfundar.


Ritaskrá

  • 2023  Eiginkona Bipolar 2

 

Tengt efni