SKÁLD.IS

Konur skrifa um konur sem skrifa

Magnea Þuríður Ingvarsdóttir 3. júlí 2023

DAGBÓKARSKRIF ELÍNAR KONU

Ljóðasaga

Það er frekar erfitt að gera sér í hugarlund hvernig það er að vera nánasti aðstandandi þeirra sem eru greindir með Bipolar ef maður hefur ekki staðið í þeim sporum. Nú á dögunum kom út lítil ljóðasaga Elínar Konu sem fjallar um  hvernig það er að standa í þeim sporum. Sagan spannar tvö ár í lífi Elínar og eiginmanns hennar sem þjáist af sjúkdómnum.  

Ljóðin eru knöpp, í óbundnu formi og segja okkur frá þeim hæðum og lægðum sem eiginmaður hennar gengur í gegnum. Ljóðin eru í dagbókarstíl og Elín lýsir líðan hans frá degi til dags og um leið lýsir hún líðan sinni og því hvernig sjúkdómurinn hafði áhrif á líf þeirra og tilveru, eins og stendur á bakhlið bókarinnar. Ljóðin vekja upp samkennd og þau fá mann til þess að hugsa um einstaklingshyggju nútímans. Elín er í hjarta sínu baráttukona fyrir mannréttindum og hún miðlar hér af reynslu sinni með hlýju og virðingu gagnvart sjálfri sér og manni sínum, erfiðleikum sem þau gengu í gegnum, en skilur jafnframt eftir áleitnar spurningar.

 

Í nýjasta tímariti Hugvísindastofnunar Ritið:1/2023 um Illsku og óhugnað er að finna góða grein eftir Steindór J. Erlingsson um heim hinna geðsjúku. Greinin heitir ,,Skáldin, eitur illskunnar og ég". Þar opnar hann greinina á þessum orðum ,,Eitur hefur runnið um æðar mínar í áratugi“. Og á þar við að hann hafi verið haldinn geðsjúkdómi. Í greininni fer hann vítt og breitt um bókmenntir heimssins og skoðar allt frá Dante til Georgs Eliot og frá Virginiu Woolf til Gyrðis Elíassonar og Sylviu Plath, og fleirum, og hvernig illskan birtist í verkum þeirra. Mjög svo áhugavert efni sem vert er að lesa með það fyrir augum að lítið er skrifað þar um aðstandendur þeirra sem eru helteknir af geðsjúkdómi. Sjá:. „Þú er enn þá lifandi, þú ert enn ekki einn“.

Í annarri grein í sama riti er Sigríður Þorgeirsdóttir að fjalla um einstaklingshyggjuna og um leið um þverrandi samkennd nútímans. Greinin ber heitið Illska, græðgi, fíkn og samkennd. Þar eru einnig áhugaverð skrifin um illsku kerfanna og samkennd og þar segir ,,Við erum komin á stað í veraldarsögu mannkyns þar sem við þurfum að hugsa um að stjórnkerfin virki fyrir jörðina, okkur sjálf og aðrar lífverur”.  Sjá Illska, græðgi, fíkn og samkennd. Það er einmitt það sem Elín Kona er að fjalla um í litlu fallegu bókinni sinni. Hvað með okkur sem stöndum næst þeim sem eru veikir? Kannski eins og flugþjónninn áminnir okkur í hvert sinn sem flogið er: Setjið grímuna á ykkur sjálf áður en þið setjið hana á barnið. Aðstandendur þurfa nefnilega að vera nokkurn veginn í lagi ef þeir eiga að geta annast hinn sjúka.

 

Á fallegum júnídegi hittumst við Elín Kona í Grasagarðinum og áttum lítið spjall um ljóðasögubókina hennar ,,Eiginkona Bipolar 2“ og hún svaraði nokkrum spurningum fyrir okkur á Skáld.is

Bipolar 2 hvað er það?

Bipolar 2 er geðhvarfasýki. Bipolar skiptist í tvö stig og greiningin fer það eftir því hversu mikið einstaklingar sem haldnir er sjúkdómnum fara i uppsveiflu og niðursveiflu.

Hvað ertu að segja okkur í ljóðunum þínum Elín?

Ég er að segja frá áhrifum Bipolar 2 á líðan og líf fjölskyldunnar og hve stórt pláss geðhvarfasýkin tekur. Hvernig lífið er að eiga ástvin með geðsjúkdóm. Ég er að yrkja ljóð um mig, eiginkonuna og um samband mitt og sambandsleysið við sjúkdóminn og kerfið. Mér finnst þurfa að láta það heyrast hvernig kerfið skilur þarna á milli. Skilur á milli þeirra sem eru veikir og þeirra sem standa næst þeim.  

Í alltof langan tíma var ég að burðast með veikan einstakling á mínum herðum. Svo vil ég segja að það er í lagi að gefast upp og það er í lagi að tala um geðsjúkdóminn og það er í lagi að líða eins og manni hefur liðið. Svo er ég að segja frá því að mitt í allri hans sögu og glímu við Bipolar 2 þá varð ég alltaf máttminni.

 

Eitt ljóðið þitt heitir ,,Hjá Virk“ þar segir þú frá því að sálfræðingur á þeirra vegum hafi greint þig með það sem kallað er ,,aðlögunarröskun".

Ég leitaði til lækna sem greindu mig með allskonar,  eins og aðlögunarröskun, þreytu og vanlíðan. Aðlögunarröskun er einkenni þeirra sem ekki geta aðlagast erfiðleikum og því hvernig fólk bregst við streituvaldandi aðstæðum, ég hafði bara ekki getu til að takast á við hans erfiðleika því ég var ekki í standi sjálf, var með allan tilfinningaskalann á fullu sem í raun var að eyðileggja fyrir mér líka. Ég varð algerlega óvinnufær í raun og veru en svo seinna kom í ljós að ég var með hjartabilun sem skýrði öll einkennin. Við erum ekki öll fagmenn og stundum höfum við ekki heilsu til að halda öllu uppi. Við þurfum líka að huga að okkur sjálfum. Tilfinningarnar sem fólk glímir við eru í lagi“. Það má finna fyrir reiði, gleði, vonleysi, bjartsýni, sorg, söknuði og öllu hinu.

 Það eru m.a. skilaboðin sem ég vil koma til lesanda.  Kannski spegla aðrir sig í sömu sporum og ég hef verið og finni sér leið til þess að láta sér líða vel. Vanmátturinn sem hellist yfir fólk getur verið yfirþyrmandi og það að geta lesið sér til um hvernig aðrir leysa úr sínum málum hlýtur að vera af hinu góða.

Mér finnst bókin verulega góð, hvernig viðtökur hefur hún fengið?

Bókin er svo nýkomin út eða þann 26. maí s.l. og það var stefnan hjá mér að hún kæmi út í maí mánuði sem er tileinkaður ,,geðheilbrigði“. Ég gaf hana sjálf út og í kjölfari bauð Penninn Eymundsson mér að setja hana í sölu hjá þeim. Viðtökurnar hafa verðið framar björtustu vonum. Margir hafa sent mér fallegar kveðjur og er ég þakklát fyrir það. Fólk talar um að bókin sé fallega skrifuð og að það sé full þörf á að hún komi út. Ég fékk hana Sæunni Unu Þórisdóttur að vera ritstjóri bókarinnar og Írisi Irmu í umbrot. Þetta gekk vel og ég vona bara að bókin muni verða einn dropi í hafið sem breytir viðhorfum til fólks sem glímir við geðsjúkdóma, hvort sem um er að ræða sjúklingana sjálfa eða aðstandendur.

Það vakna margar spurningar við lestur bókarinnar. Hefur þú lengi fengist við að setja saman ljóð?

Ég hef fengist við ljóðagerð í mörg ár eða frá 17 ára aldri. Ég tileinka mér þá bragfræði sem þarf hverju sinni, eftir því sem ég fæ hverju sinni, hef ort mikið eftir pöntunum í gegnum árin. Ég hef samið söngtexta, ljóð, leikþætti og söngleiki í gegnum tíðina og tek oft að mér að yrkja fyrir brúðkaup og afmæli, fermingar og annað sem til fellur. Þá hafa ljóð birtst  eftir mig á ljóð.is

Hvers vegna að opinbera sig og hjónabandið?

Hversvegna ekki spyr ég á móti? Á milli mín og fyrrverandi eiginmanns míns hefur alltaf ríkt góð vinátta og mikið traust.  Við áttum vel saman, áttum gott líf, þessi tuttugu og fimm ár sem við áttum saman áður en hann veiktist. Hann veiktist skyndilega og svakaleg atburðarrás fór í gang sem ekki sér fyrir endann á. Ég skrifaði flest ljóðin þegar hann var að glíma við sjúkdóminn og ég þurfti að koma líðan minni og upplifun í orð. Nú eru liðin fimm ár frá því við skildum. Ég talaði við hann að gefa ljóðin út og hann var sammála því enda hefur hann alltaf haldið umræðunni opinni um sjúkdóm sinn og aldrei samþykkt að hann sé eitthvað tabú sem á að skammast sín fyrir.

 

Þegar Elín var spurð hvort geðsjúkdómurinn hafi gert hann ofbeldisfullan sagði hún:

,,Aldrei nokkurn tímann hefur hann sýnt neitt í þá átt. Hann er hinn ljúfasti maður. Við bjuggum saman í öll þessi ár og rifumst aldrei. Hann var besti pabbi í heimi, pabbi sem fór í öll foreldraviðtöl og tók foreldrahlutverk sitt mjög alvarlega.

Ertu uppreisnargjörn?

Nei en í mér blundar pönkari, ég tek litlar baráttur og vil búa til betra samfélag með litlum sigrum.

Hvað finnst þér um raddir jaðarhópa?

Mér finnst sem það mætti heyrast meira frá fólki sem glímir við allskonar og fagna um leið öllum málefnum. Ég finn til mikillar samkenndar með trans konum og þoli illa að fólk sé sett á bása. Við erum og eigum að taka málefni jaðarhópa með í baráttu til jafnréttis. Ég skilgreini mig sem öfgafemínisma

Hvað finnst þér um þessa póleseringu sem virðist vera að eiga sér stað í málefnum jaðarhópa?

Við eigum aldrei að jaðarsetja hópa, hættum að flokka fólk, flokkum rusl en ekki fólk.

Eigum við að berjast fyrir réttindum allra?

Ég tel að fólk eigi rétt á að velja sér baráttumál og taka það sem það ræður við. Þar er; ekki hægt að taka allar baráttur. Mér finnst ekki rétt að fólk blási á annarra baráttur með hvaðmeð-isma (e. Whataboutisma). Hver velur sína baráttu á sínum forsendum.

Einstaklingshyggja nútímans hvað finnst þér?

Saga konunnar og hennar framlag er mjög mikilvægt. Fólk þarf að sýna sjálfu sér sjálfsmildi, ekki láta það bitna á öðrum en hafa jafnvægi á hlutunum. Hetjurnar fórna sér en er það svo mikil hetjudáð. Heimspekin svarar því kannski.

Samkenndin, heldur þú að hún sé á undanhaldi?

Ekki ef við tölum um hlutina, og æfum okkur og lesum okkur til um hlutina og það að setja sig í annarra manna spor skiptir öllu máli en svo er það kannski spurning um þroska.

 

Um leið og ég kveð Elínu Konu og þakka henni fyrir hugrekkið við að skrifa þessa bók inni ég hana eftir framtíðinni. Hún tjáir mér að næsta verk sé þegar komið á kortið.

Ritstjórinn vill fá aðra ljóðasögubók um það hvernig er að eiga dóttur í fangelsi en dóttir mín er laus úr fangelsi. Það er svo margt sem dóttir mín, fanginn, gekk í gegnum og það eru svo margir sem tengja við það en sitja svolítið einir í skömmminni og láta allt sem fangelsismálastofnun og fleiri láta yfir þá ganga. Vonandi kemur út ljóðabók um það. Þá vil ég huga að heilsunni og skrifa meira.

 

Ég horfið aðdáunaraugum á þessa mögnuðu Konu um leið og við röltum í sína hvora áttina að loknu þessu fræðandi spjalli.

Tengt efni