SKÁLD.IS

Konur skrifa um konur sem skrifa

Selma Júlíusdóttir

Selma Júlíusdóttir fæddist í Sólheimatungu við Laugarásveg í Reykjavík 18. júlí 1937. 

Selma ólst upp í Laugarásnum. Hún gekk í Laugarnesskóla og lauk landsprófi 1952.

Selma vann ýmis störf, m.a. á Landsímanum og varð fyrsta símadaman á Bæjarleiðum. Hún sá um veitingareksturinn á Olíustöðinni í Hvalfirði nokkur sumur og fleiri störfum sinnti hún.

Selma stofnaði föndurskóla sem hún starfrækti í 15 ár. Á þeim árum skrifaði hún barnabækur sem Jón bróðir hennar og Marylin Herdís Melk sonardóttir hennar myndskreyttu.

Síðar vann hún mikið rit um kennslufræði fyrir skólann sinn, „Líkamstenging og ilmolíufræði“. Hún vann sem dagmóðir, var formaður Dagmæðrafélagsins og blés um hana þar. Vann hún þó ötullega að réttindum og reglugerð þeirra vegna. Selma lærði nudd og ilmolíufræði og hafði miklar skoðanir á óhefðbundnum lækningum. Stofnaði svo Lífsskólann þar sem hún kenndi sín fræði og fékk með sér þýska sérfræðinga og lækni í kennsluna. Hún var heilunar- og reikimeistari og lækningamiðill og formaður BIG, Bandalags ísl. græðara, um tíma. Einnig vann hún af kappi að öryggismálum skipverja Landhelgisgæslunnar. Hún var formaður sjóðsins Hliðskjálf, sem stofnaður var af konum varðskipsmanna.

Selma var óþreytandi að hjálpa fólki í margs konar vanda og veikindum og lét sér ekkert mannlegt óviðkomandi, segir í Morgunblaðinu í ættrakningu um hana við lát hennar. Þeim sem minnast hennar þar kemur saman um að hún hafi verið einstök kona, leiðtogi og frumkvöðull en nokkuð umdeild eins og oft vill verða með sterkar konur.

Selma lést þann 26. janúar árið 2014.

 


Ritaskrá

  • 2010  Bandalag íslenskra græðara 10 ára
  • 2004  Líkamstenging og olíumeðferð
  • 1987   Snjóþotuslysið (hljóðbók)
  • 1987 Stafaspil
  • 1986  Járnsmiðurinn og kóngulóin
  • 1978  Stúfur stelur skíðum (sýnt í sjónvarpinu 1979)
  • 1978  Bjúgnakrækir (sýnt í sjónvarpinu 1979)

 

Tengt efni