SKÁLD.IS

Konur skrifa um konur sem skrifa

Helga Kristín Einarsdóttir

Helga Kristín fæddist í Reykjavík 1. september 1941 en ólst upp í Kópavogi. Hún lést 31. október 2014.

Helga var dóttir Þrúðar Ólafsdóttur Briem, kennara, frá Eyjum í Breiðdal og Einars Baldvins Guðmundssonar frá Hraunum í Fljótum. Þau bjuggu ekki saman og Helga ólst upp hjá móður sinni í Kópavogi. Helga giftist Finni Torfa Hjörleifssyni kennara, seinna lögfræðingi og héraðsdómara, 1965 og eignuðust þau 3 börn. 

Helga lauk stúdentsprófi frá Menntaskólanum í Reykjavík 1960, kennaraprófi 1963 og BA-prófi í bókasafnsfræði frá H.Í. 1977. Hún stundaði framahaldsnám í bókasafnsfræði við Oslóarháskóla veturinn 1981-2 og lauk landvarðaprófi 1989. Helga var kennari í Kópavogi 1963 til 1970 og 1972-1973. Hún vann sem bókasafnsfræðingur frá 1977, fyrst á skólabókasafni Víghólaskóla, síðan á Bókasafni Kópavogs og á bókasafni Kvennaskólans í Reykjavík áður en hún hóf störf á Borgarbókasafninu þar sem hún vann fyrst á Bústaðasafni, þá Kringlusafni og loks Ársafni, þar til hún varð að láta af störfum sökum veikinda árið 2006. Á sumrin vann hún í landvörslu í á annan áratug. Helga tók virkan þátt í ýmiskonar félagsstarfi. Hún var m.a. formaður Félags bókasafnsfræðinga 1979-1981, formaður Landvarðafélags Íslands 1990-1994, tók virkan þátt í starfi Íslandsdeildar IBBY og var meðal stofnfélaga í Náttúruverndarsamtökum Íslands.

Helga ritaði fjölda greina í blöð og tímarit, aðallega um barnabækur og barnamenningu auk þess sem hún sagði sögur bæði í útvarp og sjónvarp. Hún skráði ævisögu Ragnars Stefánssonar þjóðgarðsvarðar í bókinni Ragnar í Skaftafelli, endurminningar og frásagnir (1995). Hún tók saman tvö safnrit um íslensk náttúruljóð, Allt fram streymir (2003) og Cold was that Beauty (2002) auk þess sem hún valdi náttúruljóð í ritið Náttúrusýn (1994). Helga gaf út hefti með ljóðum, Helgudaga (1995). Þá voru birt ljóð eftir hana í bókunum Ljóðmál (1997) og Sköpun (2001). Þá þýddi Helga nokkrar barnabækur og tók að sér prófarkalestur fjölda bóka.


Ritaskrá

  • 2003  Allt fram streymir (íslensk náttúruljóð, ritstjórn)
  • 2002  Cold was the beauty  (íslensk náttúruljóð, ritstjórn)
  • 1995  Ragnar í Skaftafelli, endurminningar og frásagnir
  • 1995  Helgu dagar

 

Þýðingar

  • 2000  Litli ísbjörn, skildu mig ekki eftir einan eftir Hans de Beer
  • 1992  Lítill ísbjörn eignast vin eftir Hans de Beer
  • 1990  Hundalíf Lubba eftir Marcus Pfister
  • 1989  Lítill ísbjörn lendir í ævintýrum eftir Hans de Beer
  • 1988  Lítill ísbjörn einn í vanda eftir Hans de Beer

 

Tengt efni