Þóra Snorradóttir
Þóra Snorradóttir fæddist í Reykjavík 25. ágúst 1957. Hún andaðist 5. maí 2002. Foreldrar Þóru eru Sigurlaug Sveinsdóttir húsmóðir, f. 1929, og Snorri Sigurðsson skógfræðingur, f. 1929.
Þóra giftist Guðmundi Erlendssyni árið 1995. Þau bjuggu í Svíþjóð frá 1991 til 1998 en fluttu þá til Íslands og stofnuðu heimili í Hafnarfirði. Þóra aflaði sér margs konar menntunar. Hún var meðferðarfulltrúi og stofnaði meðferðardeild fyrir konur í Hofors kommun í Svíþjóð sem enn er starfrækt. Hún lauk BA-prófi í mannfræði við háskólann í Falun í Svíþjóð vorið 1998. Hún var einnig lærður svæðanuddari og rak nuddstofu í Falun. Hér heima starfaði hún sem námsráðgjafi í Kópavogsskóla en síðar í Lækjarskóla í Hafnarfirði.
Þóra lést úr krabbameini. Hún lét eftir sig bókarhandrit sem út kom eftir dauða hennar.
Í fjögur ár háði hún harða baráttu við krabbamein og þau átök urðu tilefni þeirrar sjálfsrýni og íhugunar sem hún skráði í þessa bók. Af fágætri einlægni rekur hún stormasamt lífshlaup sitt, hvernig hún reis upp gegn umhverfi sem henni þótti beita sig valdi og fór sínar eigin leiðir. Sú uppreisn reyndist dýrkeypt og hafði afdrifarík áhrif á heilsu hennar og hamingju. Með sögu sinni vildi hún líka miðla styrk og kjarki til þeirra sem eiga eftir að ganga svipaða sjúkdómsbraut og hún sjálf, minnug þess að sá heilbrigði á sér margar óskir, en sá sjúki aðeins eina (Bókatíðindi).
Ritaskrá
2002 Yfir djúpið breiða