ENGIN HETJUSAGA - LÍF Í SKUGGA DAUÐANS
Í dag minnumst við Þóru Snorradóttur. Hún skrifaði bók til huggunar þeim mörgu sem ganga sömu sjúkdómsbraut og hún en krabbamein varð henni að aldurtila. Lokaorð bókarinnar eru látlaus en sýna jafnframt mikinn sálarstyrk: "Ég er sátt" Þannig lýkur hún bók sinni og lífi sínu.
"Þetta hljómar efalaust öfugsnúið, en staðreyndin er sú, að ég fann til mikils þakklætis fyrstu dagana eftir aðgerðina," segir hún í bókinni. Og hún talar um þá sem hún er þakklát og fyrir hvað hún er þakklát. "Ég er elskuð," segir hún. "Þær tilfinningar sem flestir sýna mér og gefa mér hlutdeild í ná langt út yfir mörk almennrar væntumþykju, þeir eru fleiri sem virkilega elska mig en ég gerði mér grein fyrir, bæði fjölskylda og vinir. Veruleikinn er svo skarpur, orðinn svo stór, tilfinningarnar svo miklar, hver stund svo dýrmæt. Mér líður eins og ég sé nývöknuð eftir langan dvala og sé að uppgötva stórfengleik tilverunnar í fyrsta sinn."
Krabbi er etv ekki algengt yrkisefni hjá skáldum en þó hafa amk bæði Þóra og Anna Pálína Árnadóttir lýst glímu sinni við hann í bók.
Í ritdómi um bókina segir Friðrika Benónýs í Morgunblaðinu 27. nóvember 2002:
...Bókin hefst er hún vaknar eftir uppskurð og er tjáð að hún sé með krabbamein í eggjastokkum og lýkur einu og hálfu ári eftir að hún hefur fengið þann úrskurð að sjúkdómurinn hafi tekið sig upp að nýju eftir tveggja ára bataferli og hún veit að í þetta sinn verður ekki um bata að ræða. Á milli frásagnanna af þeim áhrifum sem sjúkdómurinn hafði á líf hennar og hvernig hún tókst á við hann lýsir hún svo lífi sínu fram að þeim tíma er hún veiktist. Það líf er enginn dans á rósum; systurmissir 11 ára, fóstureyðing 16 ára, mikil sorg, mikil reiði, mikill ótti og ótæpileg notkun áfengis og fíkniefna árum saman. Áfengismeðferð kemur henni síðan aftur á réttan kjöl, hún giftist, flytur til Svíþjóðar, fer í nám og er full af krafti og vongleði. Og stendur þá skyndilega frammi fyrir því að dagar hennar kunni að vera taldir. Vissulega eru slíkar fréttir mikið áfall en hún tekst á við sjúkdóminn af þeirri einurð og baráttuvilja sem áður hafði komið henni að góðu haldi við að ná tökum á alkóhólismanum. Hún þráir að lifa og leggur hart að sér til að ná heilsu á ný, en veit þó innst inni að af því muni ekki verða.
Einsog gefur að skilja er þetta átakanleg lesning. En ekki vegna þess að Þóra vorkenni sjálfri sér eða sé full af reiði og gremju. Langt frá því. Hér ríkir æðruleysið og lífsgleðin, þrátt fyrir allt: Vissulega koma þeir dagar þegar ég fyllist sorg og vonleysi og get vel hugsað mér að deyja sem snarast. ... En þá man ég eftir öllum þeim sem elska mig, ... Venjulega grípur þá lífsþorstinn mig aftur. (bls. 138).
Stíllinn er lipur og léttur og sagan rennur vel. Vissulega er stiklað á mjög stóru í lífshlaupinu en það sem mótar líf Þóru kemst vel til skila og hún hlífir sjálfri sér hvergi í lýsingunum á því hvernig ástatt var fyrir henni áður en henni tókst að snúa lífsdæminu við. Hún fer heldur ekki í felur með sorgina, óttann og þunglyndið sem krabbameininu fylgir. Reynir ekki að leika hetju. Bara lýsir því hógvært og blátt áfram hvernig það er að lifa í skugga dauðans og þakka af alhug fyrir hverja stund sem líður án þjáningar. Og það er holl og þörf lesning fyrir okkur öll sem alltof oft hættir til að líta á lífið sem sjálfsagðan hlut.
Þóra Snorradóttir bætist í skáldatalið í dag.