SKÁLD.IS

Konur skrifa um konur sem skrifa

Margrét Guðmundsdóttir (Björk) frá Bjarkarlundi

Guðrún Margrét Guðmundsdóttir, húsfreyja í Bjarkarlundi í Vestmannaeyjum, fæddist 20. júní 1909 í Reykjavík og lést 7. júlí 2000 í Hafnarfirði. Foreldrar hennar voru Guðmundur Kristjánsson verkamaður, ,,gúmmílímari“ frá Grísatungu í Mýrasýslu, síðar í Bjarkarlundi, og kona hans Guðrún Jónsdóttir húsfreyja frá Hjarðarbóli á Snæfellsnesi. Maður Margrétar var Guðsteinn Ingvar Þorbjörnsson vélstjóri, formaður og bifreiðastjóri frá Reynifelli (d. 1995).

Margrét var með foreldrum sínum í æsku, með þeim í Reykjavík og síðan í Borgarfirði. Hún var sjúklingur á Vífilsstöðum 1929-1930. Þar var Guðsteinn einnig og þar kynntust þau. Þau fluttust til Vestmannaeyja 1930. Þau Guðsteinn giftu sig 1931 og bjuggu á Reynifelli. Öll átta börn þeirra fæddust þar.  Fjölskyldan bjó á Helgafelli 1949, reistu Bjarkarlund, (Vallargötu 6) á árinu og bjuggu þar síðan, uns þau fluttust til Reykjavíkur 1967. Þau bjuggu um skeið að Vindheimum í Ölfusi, en fluttust svo til Hafnarfjarðar.

Margrét var hagyrt, samdi ljóð og þýddi undir skáldanafninu Björk. Ljóð hennar birtust í ýmsum blöðum og tímaritum og í ljóðasöfnunum Borgfirðingaljóð, Og þá rigndi blómum og í Íslensk alþýðuskáld. Auk þess orti hún og þýddi fjölda sálma, sem birst hafa í sálmabókinni Sálmar og lofsöngvar.

Árið 1996 gaf hún sjálf út ljóðabókina Bergmál, sem er úrval ljóða hennar. Í samnefndu ljóði lýsir hún því að hún hafi stolist til að skrifa, ætla má að oft hafi verið annasamt á hennar stóra heimili.

Heimild: Heimaslóð


Ritaskrá

  • 1996  Bergmál

 

Tengt efni