SKÁLD.IS

Konur skrifa um konur sem skrifa

Hrefna Tynes

Hrefna Samúelsdótttir Tynes var fædd 30. mars árið 1912. Hún var dóttir hjónanna Amalíu Rögnvaldsdóttur frá Uppsölum í Seyðisfirði við Ísafjarðardjúp og Samúels Jóns Samúelssonar frá Áltafirði vestra. Hún ólst upp í foreldrahúsum hjá ástríkum foreldrum ásamt 5 systkinum. 

Hrefna fór 16 ára til Siglufjarðar og starfaði þar á skrifstofu bæjarfótgeta. Þar kynntist hún tilvonandi eiginmanni, Sverre H. Tynes. Hann var norskur, en fluttist til Siglufjarðar að afloknu námi í Tækniskóla í Bergen. Sverre og Hrefna gengu í hjónaband 3. október 1931. Síðar fluttu þau til Noregs og dvöldu þar um 7 ára skeið, þar á meðal öll stríðsárin.

Hrefna stofnaði kvenskátafélag á Siglufirði 2. júní árið 1929. Stuttu eftir komuna til Noregs stofnaði Hrefna skátafélag sem gekk mjög vel, en þegar Þjóðverjar hernámu Noreg bönnuðu þeir starfsemi skátahreyfingarinnar, að viðlagðir þungri refsingu. Síðar tók Hrefna við telpnafélagi. Þar var aldrei minnst á orðið ,,skáti", en þeir sem þekktu til vissu að þetta félag var grein á skátastofni. Strax eftir stríð var svo stofnað nýtt skátafélag.

Hrefna og fjölskylda hennar fluttist aftur heim til Íslands árið 1946. Litlu síðar gerðist hún félagsforingi Kvenskátafélags Reykjavíkur og var hún þar í 10 ár. Einnig var hún forstöðukona Kvenskátaskólans að Úlfljótsvatni. Varaskátahöfðingi var Hrefna árin 1948-1968. Eftir það hóf hún störf í St. Georgsgildi Reykjavíkur.

Hrefna hefur unnið mikið og gott starf við Neskirkju í Reykjavík. Hún var 10 ár formaður kirkjukórs Neskirkju og hún hefur síðustu 2 árin verið formaður kvenfélags Neskirkju. Hrefna hefur í mörg ár aðstoðað við barnastarfið í kirkjunni og verið í nokkur ár í sóknarnefnd Neskirkju .

Zontaklúbbur Reykjavíkur hefur notið starfskrafta hennar og hefur hún seti þar í stjórn og einnig í Norðurlandastjórn klúbbsins.

Hrefna vann í 10 ár hjá Æskulýðsráði Reykjavíkur, tíu ár við æskulýðstarf þjóðkirkjunnar, á biskupsstofu nokkur ár og einnig sat hún um skeið í stjórn Hjálparstofnunar kirkjunnar. 

Hrefna hefur verið sæmd æðstu heiðursmerkjum skátahreyfingarinnar á Íslandi og sömuleiðis sæmdi forseti Íslands hana hina Íslensku Fálkaorðu.

Heimild: Tendraðu ljós Hrefna Tynes 1992

,,Árið 1992 kom út lítil ljóðabók með ljóðum og smásögum Hrefnu Tynes. Bandalag íslenskra skáta gaf út í tilefni 80 ára afmælis Hrefnu þann 30. mars 1992. Nafn bókarinnar ,,Tendraðu ljós", lýsir einstaklega vel lífi og starfi Hrefnu. Hún hefur frá unga aldri verið óþreytandi, í söng og sögum, að miðla öðrum af sinni lífsgleði sem lætur engan ósnortinn sem er samvistum við hana eða til hennar heyrir, hvort sem þeir eru ungir eða aldnir.

Sögur og söngvar Hrefnu hafa verið skátum einstakur fjársjóður sem þeir meta og þakka. Það er einmitt tilgangurinn með þessari bók að svo verði áfram.

Að eignaast á unga aldri hugsjón og trú er dýrmætt, en það er fáum gefið að lifa eftir og berjast fyrir hugsjón sinni æfilangt. Í kveðjubréf sínu til skáta segir Baden-Pawell meðal annars; ,,Reyndu að kveðja þennan heim ofurlítið betri og fegri en hann var þegar þú komst í hann, þá veistu að þú hefur ekki lifað til einskis." Eftir þessari lífsýn hefur Hrefna svo sannarlega tekist að lifa. Efni þessarar bókar er að mestu til orði á lifandi vettvangi, með fólki, við leik og störf, og lesendur njóti hennar með það í huga.

f.h ritnefndar Ingibjörg Þorvaldsdóttir".

sjá einnig;

Morgunblaðið - 109. tölublað (17.05.1994) - Tímarit.is (timarit.is)


Ritaskrá

  • 1992  Tendraðu ljós

 

Tengt efni