SKÁLD.IS

Konur skrifa um konur sem skrifa

Anna María Bogadóttir

Anna María Bogadóttir er fædd 2. júní 1972 á Akureyri.

Anna María lauk stúdentsprófi frá Menntaskólanum í Reykjavík 1992 og BA-prófi í frönsku frá HáskólaÍslands 1996, einnig lauk hún námsbraut í hagnýtri fjölmiðlun frá sama skóla. Hún lauk meistararáðu í arkitektúr frá Columbia Háskóla í New York árið 2009 en hafði áður starfað í um áratug við menningar- og sýningarstjórn á Íslandi og Danmörku og lokið M.A. gráðu í menningarfræði og M.Sc. gráðu í stafrænni hönnun og miðlun.

Anna María er löggiltur mannvirkjahönnuður, skipulagsráðgjafi og dósent við arkitektúrdeild Listaháskóla Íslands. Hún er eigandi fyrirtækisins Úrbanistan, en á heimasíðu hennar segir að hún leggi ,,áherslu á menningar- og félagslegar hliðar arkitektúrs sem hún nálgast frá sjónarhóli daglegs lífs í samhengi flókinna kerfa og hvata". Einnig segir þar að Anna María vinni ,,með arf, frásagnir og miðlun sem umbreytandi afl í byggðu umhverfi og verk hennar finna sér farveg þvert á miðla á vettvöngum arkitektúrs, ritlistar og sjónlista."

Árið 2022 sendi Anna María frá sér bókina Jarðsetning sem vakti mikla athygli, hlaut frábæra dóma og tilnefningu til Bókmenntaverðlauna Norðurlandaráðs. Í rökstuðningi dómnefndarinnar segir meðal annars:

Hvernig mótar umhverfið okkur sem manneskjur? Hvernig er best að vinda ofan af þeirri hugmynd að uppsprettur jarðar séu ótæmandi? Þetta eru meðal þeirra spurninga sem Anna María Bogadóttir arkitekt spyr í bókverkinu Jarðsetningu. [...]

Samhliða eigin þroskasögu stiklar höfundur, í fyrstu persónu frásögn, á stóru í því samfélagsumróti sem orðið hefur vegna tæknibreytinga, aukinnar alþjóðavæðingar og sífellt umfangsmeiri áhrifa kapítalismans. Eftir því sem sjóndeildarhringurinn stækkar fara efasemdir hennar um ágæti ýmissa kerfa að hreiðra um sig og Anna María gerir sér sífellt betur grein fyrir því að yfirborð og innihald fara ekki endilega saman. Í stað þess að lesa aðeins bækur og ljóð fer höfundur markvisst að lesa hús til að fá innsýn í tungumál þeirra og táknkerfi.  

Allan rökstuðninginn má lesa á heimasíðu Norðurlandaráðs.

Myndin af Önnu Maríu er tekin af heimasíðu hennar.


Ritaskrá

  • 2022  Jarðsetning. Skáldævisaga

 

Verðlaun og viðurkenningar

  • 2022  Gullverðlaun FIT fyrir bókarkápu (Jarðsetning)
  • 2022  Silfurverðlaun FIT fyrir bókahönnun (Jarðsetning)

 

Tilnefningar

  • 2024  Til Bókmenntaverðlauna Norðurlandaráðs fyrir Jarðsetningu.
  • 2023  Til Hönnunarverðlauna Íslands fyrir Jarðsetningu.
  • 2022  Til Viðurkenningar Hagþenkis fyrir Jarðsetningu.

 

 

Heimasíða

https://www.urbanistan.is/stofan

Tengt efni