SKÁLD.IS

Konur skrifa um konur sem skrifa

Ragnheiður Jónsdóttir

Ragnheiður Jónsdóttir fæddist 20. nóvember 1935 í torfbæ, Svertingsstöðum í Miðfirði. Foreldrar hennar voru Hólmfríður Bjarnadóttir (1891-1981) og Jón Eiríksson (1885-1975). Ragnheiður var yngst ellefu barna þeirra sem öll komust til manns og fengu einhverja framhaldsmenntun.

Ragnheiður var kennari í Hlíðaskóla, síðan í Hafralækjarskóla og setti þar upp sumarhótel og rak í þrjú sumur. Hún sá um heimavistina og setti upp leikrit nemanda.

Eftir nám í bókasafnfræði varð Ragnheiður skólasafnakennari í Melaskóla, sögukonan góða á safninu, eins og börnin i skólanum kölluðu hana gjarnan. Nokkur sumur vann Ragnheiður sem aðstoðarkokkur í fjallaferðum hjá Úlfari Jacobsen og sjö sumur sem landvörður; fjögur ár í Skaftafelli og þrjú ár í Herðubreiðarlindum.  

Ragnheiður var mikil unnandi bókmennta, sérstaklega ljóða. Sjálf gaf hún ekki út skáldskap en haft er fyrir satt að hún hafi verið „músa“ nokkurra skálda. Ragnheiður gaf hins vegar út endurminningar sínar árið 2021, 86 ára gömul. Í formála að endurminningunum skrifar hún: „Eftir því sem tíminn leið varð mér ljósara hversu frábrugðin bernska mín er því lífi sem við lifum nú, og mig langaði til að varpa á hana ljósglætu."

Ragnheiður samdi námsefni fyrir skólabókasöfn og fyrir nýbúa - Lesið, hlustið, lærið íslensku - og skrifaði nokkrar greinar sem birtust í tímaritum. Í greininni Um kennslu í Íslandssögu, sem birtist árið 1984 í Nýjum menntamálum, benti hún á rýran hlut kvenna í kennslubókum í sögu.  Sú grein vakti töluverða athygli og umtal.  

Ragnheiður á fjórar dætur: Huld, Friðbjörgu, Helgu og Þóru Ingimarsdætur. Hún er búsett í Reykjavík.

 


Ritaskrá

  • 2021  Ég átti flík sem hét klukka (endurminningar) 
  • 2016  500 Vísur og viðlög (Ragnheiður tók saman)
  • 2006  Lesið, hlustið og lærið íslensku (námsefni og hljóðrit fyrir nýbúa)
  • 1985 Skólasafnið og hlutverk þess“, Ný menntamál, 3 (2): bls. 32-36
  • 1984  „Um kennslu í Íslandssögu“, Ný menntamál, 2 (1): bls. 22-26

Tengt efni