GAF ÚT BÓK 86 ÁRA GÖMUL!
Ragnheiður Jónsdóttir (f. 1935) gaf út sína fyrstu bók 86 ára gömul. Bókin inniheldur endurminningar Ragnheiðar og ber skemmtilegan titil: Ég átti flík sem hét klukka (2021).
Þeir sem hafa lifað tvenna tíma finna oft hjá sér þörf fyrir að greina afkomendum sínum og öðrum frá því sem þau reyndu á eigin skinni en er með öllu horfið og því miður öllum gleymt, sem ekki sækjast sérstaklega eftir sagnfræðilegum fróðleik. Ragnheiður skrifar einmitt í formála að endurminningum sínum:
Eftir því sem tíminn leið varð mér ljósara hversu frábrugðin bernska mín er því lífi sem við lifum nú, og mig langaði til að varpa á hana ljósglætu.
Við bjóðum Ragnheiði Jónsdóttur velkomna í Skáldatalið okkar, hún á fyrir tvær alnöfnur í Skáldatalinu og þar er líka færsla um dótturdóttur hennar Ragnheiði Eyjólfsdóttur (og Friðbjargar).