
Rannveig Tómasdóttir
Rannveig Tómasdóttir fæddist í Reykjavík 31. júlí árið 1911. Hún var dóttir Rannveigar Jónasdóttur húsmóður og Tómasar Tómassonar, slátrara, en þau höfðu bæði gengið í skóla í Danmörku. Bróðir Rannveigar var Tómas Tómasson rakarameistari. Þau systkinin voru bæði ógift og barnlaus og héldu heimili með móður sinni þar til hún lést og síðan saman.
Rannveig lauk barnaskólaprófi frá Miðbæjarskólanum og útskrifaðist úr Verslunarskóla Íslands 1930. Hún nam að auki fjölda tungumála við Háskóla Íslands sem kom sér vel á ferðum hennar um heiminn. Rannveig vann alla sína ævi hjá Hagstofu Íslands og var virk í starfi Menningar- og friðarsamtaka íslenskra kvenna (MFÍK). Árið 1956 hélt hún til Stokkhólms á ráðstefnu MFÍK og hélt þar erindi. Þar myndaði hún einnig tengsl sem auðveldaði henni að ferðast til fjarlægra heimsálfa.
Rannveig sendi frá sér þrjár bækur um ferðalög sín, Fjarlæg lönd og framandi þjóðir (1954), Lönd í ljósaskiptunum (1957) og Andlit Asíu (1962). Auk þeirra skrifaði hún greinar, hélt fyrirlestra og flutti útvarpsþætti á árunum 1955-1965. Þess má geta að Andlit Asíu, var eina bókin eftir konu í útgáfu Máls og menningar á 12 bókum í tilefni 25 ára afmælis útgáfufélagsins árið 1962.
Rannveig lést í Seljahlíð, við Hjallasel í Reykjavík, 1. apríl árið 2005.
Ritaskrá
- 1962 Andlit Asíu
- 1957 Lönd í ljósaskiptunum
- 1954 Fjarlæg lönd og framandi þjóðir