SKÁLD.IS

Konur skrifa um konur sem skrifa

Elísabet Geirmundsdóttir

Elísabet var fædd í Geirshúsi, Aðalstræti 36 á Akureyri, 16. febrúar 1915, og þar í fjörunni bjó hún og starfaði. Ung giftist hún Ágústi Ásgrímssyni og áttu þau þrjú börn. Saman reistu þau húsið í Aðalstræti 70 eftir teikningu hennar. Garðurinn umhverfis er prýddur ýmsum myndverkum eftir hana. Milli húsverka, barneigna og margs konar anna sinnti hún list sinni af  ótrúlegum krafti og hugmyndaauðgi. Það er eins og hana hafi grunað að hún hefði skamman tíma, hún lést 9. apríl 1959, aðeins 44 ára að aldri.

Elísabet var ótrúlega fjölhæf í listsköpun sinni. Hún gerði listaverk úr hverju því efni sem henni barst í hendur, sumum forgengilegum eins og snjó, öðrum eilífum eins og orðum og höggmyndum. Kunnust varð hún fyrir myndverk sín en hún var einnig ágætt skáld og lipur lagasmiður. Um Elísabetu og verk hennar er bókin Listakonan í fjörunni sem kom út 1989, þar má lesa áður óbirt ljóð hennar.

Árið 2015 voru 100 ár liðin frá fæðingu Elísabetar. Á þeim tímamótum færðu Ásgrímur og Iðunn Ágústsbörn Minjasafninu á Akureyri listaverkasafn móður sinnar til eignar og varðveislu. Á afmælisárinu var haldin vegleg yfirlitssýning á verkum listakonunnar í fjörunni í Listasafninu á Akureyri. Útþrá, höggmynd og útilistaverk eftir Elísabetu úr bronsi, var sett upp á Akureyri við tjörnina í Innbænum, gegnt Minjasafninu.


Ritaskrá

  • 1989 Ljóð Elísabetar eru í bók um hana, Listakonan í fjörunni 

Tengt efni