SKÁLD.IS

Konur skrifa um konur sem skrifa

Steinunn Inga Óttarsdóttir25. júlí 2020

„EINS OG HULDUKONUR Í SÖGU ÞJÓÐARINNAR“ - Viðtal við Hildi Hákonardóttur

Hildur Hákonardóttir, veflistakona og rithöfundur, hefur undanfarið unnið að afar áhugaverðu verkefni. Í smiðju hennar er sagnfræðilegt skáldverk sem fjallar um biskupsfrúr á Íslandi og kom fyrra bindi verksins út hjá bókaútgáfunni Sæmundi 2019.

Vitað er að saga alþýðukvenna fyrri alda er að miklu leyti týnd og gleymd en ætli sama máli gegni um konur af æðri stéttum? Elsta biskupsfrúin sem kemur við sögu í bókinni er fædd fyrir 500 árum, hvar getum við mögulega grafist fyrir um ævi hennar og örlög? Hildur er morgunhani og afar vinnusöm en féllst á að taka smá stund í spjall um verk sitt og hvernig skáldskapur og sagnfræði eru samofin.

Sögurnar í bókinni þinni um ævi og örlög biskupsfrúnna eru sjö talsins og aðrar sjö bíða eftir að röðin komi að þeim því önnur bók er í smíðum. Hvað kom til að þú fórst að skrifa um þessar konur?

Ég vildi gera þessar konur sýnilegar og komast að því hvort það að vera biskupsfrú væri starf, embætti, hlutverk eða blanda af þessu öllu. Saga þeirra hefur aldrei verið skráð en hún er merkileg um margt. Ég varð svo smám saman knúin af einhverju utanaðkomandi afli, eins og þær ættu eitthvað ósagt við mig. Þær vöktu mig að morgni, kröfðust þess að ég leitaði í heimildum og skrifaði niður, létu mig eiginlega aldrei í friði.

Af hverju er bókin í samtalsformi?

í ferlinu í gegnum mistur aldanna þróaðist sérstakt samband. Við kynntumst svo vel og urðum nánar. Ég lærði samtalsformið af vini mínum sem skrifar smásögur og fannst tilvinnandi að reyna að nota það til að koma staðreyndaflaumi í læsilegan texta.

Hversu nánar eruði?

Mér finnst ég nú orðið þekkja þær og tel þær séu eru orðnar vinkonur mínar.

Hvað kallaði á að skrifa þessa bók?

Tilgangurinn með skrifunum má segja er að svala forvitni minni. Ræturnar liggja aftur í textílsögunni og þeim mun sem mér fannst vera á kvennamenningu fyrir norðan og sunnan í sambandi við listir og handverk. Þá gerði ég mér grein fyrir að ég vissi ekkert um konurnar í Skálholti. Það dugði lítið að gúggla þær. Það var ekki einu sinni vissa fyrir að finna þær sem neðanmálsgreinar hjá biskupunum, eiginmönnum þeirra. Þær eru eins og huldukonur í sögu þjóðarinnar. Höfðu þær áhrif í þá veru að móta heimilishald eða uppeldi? Skapaði vera þeirra í Skálholti einhvern menningarauð sem við búum enn að? Auðveldasta leiðin var að skrifa ævisöguágrip en það kostaði mig mikið grúsk. En svo komu þær sjálfar mér til hjálpar. En í svona tímaflakki þarf ég stundum að ímynda mér tilfinningar þeirra.

Ertu þá að tala um skáldskap eða sagnfræði?

Það er áreiðanlega svolítið erfitt að skilgreina hvar biskupsfrúrnar liggja - þetta er ekki hefðbundin fræðibók og á ekki að vera það. En samt byggir hún að svo miklu leyti sem mér er unnt á upplýsingum sem við höfum um þessar konur, tíðarandanum og sambandinu milli þeirra sem á eftir að koma betur í ljós eftir því sem á líður. Ég reyni að líma þessar upplýsingar saman með því að notfæra mér aðferðir skáldskaparins.

Einmitt, að nýta heimildir á skapandi hátt lýsir þessu ágætlega. Er ekki þarna safaríkur efniviður í sögulega skáldsögu?

Ég hlýt að vera að skapa og skálda, þótt ég sé að þrjóskast svolítið við að viðurkenna það, af því ég byggi nær allar frásagnir á einhvers konar heimildum. Þótt ég sé að forðast að skálda eru tilfinningar samt límið sem heldur frásögn saman og skapar tilgang. Þegar ég bæti við einhverju frá eigin brjósti bíð ég góða stund, jafnvel nokkrar vikur og tel mig skynja ef ég hef farið út af sporinu. Samtalið og grúskið verða að leiða að niðurstöðunni ef hún er þá einhver en ef ég færi að skálda mér til skemmtunar þá getur sú niðurstaða ekki orðið trúverðug. Ég treysti ekki á skáldgáfu mína til að ímynda mér líf þessara kvenna í smáatriðum. Þær eru of margar og viðfangsefnið of stórt. Dramatískar ættarskáldsögur í nokkrum bindum eru heldur ekki í tísku. Það sem ég setti mér í upphafi var að draga fram í dagsljósið eitthvað sem nálgast veruleikann. En það er satt, að ég er sjálfsagt búin að afla nóg af efni í skáldsögu og það í fleiri en eina...

Hvernig vinnur þú að þessu verki? Ertu með vinnuaðstöðu heima? Hvað er vinnudagurinn langur?

Ég horfi sáralítið á sjónvarp eða þætti, baka hvorki né prjóna en vakna oftast snemma, jafnvel klukkan fimm, og styð þá á takka sem breytir rúminu mínu í þægindastól. Teygi mig eftir tölvunni og vinn svo marga klukkutíma í beit mikið til ótrufluð af utanaðkomandi áhrifum nema ég kíki á tölvupóstinn þegar líður á morguninn til að vita að allt sé í lagi með fólkið mitt og vini, svo sinni ég skilaboðum og les fréttafyrirsagnir rúv og erlenda fréttapósta, næstum til að hvíla mig eða til að gefa hugarfluginu svolítið nýja vídd. Um hádegi er ég þá búin að afkasta því sem svarar nánast heilum vinnudegi.

Þú sendir nýlega frá þér þýðingu, ásamt Elísabetu Gunnarsdóttur, á skáldsögu eftir H. D. Thoreau og hrepptir þýðingarverðlaunin fyrir. Ertu að þýða eitthvað núna?

Þýðingin af Walden kom óvart. Það var í desember og dimmt nær allan sólarhringinn og ég fór að velta fyrir mér af hverju bókin hefði aldrei verið þýdd á íslensku. Var þetta svona erfiður texti eða hvað? Elísabet hafði þá þýtt Borgaralega óhlýðni og átti fannst mér að þýða Walden líka en hafði sig ekki í það. Svo ég fór bara að fikta til að vita hvort þetta væri mjög erfitt. Ég festist svo yfir þessu og var komin aftur í þriðja kafla að lausþýða þegar ég hringdi í Betu og sagði henni hvernig komið var. Svo unnum við þetta saman. Þetta var ekki eins manns verk nema þá fyrir þaulvana.

Megum við eiga von á fleiri bókum frá þér sem eru sprottnar úr safaríkum efniviði sögulegra heimilda?

Ég ætti að vera sest í helgan stein en gengur víst illa að læra að hætta, segir Hildur en lætur spjallinu lokið. Ég er ekki frá því að biskupsfrúrnar hafi staðið þétt saman álengdar og séð til þess að hún færi ekki með neitt fleipur.

22. júli 2020

Steinunn Inga Óttarsdóttir

 

 

 

Tengt efni