SKÁLD.IS

Konur skrifa um konur sem skrifa

Jóna Guðbjörg Torfadóttir21. ágúst 2022

„GAMLAR KONUR ERU TIL ALLS LÍKLEGAR“ - Viðtal við Sigurlín Bjarneyju Gísladóttur

Sigurlín Bjarney Gísladóttir hefur sent frá sér ljóð, smásögur og nóvellur og hlotið lof fyrir. Á dögunum kom út hennar níunda verk sem ber nafnið Sólrún og fjallar um samnefnda konu sem er komin vel við aldur. Hún dvelur í þjónustuíbúð fyrir aldraða en lætur sig hverfa þaðan og ferðast á puttanum norður í land, til að afgreiða óuppgert mál. Sagan er um margt forvitnilegt og því var ekki úr vegi að hlusta ofan í Sigurlín Bjarneyju og heyra nánar um tildrög verksins. Ég lét því spurningarnar dynja á henni:
 
 
Þú hefur fram að þessu fengist meira við styttra form, ljóð, ör- og smásögur. Finnst þér stór munur á verklagi við að skrifa lengri texta?
 
Mér finnst vera stór munur en hann felst aðallega í því að skáldsaga krefst lengri samfells tíma í ritun til að sagan nái að vera heildstæð og að ég nái að halda utan um persónurnar og alla þræði. Ljóð og styttri textar þola það alveg ef ég get ekki setið við löngum stundum. En svo er líka margt líkt með öllum skrifum, sama hvert formið er, þetta er alltaf sama fálmið í byrjun sem tekur smám saman á sig mynd með endalausum lagfæringum og breytingum.
 
 
Hvenær finnst þér best að skrifa og hvernig? Bíður þú eftir að fá innblástur eða sestu niður á ákveðnum tímum og byrjar að skrifa? Ertu alltaf með eitthvað ákveðið efni í huga áður en þú hefst handa?
 
Þegar ég hef tíma til að skrifa (sem kemur í tímabilum) skrifa ég helst á morgnana og set mér ákveðna reglu um orðafjölda á dag. Það er svo allur gangur á því hvort textinn fái síðan að vera með þegar ég endurskrifa. Í dagsins amstri geta hugmyndir, orð og setningar komið til mín og þá skrifa ég þær hjá mér. Þessar hugmyndir/orð/setningar koma hér og þar, alls ekki alla daga, stundum er ekkert að gerast og engar hugmyndir kvikna í nokkra mánuði og svo geta komið stakir dagar þar sem þær koma á færibandi. Ef ég sest niður til að skrifa get ég síðan skoðað stílabókina og ef hugmynd/orð/setning kalla ennþá á mig get ég notað efnið í sögu eða ljóð. Ef ég er að vinna í afmörkuðu verkefni leyfi ég jafnvel þeim hugmyndum sem kvikna meðan á því ferli (handriti) stendur að rata inn í verkið.
 
 
Til hamingju með nýju skáldsöguna. Hún er skemmtileg aflestrar og vekur margar spurningar, á borð við hvernig varð hugmyndin að sögunni til? Við lesturinn koma upp í hugann sögur á borð við Gamlingjann sem skreið út um gluggann og bíómyndin Börn náttúrunnar sem er einnig nefnd í sögunni en þá tengingu kærir Sólrún sig ekki alls kostar um. Höfðu vegasögur einhver áhrif á þína sköpun?
 
Takk fyrir! Ég held að hugmyndin hafi kviknað út frá því að skrifa um gamla konu. Þegar ég byrjaði að skrifa sem mest, rétt fyrir aldamótin, þá tók ég eftir því að persónurnar mínar voru ýmist börn eða gamalmenni. Kannski heilla þau mig af því þau standa að einhverju leyti fyrir utan brauðstritið og horfa ferskum augum á hversdagsamstrið. Vegasögur hafa örugglega haft mikil áhrif á mig og ferðaþráin, þörfin fyrir að komast eitthvert, komast burt og/eða komast á ákveðinn stað.
 
Er einhver sérstök ástæða fyrir því að þú velur áttræða konu sem sögumann, fremur en konu nær þér í aldri? Og hvernig gekk að setja sig í spor hennar. Á hún sér einhverja fyrirmynd í raunveruleikanum?
 
Ég hreinlega veit ekki af hverju ég valdi að hafa sögumanninn áttræða konu, kannski af því að mér þykja gamlar konur svo áhugaverðar. Þetta eru konurnar sem halda heiminum uppi. Þær eru hoknar af reynslu og eru alls konar en samfélagið setur þeim þröngar skorður og gefa þeim ekki nógu sterka rödd (það sama á reyndar við um konur á öllum aldri). Ég las einhvers staðar að þegar gömul kona snertir mann, leggur hönd sína á bak eða höfuð manns, þá fylgja því miklu færri tabú en fyrir manneskjur af öðrum kynjum og á öðrum aldursskeiðum. Það eru svo margar mýtur sem fylgja gamlingjum og gaman að fara inn í þær og reyna að snúa upp á þær, vonandi tekst mér það stundum.
 
 
Sólrún ferðast norður í land og staldrar við á stöku stað. Hvers vegna Norðurlandið? Ertu mögulega kunnug staðháttum?
 
Stundum vilja persónurnar mínar eitthvað og þá er mitt að hlýða. Ég veit ekki af hverju Norðurlandið varð fyrir valinu frekar en Austurland. Ég þekki ekkert betur til Norðurlandsins frekar en hver annar. Reyndar hefur mér alltaf þótt Mývatnssveitin heillandi og einstakur staður. Þar erum við ekki með sjó, ekki þorp heldur sveit og náttúrufegurð og einhvern kraft sem er hvergi annars staðar á landinu.
 
 
Það er svo fallegt og eðlilegt ástarsamband Sólrúnar og Birnu. Það er nú ekki ýkja algeng að fjallað sé um ástir eldri borgara í skáldsögum og því síður ástir samkynhneigðra. Það er stundum engu líkara en að eldra fólk lifi ekki kynlífi. Ertu þarna meðvitað að sporna gegn slíkum fordómum?
 
Já, auðvitað vil ég sporna gegn þessum fordómum. Hver ákvað það að maður hætti að breytast, hætti að upplifa alls konar tilfinningar og glati kynlöngum þegar árin færast yfir? Mér finnst svo heillandi að sjá að þrátt fyrir aldurinn spriklar áfram innra með okkur fimm ára krakki í ævintýraleik, tíu ára krakki í eltingaleik og tvítug stelpa á balli og áhyggjufull þrítug móðir og allt samtímis. En á sama tíma erum við líka að breytast allt lífið, sjálfið er ekki sú fasta stærð sem við höldum að það sé.
 
 
Skilin milli raunveruleikans og handanheims eru ekki alltaf skýr. Þá er sumt jafnvel í anda rammíslenskra draugasagna sem vekja með mani hroll, a.m.k. fór hrollur um þennan lesanda þegar Sólrún kvaddi hjónin á bænum þar sem hún gisti. Er dauðinn voveiflegur?
 
Já mér finnst ferlegt að þurfa að deyja, ég væri alveg til í að lifa við góða heilsu til ca. 150 ára aldurs, mér finnst að vísindin mættu alveg kippa þessu í liðinn. En ég held líka að þegar árin færast yfir þá vilji maður ekki síður flýja sjúkdóma, þjáningu og áföll en þau eru hluti af lífinu, ekki síst þegar árin færast yfir. Það er því flókið að eldast og jafnvel stundum hrollvekjandi.
 

Hver er megintilgangurinn með sögunni um Sólrúnu, annar en augljóst skemmtanagildi? Hefur þú einhvern sérstakan boðskap í huga með verkinu?
 
Kannski gæti boðskapurinn verið að gamlar konur eru til alls líklegar, þær eru hoknar af reynslu sem getur bjargað heiminum frá sjálfum sér.
 
 
Ertu komin með hugmynd að öðru verki eða er það jafnvel í smíðum – og ef svo er, hvers konar verk er það?
 
Ég hef verið með stórt verk í smíðum, sögulega skáldsögu, en á ennþá langt í land með að klára hana.
 
 
Ég þakka Sigurlín Bjarneyju kærlega fyrir gott spjall og mæli eindregið með bókinni um hana Sólrúnu.

 

Tengt efni