SKÁLD.IS

Konur skrifa um konur sem skrifa

Guðrún Steinþórsdóttir11. maí 2022

„VIÐ ÞURFUM SÍFELLT AÐ VERA AÐ TELJA LYKKJURNAR OG HAFA AUGUN Á PRJÓNUNUM“ - Viðtal við Ewu Marcinek

Á dögunum kom út bókin Ísland Pólerað eftir Ewu Marcinek þar sem birtast stuttir prósar um líf pólskrar konu sem flytur til Íslands með öllum þeim vandkvæðum sem því fylgir. Með íróníu en hlýju í senn, dregur Ewa listilega upp kostulegar aðstæður og spaugileg samtöl um leið og hún segir frá sárri reynslu. Þótt verkið sé fyrsta útgefna bók skáldkonunnar hefur hún verið afar virk í íslensku bókmenntalífi síðustu ár. Ewa er ein af stofnendum Ós pressunnar og samtakanna Reykjavík Ensemble. Hún er einn af höfundum ljóðabókarinnar Pólifóníu af erlendum uppruna sem kom út á síðasta ári og var einnig hugvekjuhöfundur Tímarits Máls og menningar árið 2021. Við spjölluðum við Ewu um nýju bókina og íslenskt menningarlíf.

Innilega til hamingju með nýju bókina. Ísland pólerað er flottur titill; hvernig kom hann til sögunnar?

Takk fyrir! Titillinn er leikur með ensku orðin Polish og to polish. Helga Soffía Einarsdóttir þýddi bókina og titilinn og ég var mjög heppin að hann virkaði líka á íslensku. Titillinn vísar í láglaunastörf sem reyna líkamlega á, eins og þrif, sem er oft fyrsta starfið sem fólk tekur að sér þegar það flytur til landsins. Ég vann sem þjónn í sex ár eftir að ég fluttist hingað. Að pólera er tilbreytingarlaus og leiðinleg iðja en hún veitir tíma til að taka eftir og hugsa.

 
 

Átti bókin sér langan aðdraganda?

Ég byrjaði að skrifa hana 2015 í alþjóðlegri vinnustofu fyrir konur sem var skipulögð af Borgarbókasafninu, W.O.M.E.N á Íslandi (samtökum kvenna af erlendum uppruna) og Bókmenntaborg UNESCO. Angela Rawlings, ljóðskáld og listakona, var kennarinn og varð síðar mentorinn minn og góðvinkona. Í vinnustofunni stakk Angela upp á að ég léki mér með mismunandi tungumál og skrifaði um eigin reynslu.

Þarna streymdi fyrsta smásagan út úr mér, ég hafði svo mikið að segja. Í meira en ár, hafði ég byrgt inni allt sem hafði komið fyrir mig og setið á tilfinningum mínum. Skrifin voru ákveðin hreinsun. Langur prósatexti passaði ekki fyrir hugsanir mínar og upplifun svo ég skrifaði þær í formi ljóða og örsagna. Samtals tók það mig þrjú til fjögur ár að klára handritið þótt ég hafi oft lagt það alveg frá mér. Árið 2020 var leikritið Polishing Iceland frumsýnt. Sú reynsla hvatti mig til að ljúka við textann að fullu og senda handritið á Forlagið.

 

Hvernig var að sjá textann fluttan á sviði?

Það var mögnuð upplifun og frábært ferðalag að sjá textann fluttan á sviði. Það veitti mér hugrekki til að hafa samband við útgefendur en hins vegar var tíminn á meðan á uppfærslunni stóð svolítið yfirþyrmandi þar sem sagan er sjálfsævisöguleg. Ég var mjög hrifin af því hvernig leikstjórinn, Pálína Jónsdóttir, bjó til líkamlegan gjörning úr verkinu þar sem hreyfingin ber uppi orðin. Það var mér mikil ánægja að vinna með alþjóðlegum hópi af hæfileikaríku fólki. Sagan ferðaðist þannig frá persónulegri reynslu, í gegnum rithöfundinn og síðan sýn leikstjórans og yfir til leikaranna á sviðinu. Við Magdalena Tworek, sem lék aðalhlutverkið, grínumst ennþá með það að hún hafi leikið mig eða jafnvel verið ég.

Þetta er ekki eina aðkoma þín að leikhúsi því þú ert verkefnastjóri hjá samtökunum Reykjavík Esemble. Geturðu sagt okkur frá þeim samtökum og starfi þínu þar?

Við Pálína Jónsdóttir stofnuðum Reykjavík Ensemble saman árið 2019. Við erum íslenskt-pólskt tvíeyki sem brennur fyrir röddum innflytjenda í okkar samfélagi. Við höfum framleitt þrjár leiksýningar og tvær stuttmyndir í samvinnu við listamenn með íslenskan og erlendan bakgrunn. Planið er að setja næstu leiksýningu á svið vorið 2023. Í millitíðinni kennum við og vinnum í samstarfi við fólk á norðurlöndunum og í Evrópu að því að skapa listræn tækifæri fyrir innflytjendur og framleiðum ný og frumleg verk.

Þú lýsir Íslandi pólerað sem innflytjendasögu og það er aldeilis ánægjulegt hversu sýnilegir innflytjendur eru loksins að verða í íslensku bókmenntalífi. Hvað heldurðu að hafi kallað fram þessa breytingu?

Ég held að tímasetningin hafi skipt sköpum. Við erum mjög heppin á Íslandi. Þetta er fámennt samfélag sem gerir það að verkum að hægt er að innleiða góðar hefðir og jákvæðar breytingar á styttri tíma en nokkurs staðar annars staðar. Í samfélaginu okkar eru rúm fimmtán prósent fyrstu kynslóðar innflytjendur svo þetta er einfalt reikningsdæmi, það er jafnhátt hlutfall á hvaða sviði sem er, þar með talið í listum og menningu. Listamenn sem fæddir eru erlendis skortir stundum tækifæri og sumir eru enn að reyna að finna sinn stað í nýju landi en við höfum verið hér í svolítinn tíma. Þökk sé vilja og áhuga borgar-, ríkis- og listastofananna er hægt að byggja brýr og þar með auka sýnileika listsköpunar sem endurspeglar betur fjölbreytileika samfélgsins.

 

Í þakkarorðum í bókinni þinni talar þú um að mikil gleði fylgi því þegar nýr rithöfundur sendir frá sér bók og bætir við: „Þegar nýr rithöfundur er líka innflytjandi og fær bók sína útgefna hjá þekktum íslenskum útgefanda þrefaldast gleðin.“ Hvernig finnst þér staða innflytjenda almennt vera í íslensku lista- og menningarlífi?

Ég held að listamenn af erlendum uppruna séu heppnir að vera hér en samt er margt sem þarf að bæta. Við verðum að muna að um er að ræða mjög viðkvæman hóp sem skortir oftast fjárhagslegan stuðning, fjölskyldutengsl, fagleg tengsl, skilning á kerfinu og gott vald á íslensku. Það er mikilvægt að vera meðvitaður um það ef við viljum að listamenn af erlendum uppruna upplifi sig velkomna.

Lykillinn er mikilvægt tákn í bókinni og jafnvel einhvers konar leiðarstef. Geturðu útskýrt margræða merkingu hans?

Bókin byrjar á örsögu af pólskum innflytjanda sem týndi lyklinum sínum. Þegar hann hefur náð að opna dyrnar að heimili sínu með hníf, lýgur hann til um það til að vernda orðspor sitt. Nokkrum síðum síðar, stafar aðalpersónunni ógn af því að ráðist sé á hana og þá íhugar hún að nota lykla sem vopn til að verjast.

Þessi almenna hugmynd, eða líking lykill-hnífur, hverfist um verknaðinn að opna eða að fara inn í eitthvað á kurteisilegan eða ofbeldisfullan máta. Líkingin varpar líka ljósi á tvíeðlið í mannlegri reynslu. Er þetta lykill eða hnífur? Er þetta von eða ógn? Hlutirnir reynast stundum annað en þeir líta út fyrir. Fólksflutningar geta ýmist verið ógn fyrir nærsamfélagið eða auðgað það. Fyrir einstaklinginn sem flytur í nýtt land geta flutningarnir falið í sér löngun til að prófa eitthvað nýtt en einnig getur það verið aðferð til að flýja erfiða reynslu.

Þú hefur nefnt að bókin sé byggð á þinni eigin reynslu en í henni fjallar þú meðal annars um alvarlegt ofbeldi. Hvernig er að tjá sig opinberlega um jafn sára reynslu og hvaða áhrif finnst þér það hafa haft?

Eftir að ráðist var á mig, fannst mér mjög mikilvægt að tala um ofbeldi gegn konum. Það er svo abstrakt hugmynd ef þú hefur ekki þurft að ganga í gegnum slíka reynslu en um leið og þú verður fyrir því, siturðu eftir með alls konar tilfinningar. #Metoo bylgjan kenndi okkur hversu margar konur hafa þurft að kveljast í hljóði. Hversu sjokkerandi og óþægilegt sem það kann að vera, þá vildi ég vera opin og hreinskilin með reynslu mína. Það er eina leiðin til að fólk verði meðvitað og vonandi breytir það stöðu kvenna.

Ofbeldið sem yrkisefni er jafnframt marglaga og hefur víðar skírskotanir, líkt og í einu bréfinu til herra Disney þar sem rætt er um kynferðislegt ofbeldi gegn konum:

 
Kæri herra Disney.

Þegar ég var barn sagði systir mín mér að til séu menn sem fela sig í myrkrinu. Augu þeirra á röngum stað, á röngunni. Þeir sjá aðeins sitt eigið hungur. Við hliðina bjó stelpa … það eru svo margar stelpur. Það var kennari, læknir, nágranni, prestur, vinur, farandslátrari … Það var maður í myrkrinu. Það var stelpa sem varð fyrir þessu, ekki einu sinni, ekki tvisvar, heldur þrisvar. Til eru stelpur sem þurfa að ganga í gegnum þetta hvern einasta dag ævinnar. Álfkonur. Öskubuskur. Prinsessur. Litlar hafmeyjur. Snertar. Hræddar. Nauðgað. Hver og ein hefur sögu að segja. 

Vinsamlegast hlustaðu.
 

Hefur samfélagið ekki hlustað nógu vel?

Ég ávarpaði Walt Disney því í mínum huga er hann tákngervingur hins mikla sögumanns, einhvers sem mótar ímyndunarafl fjöldans og fyllir huga okkar af sögum og ímyndum. Ég bað Hr. Disney að hlusta. Ég held að samfélagið hafi ekki heyrt nógu mikið. Við verðum að segja sögur þeirra sem þjást í hljóði, draga fram baráttu þeirra og hugrekki. Með því að tala ekki um kynferðisofbeldi værum við að láta eins og það sé ekki að eiga sér stað. Hið sama á við um hvaða samfélagslega vandamál sem er. Ef við drögum ekki fram margvíslega reynslu í listum og ef við forðumst að tala um ákveðin málefni, þá leysast vandamálin ekki. Vandamálin fara ekki neitt, þeim hefur bara verið sópað undir teppið.

Í bókinni leitar aðalpersónan til sálfræðings sem greinir hana með „smættunarfantasíu“, geturðu útskýrt þetta hugtak fyrir okkur?

Að hætta öllu og flytja til útlanda – það er mjög rómantísk hugmynd. Aðalpersónan dreymir um að skilja við allt og hefja nýtt líf. Sálfræðingurinn spáir fyrir um hverju hún muni standa andspænis ef hún ákveður að láta verða af því. „Smættunarfantasía“ í hennar tilviki á við um að hún smækki sjálfa sig úr fullgildum borgara í innflytjanda, fari úr því að vera skrifstofustarfsmaður yfir í að vera þjónn, verði ekki lengur „ein af okkur“ heldur ókunnug. Hún mun þurfa að gefa stöðu sína upp á bátinn sem og stolt sitt og í stað þess að tala tungumálið reiprennandi mun hún ekki geta haldið uppi samtali.

Þú dregur vel fram árekstra milli innfæddra og innflytjenda í verkinu svo kaldhæðnin skín af textanum. Taktlaus hegðun innfæddra og misgáfulegar athugasemdir í garð aðalpersónunnar eru til að mynda gegnumgangandi. Mega Íslendingar, sem „eru stundum svo andstyggilegir“ líkt og aðalpersónan segir á einum stað, taka þetta til sín?

Ég held að það sé verkefni fyrir okkur öll, Íslendinga og aðkomumenn, að sættast við innflutning fólks og okkar nýja veruleika. Í bókinni minni vildi ég sýna fram á hversu vandræðalegt og erfitt, en líka áhugavert og fyndið, það er fyrir alla sem eiga hlut að máli.

Aðalpersónan lendir í hringiðu samræðna þar sem allir viðskiptavinir hennar hafa eitthvað um það að segja að hún skuli vera frá Póllandi. Þegar hún loksins brotnar niður, grætur og segir að „allir séu stundum svo vondir“ er það ákveðinn vendipunktur fyrir hana. Hún orðar sannleikann og sökum þess finnur hún fyrir ákveðinni losun. Það hjálpar henni að átta sig á því að hún er ekki sú eina sem er í þessari stöðu. Það eru krakkar sem eiga ekki sitt tungumál, aðrir innflytjendur, og Íslendingar sem eru alveg jafn týnd og hún er. Uppáhaldsdæmið mitt er Ása, sem eftir að hafa hætt með pólskum kærasta, stendur uppi með pólska orðabók, pólskar uppskriftir og svo framvegis. Hún lætur furðulega og það er fyndið en umfram allt sýnir það sálarangist hennar og að hún er í sárum eftir sambandsslitin. Ég held að það sé mikilvægast að allir séu góðir hver við annan og taki mið af þörfum og tilfinningum hvers og eins bæði nýrra Íslendinga og eldri.

Þú leikur þér á skemmtilegan hátt með tungumálið; fangar til dæmis vel ferlið við að læra nýtt tungumál og blandar einnig saman ólíkum tungumálum.

Þegar ég kom var íslenska eins og ókunnug vera sem erfitt var að nálgast og ég þurfti að temja á minn eigin hátt. Nýju orðin og hljóðin voru mér mjög framandi svo að ég byrjaði að búa til litlar sögur, mínar eigin skilgreiningar og útskýringar til að leggja nýja orðaforðann á minnið. Meira að segja núna, eftir níu ár á Íslandi, nota ég þrjú tungumál í mínu daglega lífi: íslensku, ensku og pólsku. Ég blanda þeim mjög oft saman. Í bókinni er ég að reyna að sýna málfræðilegan veruleika aðkomumannsins og öllu því sem honum fylgir.

„Íslenska er pólska skrifuð aftur á bak“ stendur á einum stað í bókinni. Getur þú útskýrt merkingu þess?

Pólska og íslenska gætu ekki verið ólíkari en, eins kaldhæðið og það er, þá notaði ég pólsku til að læra og muna íslensk orð. Til dæmis er eins og það sem kötturinn segir – miau ef við sleppum m-inu í upphafi orðsins, takk eins og tak – já á pólsku. Viltu poka? – poka hljómar eins og sýndu mér, Mjódd eins og miódhunang, kona þýðir er að deyja o.s.frv. Í mínum huga virtist það að læra íslensku eins og dulkóði eða gáta sem þyrfti að leysa.

 
 

Hvað kom til að þú fórst að skrifa pistla í Tímarit Máls og menningar?

Þökk sé því hversu opnar og hvetjandi ritstjórar TMM, Elín Edda Pálsdóttir og Sigþrúður Gunnarsdóttir, eru var mér boðið að vera höfundur Hugvekju-dálksins. Elín og Sigþrúður voru forvitnar að heyra nýjar raddir og höfðu samband við samfélag fólks af erlendum uppruna. Í dálkinum, skrifaði ég um reynslu mína en auk þess beindi ég sjónum mínum að félögum mínum sem eru líka rithöfundar af erlendum uppruna á Íslandi. Ég rifjaði upp samtöl okkar, daglega baráttu, ótta, hamingjustundir og sér í lagi flókin lífshlaup þeirra.

Í einum þeirra, sem ber titilinn „Útlendingahersveitin / The Foreign Legion“, nefnir þú að pólskar bókmenntir hafi ekki verið sýnilegar á Íslandi þrátt fyrir fjölda innflytjenda af pólskum uppruna og segir:

„Ef íslensk menning er peysa er lykkjufall hér. Gat. Lykkjufallið hleypur alla leið niður.
 

Þetta er áhrifamikil líking og ef við höldum áfram með hana langar okkur að spyrja hvernig framtíð þessarar peysu sé að þínu mati? Er verið að stoppa í þetta gat?

Ég vona innilega að við séum á réttri leið. Raddir innflytjanda eru að fá meira og meira rými í bókmenntum, leikhúsi og listum. Hæfileikaríkir einstaklingar og hópar af erlendum uppruna hafa verið að fá verðlaun og hafa verið að gefa út verkin sín, setja upp leikrit og halda sýningar. Meðvitundin um að það eru listrænir hæfileikar í hópi innflytjenda er líka að aukast. Það er enn langt í land og við þurfum einnig að horfa til framtíðar, til barnanna. Munum við sjá stóran tvítyngdan hóp með ruglingslega sjálfsmynd eftir tuttugu ár, eða munum við sjá sterka einstaklinga sem eru stoltir af því að vera af blönduðum uppruna? Rétt eins og þegar við erum að prjóna peysu, þurfum við að vera eftirtektarsöm, laga mistök um leið og þau gerast, við þurfum sífellt að vera að telja lykkjurnar og hafa augun á prjónunum.

 

Við þökkum Ewu kærlega fyrir að veita okkur áhugaverða innsýn inn í skáldskap sinn og mælum eindregið með nýju bókinni.

 

Ljósmynd af Ewu: https://www.ewamarcinek.com/about

 

Tengt efni