SKÁLD.IS

Konur skrifa um konur sem skrifa

Guðrún Steinþórsdóttir og Helga Jónsdóttir12. ágúst 2021

„MÉR FINNST EINS OG AÐ RAUNVERULEIKINN SÉ SVONA“ - Viðtal við Þórhildi Ólafsdóttur

Þórhildur Ólafsdóttir sendi í fyrra frá sér ljóðabókina Brot úr spegilflísum og í ár kom út hennar fyrsta skáldsaga Efndir. Þórhildur hefur lengst af búið erlendis en hún stundaði nám í frönskum bókmenntum og málvísindum við Háskólann Orléans, Frakklandi, og fékk doktorspróf þaðan árið 1982. Í skáldskap hennar kemur fram forvitnileg sýn á land og þjóð. Efndir segir frá íslenskri konu sem eftir margra ára búsetu í Frakklandi flytur á æskuslóðirnar á Íslandi til að takast á við fortíðina. Lýst er ferðalagi um hugarheim íslenskrar sveitastelpu á sama tíma og tekist er á við erfiðleika, sorgir og sektarkennd. Okkur lék forvitni á að vita meira um bókina og sköpunarferli hennar og tókum Þórhildi því tali.
 
Hvaðan kom hugmyndin að skáldsögunni, Efndir, hafði hún verið lengi í smíðum?
 
Hugmyndin að Efndum sprettur, held ég, upp úr ljóðum. Fyrir nokkuð löngu orti ég fjögur ljóð og nefndi þau Árstíðir í fjarska. Það eru þessi ljóð sem mynda upphaf hvers kafla í Efndum. Mér fannst þau verða að fá að vera með í sögunni enda hafa þau ekki birst annars staðar. Þau eru um augnablik í vitundinni sem erfitt er að ná utan um og skilja til fullnustu, ófullkomnar minningar. Aðalpersónan, Elísabet er meðal annars að reyna að fá skýrari mynd af þeim gloppóttu minningum sem hún á frá bernsku sinni. Úr ljóðunum varð bygging sögunnar til.
 
Megnið af sögunni er skrifað fyrir nokkrum árum, mig minnir í byrjun árs 2017, á svona þremur til fjórum mánuðum. Það var eins konar uppkast, sem hefur verið endurunnið nokkuð oft, persónur hafa breyst, kaflar hafa verið teknir út og öðrum bætt við. Þetta hefur verið mikil vinna! Ég er svo heppin að hafa átt og eiga góðar vinkonur sem lásu söguna snemma og hvöttu mig áfram, sérstaklega Álfrún Gunnlaugsdóttir prófessor og rithöfundur sem var hennar fyrsti lesandi. Hún hefur nú kvatt okkur öll, því miður áður en bókin kom út því hún hlakkaði til að sjá hana. Ég sakna hennar mikið.
 
Titill verksins, Efndir, er feikilega flottur og fangar vel markmið aðalpersónunnar. Hvaðan kom hann og getur þú aðeins útskýrt fyrir okkur margræðni hans?
 
Titillinn Efndir varð til fremur seint á ritferlinu. Bókin var búin að hafa nokkra aðra titla. En þegar ég var búin að finna hann varð mér augljóst að hann passaði sögunni algerlega. Elísabet er að reyna að efna loforð, bæði við sjálfa sig og þá sem eru horfnir úr lífi hennar. Henni finnst hún verða að dvelja á eyðibýlinu þar sem hún hefur ekki komið mjög lengi til að reyna að finna sjálfa sig og fólkið sem var svo stór hluti af lífi hennar þegar hún var barn en hefur nú misst. Sanna að hún geti gert þetta. Dvelja með þeim framliðnu ef hún getur fundið þá. Til að reyna að útskýra fyrir þeim hvers vegna hún hefur ekki getað efnt öll loforðin sem hún gaf þeim, borgað „skuldir“ sínar.
 
Bygging bókarinnar er mjög markviss; fjórir jafnir hlutar; vor, sumar, haust og vetur. Varstu búin að ákveða bygginguna áður en þú hófst skrifin?
 
Eins og fram kemur í svarinu við fyrstu spurningunni spratt bókin upp úr ljóðunum sem eru í byrjun hvers kafla. Að því leyti var byggingin augljós í byrjun. Hvort hún var markviss veit ég ekki. En einhvern veginn urðu þessir hlutar nokkurn veginn jafnstórir og vega jafnt í bókinni nema kannski síðasti hlutinn sem er viðamestur og líklega mikilvægastur.
 
Á forvitnilegan hátt dregur þú fortíðina inn í nútíðina. Það er eins og aðalpersónan fari að vissu leyti aftur í tímann og geri ekki alltaf greinarmun á hvaða tímaskeiði hún er stödd enda talar hún reglulega við framliðna ættingja í nútímanum en hverfur líka inn í haf minninganna og rifjar upp samtöl. Getur þú sagt okkur aðeins um það og hvers vegna þú velur að fara þessa leið í frásögninni?
 
Mér finnst eins og að raunveruleikinn sé svona, þegar við erum að hugsa þá blandast nútíð og fortíð saman í eina kássu, það er ekki hægt að skilja í sundur það sem var og það sem er, fortíðin grípur alltaf inn í, sérstaklega þeir atburðir og þær stundir sem hafa haft áhrif á persónuna. Elísabet er oftast ein í sögunni og hefur þess vegna mikinn frið til að hugsa og láta sig dreyma, hjá henni renna fortíð og nútíð saman svo mér fannst mjög eðlilegt að skrifa bókina á þennan hátt.
 
Náttúran gegnir stóru hlutverki í bókinni er hún þér mjög hugleikin?
 
Svo sannarlega. Ég er alin upp á sveitabæ á Vatnsnesinu og mér finnst að sem barn hafi ég verið í mjög nánu sambandi við náttúruna, bæði líkamlega og andlega. Að því leyti er Elísabet lík mér þó hún sé ólík mér að öðru leyti. Mér finnst að náttúran hljóti að hafa stórkostleg áhrif á mannskepnuna, hennar tilfinningalíf og skynjun, og að hin nána snerting við náttúruna, þúfur og lautir, flæðarmál og brekkur í þessu heimalandi hafi að miklu leyti gert mig að því sem ég er. Allt er lifandi, og því miður áttum við okkur ekki alltaf á því, við viljum ráða yfir náttúrunni og undiroka hana. Slíkt kann ekki góðri lukku að stýra eins og við sjáum svo vel í dag.
 
Þú hefur dvalið lengi erlendis heldur þú að það hafi haft mikil áhrif á sýn þína á Ísland og íslenskt samfélag?
 
Áreiðanlega. Ég hef að mestu leyti búið erlendis eftir að ég varð tvítug, fyrir utan sex ár sem ég var kennari við Háskóla Íslands, frá 1982-1988. Mér finnst Íslendingar oft ekki átta sig á að við erum örþjóð í alheimssamfélaginu og haga sér í samræmi við það, stundum er það til góðs og stundum ekki. En í raun og veru þekki ég ekki nóg til íslensks samfélags eins og það er í dag til að geta rætt um það af neinu viti. Eitt get ég þó séð og heyrt: íslenskan er að breytast mikið vegna áhrifa enskunnar og ótrúlega margir virðast vera alveg ánægðir með það. Þetta er mikil breyting frá því að ég var unglingur, til dæmis.
 
Aðalpersónan, Elísabet, er ákaflega athyglisverð. Getur þú sagt okkur aðeins frá henni og hvernig hún kom til þín?
 
Ég hugsa að Elísabet hafi búið með mér lengi þó hún hafi ekki orðið til fyrr en í Efndum. Þetta er persóna sem býr í tveimur eða þremur menningarheimum. Spurningin er hvort hún ræður fullkomlega við það, það er ekki víst. Hún hefur alltaf reynt að standa sig vel og takast á við erfiða hluti, hefur jafnvel valið það erfiðasta eins og hún segir undir lok sögunnar. En það er því miður ekki hægt að ráða öllu sem fyrir mann kemur og á einhverjum tímapunkti hefur hún brotnað niður eins og fram kemur í sögunni. Hún hefur orðið fyrir mörgum áföllum og það síðasta, dauði tengdasonarins verður hennar reiðarslag. Í raun og veru hefði hún líklega viljað deyja í hans stað, en því miður fyrir hana er ekkert að gera annað en halda áfram og reyna að styðja aðra sem hún er gersamlega ófær um þegar sagan byrjar.
 
Minnið er gloppótt eins og kemur reglulega fram í skáldsögunni; skynjun er síbreytileg og raunveruleikinn aldrei einfaldur. Óáreiðanleiki minninganna truflar Elísabetu ekki heldur reynist henni ákveðið frelsi eða flótti, eftir því hvernig á það er litið, frá hinum stífa raunveruleika.
 
Elísabetu er það viss léttir að flýja inn í bernskuna og vera frjáls að því að búa í svona nánu sambandi við náttúruna, þó að auðvitað viti hún innst inni að það er aldrei hægt að endurupplifa bernsku sína. Samtölin við gamla ættingja og minningarnar sem spretta upp í þessu umhverfi veita henni oft gleði og öryggi, en þó alls ekki alltaf, hún finnur stundum fyrir óöryggi líka. Sumar minningar eða minningabrot sýna svo ekki verður um villst að bernskan var ekki alltaf endalaus gleði og einmitt í bernsku myndast uppistaðan í hinni brothættu manneskju sem Elísabet er orðin að lokum.
 
Sektarkennd og skömm virðast hafa fylgt persónunni frá bernsku og litað sjálfsmynd hennar. Hvaðan eru þessar tilfinningar sprottnar?
 
Elísabet er greinilega haldin þeirri skynvillu að hún hafi aldrei gert nóg, ekki neitt nógu vel, að það hljóti að vera eitthvað að henni þess vegna. Hún er sennilega með fullkomnunaráráttu. Hún skammast sín fyrir margt sem hún ætti að hafa gert en gerði ekki, fyrir það að hafa ekki verið nógu góð dóttir, fyrir að hafa flúið land. Bak við þetta allt er svo lúterskt uppeldi og hugmyndir um hvernig konur eigi og eigi ekki að vera. Jafnvel þó að Elísabet viti vel að hún þurfi ekki og vilji ekki fara eftir þeim reglum og fyrir komi að hún hæðist að þeim, hafa þær samt ótrúlega sterk áhrif á hana.
 
Þrátt fyrir að Elísabetu líði ekki vel með sjálfa sig virðist henni hafa gengið vel á ýmsum sviðum, hún hefur til að mynda náð frama í vinnu. Í sögunni eru dregnar upp skýrar andstæður í tengslum við líf og lifnaðarhætti hennar. Hún hefur búið um árabil í Frakklandi, klæðst fínum fötum, hugsað rækilega um útlitið og unnið krefjandi starf en kemur síðan til Íslands og dvelur í ár á gömlum og fremur frumstæðum sveitabæ norður í landi, hættir að velta fyrir sér fatnaði og snyrtingu. Getur þú útskýrt þessa kúvendingu; er þetta þunglyndi persónunnar, eða var þessi erlenda glansímynd að einhverju leyti firring?
 
Ég myndi segja að kúvendingin sé afleiðing margra ára baráttu Elísabetar við þunglyndi. Þegar tengdasonurinn deyr og hún ætti að verða fjölskyldu sinni stoð og stytta getur hún ekki meir, hún gefst upp. Hún er mjög þrá og oft ill viðskeytis og vill ekki láta leggja sig inn til að fá bata, hún sér þessa dvöl á eyðibýlinu sem sitt síðasta úrræði til að ráða bót á vandanum. Það er alls ekki víst að líf hennar erlendis hafi verið firrt glansmynd en það er svona sem hún kýs að sýna lesanda það. Elísabet er ekki öll þar sem hún er séð og segir ekki alltaf satt enda viðurkennir hún það. En líf hennar erlendis samræmist ekki þessum stað, það er víst, er í órafjarlægð frá honum og óskiljanlegt þeim sem þar hafa búið.
 
Persónur sem koma í heimsókn til Elísabetar; frænkur hennar, sveitafólk, Anna vinkona, Una Ýr, franski maðurinn; eru svolítið eins og árásir inn í líf hennar; finnst henni en hún er kannski ekki alltaf trúverðug sögukona; eða hvað segir þú um það?
 
Elísabet er áreiðanlega ekki alltaf trúverðug sögukona, sérstaklega ekki þegar líða tekur á söguna og veikindi hennar verða augljósari. Smátt og smátt kemur í ljós að hún á orðið erfitt með að hitta fólk og tala við það, finnst það trufla sig því hún er einhvern veginn að draga sig út úr samfélagi manna. Í lokin verður það mjög áberandi. Lesandi getur ekki stólað á að hún segi rétt frá því sem á daga hennar drífur og hvað hún er að hugsa. En þá kemur spurningin? Hvað er rétt? Geta ranghugmyndir ekki verið réttar, alla vega fyrir þá persónu sem þær hefur?
 
Áföll hafa markað líf aðalpersónunnar og hún nefnir oftar en einu sinni að það sé ekki samfélagslega viðurkennt að gefa sér tíma til að syrgja. Finnst þér það vera ríkjandi hugsunarháttur í nútímasamfélagi eða er þetta dæmi um ranghugmyndir persónunnar sem vill dvelja við sorgir sínar?
 
Mér finnst alla vega að í því samfélagi þar sem ég bý (frönsku) sé það ekki almennt viðurkennt að gefa fólki tíma til að syrgja látna ástvini, jafnvel að fólk forðist þá sem eru í sorgarferli. Fólk tekur sorginni mjög misjafnlega, sumir gleyma sér í vinnu, aðrir geta ekki haldið áfram eins og áður, sumir ýta sorginni til hliðar og svo kemur hún í bakið á þeim síðar. Mér finnst allt of mikið um að fólk segi eitthvað á þá leið að hún eða hann eigi nú bara að taka sér tak og hætta að hugsa um missinn og búa í sorginni. En það er ekki hægt að ráða við tilfinningar. Sorgin ræður sér sjálf og tekur sér þann tíma sem hún þarf sem er misjafn eftir einstaklingum. Ef fólk býr í sorginni er yfirleitt gild ástæða fyrir því.
 
Í sögunni lýsir Elísabet sveitasögum skáldkarla en í sögunni segir:
 
Það var tuttugu eða þrjátíu árum síðar, þegar heill hópur af Reykjavíkurstrákum fóru að skrifa bækur um reynslu sína af því að vera sendir í sveit, endalausar karlasögur, fóðraðar með sjálfsánægjunni af því að vera strákur úr sveitaborginni Reykjavík, mættir galvaskir á ritvöllinn til að byggja sér frægðarturna úr minningum sínum af skrýtnu sveitafólki og hvernig þeir hefðu nú orðið að státnum, stæltum og vel gefnum mönnum af þrældómnum í sveitinni hjá hyskinu sem þar bjó. Það var þá sem mér datt í hug að gaman væri að skrifa bók um hvernig það var að vera sveitastelpa, lét þó aldrei verða af því. (50)
 
Þarna er það vissulega persónan sem talar en ert þú á sömu skoðun? Og ef svo er, er bók þín að einhverju leyti hugsuð sem andsvar eða afbygging á sveitasögum Reykjavíkurstrákanna?
 
Nei, bókin er ekki hugsuð sem slík, til þess hefði ég þurft að rannsaka sveitasögur Reykjavíkurstrákanna sem ég gerði ekki. Bókin hefði þá orðið allt öðru vísi. Ef hún er andsvar við þessum karlasögum að einhverju leyti þá hefur það orðið til á ósjálfráðan hátt.
 
Elísabet er vöruð við þeirri löngun sinni að skrifa bókina sína en Anna vinkona hennar segir við hana:
 
Í alvöru, Elísabet, ég verð að vara þig við, það er ekki spennandi þegar konur á okkar aldri taka upp á því að skrifa, sérstaklega ekki skáldsögur. Það er í rauninni orðið of seint. Flestum finnst það hallærislegt. Við erum ekki lengur með þó við séum að reyna að vera það. Okkur vantar orðaforðann og upplifunina af nútímanum til að ungt fólk geti lesið okkur. Ungt fólk á að ganga fyrir, ekki við, þetta gamla freka hyski sem var og hét á hippatímanum og hefur fengið allt sem það vill. Forlögin eru fyrst og fremst að leita að ungum séníum, alls ekki gömlu fólki sem þarf að koma einhverju frá sér áður en það deyr.
 
Finnst þér lýsing Önnu á viðhorfum til eldri skáldkvenna endurspegla veruleikann?
 
Að vissu leyti. Ég held að bókaútgáfur hafi ekki mikinn áhuga á verkum eldri kvenna, hún er lífseig fyrirlitningin á konum eins og Guðrúnu frá Lundi sem fóru að skrifa loksins þegar þær fundu tíma til þess. Vissulega er Guðrún nú að fá nokkra uppreisn æru með endurútgáfum bóka hennar. Ég var heppin að eiga mjög gott samstarf við Birtu Ósmann Þórhallsdóttur hjá bókaútgáfunni Skriðu, get eiginlega ekki þakkað henni nógsamlega fyrir hve vel hún tók bókinni og hjálpaði mér síðustu skrefin. Hvaða hugsun er að baki þess að eldri konur ættu ekki endilega að vera að skrifa er mér óljós vegna þess að ég skil ekki þetta viðhorf, ef til vill er það sú sem Anna lýsir í Efndum.
 
Það er gaman hve mikið er af ljóðum í bókinni og þú sendir auðvitað frá þér ljóðabók í fyrra. Hefur þú lengi ort ljóð og finnst þér vera mikill munur á þessum tveimur formum; að yrkja ljóð og skrifa frásögn?
 
Ég orti töluvert af ljóðum þegar ég var barn og unglingur, var hvött til að yrkja, það voru gjarnan rímuð ljóð enda var ég alin upp á þeim. Þegar ég flutti til Frakklands í nám hætti ég að yrkja, setti íslenskuna og allt sem henni fylgdi til hliðar til að komast inn í frönskuna og franskan menningarheim. Á síðari árum hef ég stundum verið að yrkja enda var þægilegra að vera með ljóð í smíðum samhliða fullri, erfiðri vinnu. Brot úr spegilflísum, ljóðabókin sem kom út í fyrra er hluti af afrakstri síðustu tíu ára.
 
Það er mikill munur á að yrkja ljóð og skrifa frásögn finnst mér. Ég yrki ljóðin en svo læt ég þau liggja lengi í dvala og vinn í þeim síðar. Ljóðin mín verða stundum til næstum fullbúin eins og þau kæmu sjálfkrafa til mín, fæðing annarra er erfið því þau eru byggð í kring um setningar eða hugmyndir sem ég hef verið að veltast með lengi og vantar umbúðir utan um.
 
Að skrifa skáldsögu er langt ferli, það þarf mikla þolinmæði. Stundum fannst mér ég vera búin með Efndir en sá svo að ég þyrfti enn að bæta og breyta og þannig gekk það lengi. Ég var reyndar lengi hrædd við að láta bókina koma út, en núna er ég bara fegin að það skuli hafa gerst og hún fái að lifa sínu eigin lífi. Hún hefur nú þegar fengið hrós frá mörgum lesendum og það hefur glatt mig mikið.
 
Ertu byrjuð á næsta verki?
 
Ég á ýmislegt í tölvunni og á borðinu hjá mér, smásögur, ljóð og ef til vill byrjun á skáldsögu. En mér liggur ekkert á og ætla ekkert að flýta mér.
 
 
Við þökkum Þórhildi kærlega fyrir áhugavert spjall um skáldskapinn og hvetjum alla til að lesa bókina hennar.

 

Tengt efni