SKÁLD.IS

Konur skrifa um konur sem skrifa

Guðrún Steinþórsdóttir og Helga Jónsdóttir22. nóvember 2021

NÆRBUXNAVÉLMENNI, BRODDGELTIR OG FJÖRGAMALT HANDRIT - Viðtal við Arndísi Þórarinsdóttur

Arndís Þórarinsdóttir er afar afkastamikill höfundur. Hún hefur lagt sig fram við að efla barnamenningu með skrifum sínum og fengið fyrir það fjölda verðlauna til að mynda má nefna að nú í ár fékk hún Vorvinda IBBY fyrir framlag sitt til barnamenningar og Íslensku bókmenntaverðlaunin 2020 fyrir Blokkina á heimsenda sem hún skrifaði með Huldu Sigrúnu Bjarnadóttur. Bækur Arndísar eru afar fjölbreyttar en umfjöllunarefnin spanna allt frá nærbuxum til Möðruvallabókar. Auk skrifa fyrir börn hefur Arndís sent frá sér ljóðabók og unnið við þýðingar. Við tókum Arndísi tali og ræddum við hana um skáldskapinn, þýðingar og broddgelti.
 
Lestu mikið? Hvernig bækur lestu helst?
 
Já, ég geri það – teljarinn á Goodreads segir að það séu um hundrað bækur á ári. Ég les eiginlega eingöngu skáldskap, en allskonar skáldskap – barnabækur, ljóð, fagurbókmenntir, fantasíur og unglingabókmenntir. Ég les af pappír og tölvuskjá og líka með eyrunum.
 
Í bókunum þínum skoðar þú gjarnan hvernig persónur takast á við nýjan veruleika. Hvers vegna kýstu að gera það?
 
Kannski vegna þess að óöryggi er tilfinning sem ég hef áhuga á. Þegar fólk þarf að takast á við nýjan veruleika er það vegna þess að allt hið gamalkunna er horfið. Hvað er eftir af manneskjunni þegar hún þekkir ekki stað sinn í umhverfinu og samfélaginu?
 
Þín fyrsta skáldsaga, Játningar mjólkurfernuskálds, kom út 2011. Getur þú sagt okkur frá þeirri sögu og aðdraganda hennar?
 
Ég skrifaði fyrsta uppkast sögunnar þegar ég var í fæðingarorlofi með dóttur mína, sem þá var fimm mánaða. Hún svaf þá tvisvar á dag og ég notaði annan lúrinn í það að skrifa. Ég hitti um daginn lesanda sem nú er orðinn fullorðinn en hafði kunnað að meta hana sem barn og það fannst mér skrýtið! Mjög gleðilegt – en framandi hugmynd að eitthvað sem mér finnst frekar nýlegt sé fjarlæg bernskuminning fyrir fullorðnu fólki.
 
Bókin var tilnefnd til Norrænu barnabókaverðlaunanna hvernig tilfinning var það og skipti það þig máli fyrir áframhaldandi skrif?
 
Það var auðvitað mjög skemmtilegt – það var tilnefnt til þeirra verðlauna annað hvert ár, svo tilnefningin kom meira en ári eftir útgáfu, svo hún kom mjög á óvart. En það er alltaf mikils virði að heyra að bók hafi talað til einhvers. Stundum er það barn sem maður hittir í skólaupplestri, en stundum er það meðlimur í einhverri dómnefnd. Kipling orti frægt ljóð sem ég reyni stundum að hafa í huga – það fjallar um mikilvægi þess að taka mótlæti og upphefð af sama æðruleysinu.
 
Nærbuxna-þríleikurinn er feikilega skemmtilegur. Hvers vegna ákvaðst þú að skrifa um nærbuxur?
 
Ég hef nú sagt frá því áður, en sonur minn var fimm ára þegar ég ákvað að rjúfa ritstíflutímabil með því að skrifa stutta, fyndna sögu sem myndi henta honum. Ég spurði hann hvernig sögu hann myndi vilja, ef ég skrifaði eina bara fyrir hann og hann svaraði að sagan ætti að vera um „Nærbuxur… og vélmenni! Og vélmenni sem getur skotið nærbuxum í allar áttir!“ Þetta fannst mér mjög vond hugmynd, en hélt samt áfram að hugleiða hana og úr varð saga um nærbuxur en líka saga um það að eignast vini og vera vinur. Mér þykir mjög vænt um Nærbuxna-bækurnar, bæði vegna þessarar persónulegu tengingar við drenginn minn og ritstífluna sem losnaði, en líka af því að mér finnst að í bókunum hafi mér tekist að segja eitthvað sem skiptir mig máli.
 
Í Nærbuxnaverksmiðjunni snýrðu upp á staðalímyndir eldri borgara og unglinga á snjallan máta. Hvers vegna?
 
Þegar ég var barn fannst mér svo ævintýralegt að hugsa sér að fullorðið fólk hefði líka tilfinningar. Það væri mögulega að ganga í gegnum eitthvað, hefði einhverja lesti og einhver áhugamál – ég átti svo erfitt með að skilja það. Svo það er eitthvert innbyggt ævintýri í því þegar komast á tengsl á milli kynslóðanna. Það er ekki fantasía, en það býr næstum til fantasíublæ í skáldskap, þegar eldri manneskja og yngri ná að tengjast á einhverjum jafningjagrundvelli. Við snúum öll upp á staðalímyndir um okkur sjálf – allir hafa óvæntar hliðar. Það er gaman að sýna þær stundum.
 
Þú skrifaðir bókina Blokkina á heimsenda með Huldu Sigrúnu Bjarnadóttur. Hvernig kom það samstarf til og hvernig var því háttað?
 
Við Hulda höfum verið vinkonur í fimmtán ár og erum mjög nánar. Þannig kom vináttan til langt á undan samstarfinu. Við byrjuðum samt að leika okkur að því að skrifast á í nafni ímyndaðra persóna fyrir allmörgum árum og skemmtum okkur mjög vel við það, en þær sögur voru ekki með fyrir fram ákveðinni framvindu og féllu yfirleitt ekki í neinn ramma. Það var mjög skemmtilegt, en það að skrifa saman sögu í fullri lengd var annars eðlis. Þá þurftum við að ákveða söguþráð frá byrjun, vera í stöðugu samtali um það hvað virkaði og hvað virkaði ekki og vera svo reiðubúnar að vaða inn í texta og hugmyndir hinnar. Það krefst mikils trausts – og þess að allt egó sé gjörsamlega skilið eftir utan við samstarfið. Báðir aðilar þurfa að geta sagt: „Nei, þetta er ekki góð hugmynd hjá þér, hvað ef við frekar…“ án þess að það sé eitthvað sérstaklega gildishlaðið eða dramatískt. Þetta tókst okkur Huldu og ég er gríðarlega þakklát fyrir það. Samstarf okkar er mér mjög mikils virði og hefur kennt mér mjög mikið. Fyrir utan hvað það er alltaf skemmtilegt.
 
Í bókinni skapið þið nýja og óvenjulega samfélagsgerð. Geturðu sagt okkur aðeins frá samfélaginu á heimsenda? Hvernig kom þessi hugmynd til ykkar?
 
Sögusviðið fundum við eiginlega tilbúið – bærinn Whittier í Alaska er kallaður bærinn sem er undir einu þaki, því þar búa langflestir íbúarnir í risastóru fjölbýlishúsi. Hulda datt um grein um þennan bæ og sendi mér með nótu um að þetta væri nú skemmtilegur vettvangur fyrir barnabók. Upp úr því fórum við að hugsa um það hvernig slíkt samfélag myndi ganga fyrir sig – en ákváðum að auka enn á einangrunina í okkar útgáfu, til þess að ýkja allar aðstæður.
 
Bókin er mjög fyndin en hún er líka æsispennandi. Var það planið frá upphafi að notast við spennusagnaformið? Og ef svo er hvers vegna?
 
Já, við höfðum í einhvern tíma verið að hugsa um „glæpasögu fyrir börn.“ Það er engin tilviljun að glæpasagnaformið höfðar til fullorðinna og við þurftum spennandi þráð til að hengja þennan söguheim á.
 
Persónurnar í bókinni eru ansi skemmtilegar og nóg af furðufuglum í blokkinni. Amman er til dæmis kostuleg, hvernig kom sú persóna til ykkar?
 
Við vildum að allar væntingar Drafnar yrðu kýldar niður strax í upphafi. Skemmtilega fríið myndi reynast hvorki skemmtilegt né frí og indæla amman væri viðskotaill og hrjúf. Sömuleiðis fannst okkur áhugavert að vinna með togstreitu á milli kynslóða (þema sem kemur hér upp aftur!) – amman og pabbi Drafnar hafa greinilega gengið í gegnum eitt og annað saman, sem endar með því að pabbinn yfirgefur Eyjuna. Þetta er áhugavert í barnabók, að fullorðið fólk upplifi særindi og höfnun og bregðist við í samræmi við það. Þetta er ekki veigamikill þráður í bókinni og Dröfn er frekar utan gátta varðandi þessi mál, en skipti okkur máli varðandi dýptina í söguheiminum. Amman er hörð en hún hefur líka misst allt samband við einkason sinn og það er opið sár sem hún reynir að hlífa.
 
Árekstrarnir milli fjölskyldunnar frá meginlandinu, eða „aðkomufólksins“, og íbúa eyjunnar eru oft og tíðum mjög skondnir en þeir verða líka gjarnan til þess að vekja lesandann til umhugsunar. Hið framandi samfélag í blokkinni, þar sem frelsið og möguleikarnir eru af skornum skammti, hefur nefnilega einnig ýmsar jákvæðar hliðar sem varpa ljósi á galla og firringu samfélagsgerðar lesandans. Sem dæmi má nefna sóun og neysluhyggju en íbúar blokkarinnar eru afar sparsamir á vörur og auðlindir og hneykslast gjarnan á hegðun Drafnar og fjölskyldu. Þetta er gert á gamansaman hátt en er þetta meðvituð tilraun til að vekja lesendur til umhugsunar um eigið samfélag og eigin hegðun?
 
Já, já, þetta er meðvitað. Umhverfismál voru okkur ofarlega í huga, en líka bara hugleiðingar um það hvernig samfélög virka. Hvað þarf til þess að einstaklingar þrífist í samfélaginu? Amma Bríet er að reyna að hafa auga með öllum og finna leiðir til þess að fólk blómstri, en er kannski að sama skapi þröngsýn vegna þessarar nytjahyggju sem hún neyðist til að búa við. En við vildum sýna að í litlum samfélögum getur skapast rými fyrir fjölbreytileikann sem er stundum ekki í þeim stærri. Þess vegna eru heyrnarlausir tvíburar í Blokkinni sem veldur því að allir íbúarnir læra táknmál – vegna þess að það er samfélaginu til heilla að þessir tveir íbúar falli að því.
 
Eftir að hafa skrifað fjölda barnabóka sendir þú frá þér ljóðabókina Innræti, hvernig kom það til?
 
Það gerðist nú eiginlega þannig að þegar ég fór að lesa ljóð í meira magni fór mig að langa til þess að skrifa þau sjálf. Lengi vel var ég ekki viss um það hvort textarnir sem ég var að hripa niður kölluðust ljóð – ég talaði um þá sem texta eða skrýtlur, lengi vel. Önnur ástæða fyrir því að ég sneri mér að ljóðagerð er sú að það eru kannski einhver viðfangsefni í daglegu lífi fullorðinna kvenna sem mér finnast spaugileg eða áhugaverð sem ég er ekki viss um að grunnskólanemum þættu spaugileg eða áhugaverð, svo það er eðlilegra að fá útrás fyrir þau í bók sem ætluð er eldri lesendum.
 
Húmor, írónía og hversdagurinn eru nokkuð einkennandi fyrir ljóðabókina er það eitthvað sem þú lagðir upp með frá byrjun?
 
Mér finnst það dálítið merkilegt með skáldskapinn hvað ég hef lítið svigrúm til að leggja upp með eitt eða neitt. Ég sest við tölvuna með einhvern útgangspunkt, einhverja mynd í kollinum, og svo kemur eitthvað sem fer í aðeins aðra átt, dregur upp einhvern vinkil sem ég lagði ekki upp með. Það finnst mér dálítið ævintýri – og ólíkt því sem gerist í barnabókunum. Þar verða oft svona smátöfrar inni í einstökum senum, en heildina þarf ég að skipuleggja. Í ljóðunum eru galdrarnir meira ráðandi.
 
Ljóðmælandi í ljóðinu Tindarnir á bakinu á mér rísa hefur aldrei séð broddgölt; en hvað um þig sjálfa? Og ef svo er; hvar og hvenær?
 
Nei, ég hef aldrei séð broddgölt, nema í Dýrunum í Hálsaskógi! Þetta er staðreynd sem ég reyni að hugsa ekki of mikið um, þá fer ég bara að gráta. Eða fer að skoða mér afskekkta kofa í finnskum skógum, til búferlaflutninga. Af því ég held að maður geti ekkert tjaldað til einnar nætur ef maður vill pottþétt sjá broddgölt í sínu náttúrulega umhverfi.
 
Megum við eiga von á fleiri ljóðabókum frá þér?
 
Vonandi! Það er eitthvað byrjað að safnast upp í tölvunni. Sjáum til hvenær það verður bók.
 
Bál tímans kom út síðastliðið vor. Sögumaðurinn í þeirri bók er einkar athyglisverður en það er sjálf Möðruvallabók sem segir sögu sína; hvernig kom það til að þú valdir að segja söguna á þennan hátt?
 
Upplegg bókarinnar var alltaf að reyna að ná utan um þennan ofboðslega langa tíma sem þessi gripur hefur verið til og hefur verið í notkun. Ég beiti öllum brögðum sem ég kann til þess að draga það fram í frásögninni – og þó finnst mér að ég skilji það ekki sjálf til fullnustu! Að hugsa sér að það séu 350 ár síðan handritið var orðið 350 ára! Algjörlega klikkað dæmi. Svo ég vissi að ég vildi fylgja bókinni í gegnum söguna. Fyrst var ég að hugsa um að sögumaður hvers kafla væri barn í námunda við bókina – en þegar það rann upp fyrir mér að við upphaf hvers kafla væri sögumaðurinn úr kaflanum á undan alltaf löngu dáinn og grafinn féll ég frá þeirri hugmynd! Því fór það svo að ég gaf handritinu sjálfu rödd, það er gripurinn sem upplifir þetta allt saman, sér samfélagið breytast og sleppur stundum naumlega.
 
Hvernig atvikaðist það að þú ákvaðst að skrifa um Möðruvallabók og afhverju varð það handrit fyrir valinu en ekki eitthvað annað?
 
Ég velti mikið fyrir mér hvernig handrit ég vildi hafa í forgrunni. Ég vildi að það væri handrit sem hefði sögu sem væri að einhverju marki þekkt en gæfi mér líka svigrúm til þess að skálda í eyðurnar. Ég vildi handrit sem hefði áhugavert innihald, og ég vildi eitt af elstu handritunum. Helst vildi ég að það kæmi úr safni Árna Magnússonar og hefði farið til Kaupmannahafnar og komið heim aftur. Eftir nokkra yfirlegu varð Möðruvallabók fyrir valinu. Eini ókosturinn við hana var hvað hún er glæsileg – hún er bók sem hefur alla tíð verið dýrgripur, sem fólk hefur skilið hversu merkileg er. Þannig missti ég af því að fá söguhetju sem hefði fallið í verðmætamati, bjargast fyrir tilviljun, og endað svo sem djásn á safni. En allt annað hafði Möðruvallabók með sér – drama og dulúð!
 
Þú endar söguna í framtíðinni og þarft töluvert að geta í eyðurnar; hvernig var að setja sig í spor bókar og var ekkert mál að taka sér skáldaleyfi og láta ímyndunaraflið ráða för?
 
Það var satt best að segja mjög erfitt. Ég var allan ritunartímann efins um að frásagnaraðferðin gengi upp. Og mér fannst mjög erfitt að semja þráðinn þar sem saga handritsins er ekki þekkt – ég ákvað strax að ég vildi ekkert setja í bókina sem hefði ekki getað gerst. En ég þurfti að semja eigendasögu sem þjónaði mínum markmiðum, gengi upp í tíma og rúmi og væri innan ramma þess sem hefði getað gerst. Ég var mjög þakklát yfirlesurum sem voru fjölmargir, sem voru mín belti og axlabönd. Mér hefði þótt hræðilegt að setja einhverja vitleysu í prentun. Sömuleiðis var ofboðslega mikilvægt hvað ritstjórinn minn, hún Sigþrúður, trúði strax á verkefnið og hreifst af fyrstu prufuköflunum sem ég skrifaði. Það gaf mér kjark til þess að klára. En nú þegar bókin er búin og er komin út er ég mjög stolt af henni. Myndirnar míns góða kollega, Sigmundar B. Þorgeirssonar, eru dásamlegar og bókin er fallegur prentgripur.
  
Þú hefur verið einkar öflug við að leggja þitt af mörkum til að efla barnamenningu ekki síst með hliðsjón af bókum og bóklestri. Hvaða máli skipta barnabækur að þínu mati? Og hefur þú áhyggjur af því að börn lesi ekki nógu mikið?
 
Ég held að við sem tegund stöndum á mjög miklum tímamótum. Hvernig upplýsingum er miðlað er að breytast mjög hratt, sem og hvernig samskiptum er háttað. Þetta er margt mjög spennandi, en við vitum ekki alveg hvað í þessu felst, og það er kannski barnaskapur að láta eins og við vitum það. Við vitum ekki hvernig heilinn í okkur þolir þetta stöðuga áreiti. Við vitum ekki hvaða áhrif það hefur á okkur að lesa síður lengri og dýpri texta, heldur horfa frekar á kynningarmyndbönd. Nútíminn er magnaður og tæknin er frábær – en eins og svo margt er hún góður þjón en vondur herra.
 
Ég hef trú á því að það sé hættulegt að glata alveg hæfileikanum til þess að kryfja texta upp á eigin spýtur og ég held sömuleiðis að við þurfum að hampa svolítið þeim eiginleika bókarinnar að hún segir ekki „bing! bing! bing!“ við okkur á hverri blaðsíðu. Bókin er griðastaður og ég held að það sé mjög gott að kenna börnum að þau geti leitað þangað. Sömuleiðis held ég að það sé mikilvægt að geta sest yfir stefnumál stjórnmálaflokks og lesa sjálfur hvað frambjóðendur í raun og veru, frekar en bara að treysta á litfögur myndbönd sem birtast fyrir augum okkar á samfélagsmiðlum. Við erum svo berskjölduð ef við þurfum að treysta á það að upplýsingar séu matreiddar ofan í okkur, fremur en að við vinnum úr þeim sjálf.
 
Barnabókin er grunnurinn að því að komandi kynslóðir haldi í þessa getu og eigi leið að bókmenntunum. Það les enginn Dostojevskí sem ekki hefur lesið Astrid Lindgren fyrst. Barnabókin er svo margt – hún er félagi okkar og kennari; hún er huggari, vinur og hún er bókmenntaþjálfari. Listirnar eru okkur nauðsynlegar og það er í barnabókinni sem börn byrja að skilja þetta. Þegar lítill fingur bendir á svartan flekk á blaðsíðu, agndofa yfir því að tilfinning sem það hefur sjálft upplifað birtist þarna á pappírnum í augum litla skrímslisins, þá gerist eitthvað sem máli skiptir.
 
Hvernig fannst þér að þýða bókmenntaritgerð J.R.R. Tolkien; Bjólfskviða: Forynjurnar og fræðimennirnir og hvernig kom það til að þú þýddir það verk?
 
Tolkien-fræðingurinn Ármann Jakobsson hafði lengi haft hug á að gefa út þá ritgerð og skrifað við hana lærðan inngang. Þegar kom að því bað hann mig að þýða. Þetta var strembið verkefni fyrir óreyndan þýðanda og ég naut mikillar aðstoðar Ármanns og prófarkarlesarans Ugga Jónssonar. Þeir eru báðir mjög snjallir og vandvirkir menn, svo ég upplifði mikið öryggi í ferlinu – þótt ég væri ekki innan þægindarammans þá gat ég treyst því að þeir myndu grípa mig. Ég upplifi þýðingar dálítið eins og eftirhermu, og þá meina ég það ekki á niðrandi hátt, heldur að þýðandinn þarf að ganga inn í verkið, máta sig inn í það og kynnast höfundarröddinni og persónueinkennum hennar. Svo þarf að nota þá persónu til þess að segja það sem textinn segir á öðru tungumáli. Þetta gerir þýðandanum kleift að grípa orð sem er viðeigandi fyrir þennan „karakter“ sem höfundarröddin er, þótt það sé kannski ekki beinþýðing á orðinu sem var viðeigandi á frumtungumálinu. Það var mjög skemmtilegt að hvíla í karakter þessarar höfundarraddar, sem var auðvitað bara rödd Tolkien sjálfs, því ritgerðin var upphaflega skrifuð sem fyrirlestur. Ég upplifði það sem mikil forréttindi að prófa þessa nánu sambúð við skáldið og er enn dálítið undrandi á þessu trausti sem Ármann sýndi mér með því að fela mér verkið.
 
Ertu byrjuð á næstu bók?
 
Þær eru fleiri en ein og fleiri en tvær í vinnslu.
 
Við þökkum Arndísi Þórarinsdóttur kærlega fyrir áhugavert og skemmtilegt samtal og hlökkum til að halda áfram að lesa skáldskapinn hennar.
 
Ljósm. af Arndísi: Bókmenntaborgin

 

Tengt efni