SKÁLD.IS

Konur skrifa um konur sem skrifa

Guðrún Steinþórsdóttir og Helga Jónsdóttir11. nóvember 2021

„BÆKUR VITA OFT MIKLU MEIRA EN FÓLKIÐ SEM SKRIFAR ÞÆR“ - Viðtal við SIgríði Hagalín

Sigríður Hagalín Björnsdóttir var þjóðþekkt fréttakona þegar hún steig fram á ritvöllinn árið 2016 með sína fyrstu skáldsögu, Eyland. Bókin, sem þýdd hefur verið á mörg tungumál, vakti verðskuldaða athygli en fyrir hana var Sigríður tilnefnd til Fjöruverðlaunanna og Menningarverðlauna DV. Síðan þá hefur hún sent frá sér tvær bækur til viðbótar, Hið heilaga orð (2018) og Eldarnir. Ástin og aðrar hamfarir (2020) sem hafa jafnframt hlotið lof gagnrýnenda. Bækur Sigríðar eru skemmtilega ólíkar; dystópía, spennusaga um læsi, og ástarsaga þar sem náttúruhamfarir eru óþægilega raunverulegar. Við tókum Sigríði tali og ræddum við hana um sköpunarferlið, áhugaverðar persónur og bækurnar sem, líkt og skáldkonan orðar það, „vita oft miklu meira en fólkið sem skrifar þær.“
 
Lestu mikið? Hvernig bækur lestu helst?
 
Ég hef alltaf lesið mikið, og er illa haldin af abibliofóbíu, sjúklegum ótta við að verða uppiskroppa með lesefni. Ég er skáldsagnamanneskja, en les líka ljóð, sagnfræði og ævisögur, rit almenns efnis og blaðamannabækur.
 
Áttu þér einhverjar fyrirmyndir í ritlistinni?
 
Ekki meðvitað, nei. Þær kúra sjálfsagt allar saman í einni þvögu í undirmeðvitundinni.
 
Finnst þér eitthvað líkt með fréttamennsku og að skrifa skáldskap? Hvernig fara þessi störf saman að þínu mati?
 
Blaðamennska og skáldskapur eiga það sameiginlegt að segja sögur og finna máttugar og frumlegar leiðir til að miðla þeim. Leið mín inn í skáldskapinn lá í gegnum blaðamennskuna – ég var búin að reyna að skilja veröldina og lýsa henni í fréttum í næstum tvo áratugi þegar ég áttaði mig á því að maður getur ekki skilið heiminn án skáldskaparins. Hann er líka að því leyti þægilegri en blaðamennska því að hann leysir mann undan leiðinlegum staðreyndum og óspennandi ummælum sem eyðileggja oft fyrir manni sögurnar. Það er mjög frelsandi að kanna heiminn handan staðreyndanna. Um leið er ég alger örlagablaðamaður, og gæti ekki hugsað mér að hætta að vinna í fréttum og missa tenginguna við raunveruleikann, hætta að spyrja krítískra spurninga og miðla upplýsingum til almennings. Ég er mjög lánsöm að eiga þess kost að vinna við hvort tveggja.
 
Einkennandi fyrir bækurnar þínar er sterk og sannfærandi persónusköpun. Hvaða aðferðum beitir þú til að búa til persónur, eiga þær sér til dæmis fyrirmyndir eða ekki? Og mótast þær við skrifin eða eru þær kannski fullmótaðar þegar þú hefst handa við að semja?
 
Takk fyrir það! Ég hef óskaplega litla stjórn á persónunum mínum, þær skapa sig alveg sjálfar. Missa alveg trúverðugleikann um leið og ég reyni að hafa áhrif á þær. Það var ein skrítnasta reynslan við að byrja að skrifa skáldskap, að kynnast þessu fólki sem streymdi út úr fingurgómunum á mér og niður á lyklaborðið. Frekar óhugnanlegt, eiginlega.
 
Var Eyland búin að vera lengi í mótun þegar þú sendir hana frá þér?
 
Já, hugmyndin kom til mín eftir hryðjuverkaárásirnar í Bandaríkjunum 2001.
 
Sögusviðið sem þú skapar í Eylandi, þar sem Ísland hefur fullkomlega einangrast frá umheiminum, er afar áhugavert. Hvernig kviknaði hugmyndin að bókinni?
 
Ég var nýflutt til Kaupmannahafnar frá New York í september 2001, og upplifði mikla einangrun og innilokunartilfinningu eftir árásirnar, svona langt frá fólkinu mínu á Íslandi og í Bandaríkjunum. Mér fannst hugmyndin liggja svo í augum uppi að ég fór að bíða eftir því að rithöfundur kveikti á perunni og skrifaði bókina. Það gerðist aldrei og á endanum áttaði ég mig á því að hugmyndin hafði valið mig til að skrifa bókina, og ég hlýddi að lokum, fimmtán árum síðar.
 
Sagan fellur kannski helst undir dystópíuna og vísindaskáldsöguna en þó dregur þú ekki upp mynd af tæknilegum framtíðarheimi. Það sem einkennir samfélagið í Eylandi er fremur skortur á tækni og vísindum og þar með er eins og farið sé aftur í tíma að ákveðnu leyti. Hvernig var að glíma við þessa heimsmynd við ritun bókarinnar?
 
Það var mjög erfið og holl hugaræfing, að fjarlægja smám saman þægindi og öryggi nútímaþjóðfélagsins. Skræla burt lúxusinn og okkar sjálfgefnu siðmenningu og réttindi, þangað til við stæðum eftir, frumstæðar og berskjaldaðar manneskjur í þessu harðbýla landi. Það krafðist töluverðrar heimildarvinnu, bæði að kortleggja samskipti okkar og aðföng frá útlöndum, sæstrengi og lyfjabirgðir og sjálfbærni matvælaframleiðslunnar og slíkt, en líka að skoða hversu hugmyndafræðilega og menningarlega sjálfbær við erum.
 
Dystópían felst auðvitað í bágborinni stöðu fólks eftir að sambandið við umheiminn rofnar, eitt nærtækt dæmi er skortur á nauðsynjum, s.s. mat og lyfjum. En viðbrögð fólks við stöðunni eru ekki síður dystópísk og í því samhengi fjallarðu um útlendingahatur eða rasisma og ríka þjóðerniskennd sem leiðir yfir í fasisma, valdnýðslu og ofbeldi. Hvers vegna þróast samfélagið á þessa leið í bókinni?
 
Sagan fjallar að miklu leyti um þjóðernishyggju, og hversu auðvelt er að snúa uppbyggilegri pólitískri orðræðu upp í fasisma. Hún fjallar líka um blaðamennsku og nauðsyn hinnar gagnrýnu umræðu og krítískra spurninga fyrir lýðræðið og allt þjóðfélagið. Við fengum raunar nasasjón af þessari þróun í faraldrinum, þegar krafan um samstöðu þjóðarinnar og hlýðni við yfirvöld varð svo rík, að allar gagnrýnar spurningar sem beint var að sóttvarnaryfirvöldum voru úthrópaðar sem hálfgerð landráð. Það var mjög áhugavert að fylgjast með því. Mér finnst raunar almennum skilningi á nauðsyn hinnar opnu lýðræðislegu umræðu hafa hrakað mjög mikið á undanförnum árum, fólk er orðið mjög viðkvæmt fyrir hvers kyns gagnrýni og andstæðum sjónarmiðum, og þá fer að fjara undan lýðræðinu. Það er miklu styttra í dystópíuna í okkur en við höldum.
 
Útlendingaandúð og fasismi hafa verið í deiglunni undanfarið og svo virðist sem slík viðhorf og tilburðir hafi verið í vexti síðustu ár. Hafði sú þróun áhrif á þig við skrif bókarinnar?
 
Ég skrifaði Eyland í ársbyrjun 2016, löngu fyrir Brexit og áður en Trump komst á kortið í Bandaríkjunum, og áður en þjóðernispopúlistarnir komust til valda í Austur-Evrópu. Bókin var að einhverju leyti innblásin af uppgangi Danska þjóðarflokksins í Danmörku og annarra lýðhyggjuflokka, en ég hafði hreinlega ekki hugmyndaflug til að ímynda mér að saga Vesturlanda gæti þróast eins og hún gerði. Bækur vita oft miklu meira en fólkið sem skrifar þær.
 
Hið heilaga orð er frábær saga og það kemur ekki á óvart að henni hafi verið tekið fagnandi. Sagan er spennandi en gagnrýnendur líktu þér meðal annars við Dan Brown; hvað fannst þér um þann samanburð? Og var ætlunin að skrifa spennusögu?
 
Hjartans þakkir! Mér þykir mjög vænt um Orðið, sem er dálítið dæmigert miðjubarn og stendur oft í skugganum af fyrirferðarmiklum systkinum sínum. Ég kynnti hugmyndina fyrir útgefandanum mínum þannig að mig langaði að skrifa spennusögu um lesblindu, en það var nú bara grín. Mér finnst hún ekki vera spennusaga, þótt það sé vissulega spennuþráður í henni. En ég hugsaði með mér að ef ég ætlaði að troða alls konar flóknum upplýsingum um taugalífeðlisfræði og læsi og upphaf ritmálsins og súmerska goðafræði upp á lesendur, þá væri lágmarkskurteisi að hafa bókina svolítið spennandi. Ég hef satt að segja lítið lesið eftir Dan Brown, en heyrði bókinni einhversstaðar skipað í flokk með einhverju sem er kallað bókasafnaskáldskapur, library fiction, og fannst það mjög fyndið. Mamma mín er nefnilega bókasafnsfræðingur, og ég ólst mikið upp á bókasöfnum. En bókasöfnin í sögunum mínum eru meira innblásin af Umberto Eco og Borges, held ég.
 
Í systkinum bókarinnar má greina forvitnilegar andstæður; Edda er með hyperlexíu eða oflæsi en Einar er lesblindur. Hann á gott með félagsleg samskipti en hún ekki. Hvernig komu þessi systkini til sögunnar og hvers vegna kaustu að segja sögu þeirra?
 
Þau urðu til fyrir helberan misskilning. Þau eru byggð á krökkum sem voru með mér í Hagaskóla, og ég stóð af einhverjum ástæðum í þeirri trú að þau væru samfeðra hálfssystkini, og mæður þeirra byggju saman og hefðu alið þau upp sem alsystkini. Seinna komst ég að því að þetta var alger þvættingur, þau voru ekki einu sinni skyld, og ég veit hreinlega ekki hvernig ég fékk þessa flugu í höfuðið. En sagan var of góð til að sleppa því að nota hana. Ég þekki svo margt hæfileikafólk sem hefur glímt við lesblindu og langaði til að skrifa um það, þannig varð Einar til, og þegar ég var að lesa mér til um lesblindu datt ég um þessa áhugaverðu tegund af einhverfu, oflæsi, og þannig varð vesalings Edda til. Persónurnar voru tilbúningur, en seinna heyrði ég frá systkinum sem lýstu sér eins, og fólki sem var alið upp við þessar sömu aðstæður, sem sýnir enn og aftur að bækur vita stundum meira en fólkið sem skrifar þær.
 
Fjölskyldumynstrið í sögunni er annars býsna óvenjulegt; tvær konur eiga barn með sama manninum og ákveða að ala þau upp saman en án karlsins. Mæðurnar eru líka frekar ólíkar týpur. Getur þú sagt okkur aðeins frá þessum persónum, samskiptum þeirra og hvers vegna sambúð þeirra gengur upp?
 
Nei, eiginlega ekki. Ég veit ekki hvers vegna þær eru eins og þær eru, eða hvers vegna þær tóku þessa ákvörðun. Ég ímynda mér að þær séu að einhverju leyti byggðar á samböndum mínar við vinkonur mínar þegar við vorum í kringum tvítugt, og leigðum og unnum og ferðuðumst saman og vorum í krónískri ástarsorg og hláturskasti og tilfinningalegu uppnámi; eða þá að þær séu byggðar á ólíkum hliðum af mér, sem neyðast til að búa í sama líkamanum. Ég vona bara að þeim líði sæmilega, hvar sem þær eru.
 
Hið heilaga orð hefst á tveimur tilvitnunum annars vegar í Lévi-Strauss og hinsvegar í Fyrstu málfræðiritgerðina. Það er vel við hæfi því sagan fjallar einum þræði um ritmálið og læsi en líka um áhrif tækninnar á ritmálið. Hvaðan kom hugmyndin að þessu viðfangsefni?
 
Hún kviknaði eftir viðtal sem ég tók fyrir löngu við bandaríska taugalífeðlisfræðinginn Maryanne Wolf. Hún hefur rannsakað læsi og lestur og áhrif hans á heilann meira en flestir aðrir, og heillaði mig alveg með þeirri hugmynd að við fæddumst ekki með neina heilastöð til að lesa með, heldur þyrftum að búa til nýjar tengingar í heilanum til þess, breyta heilastarfseminni. Og svo er lestur ekki bara persónuleg athöfn, byggð á lærðri kunnáttu, heldur valdatæki sem gegnsýrir samfélög manna, skipar okkur í stéttir og áhrifahópa, útilokar suma og upphefur aðra. Og tæknibreytingar eins og þær sem við verðum vitni að þessa dagana umbylta þessum valdastrúktúr, eins og dæmin sanna.
 
Hvernig kom það til að þú skrifaðir Eldana?
 
Ég var búin að skrifa hálfa skáldsögu sem var svo vond að ég þurfti að henda henni. Þá lendir maður í óttalegum ógöngum og fer að lesa allan andskotann til að komast út úr þeim, og ég rakst á viðtal við jarðvísindamann í National Geographic sem sagði eitthvað á þessa leið: Eins og allir vita er segulpóllinn í norðri ákaflega viðkvæmur staður. Og þá vissi ég að aðalpersónan mín væri komin; manneskja sem hugsar og talar um jörðina eins og lifandi tilfinningaveru.
 
Í bókinni blandast skemmtilega saman skáldskapur og allskonar fræðilegur fróðleikur um eldgos. Hvernig undirbjóstu skrifin?
 
Eldgos og náttúruhamfarir eru fyrirferðarmikill hluti af störfum fréttamanna á Ríkisútvarpinu, við erum eiginlega með þau á heilanum, og jarðvísindi hafa vakið áhuga minn síðan ég var lítill krakki. Ég bjó að góðum samböndum við vísindamennina, sem reyndust mér ákaflega vel, bentu mér á lesefni og sögðu mér sögur úr bransanum, og lásu yfir handritið fyrir mig svo ég gerði mig ekki seka um vandræðalegar staðreyndavillur. Íslenskt jarðvísindafólk á margt í mjög rómantísku sambandi við landið og fagið, og skrifar óskaplega fallegan og ljóðrænan texta, svo það var hreint ekki erfitt að blanda skáldskapnum og vísindunum saman. Þau voru eiginlega búin að vinna mestu vinnuna fyrir mig.
 
Ástin hefur feikilega mikil áhrif á líf persóna í bókinni og líking hennar við eldgos og aðrar hamfarir er sniðug en hún á afar vel við í sögunni. Hvernig kom þessi tenging til þín? Og hvers vegna er ástin svona hættuleg í bókinni?
 
Mér fannst áhugavert að skoða ástina eins og hvert annað náttúruafl, skapandi og græðandi en líka háskalegt og eyðandi. Við erum svo vön því að líta á ástina sem jákvæðan og uppbyggilegan kraft, við rómantiserum hana stöðugt og lítum fram hjá því hvað hún getur verið eyðileggjandi og stjórnlaus, og tekið af okkur völdin og skynsemina. Það er löng og rík hefð fyrir hættulegri ást og táldregnum yfirstéttarfrúm í bókmenntum, Madame Bovary og Önnu Kareninu og þeim öllum, og ég ákvað að færa hrösun þeirra yfir á íslenska nútímahliðstæðu þeirra, menntaða framakonu með allt sitt á hreinu. Á yfirborðinu, að minnsta kosti, og svo brestur jörðin.
 
Sambönd mæðgna eru afar áhugaverð í bókinni; getur þú sagt okkur frá sambandi aðalsöguhetjunnar, Önnu, við bæði móður sína og dóttur?
 
Mér finnst reyndar samband feðginanna, Önnu og Arnar föður hennar, ekkert síður áhugavert, hann er uppáhaldspersónan mín í bókinni, alveg frábær kall. En mæðgnasambönd eru mjög áhugaverð og flókin, allt flæðir í kvenlegginn, gott og vont. Það er flókið að verða mamma, konur verða í rauninni hýslar barna sinna á meðgöngunni, tilvist barnsins tekur yfir og ýtir þörfum og sjálfi móðurinnar til hliðar. Það er mjög skrítin og krefjandi reynsla að vera ekki lengur aðalpersónan í sínu eigin lífi, og mér finnst í rauninni stórmerkilegt að fleiri konur skuli ekki hlaupast undan merkjum og yfirgefa börnin sín, hafna þessum hamskiptum. En þá kemur ástin til, og samviskusemin. Og þegar kona verður móðir, þá fer hún að sjá sína eigin móður í nýju ljósi, og áttar sig á því hvernig hún sem barn hefur sjálf tekið yfir líf hennar. Móðir Önnu, rétt eins og Edda í Hinu heilaga orði, kiknar undan hlutverkinu, hafnar því. Ég held að ákvörðun Önnu í lok bókarinnar séu viðbrögð við því, hún ætlar að bæta fyrir svik móður sinnar.
 
Eldarnir er mjög myndræn bók og minnir sumpart á stórslysamynd; hefur komið til tals að kvikmynda hana?
 
Það hefur margt komið til tals! Málið er í vinnslu.
 
Hvað fannst þér um viðbrögð fólks við skáldskap þínum og meintri spádómsgáfu eftir að skjálftarnir byrjuðu?
 
Það er auðvitað bara skemmtilegt. Eyland var skrifað sem nokkurs konar bókmenntalegt tilraunaglas, út frá reynslu sögunnar og ágiskunum um samfélagslega þróun í ákveðnum aðstæðum, og ég vona innilega að bókin rætist ekki meira en orðið er. Mér stóð ekki alveg á sama þegar skjálftarnir byrjuðu við Þorbjörn í janúar 2020, því þá var ég nýbyrjuð að skrifa Eldana og hélt að gosið myndi eyðileggja fyrir mér söguna. Sem betur fer hélt Reykjanesskaginn í sér í fjórtán mánuði í viðbót. En það er auðvitað furðuleg tilviljun, að það skuli gjósa þar í fyrsta skipti í 800 ár fjórum mánuðum eftir að bókin mín kemur út. Ég er ekki skyggn, algerlega laus við yfirnáttúrulega hæfileika, en svo það sé nú sagt eina ferðina enn, þá vita bækur stundum meira en fólkið sem skrifar þær.
 
Ertu byrjuð á næstu bók?
 
Já, ég er að paufast þetta við að skrifa og hika og efast og örvinglast, eins og maður gerir, og kannski verður það einhverntímann að bók.
 
Við þökkum Sigríði kærlega fyrir spjallið. Það var virkilega áhugavert að fá innsýn í skáldskap hennar og við bíðum með mikilli eftirvæntingu eftir næstu bók.

 

Tengt efni