SKÁLD.IS

Konur skrifa um konur sem skrifa

Guðrún Steinþórsdóttir og Helga Jónsdóttir29. september 2021

„ÉG HEF GENGIÐ VOÐALEGA MIKIÐ Í STRIGASKÓM“ - Viðtal við Sigrúnu Eldjárn

Sigrún Eldjárn er einn af okkar ástsælustu rithöfundum en í yfir fjörtíu ár hefur hún glatt bæði börn og fullorðna með sögum og myndum af geimverum, peysufatakerlingum og uppátækjasömum stelpum og strákum. Við hittum Sigrúnu í Veröld – húsi Vigdísar Finnbogadóttur og ræddum við hana um skáldskapinn, myndlistina og strigaskó.
 
 
Rithöfundaferill þinn spannar áratugi en Allt í plati kom út árið 1980. Hvað varð til þess að þú ákvaðst að skrifa fyrstu bókina þína?
Ég er menntuð sem myndlistarmaður og kem inn í þennan bókaheim með því að myndskreyta bækur eftir aðra. Ég var búin að gera myndir í nokkrar bækur þegar mér datt í hug að ég gæti alveg prófað að gera sögur sjálf og fá að ráða öllu og þurfa ekkert að beygja mig undir hvað aðrir skrifuðu. Þannig að ég prófaði og hélt ég myndi bara gera eina bók en svo hefur mér ekki tekist að hætta.
 
 
Þú ert gífurlega afkastamikill höfundur, hvað eru bækurnar þínar orðnar margar?
Sko. Ég get aldrei talið þær og það breytist líka með hverju árinu. En þær eru allavega yfir fimmtíu, mistextamiklar. Sumar eru með miklum texta en aðrar eru meiri myndabækur fyrir yngri krakka. Allar skarta þær þó myndum því myndir eru stór hluti af mínum bókum. Mér finnst þetta mjög skemmtilegt og ég göslast bara áfram.
 
 
Í myndabókunum þínum, hvort koma þá á undan myndirnar eða textinn?
Það er nú engin sérstök regla á því. Stundum fæ ég hugmynd að sögu og sé svo fyrir mér hvernig persónurnar líta út en svo kemur fyrir að ég teikna einhverjar fígúrur og horfi svo á þær til að átta mig á hvað þær vilja gera. Þá koma eiginlega myndirnar á undan, svo skrifa ég og enda á því að fullgera myndirnar. En í hausnum á mér eru alltaf að verða til myndir um leið og ég skrifa þó þær séu ekki komnar á blað.
 
 
Hvaða persónu hefur þú til dæmis teiknað og hugsað með þér: „hvað ætlar þessi persóna að gera?“
Það var nú til dæmis Bétveir, geimveran. Það kom fljótlega í ljós að hana langaði til að kynna sér bækur. Þetta er svona áróðursbók fyrir bóklestur.
 
 
Ertu alltaf með nóg af hugmyndum?
Já ég hef ekki lent í neinni stíflu. Ég fæ stundum fullt af hugmyndum sem ég get ekki nýtt allar í einu. Þá nótera ég þær hjá mér í hugmyndabanka. Ef ég er hugmyndalaus kíki ég þangað og finn eitthvað nothæft.
 
Hvernig bækur eru í uppáhaldi hjá þér?
Ég vil hafa bækur skemmtilegar, spennandi, vel skrifaðar og fallegar. En það er engin sérstök tegund sem er í uppáhaldi.
 
Lestu mikið af barnabókum?
Ég les helling en ekki alveg nógu mikið af barnabókum, ég ætti að gera meira af því
 
Eru einhverjir höfundar í uppáhaldi?
Ég ætla ekki að hætta mér út á þá braut að nefna einhverja. Það er fullt af góðum íslenskum höfundum, bæði barnabókahöfundum og fullorðins. Maður reynir að grípa það helsta sem kemur út. Sem betur fer er mikið af nýjum og notuðum höfundum á Íslandi sem eru að gera margt frábært og skemmtilegt.
 
Finnst þér hafa orðið breytingar á því hvernig er fjallað um barnabækur í dag og þegar þú komst fyrst fram með þínar bækur?
Já. Það loðir alltaf við, því miður ennþá, að fólki finnast barnabækur vera eitthvað ómerkilegri bókmenntir en allt hitt. En það er auðvitað algjör vitleysa. Í rauninni var áður miklu meira skrifað af gagnrýni í dagblöðunum og hér og þar. Það er minna um það núna, og styttri texti. En fólk er líka meira og minna hætt að lesa dagblöð. Það er kannski helst á vefsíðum eins og ykkar sem finna má umfjöllun. En núna er svo mikið af fínum og flottum barnabókahöfundum sem halda vel saman og mér finnst flottur kraftur í því. En það þarf sífellt að minna fólk á hvað það skiptir miklu máli að börnin lesi og að lesið sé fyrir þau því börn sem ekki lesa verða varla að lesandi fullorðnu fólki.
 
Linda Ólafsdóttir og Bergrún Íris Sævarsdóttir skrifuðu grein sem heitir „Ósýnilegi meðhöfundurinn“ þar sem þær segja: „Umfjallanir um barnabækur sniðganga oft nær alfarið annan höfundinn og gagnrýnendur minnast varla orði á myndir, nema þá helst til að kalla þær sætt skraut. Myndhöfundar fá nær aldrei starfslaun úr Launasjóði listamanna og því kemur ekki á óvart að myndhöfundar upplifi sig jafnvel sem afgangsstærð.“ Er þetta þín upplifun?
 
Þetta er náttúrulega alveg hrikalegt. Maður tekur vel eftir þessu. Í mínum bókum er ég auðvitað báðir þessir höfundar, sú sem skrifar og sú sem gerir myndir þannig að það truflar mig kannski minna. En það er oft skrifað um bækurnar en ekkert minnst á myndirnar þótt í mörgum þeirra séu myndirnar alveg jafn réttháar, skipta jafn miklu máli og bæta líka við textann, það gera alltaf góðar myndir.
 
Stundum eru myndirnar kallaðar myndlýsingar frekar en myndskreytingar til að leggja áherslu á að þær segja líka söguna.
Já fólk er stundum viðkvæmt fyrir því að kalla myndir myndskreytingar eins og þetta sé skraut en það truflar mig svo sem ekkert voðalega mikið. En ef ég geri myndir í bækur fyrir aðra þá læt ég alltaf standa: Sigrún Eldjárn gerði myndirnar frekar en myndskreytti. Mér finnst það einhvern veginn einfaldara og réttara.
 
Nú er komin svo mikil tækni í kringum að teikna, hefur eitthvað breyst hvernig þú vinnur? Vinnurðu t.d. með svona tölvuteiknijúnit?
Ég hef alveg prófað það en mér finnst bara svo gott að vera með pappírinn og litina og það allt saman milli handanna. Svo ég held því áfram. Hins vegar skanna ég myndirnar inn og vinn svo kannski eitthvað aðeins í þeim eða laga þær eitthvað til í tölvunni.
 
Ég geri oft myndirnar þannig að bakgrunnurinn er gerður á grófan vatnslitapappír og svo fígúrurnar á fíngerðari pappír. Áður fyrr klippti ég þær svo út og límdi þær á bakgrunninn. Þannig gerði ég til dæmis sögurnar um Hörpu og Hróa. Þar sér maður það svolítið vel. En núna upp á síðkastið geri ég í rauninni það sama nema ég nota ekki skærin og límið lengur heldur set ég þetta saman í tölvunni. Það þýðir að á gömlu myndunum á ég myndina nákvæmlega eins og hún er en núna á ég bara bakgrunn á einu blaði og fígúrurnar á öðru blaði. En þetta er samt alveg sama aðferðin, bara gerð með örlítið öðrum verkfærum
 
En ertu mikið að mála með ritstörfunum?
Ég tek alveg svona syrpur. Upp á síðkastið hef ég verið meira að teikna með blýanti og vatnslita heldur en að mála. En jú ég er alltaf eitthvað að því líka og stundum hef ég haldið litlar sýningar hér og þar. Þannig að ég mun ekki sleppa því.
 
Hvernig var að alast upp á Þjóðminjasafninu? Heldurðu að það hafi haft einhver áhrif á sköpunina?
Já þegar ég var að alast upp þá fannst mér ekkert óeðlilegt að búa á safni, ég þekkti auðvitað ekkert annað. En ég held að þetta hafi haft alveg heilmikil áhrif á mig. Ég valsaði um safnið, skoðaði hlutina og heilsaði upp á gæslukonur sem voru oftast í peysufötum með skotthúfur, þær hafa nú mjög mikið laumast inn í mínar sögur og málverk líka. Svo var líka ýmislegt spennandi að skoða eins og beinagrindur og allskonar merkilegir gripir. Það var frábært að alast upp á Þjóðminjasafninu og góð staðsetning í bænum. Ég hef svolítið verið að rifja upp ýmislegt úr safninu og skrifa niður hjá mér. Ég á kannski eftir að skrifa barnabók um hvernig var að búa þar.
 
Svo fluttist þú þaðan sem unglingur á annan merkan stað, Bessastaði. Hvernig var það?
Ég var náttúrulega unglingur og mér fannst ekkert sérstaklega gaman að flytja úr miðbænum langt út í sveit. Ég held að þá hafi strætó farið alla leið út á nesið tvisvar í viku, eitthvað svoleiðis. Svo var Hafnafjarðarstrætó sem stoppaði við afleggjarann á Álftanesi. Ég var í skóla í Reykjavík, Hagaskólanum, svo á heimleiðinni úr skólanum þurfti að fara úr strætó við afleggjarann og þá annað hvort að ganga í klukkutíma eða láta sækja sig.
 
Mér fannst svolítið skrýtið að flytja þangað og pínu erfitt að fara úr vinahópi en svo var það líka frábært, ég kynntist líka einhverjum krökkum þar. Þetta voru vissulega sérstök heimilisföng, Þjóðminjasafnið og Bessastaðir.
 
Þú nefndir Bétvo áðan og geimurinn kemur ítrekað fyrir í bókunum þínum. Geturðu sagt okkur hvers vegna þú kýst að skrifa um ótal geimverur og geimferðir?
Mér finnst mjög gaman að finna eitthvað svona ævintýralegt sögusvið sem býður upp á ýmsa möguleika. Geimverur er hægt að láta gera hvað sem er. En ég er svo sem búin að fara út um allt í sögunum mínum, hef líka verið neðanjarðar. Þetta eru svo margar bækur og nauðsynlegt að finna ný og ný svið.
 
Í bókum þínum birtast margvíslegar persónur og þær endurspegla gjarnan fjölbreytileika samfélagsins án þess að vikið sé sérstaklega orðum að því. Fjörgamlar konur eru til dæmis aðalpersónur í sumum bókunum og í Gula sendibréfinu kynnumst við persónu sem notar hjólastól. Þá er Harpa í Drekastöppunni og Kynlegum kvisti á grænni grein með dökkt litarhaft. Vinnur þú meðvitað að því að skapa fjölbreyttar persónur og finnst þér það mikilvægt?
Já, mér finnst það mikilvægt. Mér finnst sjálfsagt að hafa krakkana mismunandi á litin án þess að vera nokkuð að minnast sérstaklega á það, þau eru bara svona og það sést á myndunum, svona er heimurinn. Varðandi eldra fólkið þá er það kannski komið frá peysafatakonunum á Þjóðminjasafninu, ég veit það ekki. En mér finnst svo skemmtilegt að láta gamlar kellíngar gera allt mögulegt ærslafengið. Það sama á líka við um langafa sem drullumallar. Svo er gaman að láta krakka og gamalt fólk leika sér saman. Ég hef svo haft minni áhuga á foreldrakynslóðinni þótt þau fái að vera með í sumum sögum.
 
Hvernig finnst þér þetta í íslenskum barnabókum svona heilt yfir. Finnst þér persónurnar endurspegla fjölbreytileikann í samfélaginu eða sýna þær einsleitt samfélag?
Ég er ekki alveg viss um það. En það er ekki gott að vera eitthvað rosalega pólitískt rétttrúuð og alltaf að passa að allt sé rétt þá getur það orðið þvingað og skrýtið.
 
Í gegnum tíðina hafa birtingarmyndir stúlkna og drengja í bókum einkennst svolítið af staðalímyndum þar sem drengir eru í gerendahlutverki en stúlkurnar passívari. Þannig er það ekki í þínum bókum, t.d. er Harpa hugrökk, frökk og afar orkumikil á meðan Hrói er mun rólegri karakter og verður auðveldlega hræddur. Dýnamíkin milli Málfríðar og Kuggs er kannski svolítið svipuð líka þar sem Málfríður er þessi hvatvísa og hressa og svo er hún líka mikil uppfinningakona. Er það með ráðum gert hjá þér að storka staðalímyndum um kynin?
 
Ég hugsa að þetta hafi bara gerst. Þetta er ekki eitthvað sem ég ákveð að gera. En stundum hef ég haft áhyggjur af því að þetta sé of mikið, að strákarnir séu kannski of feimnir og óöruggir með sig. Ég hef tilhneigingu til að gera stelpurnar djarfar, það hefur verið þörf á því. En ég vil auðvitað alls ekki að strákarnir í bókunum mínum séu endilega einhverjir aumingjar. En þetta er tilhneiging hjá mér að hafa stelpurnar heldur hressari.
 
 
Þú fjallar líka um stóru málin í bókum þínum. Í bókunum um Sigurfljóð fjallar þú til dæmis um ofríki mannsins á jörðinni sem er að eyðileggja lífríki jarðar og líka veruleika barna í stríðshrjáðum löndum. Finnst þér mikilvægt að börn kynnist vandamálum heimsins í bókum, og svona ung?
 
Ég hef í gegnum tíðina alls ekki viljað hafa áberandi boðskap í sögunum. Ég hef lagt meiri áherslu á að þær séu skemmtilegar, að það sé gaman að lesa þær. En í Sigurfljóðarbókunum kemur þetta svolítið inn og á rosalega einfaldan hátt. Ég hef alls ekki verið að troða einhverju í börnin. Það var reyndar mest í seríunni um Strokubörnin á skuggaskeri, sem fjallar um stríð, að ég ákvað að fara út í eitthvað svoleiðis. En annars hefur þetta meira verið einhver ævintýraleg vitleysa hjá mér
Þegar þú ferð í pólitíkina, er þetta eitthvað sem brennur á þér?
 
Þetta er líklega eitthvað sem er að veltast um í hausnum á mér og þá bara vonast ég til að það hafi einhver áhrif á lesendur. Þetta er eitthvað sem ég vil að komist inn í hugsunina og gjarnan að það sé eitthvað rætt.
 
Þú fjallar líka um loftslagsbreytingar í Silfurlyklinum og rétt eins og það er Sigurfljóð sem kallar eftir breytingum í bókunum um hana eru það börnin í þeirri sögu sem eiga að bjarga jörðinni. Við viðtöku Íslensku bókmenntaverðlaunanna fyrir Silfurlykilinn sagðir þú líka: „eins og kemur fram í sögunni er vonin í börnunum og í bókunum.“ Geturðu útskýrt það fyrir okkur?
Þarf eitthvað að útskýra það? Von mannkynsins er náttúrulega í börnunum. Að þau átti sig á hlutunum og þá kannski koma að gagni einhverjar ábendingar eins og eru í Silfurlyklinum.
 
Það er rosalega skemmtilegur heimur sem blasir við í þeirri bók að samfélagið fari aftur til fortíðar.
Já, mér fannst mjög skemmtilegt að glíma við það og fá krakkana til að átta sig á því að kannski hyrfi einn góðan veðurdag öll þessi tækni sem við erum orðin svo háð.
 
Nú hefur þú unnið mikið með bróður þínum, Þórarni Eldjárn. Geturðu sagt okkur frá því samstarfi?
Þetta eru eitthvað þrettán, fjórtán bækur sem við höfum unnið saman. Þær eru flestar þannig að Þórarinn gerir ljóðin og ég geri myndirnar við en svo eru þarna nokkrar þar sem að ég byrjaði, eða átti hugmyndina. Þá gerði ég myndir sem hann gerði síðan ljóð við. Hann kallar það að ljóðskreyta. Það er yfirleitt bara þannig að Þórarinn segir við mig „heyrðu ég er nú kominn með nokkur ljóð í nýja bók“ og svo fer hann að senda mér og ég er yfirleitt mjög fljót að fá einhverja hugmynd og rissa upp. Svo þegar ég er komin með einhvern bunka þá hittumst við og ég sýni honum. En stundum er hann með ákveðnar skoðanir og tillögur að breytingum og stundum er kannski eitthvað sem hann vill alls ekki hafa en það gerist mjög sjaldan.
 
Það er nú langt síðan við gerðum bók þar sem ég kem með hugmyndir til hans og hann byrjar að semja vísur. En þannig unnum við til dæmis Gleymmérei, Starfórfskver, Talnakver og Tíu litla kenjakrakka. Það hefur gengið alveg rosalega vel og þetta er mjög fyrirhafnarlítil samvinna. Við erum ekkert að rífast, erum bara góð systkini.
 
Þú verður að segja okkur aðeins frá strigaskónum sem eru hálfgert einkennismerki á myndlýsingum þínum. Hvernig byrjaði það?
Já hvernig gerðist það? Ég hef gengið voðalega mikið í strigaskóm. Maður fékk alltaf sem barn á sumardaginn fyrsta nýja strigaskó. Svo þegar ég var í menntaskóla og Myndlistar- og handíðaskólanum, þá fór ég mikið að vera í strigaskóm og svo einhvern veginn kom þetta bara af sjálfu sér inn í myndirnar. Ég vann dálítið með strigaskó sem efnivið í málverk, teikningar og grafíkmyndir. Svo gerðist það eiginlega bara af sjálfu sér að allar mínar fígúrur, eða nánast allar, eru í strigaskóm. Þetta er orðið svolítið mitt vörumerki þessir strigaskór. Þá þarf ég bara ekkert að hugsa meira um það. Málið afgreitt í eitt skipti fyrir öll! Það er aðallega spurning um hvernig þeir eiga að vera á litinn.
 
 
Við tókum eftir því þegar við vorum að skoða Axlabönd og bláberjasaft að strákurinn þar, hann Áki, er ekki í strigaskóm og ekki geimverurnar heldur. Hann virðist vera í einhvers konar brúnum leðurskóm, ætli það hafi verið fyrir tíma strigaskóna?
 
Nei í fyrstu bókinni minni, Allt í plati, eru persónurnar í strigaskóm. En þetta hefur ekki verið orðið alveg ófrávíkjanleg regla hjá mér þótt vissulega séu næstum allir í því skótaui.
 
Þú hefur sem sagt verið að prófa þig áfram með annars konar skóbúnað?
Já en svo hefur það ekki gengið. Stundum eru það reyndar þau sem eru eitthvað vond eða leiðinleg sem eru ekki í strigaskóm.
 
En þú, notar þú enn mikið strigaskó?
Jájá. Ekki eins mikið og ég gerði en ég á strigaskó og fer oft í þá.
 
Um sumar persónur hefur þú skrifað fleiri en eina bók og raunar fjölmargar um sumar. Eru einhverjar persónur sem þú hefur skapað þér nákomnari en aðrar?
Ég hef náttúrulega skrifað langflestar sögur um Kugg, Málfríði og mömmu hennar. Þau eru alltaf svona yfirvofandi. Ég man ekki hvað er langt síðan fyrsta bókin um Kugg kom út, það eru líklega meira en þrjátíu ár. Það mun koma út ný bók um þau á næsta ári. Ég held ég myndi nefna þau sem þær persónur sem hafa lifað lengst með mér. Þau eru alltaf tilbúin að gera eitthvað skemmtilegt. Í bókinni sem kemur út næsta vor eru þau stödd í Kaupmannahöfn. Ég var í vetur í Jónshúsi og vann þá við þessa bók og að safna efni í hana. Þau heilsa þar upp á helstu staðina í Kaupmannahöfn.
 
Er ekki einnig von á leikriti frá þér? Getur þú sagt okkur frá því?
Já. Þetta er leikrit sem heitir Umskiptingur og það er ekki gert upp úr neinni bók. En kannski verður bók úr því líka. Það er Þjóðleikhúsið sem mun setja verkið upp á litla sviðinu. Þetta er tiltölulega stutt leikrit um umskipting, mannfólk, tröllafjölskyldu og ofurfjölskyldu sem samanstendur af ofurpabba og tveimur ofurbörnum hans. Þannig að þetta eru svona þrír heimar sem mætast. Ég er rosalega spennt að fylgjast með því hvernig þetta muni koma út á sviði. Það verður byrjað að æfa þetta núna fljótlega og svo verður frumsýning í lok janúar.
 
Er myndlistin þín með í sýningunni?
Snorri Freyr Hilmarsson mun sjá um leikmynd og búninga. Ég veit ekki alveg hvað hann ætlar að gera en hann hlýtur að hafa fólkið í strigaskóm. Ég þarf eitthvað að tékka á honum. En ég er bara mjög spennt að láta hann búa til þennan heim og þurfa ekki endilega að vera teikna hann sjálf. Svo er ég líka mjög ánægð með að Ragnhildur Gísladóttir ætlar að gera tónlist og er hún nú með einhverja bullusöngtexta sem ég er búin að yrkja.
 
Þetta er mjög gaman því ég er vön að sitja bara ein og gera allt, skrifa, teikna og brjóta um, en núna legg ég þetta í hendurnar á flottu fólki. Leikstjórinn heitir Sara Marti og mér finnst þetta allt saman mjög spennandi.
 
Hefurðu áður samið leikrit?
Ég gerði leikrit um Kugg sem hét Kuggur og leikhúsvélin. Það var gert upp úr nokkrum sögum, sem var blandað saman. Þar náttúrulega vissu allir í hvernig fötum fígúrurnar áttu að vera það var ekkert hægt að breyta því.
 
Hvað er fleira á döfinni hjá þér?
Í haust kemur svo út jólasaga eftir mig. Hún heitir RAUÐ VIÐVÖRUN! jólin eru á leiðinni. Þar segir frá Jóa og Lóu sem eru eiga alveg eftir að undirbúa jólin og þurfa að hafa hraðan á. Þetta eru 24 stuttir kaflar sem er tilvalið að lesa einn á dag í desember fram að jólum. Þessi bók er hressileg og hátíðleg og verður líka stútfull af myndum eins og allar hinar.
 
Það verður einkar spennandi að fá nýja bók um Kugg, Málfríði og mömmu hennar annars vegar og glænýja jólasögu til að lesa á jólaföstunni. Þá verður ekki heldur leiðinlegt að skunda í leikhúsið í strigaskóm og sjá nýja sögu eftir Sigrúnu lifna við á fjölunum.

 

Tengt efni