SKÁLD.IS

Konur skrifa um konur sem skrifa

Guðrún Steinþórsdóttir og Helga Jónsdóttir22. september 2021

„ÉG ER BARA MJÖG HRIFIN AF HRYLLINGI. OG SKRÝMSLUM. OG GEIMVERUM“ - Viðtal við Hildi Knútsdóttur

 
Hildur Knútsdóttir er einkar afkastamikill rithöfundur en hún er þekktust fyrir barna- og unglingabækur sínar. Meðal verka Hildar sem hafa notið mikilla vinsælda má nefna Ljónið, Nornina og Skóginn. Nú í haust er von á nýrri bók en í þetta sinn er um sálfræðitrylli fyrir fullorðna að ræða sem heitir Myrkrið milli stjarnanna. Við tókum Hildi tali og ræddum við hana um furðusögur, rithöfundasamstarf, geimveruskrímsli og þjóðþekktan kött.
 
Þú hefur lagt þig fram um að skrifa furðusögur eða fantasíur, bæði fyrir börn og ungmenni. Hvers vegna sækir þú í þessa bókmenntagrein?
Ég settist aldrei niður og ákvað að verða furðusagnahöfundur. Fyrst ætlaði ég bara að verða venjulegur rithöfundur og skrifa bækur fyrir fullorðna. Og það var svo reyndar ekki fyrren nokkrum árum eftir að fyrsta bókin mín, Sláttur, kom út að ég áttaði mig á því að líklega myndi hún teljast sem furðusaga, það eru allavega þannig element í henni. En það er bara eitthvað við það að hafa fleiri möguleika en okkar raunheimur býður upp á sem heillar mig. Fyrir mér eru bókmenntir fyrst og fremst raunveruleikaflótti – leið til að komast út úr hversdeginum. Og þá langar mig yfirleitt að fara aðeins lengra en náttúrulögmálin í okkar heimi leyfa.
 
Lestu sjálf mikið af fantasíum og ef svo er hverjir eru þínir uppáhalds höfundar?
Ég les alveg allskonar bækur, en já, ætli ég myndi ekki skjóta á að a.m.k. 60-70% af því sem ég les mér til ánægju séu furðusögur. Og ég á marga uppáhaldshöfunda og þeir skrifa ekki allir furðusögur. Naomi Novik, Ursula Le Guin, Jane Austen, Katherine Addison, Marian Keyes, Kate Atkinson, Robin Hobb ... og svo auðvitað J.K. Rowling. Ég er búin að ákveða að leyfa mér að halda áfram að elska bækurnar hennar alveg burtséð frá hennar persónu og skoðunum.
 
Það er eftirtektarvert hversu mikið þú hefur skrifað fyrir ungmenni; hvernig finnst þér úrvalið af bókum fyrir þann aldursflokk vera hérlendis?
Mér finnst allt of fáar ungmennabækur koma út hér á landi. Fyrir sum jól koma kannski bara þrjár frumsamdar ungmennabækur út hjá stóru forlögunum, þ.e. ef við teljum ekki með þýðingar og sjálfsútgáfu. Það er alltof, alltof lítið. Ungmenni sem lesa mikið klára þá ársskammtinn á tveimur vikum. En það er reyndar aðeins að breytast, sem betur fer. Á allra síðustu árum hafa komið fram fleiri höfundar sem skrifa ungmennabækur, sem er frábært.
 
 
 
 
 
Finnst þér mikill munur á að skrifa fyrir mismunandi aldurshópa; börn, ungmenni og fullorðna?
Ég velti markhópnum yfirleitt ekki mjög mikið fyrir mér þegar ég er að skrifa. Mér finnst þetta frekar snúast um að vera trúr aðalpersónunni sinni. Og ef aðalpersónan er sextán ára og er að byrja í menntaskóla þá þarf röddin og sjónarhornið í bókinni að endurspegla það. En nú er ég t.d. að gefa út fyrstu „fullorðinsbókina“ mína í langan tíma, eiginlega síðan Sláttur kom út fyrir 10 árum. Hún kemur út í byrjun október og heitir Myrkrið milli stjarnanna. Og ég held að þar leyfi ég mér kannski að vera með stærri þagnir – hafa textann margræðari. En kannski er það bara afþví að aðalsöguhetjan mín þar er ekki alltaf beinlínis hreinskilin við sjálfa sig. Og textinn endurspeglar það.
 
Ertu iðulega búin að ákveða sögurnar sem þú skrifar frá upphafi til enda eða þróast þær og breytast eftir að þú hefur skriftirnar?
Ég þarf að vera búin að leggja söguna sirka niður fyrir mér áður en ég byrja að skrifa. Og ég þarf að hafa frekar skýra hugmynd um sögusviðið og persónur. Ég þarf allavega að vita stóru punktana í sögunni, hvernig hún byrjar, stærstu átakapunktana og svo þarf ég að vita hvernig hún endar. Ég sé þetta svolítið fyrir mér eins og fjallgarð sem ég horfi á úr fjarska. Þegar ég byrja þá sé ég alla tindana. En ég rata ekki endilega á milli þeirra og í miðjum skrifum þarf ég stundum að þreifa mig áfram til að finna réttu leiðina. En það er gaman því stundum rekst maður á einhverja óvænta stíga, eða kannski hellisskúta sem þarf að kanna – og það er líka mikilvægt að vera opinn fyrir því að eitthvað geti breyst frá upprunalegu hugmyndinni á leiðinni.
 
Geturðu sagt okkur frá samstarfi ykkar Þórdísar Gísladóttur?
Það kom eiginlega bara þannig til að Þórdís spurði hvort ég væri til í að skrifa með henni unglingabók og ég sagði já! Við erum náttúrulega vinkonur og við deilum skrifstofu og einhvernveginn steinlá þetta bara. Þórdís er náttúrulega mjög skemmtileg og fyndin og það er mjög gaman að skrifa með henni. Við vinnum þannig að við búum til persónur og söguþráð og svo byrjar önnur okkar bara að skrifa fyrsta kaflann. Síðan sendir hún á hina sem les og lagfærir og skrifar svo nýjan kafla og sendir á hina. Sem svo les og lagfærir og skrifar svo nýjan kafla o.s.frv. Og við megum alveg henda einhverju sem hin skrifar og breyta og yfirleitt erum við báðar búnar að hræra svo mikið í textanum að þegar bókin kemur út þá munum við ekkert hvor skrifaði hvað.
 
 
 
 
Hvaðan kom hugmyndin að bókunum um Dodda?
Þórdís á nú heiðurinn af henni minnir mig. Hún var búin að heyra að það vantaði bækur fyrir börn og unglinga sem nenntu ekki að lesa langar fantasíur. Og við ákváðum bara að bæta úr því og skrifa stutta bók sem stæði mjög föstum fótum í raunveruleikanum. Og nútímanum. Við skrifum mikið um atburði líðandi stundar. Stundum hefur okkur verið sagt að það sé ekki endilega sniðugt því þá eldist bækurnar svo illa. En okkur er alveg sama. Við erum ekki að skrifa þær fyrir börn og unglinga framtíðarinnar heldur fyrir þau sem eru börn og unglingar núna. Það þarf nefnilega ekki allt að vera einhver tímalaus snilld.
 
Í fyrra senduð þið frá ykkur skemmtibókina Hingað og ekki lengra um Vigdísi Fríðu og vinkonur hennar og nú er von á nýrri bók í þessum flokki. Hvers vegna ákváðuð þið að skrifa þessar bækur?
Við ákváðum í rauninni bara að skrifa bækur á borð við Dodda-bækurnar, en bara um stelpu núna. Okkur langaði til þess að taka smá púlsinn á því sem er að gerast í kringum unglinga og skrifa um það.
 
Vigdís og vinkonur hennar eru róttækar unglingsstúlkur og þú hefur sagt í viðtali að unglingar séu róttækasta fólkið. Getur þú útskýrt það nánar?
Ég hef verið svolítið dugleg að mæta á Loftslagsverkföllin niðri á Austurvelli á föstudögum, þ.e. á meðan covid leyfði. Þar koma saman börn sem skrópa í skólann einu sinni í viku til þess að mæta og krefjast aðgerða í loftslagsmálum. Þau átta sig á þeirri slæmu stöðu sem eldri kynslóðir hafa komið þeim í og benda á óréttlætið sem er fólgið í því að velta vandanum yfir á þau, sérstaklega ef það er þegar orðið um seint að gera eitthvað í málunum þegar þeirra kynslóð kemst til valda. Ákvarðanir sem eru teknar inni á Alþingi núna koma til með að hafa gríðarleg áhrif á allt þeirra líf og lífsgæði og þau hafa ekki einu sinni kosningarétt. Þannig að það er að alast upp mjög róttæk kynslóð. Þau eru bókstaflega að reyna að bjarga heiminum. Og okkur langaði til þess að skrifa um þau.
 
Það sem gerist stundum á þessum árum er að unglingum finnast hlutirnir svolítið svarthvítir. Réttlætiskenndin er sterk og kannski ekki endilega mikil þolinmæði. Þegar við fullorðnumst förum við að sjá heiminn í meiri gráskala og förum að hafa meiri samkennd með bjúrókrötum og kerfinu. En þetta viðhorf unglinga endurspeglar bara nákvæmlega loftslagsvandann. Það er bara annað hvort eða. Annaðhvort höldum við hlýnun undir 1,5 gráðu og hlutirnir verða viðráðanlegir. Eða við gerum það ekki og allt fer úr böndunum. Það eru bara við, hin fullorðnu, sem sjóðum hægt og rólega í gráa vatninu, í meðvirkni með þessu kapítalíska kerfi sem við höfum alist upp í.
 
Sem höfundur þá er líka hægt að sjá ýmsa skondna vinkla á persónum sem sjá hlutina svona, og mögulega árekstra þeirra við þá sem gera það ekki, án þess að gera samt á nokkurn hátt lítið úr neinum. Enda er ég yfirleitt mjög sammála Vigdísi Fríðu, Geirlaugu og Rebekku. En ég skil líka foreldra þeirra.
 
 
 
 
 
Í bókunum Vetrarfrí og Vetrarhörkur má greina mikinn óhugnað og kannski væri bara hægt að skilgreina sögurnar sem hrollvekjur. Hvert er hlutverk óhugnaðarins í sögunum og getur þú sagt okkur hvers vegna þú sækir í hann?
Ég er bara mjög hrifin af hryllingi. Og skrímslum. Og geimverum. Geimveruskrímsli eru samt best. Og mig langaði til þess að skrifa sögu um þau. Hugmyndin kom bara til mín og ég ákvað að skrifa hana og það var eiginlega ekkert flóknara en það. Mig langaði til að taka þetta ameríska form og planta því hingað í mjög íslenskan veruleika og sjá hvernig útkoman yrði. En ég held að við sækjum flest í hrylling til þess að fá smá útrás. Það er gott að upplifa hæfilega skammta af hryllingi í öruggu umhverfi, einsog í bíói eða uppi í sófa með bók.
 
Fram hefur komið að væntanlegir séu sjónvarpsþættir byggðir á bókunum Vetrarfrí og Vetrarhörkur. Hvernig hefur gengið að breyta bókunum í þætti?
Það hefur gengið bara vel, þótt það séu auðvitað alltaf áskoranir að færa svona sögu á milli miðla. En ég bara veit ekki alveg hver tímaramminn er. Það er eitt sem ég er búin að læra af þessum sjónvarpsbransa og það er að það tekur allt mjööög langan tíma! En svo getur allt gerst mjög hratt þegar það fer svo af stað.
 
Hvaðan kom hugmyndin að þríleiknum?
Vorið 2016 var ég nýbúin að skila af mér handriti að Vetrarhörkum og var farin að hafa smá áhyggjur af því að hvað ég ætti eiginlega að skrifa næst. Ég var nefnilega ekki með neina hugmynd að nýrri sögu. Einn daginn var ég að skoða fasteignauglýsingar á netinu og sá þá auglýst hæð og ris í Skólastræti. Ég hafði auðvitað enganveginn efni á þessari íbúð en fór að skoða myndirnar og ég varð heilluð af þessu húsi. Það var eldgamalt og skrýtið og rammskakkur skorsteinn sem virtist ögra þyngdarlögmálinu. Ég hringdi í fasteignasalann, þóttist hafa áhuga á að kaupa það og fékk að koma að skoða. Og þá sá ég þennan skrýtna skáp í litla risherberginu. Og ég vissi að ég yrði að skrifa bók um þetta dularfulla hús og þennan skáp. Nokkrum dögum síðar fór ég upp í sumarbústað og lá þar andvaka í næturbirtunni. Og þá kom sagan bara til mín, allar bækurnar þrjár.
 
 
 
 
Var ekkert erfitt að skrifa eina bók á ári?
Ég gerði það ekki beinlínis. Ég kláraði fyrsta uppkastið að Ljóninu verslunarmannahelgina 2017. En ég ákvað að gefa hana ekki út fyrren árið eftir því ég vildi vera komin ágætlega inn í bók númer tvö áður en ég gæfi þá fyrstu út, ef ég skyldi átta mig á því að ég þyrfti að breyta einhverju. Ég gerði það sama með Vetrarfrí og Vetrarhörkur, Vetrarfrí hefði í raun getað komið út ári fyrr, en ég ákvað að geyma hana og vera langt komin með seinni bókina áður en ég sendi þá fyrri í prentun. Þannig að ég var mjög langt komin með Nornina árið 2018 þegar Ljónið kom út. En svo þurfti ég að hafa mig alla við til að ná að koma Skóginum út á réttum tíma. Ég og ritstjórinn minn vildum nefnilega endilega ná þeim öllum út án þess að það liði meira en ár á milli. Yfirleitt er ég tilbúin með handritið að jólabókinni í janúar, en þarna var svo mikið að gera hjá mér að mér tókst ekki að byrja á Skóginum fyrr en í febrúar 2020. Svo kom leikskólaverkfall. Svo kom Covid. Og á tímabili hélt ég að þetta myndi ekki hafast, og að mér myndi alls ekki takast að klára hana tímalega, en það bjargaðist fyrir rest. En þetta er erfiðasta bók sem ég hef skrifað. Bara vegna ytri aðstæðna. Ég komst t.d. að því að ég á mjög erfitt með að einbeita mér þegar það geisar drepsótt allt í kring.
 
 
 
 
 
Þú tekur stór stökk á milli Ljónsins og Nornarinnar getur þú sagt okkur frá ástæðum þess?
Það er í rauninni bara vegna þess að ég lagði upp með þennan tímaramma; að á 79 ára fresti þá kemur einhver vera út úr þessum skáp í Skólastrætinu og reynir að lokka stúlku inn í annan heim. Ljónið fjallar um atburði sem gerast 1938 og 2017. Og þá varð Nornin að gerast 79 árum síðar. Ég lagði í rauninni ekki upp með að skrifa vísindaskáldsögu um loftslagsbreytingar. En það er bara ekki hægt að skrifa um framtíðina og láta eins og loftslagsbreytingar séu ekki til eða að það verði ekki allskonar tækniframfarir.
 
Hvers vegna kaustu að fara alveg út í fantasíuna í Skóginum?
Ég ákvað það þarna andvökunóttina í sumarbústaðnum sumarið 2016 að síðasta bókin yrði að gerast inni í skápnum, í hinum heiminum. Bókaflokkur sem er að hluta til innblásinn af Narníu verður nú eiginlega að enda þannig, finnst mér, þótt heimurinn í Skóginum eigi reyndar mjög lítið sameiginlegt með Narníu.
 
Eftir að hafa sent frá þér margar skáldsögur kom út eftir þig femínísk ljóðabók, Orðskýringar, árið 2018; geturðu sagt okkur frá tildrögum hennar?
Ég yrki alltaf smá. Það kemur til mín svona eitt og eitt ljóð, á nokkurra mánaða fresti. Og á einhverjum tímapunkti ákvað ég að taka þau saman, sá ákveðið þema og datt í hug að gefa út. Ég nenni nefnilega ekki að semja fyrir skúffurnar mínar lengur. En forlagið mitt hafði ekki áhuga, þeim fannst hún of stutt og að hún væri kannski frekar bálkur í lengri ljóðabók. En ég nennti ekki að semja neitt meira í kringum þetta, fannst þetta standa vel sem heild og var eitthvað að spá í að setja ljóðin kannski bara á netið. Svo var ég hvött til þess að senda Partusi handritið sem ég og gerði. Og þau ákváðu að gefa hana út, sem var mjög skemmtilegt.
  
Í upphafi má lesa orðalista í stafrófsröð þar sem finna má jafn mörg orð og ljóðin eru í bókinni. Orðin eru lýsandi fyrir atvikin og tilfinningarnar sem birtast í ljóðunum, er það gestaleikur fyrir lesandann að raða saman orðum og ljóðum?
Jebb! Það er samt ekkert endilega eitt rétt svar. Eða, mér finnst kannski að hvert orð tilheyri sérstöku ljóði en það er auðvitað opið fyrir túlkun og sum orð gætu alveg passað við fleiri en eitt ljóð.
 
Megum við eiga von á fleiri ljóðabókum frá þér?
Ég veit það satt að segja ekki alveg. Ef ljóðin halda áfram að koma til mín svona nokkur á ári, þá tekur alveg frekar langan tíma að safna í heila bók. Þannig að mögulega, eftir nokkur ár? En kannski verður þetta fyrsta og eina ljóðabókin mín, mér finnst það alveg soldið skemmtilegt. En kannski ætti ég að svara þessari spurningu játandi bara svo einhver bjóði mér að lesa upp á ljóðakvöldi. Það er eiginlega skemmtilegasta senan og ég öfunda ljóðskáld alveg frekar mikið af henni.
 
 
 
 
 
Kötturinn Snabbi hefur gert garðinn frægan á samfélagsmiðlum og fjallað hefur verið um hann á RÚV. Hvernig er að eiga seleb-kött?
Það er mjög skemmtilegt! Ég elska að fá sendar myndir af honum frá vegfarendum. Því þótt hann sé með GPS-tæki þá sjáum við bara hvar hann er á daginn en ekki hvað hann er að bralla. Og fyrir utan þetta útstáelsi og flakk sem er á honum – og að þurfa stundum að fara niður á Tjörn seint á kvöldin að sækja hann – þá er hann Snabbi, þrátt fyrir frægðina, mjög hógvær og þægilegur köttur. Hann vælir aldrei, fer aldrei upp á borð, klórar ekki húsgögn og fer eiginlega ekkert úr hárum. Enda er hann mjög vel upp alinn, af öðrum rithöfundi. Konan sem gaf mér hann heitir Fanney Hrund Hilmarsdóttir og hún er að gefa út sína fyrstu barnabók núna í haust. Hún heitir Fríríkið og er alveg frábær!
 
Fylgjast má með Snabba á instagram-síðu Hildar.
 
Von er á sálfræðitrylli, geturðu sagt okkur frá honum?
Já! Nýja bókin mín heitir Myrkrið milli stjarnanna og hún er hrollvekja, eða sálfræðitryllir, eða hvað sem við köllum það (ég held að höfundarnir sjálfir séu ekkert endilega bestir í að flokka bækurnar sínar). En hún fjallar sumsé um konu sem heitir Iðunn. Iðunn vaknar alltaf dauðþreytt á morgnana og líður eins og hún sé búin að vera að hamast alla nóttina. Hún fer á milli lækna sem finna ekkert að henni. Einn daginn ráðleggur vinkona hennar henni að fara að hreyfa sig meira, þannig að hún kaupir sér GPS-úr til að telja skrefin. Eitt kvöldið gleymir hún að taka úrið af sér áður en hún fer að sofa og þegar hún vaknar, dauðþreytt, þá sér hún að hún lá alls ekkert í rúminu sínu um nóttina, heldur gekk 40.000 skref. Og Iðunn verður smátt og smátt sannfærð um að einhver – eða eitthvað – heimsæki hana á nóttunni.
 
Við þökkum Hildi kærlega fyrir spjallið og bíðum spenntar eftir lesa Myrkrið milli stjarnanna.

 

Tengt efni