SKÁLD.IS

Konur skrifa um konur sem skrifa

Guðrún Steinþórsdóttir og Helga Jónsdóttir15. september 2021

FRUMUR, KONUR OG LINDÝR -Viðtal við Brynju Hjálmsdóttur

 
 
 
 
 
Brynja Hjálmsdóttir kvað sér hljóðs með ljóðabókinni, Okfrumunni, árið 2019. Bókinni var tekið fagnandi en hún hlaut verðlaun bóksala og var tilnefnd til Fjöruverðlaunanna. Nú í haust er væntanleg ný ljóðabók úr smiðju Brynju. Við tókum skáldkonuna tali og ræddum við hana um sköpun, ljóðlist, óhugnað og fyrirmyndir.
 
Hvenær byrjaðir þú að yrkja?
 Ekkert almennilega fyrr en fyrir nokkrum árum. Það fannst mér í það minnsta en svo einhver jólin gróf mamma upp nokkur ljóð sem ég orti í barnaskóla, rígbundin alveg. Þá rifjaðist upp að ég fékk algjört ljóðaæði á tímabili (ég fæ oft æði eða áráttu fyrir einhverju, mér fróðara fólk í stjörnuspeki hefur sagt mér að þetta sé dæmigerð bogmannahegðun). Þetta hefur verið í svona 6. og 7. bekk og ég varð mjög impóneruð af texta, mér fannst svo merkilegur hæfileiki að geta ort og var alveg steinrotuð yfir því sem mér fannst flottast, bara: hvernig er þetta hægt? Þannig ég las mikið ljóð og reyndi að herma eftir því sem mér fannst fínast. Svo datt áhuginn eitthvað niður í unglingadeild. Sneri aftur eftir tvítugt.
 
 
Lestu mikið af ljóðabókum?
 Já, stanslaust. Ég fylgist mikið með því sem kemur út hérlendis og reyni að lesa allt, eða svona í það minnsta glugga í flestar bækur. Svo reyni ég að vera með á nótunum í erlendum ljóðum. Í fyrra bjó ég í Póllandi, þannig að pólskur skáldskapur hefur verið ofarlega á blaði hjá mér síðan þá, Wislawa Szymborska og Adam Zagajewski til dæmis.
 
Áttu þér einhverjar fyrirmyndir í ritlistinni?
 Ég á mér náttúrulega milljón fyrirmyndir og það er mismunandi hver er efst á blaði hverju sinni (aftur, áráttumynstrið). Í augnablikinu er það Tove Jansson sem á hug minn allan. Ég er að þræða mig í gegnum höfundaverk hennar, barnabækurnar og fullorðinsbækurnar, dæmalaus meistaraverk allt saman. Ef við erum að spá í innblæstri þá afla ég fanga á rosalega mismunandi stöðum og það er ekkert bara í há-litteratúr, ég get alveg eins fundið innblástur í útvarpi, braskbíói, manga eða smábarnabókum, ég hef alveg jafnmikið dálæti á Godard og Godzillu. Að gamni tel ég upp nokkra eftirlætis listamenn: John Waters, Luis Buñuel, Tyrfingur Tyrfingsson, Jackie Chan, Kristín Eiríksdóttir, Katya Zamolodchikova, Björk, Kurt Vonnegut og Svetlana Alexievich.
 
Þú hefur sagst vera súrrealisti. Getur þú skýrt það nánar og hvernig sú stefna birtist í skáldskap þínum og hvaða áhrif hún hefur á viðhorf þitt til skáldskapar?
 Ég á eitthvað bágt með að sitja alveg kirfilega í raunsæinu, það er aðalmálið. Þess vegna hrífst ég rosalega af súrrealisma, genre skáldskap og kamp fagurfræði. Einu sinni sagði vitur kona við mig að það væri nú þegar til einn raunveruleiki og það væri feikinóg. Ég er ekki súrrealisti í þeim skilningi að ég fylgi einhverjum reglum eða manifestóum út í ystu æsar en ég hrífst af þeirri hugmynd súrrelismans að það felist heiðarleiki í að endurspegla veruleikann gegnum hið yfirskilvitlega og undarlega, því lífið er rugl sem meikar ekkert sens.
 
 
 
 
 
Þú hefur lært kvikmyndafræði, málvísindi og ritlist; hvernig hafa þessar ólíku greinar haft áhrif á ritstörfin?
 Ég verð kannski ekki vör við það frá degi til dags hvernig allar þessar greinar hafa áhrif en auðvitað gera þær það, allt nám er fjársjóður. Málvísindin gefa náttúrulega ómetanlega innsýn inn í virkni tungumálsins, ég dýrka málvísindi og á mér lítinn draum um að stúdera þau meira. Ég byrjaði í málvísindum með Gunnari vini mínum, svo skipti hann yfir í kvikmyndafræði og ég hermdi bara eftir. Þegar ég var komin þangað var það einhvern vegin ótrúlega augljóst að það væri rétta námið, fyrir okkur bæði. Ég hef alltaf verið mikil bíókona, ég held það hafi alveg áhrif á hvernig maður hugsi og skrifi. Svo er ritlistin alveg frábært nám, þar gefst tóm til að vinna, lesa og slípa. Svo fann ég þar líka ómetanlegt bakland og eilífðarvini, við hjálpum hvert öðru í listinni og lífinu.
 
Hvernig er fyrir nýja höfunda að hasla sér völl í bókmenntasenunni á Íslandi að þínu mati?
 Það er auðvitað ákveðið lotterí. Mér finnst að forlögin mættu hiklaust taka fleiri sénsa á nýjum handritum eftir efnilega höfunda, það hefur bara sannað sig svo oft hvað það er verðmætt. Ég var heppin að því leyti að ég þurfti ekki að fara betlandi milli forlaga með Okfrumuna, ég fór bara á einn stað. Kunningjar mínir voru í startholunum með nýtt forlag, Unu útgáfuhús. Þau heyrðu eitthvað úr handritinu á upplestri og voru hrifin, þannig að ég sendi þeim handritið. Þeim leist vel á það og við kýldum á þetta. Það var mjög fagurt og fróðlegt samstarf og ég er eilíflega og ævinlega þakklát fólkinu mínu hjá Unu. Þannig að það gekk vel, svo hefur bara ekkert gengið á öðrum sviðum. Ég hef til dæmis gert margar tilraunir til þess að koma fætinum inn sem leikskáld en ekki haft erindi sem erfiði. Það þýðir auðvitað ekki að það muni aldrei gerast, ég þarf bara halda áfram að juðast ef ég ætla að koma því í kring.
 
Ef ég ætti að ráða nýjum höfundum heilt myndi ég helst mæla fyrir æðruleysi, þú ert ekki handritið þitt, ef handritinu er hafnað er ekki verið að hafna þér sem manneskju. Og alltaf að senda handritið á allt og alla sem mögulega gætu komið því á koppinn, hógværð er landlæg meðal gæðahöfunda en hún er dyggð sem dugar skammt í svona löguðu.
 
 
 
 
 
Ljóðabók þinni, Okfrumunni, var afar vel tekið; hvaða áhrif hafði það á þig og sköpunina?
 Þetta er svolítið erfið spurning. Það er algjörlega ómetanlegt að fá svona góðar viðtökur, draumi líkast alveg. En í augnablikinu, þegar þetta var að gerast, þá var ég algjör taugahrúga, ég átti mjög bágt með að gleðjast almennilega yfir þessu öllu saman. Ég efast um allt, ég bara trúði því ekki þegar fólk sagðist vera hrifið af bókinni, hvort sem það voru vinir mínir eða ókunnugt fólk úti í bæ, ég var viss um að allir væru bara að reyna að vera góðir við mig, að hlífa mér fyrir einhverri höfnun sem hlyti að vera handan við hornið. Svo eftir vertíðina tekur við ákveðið spennufall. Að gefa út fyrsta verk er stanslaus eldskírn; fyrsta bókin, fyrsta viðtalið, fyrsta krítíkin, þetta er allt að gerast í fyrsta sinn og þetta er algjör bilun. Ég var alveg í nokkra mánuði að jafna mig á þessu. En þegar ég jafnaði mig og leit til baka var ég full þakklætis og auðmýktar. Þegar allt kemur til alls þá var þetta náttúrulega ómetanleg hvatning til að halda áfram, ekki síst vegna þess að í krafti þessarar velgengni gat ég sótt um laun og styrki og fengið úthlutað, sem er grundvallarforsenda til að halda einhverjum dampi í þessu.
 
 
Ljóðabókin er heildstæð ljóðsaga; hugsaðir þú hana frá upphafi sem eina heild og hvaðan kemur þessi sterki titill, Okfruman?
 Þegar ég settist niður og ákvað að skrifa bókina átti ég til ýmsa texta og pælingar sem ég hafði safnað um nokkurra ára skeið. Verkið sjálft byrjaði í rauninni að taka á sig mynd þegar titillinn kom, það var svona uppljómunaraugnablik. Frá þeim tímapunkti tóku skrif og endurskrif svona ár, en verkið átti sér alveg lengri aðdraganda.
 
Okfruma er fyrsta fruman í nýjum einstaklingi, hún er upphafið af lífinu. Lífið er svo bara bein braut rakleiðis í dauðann og ég var voðalega upptekin af þessari kaldhæðnislegu staðreynd, af því að dauðinn hafði ítrekað ruðst með miklu offorsi og ósanngirni inn í mína tilveru. Þetta setti orðið í nýtt samhengi fyrir mér, því það inniheldur þetta ok, sem er eins og storkun, áminning um að lífið sé þrekraun alveg frá fyrstu sekúndunni. Ég kafaði dálítið í orðsifjarnar og það virðist vera að okið í okfruma er bara og í fornum rithætti. Og-fruman.
 
En, já, þetta kom í svona meiriháttar uppljómun: Titillinn verður Okfruman og bókin verður um persónu, það verður þráður, engir titlar og allt verður í belg og biðu. Þar með var það ákveðið og þá var bara að skrifa út. Í því ferli gerist auðvitað ýmislegt. Í ljóðagerð notast ég mikið við hugarflæði, stream of consciousness. Úr flæðinu kemur hrár efniviður sem ég laga svo til. Stærstur hluti minnar vinnu fer í að sigta og sía almennilegt efni úr allri vitleysunni.
 
 
Greina má töluverðan óhugnað í ljóðunum; hvert er hlutverk hans í bókinni og getur þú útskýrt hvers vegna þú leitar í hann?
Þegar ég var unglingur vann ég í kvikmyndahúsinu Regnboganum. Þar var fastagestur, sem var svona ekki eins og fólk er flest. Þegar verið var að sýna hundruðustu myndina í limlestingaseríunni Saw, benti hann á plakatið fyrir myndina og sagði: Þetta er mynd fyrir þig. Ég spurði af hverju hann héldi það. Hann sagði: Af því að þú ógeð. Það sem hann átti við var: Þú fílar ógeðslega hluti. Sem var auðvitað rétt.
 
Það eru til ótal sálgreiningarkenningar um afhverju fólk fílar að láta hræða sig og pína með hryllingi, eitthvað tengt masókisma og fíkn í æsandi boðefni úr heilanum. Í mínum verkum þjónar hryllingurinn ekki síst þeim tilgangi að skapa dulúð og kalla fram spennu. Ég get kannski ekki útskýrt afhverju ég leita í hann, ég geri það bara, þetta er bara einhver astestík sem ég hrífst af, eftir allt B-myndaglápið.
 
 
 
 
 
 
Okfruman er prýdd teikningum eftir þig, hefur þú lengi fengist við myndlist? Finnst þér eitthvað líkt við að teikna og skrifa?
 Úff, sko nú fæ ég svikaraheilkenni þegar ég er spurð um hvort ég fáist við myndlist. Mér finnst einhvernveginn ekki að ég fáist við myndlist, sennilega af því ég hef aldrei stúderað hana og ég birti bara myndir í samhengi við texta, þær standa ekki endilega einar og sér. Mér finnst mjög ólíkt að skrifa og teikna, ég skrifa á daginn og teikna á kvöldin, af því að fyrir mér eru skrif vinna en myndlist meiri dægradvöl - breik frá skrifum. Ég tek fram að hér tala ég bara fyrir sjálfa mig, myndlist er full vinna fyrir þá sem við hana starfa. Mér finnst ég ægilegur fúskari í myndlist, þannig lagað, lengi hugsaði ég að það væri heiðarlegra að leita til einhvers alvöru myndlistarmanns til að gera myndir fyrir bækurnar. En ég er bara svo þver að ég verð að gera þær sjálf, því ég veit hvernig þær eiga að vera.
 
 
Hvaða tilgang hafa teikningarnar í bókinni fyrir þér?
 Í Okfrumunni notaði ég vatnslitamyndir til að skapa nokkurs konar kaflaskil, uppgjör eða dvöl inni á milli hluta bókarinnar. Í nýju bókinni eru líka myndir, klippimyndir að þessu sinni. Þær virka ekki alveg eins, þær eru meira til að keyra á einhverja dramatík.
 
Getur þú sagt okkur frá væntanlegri ljóðabók?
Nýja bókin mín kemur út hjá Unu útgáfuhúsi í október. Ég mæli eindregið með henni, hún er alveg málið stálið og allir ættu að kaupa sér mjög mörg eintök. Þetta er ekki ljóðsaga beinlínis, byggingin er öðruvísi en á Okfrumunni. Þetta er kerlingarbók, ágengt feminískt ljóðverk í sígildri þriggja þátta byggingu. Í fyrsta hlutanum er litið á karlmennskuna, í öðrum hluta hljóma ólíkar kvenlegar raddir og lokahlutinn fjallar um kvenlega útópíu (!) Bókin heitir Kona lítur við og kápan er rauð eins og blóð.
 
Hvað er fleira á döfinni hjá þér?
Ég er að fara til Svíþjóðar á ráðstefnu fyrir Norræna nýrithöfunda. Ég hlakka mikið til og ég ætla að taka með mér stóra tösku svo ég geti keypt sænsku útgáfurnar af öllum bókunum hennar Tove og tekið með mér heim. Svo er ég að skrifa næstu bækur, er að reita hár mitt yfir skáldsögu og kannski einhverju fleiru sem er leyndó.
 
Það verður gaman að halda áfram að fylgjast með skáldskaparferðalagi Brynju og mikið tilhlökkunarefni að von er á nýrri bók frá henni. Við ljúkum spjallinu með einu ljóði úr nýju bókinni sem sannarlega lofar góðu um það sem í vændum er:
 
 
LINDÝR
 
Kona æðir
út í garð
 
Rótar og rótar og rótar í jörðinni
snýr við steinum og laufblöðum
gömlu pallaefni og plastpokum
til að finna þá
 
Sniglana
sem hún rekur á hol með silfurgaffli
safnar í lítið skrín
til að færa
honum
 
Lækninum sem leggur
huggandi orð í munna
og hryggleysingja í hylki
sprautar þeim í varir
svo þær megi fyllast og blása út
 
Svo þær megi minna
á tvo digra snigla
í ástríku faðmlagi
 
 

 

Tengt efni