Guðrún Steinþórsdóttir og Helga Jónsdóttir∙ 1. september 2021
„ÉG VIL LÁTA SKEMMTA MÉR, ÞAÐ ER MÍN FAGURFRÆÐI“ - Viðtal við Þórdísi Helgadóttur
Þórdís Helgadóttir er ákaflega fjölhæfur höfundur en hún hefur jöfnum höndum ort ljóð, skrifað smásögur og samið leikrit. Smásagnasafni hennar, Keisaramörgæsum, var afar vel tekið og nú í ár hlaut hún Ljóðstaf Jóns úr Vör fyrir ljóðið „Fasaskipti“. Við mæltum okkur mót við Þórdísi í Veröld - húsi Vigdísar og ræddum við hana um ritstörfin, ímyndunaraflið og ólíkar bókmenntagreinar.
Hvenær kviknaði áhugi þinn á skáldskap?
Mjög snemma. Þegar ég var ellefu, tólf ára datt ég ofan í glæpasögur og tók tímabil sem glæpasagnafan. Ég las allar Agöthu Christie bækurnar og ætlaði að skrifa svoleiðis bók. Það var hins vegar aðeins erfiðara en ég hélt því ég vissi ekki alveg hvernig ég átti að búa til morðfléttu. Ég hef alltaf lesið mikið og það að skrifa var draumur sem ég þorði samt ekki alveg að láta rætast. Það er svo ógnvekjandi að vera listamaður. Ég ákvað samt að gera það á endanum. Ég kom svolítið seint fram á ritvöllinn en ég fór 34 ára í ritlistarnám 2015. Þá byrjaði líka allt á fullu og ég var alveg viss um hvað ég vildi gera, það var svo margt búið að vera að gerjast í manni einhvern veginn. Ég held það hafi ákveðna kosti að koma svona seint fram. Ég er til dæmis glöð að ég skyldi ekki endilega gefa út það sem ég skrifaði þegar ég var unglingur
Smásagnasafnið Keisaramörgæsir er þín fyrsta bók; átti hún sér langan aðdraganda?
Nei. Ég hafði aldrei skrifað mikið af smásögum fyrr en í náminu. Þannig að eitthvað af þessum sögum byrjuðu sem verkefni í skólanum og þar uppgötvaði ég hvað ég er hrifin af þessu formi og fór að lesa meira af smásögum. Ég held að bókin hafi orðið til fyrir einhverja umsókn. Ég sótti um styrk hjá Rithöfundasambandinu og áttaði mig á að ég var nánast með heilt smásagnasafn í höndunum. Svo fékk ég styrkinn og fór þá að hugsa um efnið sem heild og setja bókina saman.
Smásögurnar þínar dansa á mörkum ímyndunar og veruleika. Er hægt að setja þær undir hatt töfraraunsæis eða hvernig myndir þú skilgreina þær?
Ég held ég myndi ekki flokka þær sem töfraraunsæi. Þetta er einhver annars konar blendingur sem ég veit ekki alveg hvað maður á að kalla. Ég sá um daginn í fyrsta skipti svo sniðugt hugtak, „slipstream“. Það var notað um fullt af höfundum sem eru í uppáhaldi hjá mér, til dæmis George Saunders, Carmen Marianne Machado, Karen Russell og Kelly Link og ég held að ég sé þar líka. Slipstream er notað til að greina texta frá meginstraums vísindaskáldskap. Þetta er íhugandi skáldskapur en með annan fótinn í raunveruleikanum. Það er erfitt að festa hendur á hvers lags skáldskapur þetta nákvæmlega er en þess vegna er þetta líka svo skemmtilegt.
Hvaða gildi hefur ímyndunin fyrir þér í skáldskapnum?
Það þarf alltaf að vera einhvers konar djús finnst mér. Það þarf að vera einhver neisti í sögum. Það er svo gaman að gefa sér bara algjört frelsi, hugsa „þessi saga má fara hvert sem er.“ Ég sest ekki niður og ákveð að skrifa um tröll eða eitthvað heldur hugsa ég „þetta er eins og þetta en getum við ekki bara prófað að raungera það? En kannski bara hálfa leið þannig að við vitum ekki alveg hvar við erum?“ Maður vill heldur ekki segja eitthvað of berum orðum. Þetta er eiginlega eins og að prófa að nota einhverja myndlíkingu og taka hana alvarlega í smá stund, leika sér að henni og þá gerist oft eitthvað spennandi.
Þú nefnir tröll en það eru ýmis önnur tákn sem koma fyrir í sögum þínum, til dæmis allskonar dýr, fjöregg og herbergi full af lopa. Hvaða hlutverki gegna táknin? Notar þú þau meðvitað fyrir eitthvað ákveðið? Eða koma þau bara?
Ég hef mjög gaman af táknum sem eru opin og stór, algild og ekki einfaldur lykill að merkingunni. Ég hef gaman af táknum sem geta verið ótrúlega margt því þá er alltaf hægt að vera að breyta merkingunni. Lopi er til dæmis alls konar, að spinna einhvern þráð og minnir líka á svona rumputuska-sögur og síðan er fjöreggið í sömu sögu en úr allt annarri átt. Það eru alls konar vísar út um allt.
Ert þú sjálf alveg með skýra hugmynd um merkingu táknanna?
Nei, það kemur bara einhver svona tilfinning. Svo er oft mjög gaman eftir á þegar einhver les söguna manns og gefur manni feedback og segir: „þarna er náttúrulega þetta í bókinni“ og maður bara: „Jááá!“ Þá er komin einhver tenging sem maður hafði ekki séð en kannski gerði maður það í undirvitundinni. En stundum koma táknin einfaldlega út frá minni eigin hversdagslegu reynslu. Innblásturinn af „Korríró, beibí“, þar sem aðalpersónan fer á spjallborð til að leita ráða um hvernig hún eigi að losna við tröll úr íbúðinni sinni, var til dæmis sá að barnið mitt var með kveisu. Enginn gat sagt mér hvernig ætti að lækna hana og þá fór ég á spjallborð á netinu og fékk allskonar skrýtin svör.
Þú fjallar einmitt mikið um móðurhlutverkið í sögum þínum.
Já ég geri það. Börnin mín eru 7 og 10 ára og þegar ég varð ólétt fyrir 11 árum þá fannst mér það svo mögnuð upplifun. Ég furðaði mig á því hvers vegna það væru ekki til milljón bækur og myndir um slíka reynslu. Móðurhlutverkið er svo stór partur af mínu lífi og mér finnst þetta efni svo merkilegt og eiga mikið erindi. Hvort sem maður á börn eða ekki, þá var maður einu sinni barn. Reynslan af því að verða ólétt, fæða og eiga ungabarn fær mann jafnframt til að hugsa til fortíðar og velta því fyrir sér hvernig foreldrar manns voru. Maður óttast að klúðra öllu og pressan er svo mikil út á við, allir með ráð og skoðanir. Þannig að óttarnir lifa í undirvitundinni og brjótast fram í skáldskapnum. Svo finnst mér sjónarhorn barnsins líka svo skemmtilegt. Mér finnst mjög gaman að tala við börnin mín og vini þeirra, ímyndunaraflið er svo lifandi hjá þeim. Þetta er alveg geggjað efni.
Þú fæst einnig gjarnan við alvarleg málefni, t.d. hnattræna hlýnun af mannavöldum, neysluhyggju og kapítalisma. Hver er ástæðan fyrir því?
Þetta er kannski eitthvað sem er öllum ofarlega í huga. Þetta er svona lag sem flýtur á allri umræðu, allri menningunni. Ég tók langt tímabil þar sem ég var mjög illa haldin af loftslagskvíða en ég er líka bara kvíðasjúklingur yfirleitt. Ég held að ég hafi tekið þetta út pínulítið snemma því mér fannst aðrir í kringum mig svo værukærir. Það gerir mann brjálaðan og maður hugsar „en þú veist að heimurinn er að farast og af hverju láta allir eins og ekkert sé?“ Ég held að þetta hafi angrað mig svo mikið í undirvitundinni að það seytlaðist yfir í sögurnar. Svo líður mér miklu betur núna einhverra hluta vegna. Undanfarin tvö, þrjú ár er fólkið í kringum mig að missa sig yfir þessu. Ég held að þetta sé bara áfall fyrir mannkynið. Allir eru í einhverjum hnút og það þarf auðvitað að finna lausnir en við þurfum líka að vinna úr áfallinu, sálrænt, allir.
Ertu þá bæði að fá útrás fyrir tilfinningar og líka vekja lesendur til umhugsunar? Sem lesandi tengir maður oft við persónurnar sem sýna af sér mótsagnakennda hegðun og fá svo samviskubit. Það er svolítið verið að hæðast að hegðun mannsins ekki satt?
Ég er ekki markvisst að reyna að vekja lesendur til umhugsunar. Þetta er eitthvað sem ég er að hugsa um og þá er örugglega einhver annar að hugsa það líka. En ég legg aldrei af stað og hugsa „nú ætla ég aldeilis að gera harkalega ádeilu á...“ Ég er í of mikilli naflaskoðun til að vera einu sinni að pæla í því.
Þú beitir íróníunni óspart. Er það til að skemmta lesandanum eða fyrir þig sjálfa? Er kannski of óþægilegt að skrifa um svona alvarleg mál af einlægni?
Írónían er örugglega smá skjöldur. Ég er hrædd við einfaldleikann og mér finnst það stundum svolítið veikur punktur hjá mér. Mér finnst eins og ég þurfi að setja allt í einhvern búning og er sífellt að hugsa hvort textinn sé nógu áhugaverður fyrir lesandann. Svo er ég oft pínulítið hrædd um að vera með of mikið myrkur, að þetta verði sjúklega niðurdrepandi. Ef ég skrifa eitthvað sem er einfalt líður mér eins og það verði leiðinlegt. Svo sér maður aðra höfunda gera það alveg ótrúlega vel og þá eru kannski meiri heilindi og einlægni í textanum. En stælar og írónía, karnival og læti höfða ofboðslega til mín. Ég er sjálf svo barnalegur og óþolinmóður lesandi. Ég vil láta skemmta mér, það er mín fagurfræði.
Sögurnar þínar vitna um að þú ert mjög hugmyndarík, áttu alltaf nóg af hugmyndum?
Ég var svo heppin að Soffía Bjarnadóttir kenndi mér í fyrstu vikunni minni í ritlistarnáminu. Hún sagði við okkur að við þyrftum að kafa í undirvitundina og setti okkur fyrir að fara heim og skrifa niður það sem okkur dreymdi. Ef við mundum ekki næturdraumana áttum við að nýta dagdrauma og kafa í undirvitundina, fiska. Svo í staðinn fyrir að búa til einhvern ramma og skrifa um persónu sem gerir hitt og þetta eða skapa einhverja atburðarás lærði ég að nýta þessa aðferð og um leið áttaði ég mig á því að maður á alltaf efnivið.
Maður fær kannski ritstíflu ef maður sest niður og ætlar að ákveða fyrir fram hvað maður ætlar að skrifa. Þess vegna er gott að geta bara gubbað út úr sér alls konar hugsunum og þá kemur kannski í ljós að maður er búin að vera að hugsa mikið um eitthvað eins og til dæmis ógeðslegan mat og hvaða áhrif hann hefur á líkamann. Ég á endalaust af skjölum þar sem ég hef gubbað alls konar pælingum í og svo byrja þær að taka á sig eitthvað form og maður áttar sig á að hægt er að vinna áfram með þær. Þannig var ferlið til að mynda þegar ég skrifaði smásöguna „Leg“ þar sem ógeðslegur matur er til umfjöllunar.
Það er skemmtilegt hvernig þú gerir ýmsar tilraunir í smásögunum, þú blandar til dæmis saman ólíkum frásagnaraðferðum, hoppar á milli tímasviða og nýtir tákn óspart. Er það með ráðum gert eða gerist þetta af sjálfu sér?
Bæði á eflaust við. Textarnir voru að hluta til skrifaðir í náminu og á þeim tíma var ýtt undir að við gerðum tilraunir, jafnvel fékk maður fyrirmæli um að skrifa texta á ákveðinn hátt sem maður hefði annars ekki gert. En mér finnst líka gaman að gera tilraunir og ef þær klikka, þegar maður er að skrifa smásögu, þá er það allt í lagi því það er svo lítið í húfi.
Þú hefur flakkað á milli bókmenntagreina; ort ljóð, skrifað smásögur og samið leikrit; finnst þér sjálfri vera mikill munur á því að skrifa verk af ólíkum tegundum?
Já mér finnst rosalegur munur á þessum skrifum. Mér finnst leikritun lang erfiðust en smásögurnar auðveldastar. Þegar ég skrifa ljóð er ég alltaf að ögra sjálfri mér því mér finnst ég aldrei vita hvað ég er að gera en það er líka bara gott. Ég þarf rosalegan fókus til að geta ort ljóð. Í þeim þarf allt að vera úthugsað, hver einasta lína. Svo þarf líka að halda trúnað við fyrsta kjarnann sem kemur, maður vinnur utan um hann og þarf síðan að skera kannski helminginn í burtu. Þetta er eins og að leira og höggva síðan í burtu efni og standa að lokum uppi með skúlptúr.
Þú fékkst ljóðstaf Jóns úr Vör í ár, hvernig var það?
Ég var rosalega hissa að fá þessi verðlaun. Í nokkur ár hef ég alltaf sent ljóð inn í samkeppnina, hún er lottó sem maður þarf að taka þátt í og það kostar ekki neitt en er til mikils að vinna. Ég er óörugg í ljóðunum en verðlaunin voru svo mikil staðfesting fyrir mig, að það sem ég yrki sé að ná í gegn. Ég fékk sjálfstraust til að gera ljóðabókina sem ég er að senda frá mér núna í haust. Svo er líka rosalega gaman að fá stafinn.
Geturðu sagt okkur frá nýju ljóðabókinni?
Hún heitir Tanntaka og er um að vera fullorðinn og finna sinn innri styrk en líka um börn, móðurhlutverkið og systralagið. Bókin er pínu sundurleit í stíl og efnistökum en ég held hún virki samt sem heild því það eru ákveðnir þræðir og þemu sem tengja verkið saman.
Þú varst valin leikskáld Borgarleikhússins, hvernig gekk það?
Það hefur verið pínu skrýtið ferli. Ég fékk alveg þvílíkt imposter syndrom að koma í leikhúsið og vissi ekki almennilega hvað ég var að gera. Það var samt alveg geggjað gaman, þar er svo mikið af skapandi fólki, allir svo hvetjandi og allt að gerast. Ég var hluti af verkefnavalsnefnd svo ég fékk að lesa mjög mikið af verkum. Þetta var svo fyndið ferli því ég er nefnilega mjög áhrifagjörn og ef ég las eitt verk hugsaði ég að ég myndi bara skrifa mitt verk nákvæmlega eins en svo las ég eitthvað annað verk og sveiflaðist þá þangað. Ég skrifaði ótrúlega mikið og ég lærði ótrúlega margt. Verkið er samt ekki tilbúið, það þarf að fá að klárast með tímanum.
Geturðu sagt okkur eitthvað frá þessu verki?
Það heitir Jamaica Farwell og fjallar um þrjár kynslóðir, dóttur, móður og nýfætt barn. Það er uppgjör og eitthvað dularfullt í gangi. Verkið er á grensu fantasíu og raunveruleika og það er líka horror í því.
Hefurðu einhverja fyrri reynslu af leikritun?
Já, ég hef áður sett upp verk í Borgarleikhúsinu sem heitir Þensla og er stutt verk. Þá lærði ég líka helling. Kristín Jóhannesdóttir leikstýrði og hún fór að segja hluti um persónur sem ég hafði ekki hugsað. Þá áttaði ég mig á því að í leikritun þarf að hugsa um líf hverrar persónu því leikarinn spyr auðvitað: „hver er það sem ég er að fara að leika?“ Ég uppgötvaði að ég hef alltaf verið bundin tilteknu sjónarhorni þegar ég skrifa og að ég hef ekki þurft að vita um allar persónur og líf þeirra. En það gengur hinsvegar ekki þegar verk er skrifað fyrir svið því þá hefur maður bara díalóg og engar lýsingar. Þetta er eins og að vera með aðra höndina bundna fyrir aftan bak og um leið þarf maður að læra á ný verkfæri sem er bæði scary og skemmtilegt.
Heldur þú að þú haldir áfram að skrifa fyrir leikhús?
Já, ég get vel hugsað mér það. Mér finnst svo gaman að prófa aðra miðla. Ég gæti líka hugsað mér að skrifa fyrir sjónvarp og bíó þótt það sé dýr framleiðsla. Það er enda svo gaman að vinna með fólki og sjá skáldskapinn lifna við.
Viltu að lokum segja okkur aðeins frá Svikaskáldum?
Það er ótrúlega skemmtilegt kollektív sex kvenna. Við kynntumst í gegnum ritlistarnámið því þótt við værum ekki allar í því á sama tíma vissum við hver af annarri. Einn daginn fékk í ég símtal sem var svona: „heyrðu við ætlum að fara upp í sumarbústað og skrifa ljóðabók yfir helgi. Þetta er pönk. Við erum allar með svo mikið svikaraheilkenni að við þurfum bara að kýla á þetta!“ Og ég var bara what? En svo fórum við og skrifuðum og deildum textum á milli okkar. Það varð snemma til aðferð sem við höfum notað síðan. Samstarfið hefur vaxið og líka orðið organískt því þessar konur eru svo brilljant. Við höfum gert mjög mikið saman. Við höfum haldið námskeið fyrir ungmenni sem vilja skrifa og erum með tvö slík í haust. Saman höfum við gefið út þrjár ljóðabækur og nú í haust kemur út okkar fyrsta skáldsaga, Olía. Við höfum líka gefið út eina ljóðabók eftir Melkorku og aðra eftir Ragnheiði Hörpu. Við erum með vinnuaðstöðu í Gröndalshúsi en þar erum við reglulega með ljóðakvöld og á hverju ári höldum við árshátíð. Við lesum líka yfir hver hjá annarri og peppum hver aðra, þetta er alveg ótrúlega dýrmætur félagsskapur.
Mikið er spennandi að þið séuð að senda frá ykkur skáldsögu saman. Hvernig var því samstarfi háttað?
Samstarfið gekk ótrúlega vel. Að mörgu leyti var þetta svipað ferli og þegar við sömdum saman ljóðabækurnar og að mörgu leyti ekki. Sagan átti fyrst að vera útvarpsleikrit en svo kom í ljós að hún ætlaði frekar að verða skáldsaga. Við mótuðum allar hver sína persónu sem fær sinn kafla en bókin er samt ein heild, þetta er ekki sagnasveigur heldur margradda skáldsaga.
Hvenær er von á sögunni?
Í september, hún er farin í prentun. Þannig að þetta er allt að gerast.
Það eru heldur betur spennandi tímar framundan og lesendur geta farið að hlakka til að lesa bæði væntanlega ljóðabók Þórdísar og skáldsögu hennar og Svikaskáldanna. Þar til bækurnar koma út er hér eitt magnað ljóð úr ljóðabókinni Tanntöku til að svala forvitninni:
Þófar
Eins og flauelshúðaðar bleikar baunir
birtast þeir
þófar
á fingurgómi baugfingurs
viðbeini
vörum
Barbamamma gerir töng
úr vísifingri og þumli
klípur togar mótar
eitthvað sem lítur út
eins og líffærið sem syrgir
Það kom ljóska til læknis
sagði læknir ég meiði mig
hér og hér og hér og hér
og hér og hér og hér og hér
Hann sagði þú ert með brotið
nafn
átta andlit og öll sýkt
Rykhnoðri undir eigin rúmi
með serjósaugu
sem kallar með hennar eigin rödd
á konuna undir sænginni
Það kom í ljós bólga
í líffærinu sem gleymir
útfellingarnar eru fingur í sírópssári
börkur sem brestur í lófum
hríð af granathöglum
fullum af sykurblóði og fræi
Stóri lognmáninn yfir vatninu
meira að segja honum er hægt að gleyma
og kattarþófum
og því að ég sé sú
sem missir fótanna af ánægju
yfir þessu öllu
Það er engin lækning
til
við neinu
Hins vegar eru hér
þófar
granatepli
tungl