SKÁLD.IS

Konur skrifa um konur sem skrifa

Guðrún Steinþórsdóttir og Helga Jónsdóttir25. ágúst 2021

SJÁLFSÁT OG ÖNNUR TABÚ - Viðtal við Helen Cova

Skáldkonan Helen Cova er 32 ára, fædd og uppalin í Venesúela en hefur verið búsett á Íslandi síðustu sex ár. Hún hefur sent frá sér tvær bækur annars vegar barnabókina Snúlla finnst gott að vera einn (2019) og hins vegar smásagnasafnið Sjálfsát – að éta sjálfan sig (2020). Helen ræddi við okkur um skáldskap sinn, Ós pressuna sem hún er í forsvari fyrir og stöðu höfunda með erlendan bakgrunn hérlendis.
 
 
 
 
 
Hvað varð til þess að þú settist að á Íslandi?
Ég hitti eiginmann minn og varð ástfangin sem varð til þess að ég settist að á Íslandi. Hann hefur sterk tengsl við landið og Ísland er yndislegur staður. Ég féll fljótt fyrir tungumálinu, fólkinu, matnum og náttúrunni.
 
Svo fluttistu fyrir nokkru til Vestfjarða, hvernig kom það til?
Ég hafði verið að vinna að skáldsögu fyrir börn í einhvern tíma en meðan ég var búsett í Reykjavík, í tveimur vinnum, með heimili og félagslíf hafði ég mjög lítinn tíma aflögu fyrir skriftir. Mér var boðið að koma til Þingeyrar í þrjá mánuði að passa börn og sinna sjálfboðaliðastarfi fyrir Bláa bankann. Ég sá fyrir mér að það gæfi mér tíma og rúm til að skrifa og ég fengi tækifæri til að tilheyra hinni einstöku landsbyggð svo ég þáði það. Það fór svo að ég kláraði ekki barnabókina en skrifaði þess í stað Sjálfsát og svo kolféll ég fyrir Vestfjörðum. Ég varð svo hrifin að í ár keypti ég hús á Flateyri með manninum mínum og við erum flutt þangað.
 
Nú hefurðu verið búsett á Íslandi í sex ár og tekið virkan þátt í íslenskri bókmenntasenu og útgáfu. Líturðu á þig sem íslenskan höfund? Venesúelskan höfund? Bæði? Eða eitthvað annað? Og skiptir slík skilgreining þig einhverju máli?
Ég er ekki mikið fyrir þjóðarstolt og þegar ég hugsa um sjálfsmynd mína er þjóðerni mitt ekki það sem kemur fyrst upp í hugann. Þrátt fyrir það, og til að svara spurningunni, er ég sennilega sambland af venesúelskum og íslenskum höfundi. Ísland er heimili mitt, nútíð mín og framtíð og staðurinn þar sem ég varð rithöfundur. Íslensk menning, fólk og upplifanir hafa áhrif á mig og móta mig daglega og það endurspeglast í því sem ég skrifa. Venesúela er samt líka stór partur af mér, kannski stærri en ég geri mér alltaf grein fyrir. Það er eitthvað við Karíbahafið sem virðist hrærast innra með mér og skín í gegnum húð mína og hugsun.
En í sambandi við hvort þetta skipti mig máli eða ekki þá er svarið í raun nei. Ég hef nokkrum sinnum verið kynnt sem kólumbískur höfundur eða verið spurð hvort ég sé indversk eða arabísk og mér er alveg sama. Fólk verður strax voða skömmustulegt yfir að hafa „giskað vitlaust“ eða „gert mistök.“ En í mínum huga er engin skömm fólgin í því að fólk haldi að ég sé frá Kólumbíu eða hvaða öðru landi sem er. Mér finnst það bara heiður og finnst ég heppin að fólk tengi mig fjölbreytileikanum sem lýsir mér vel og heppin að vera þannig tengd öðrum menningarheimum þótt það sé aðeins í skamma stund.
 
Hefurðu alltaf ætlað þér að verða rithöfundur?
Nei, ekki alltaf. Ég vildi verða geimfari og síðan kennari. Ég hef alltaf haft brennandi áhuga á bókmenntum. Ég heimtaði að mamma kenndi mér að lesa þegar ég var þriggja ára og byrjaði að skrifa smásögur sjö ára. Ég var mjög iðin við að skrifa sem barn og unglingur, en ég hélt að ég gæti ekki verið rithöfundur. Það er ekki algengt hjá börnum í Suður-Ameríku að vilja verða rithöfundar og vanalega er litið á það sem áhugamál. Þú átt að gera eitthvað „mikilvægt“ og síðan geturðu skrifað í frítímanum ef þú vilt. Ég var ákafur lesandi en sem lítil stúlka hugsaði ég aldrei út í að það væri fólk sem hefði skrifað bækurnar. Á unglingsárunum, þegar ég ákvað loks að ég vildi læra bókmenntafræði og gerast rithöfundur og sagði pabba mínum það, sagði hann: „Og hvað ætlarðu að borða? Þú munt aldrei geta séð fyrir þér með því.“ Ég svaraði þá: „Ég borða blaðsíðurnar úr bókunum mínum ef ég þarf þess en þetta er það sem ég ætla að verða.“
 
Nú hefurðu sent frá þér afar ólík verk, allt frá hugljúfri barnabók um kosti þess að vera einn með sjálfum sér og yfir í hrollvekjandi örsagnasafn með gróteskum lýsingum á ofbeldi og mannáti. Finnst þér vera mikill munur á að skrifa fyrir börn og fullorðna?
Algerlega! Ég tek því mjög alvarlega að skrifa fyrir börn og finnst það mun erfiðara en að skrifa fyrir fullorðna. Barnabækur skilja eftir sig dýpri spor en bækur fyrir fullorðna. Við ólumst öll upp við þessa ákveðnu persónu úr þessari ákveðnu bók sem snerti okkur djúpt og varð vinur og leiðarljós í lífinu. Ég tek það mjög alvarlega. Þegar ég skrifa fyrir börn skrifa ég fyrir þau. Þegar ég skrifa fyrir fullorðna skrifa ég fyrir sjálfa mig og það finnst mér mun auðveldara.
 
 
 
 
 
Átti bókin Sjálfsát sér langan aðdraganda?
Að vissu leyti, já. Bókin, eða tilfinningin fyrir henni, hefur verið að gerjast innra með mér alveg frá því ég var barn. Sköpunarferlið var ferli, kaþarsis, útrás fyrir tilfinningar tengdum erfiðri æsku og sambandinu við móður mína. Samt sem áður var ég fljót að skrifa bókina. Ég kom til Þingeyrar til að skrifa allt aðra bók, sem ég hafði þá þegar byrjað á, en þegar þungur veturinn og myrkrið skall á var líkt og æð hefði rofnað og út flæddu sögurnar í Sjálfsáti. Það tók mig um fimm mánuði að skrifa hana.
 
Hvert sækir þú innblástur?
Því miður endurspeglar Sjálfsát að miklu leyti fortíð mína. Ekki bókstaflega auðvitað en þar skrifa ég um tilfinningu mína af uppvexti mínum. Dæmi um það er kynferðisofbeldið sem ég var beitt og ofbeldið sem ég varð fyrir heima fyrir. Þegar upp er staðið er bókin að hluta til vitnisburður og hluta til fantasía en það getur þurft að lesa hana oftar en einu sinni til að átta sig á sársaukanum sem liggur að baki.
 
Sögurnar í bókinni eru ævintýri eða fantasíur sem lúta ekki lögmálum raunveruleikans en í inngangi bókarinnar lýsir þú þó verkinu sem „sagnasafni þar sem skáldskapur og raunveruleikinn ganga hönd í hönd um óskýr mörk.“ Geturðu útskýrt að hvaða leyti verkið er á mörkum skáldskapar og veruleika?
 
Eins og ég sagði, tengist bókin reynslu minni af því að alast upp en reynsla mín er ekki einstök og bókin er ekki bundin við hana. Ég vinn með málefni sem snerta heiminn í heild eins og veruleikinn í kringum illa meðferð á börnum, kynferðismisnotkun, kvíða, ofsóknarkennd, kynbundið ofbeldi, alzheimer og svo framvegis.
 
Sögurnar eru myndskreyttar af Rubén Chumillas. Geturðu sagt okkur frá samstarfi ykkar? Voru myndirnar unnar upp úr sögunum eftir að þú laukst við þær eða gáfu myndirnar þér einhvern innblástur við skrifin?
Við Rubén kynntumst á Þingeyri. Hann kom nokkrum vikum á eftir mér til að vinna að sínum eigin verkefnum í Bláa bankanum og við urðum eiginlega strax vinir. Við kynntumst verkum hvors annars og urðum bæði mjög hrifin. Við ákváðum að við vildum sameina verkin okkar og ég var mjög ánægð með það því teikningar Rubéns eru stórkostleg listaverk sem bæta miklu við bókina og gera hana betri í alla staði. Allar teikningarnar voru gerðar eftir að bókin var tilbúin og þetta var yndislegt ferli. Við Rubén fengum tækifæri til að ræða hverja sögu fyrir sig í þaula og ég fékk að fylgjast með honum vinna, það voru forréttindi og heiður.
 
 
 
 
 
Í barnabókinni Snúlla finnst gott að vera einn vinnurðu jafnframt með myndskreytara en í það skiptið er það hinn 9 ára Davíð Stefánsson sem teiknar myndirnar. Geturðu sagt okkur frá því samstarfi?
 Ég og Davíð erum góðir vinir og við vorum mjög mikið saman þegar ég skrifaði Snúlla. Mér fannst mjög mikilvægt að hann gerði bókina með mér. Fjölskyldan hans var ómetanlegur stuðningur en hún hvatti okkur áfram og ég hefði aldrei fyrir mitt litla líf reynt að gefa bókina út ef ekki hefði verið fyrir Davíð. Samvinna okkar var góð og hann gerði allt ferlið ákaflega skemmtilegt. Við gerðum myndskreytingarnar saman. Hann teiknaði mynd af Snúlla fyrir hverja blaðsíðu og síðan tók ég við og bjó til bakgrunn og litaði myndirnar. Eftir að við kláruðum verkið setti ég bókina ofan í skúffu. Ég hélt að ég væri ekki nógu góður rithöfundur til að vera gefin út á Íslandi en vegna þess að Davíð hafði unnið að myndskreytingunum fannst mér ég skulda bæði honum og sjálfri mér að gefa bókina út. Með stuðningi eiginmanns míns og vina sem trúðu á söguna og hjálpuðu til við að þýða hana fann ég kjarkinn og ákvað að láta slag standa.
 
 
Er eitthvað sem þú vilt koma á framfæri með skrifum þínum?
Ég held ég hafi þörf fyrir að skrifa um hluti sem hafa verið tabú, hluti sem erfitt er að ræða um við aðra eða endurspegla eitthvað sem ég hef sjálf verið gagnrýnd fyrir.
Ég vil kinka kolli til þeirra sem njóta þess að vera einir (eins og ég) og segja „Hæ, ég er líka hérna, ég skil þig og það er allt í lagi með okkur“ og ég vil líka segja við þá sem vorkenna þeim sem finnst gott að vera einir: „Þetta er allt í lagi, það er ekkert rangt við að njóta einverunnar“. Það sama á við um Sjálfsát og öll viðkvæmu málefnin sem hún fjallar um.
 
 
 
 
 
 
Nú ert þú forseti Ós, geturðu sagt okkur frá þeim samtökum og útgáfu þeirra?
Ós Pressan eru óhagnaðardrifin félagasamtök. Við vinnum að því að sporna gegn þeim viðhorfum að íslenskir rithöfundar þurfi að vera fæddir og uppaldir á Íslandi, hafa íslenskt nafn og skrifa á íslensku. Meginverkefni okkar er að breyta slíkum viðhorfum og veita höfundum víðs vegar að úr heimunum tækifæri til að vera gefnir út á Íslandi þannig að þeir verði hluti af íslensku bókmenntalífi þótt þeir skrifi ekki á íslensku. Árlega gefum við út tímarit en við viljum að það, rétt eins og félagasamtökin, sé öruggt rými fyrir fólk að skrifa á hvaða tungumáli sem það kýs án þess að það upplifi kröfu eða væntingar um að það eigi að vera altalandi á íslensku. Félagasamtök eins og Ós eru ekki aðeins nauðsynleg í nútímasamfélagi heldur eiga þau erindi í öllum löndum. Ós hefur gefið út tímarit í áranna rás og skipulagt og haldið utan um allskonar smiðjur þar sem lögð er áhersla á bókmenntir og blöndun menningarheima.
  
Hvað kom til að þið stofnuðuð Ós?
Ós var stofnað af hópi kvenna sem kynntust í ritsmiðju undir stjórn Angelu Rawlings. Þar gafst þeim kostur á að ræða hindrunina að komast inn í íslenskt bókmenntalíf og í staðinn fyrir að kvarta bara og kveina og nema þar við staðar ákváðu þær að taka málin í sínar hendur og stofnuðu Ós Pressuna.
 
Nýlega kom út grein um hversu erfitt það væri fyrir erlenda myndlistarmenn að hasla sér völl á Íslandi, hvernig finnst þér staða erlendra rithöfunda sem búsettir eru á Íslandi vera í íslenskri bókmenntasenu?
Sem rithöfundur hef ég fengið sérlega góðan stuðning frá Íslendingum allt frá upphafi. Ég hef ekki yfir neinu að kvarta og tel að ég hafi ekki þurft að yfirstíga stærri hindranir hérlendis en ég hefði þurft að gera sem höfundur í Venesúela. Það er mín reynsla en hún er ekki algild. Margir eiga erfitt með að fóta sig í listasenunni á Íslandi og leggja áherslu á listamannalaunin þegar þeir ræða slíka erfiðleika. Það er alveg rétt að það er mjög mikill munur á milli þjóðerna hverjir fá listamannalaun en hvað mig varðar hef ég aldrei stólað á þau eða fundist ég þurfa að sækja um þau. Fyrir vikið lít ég ekki á þau sem mælistiku á hvort bækurnar mínar séu hluti af íslensku bókmenntalífi eða ekki.
 
Ég reyni að vera raunsæ varðandi stöðu mína því ég veit að höfundur með íslenskt nafn fær frekar athygli frá almennum íslenskum lesanda í bókabúð en ég vegna þess að ég ber ekki íslenskt nafn. Íslensk nöfn eru auðvitað auðþekkjanleg hérlendis rétt eins eftirnöfnin Cova og González eru þekkt á Spáni. Ég móðgast því ekki eða álít Íslendinga rasista ef þeir telja mig ekki íslenskan höfund þegar þeir heyra mig fyrst nefnda. Það er frábært þegar fólk styður samlanda sína og leitar eftir nöfnum þeirra eða eftirnöfnum í bókabúðum til að kaupa verkin þeirra þótt það sé kannski ekki góður kostur fyrir þau okkar sem ekki eru „-dóttir“ eða „-sonur“. Fyrir þeim sem hafa aldrei heyrt mig nefnda er ég bara Helen Cova frá einhverju landi og það er allt í lagi. Ég geri ekki ráð fyrir að samlandar mínir viti að ég er ein af þeim, að ég búi á Íslandi. En ég er smátt og smátt að reyna að breyta því með því að koma sjálfri mér á framfæri svo að fleiri viti af mér og séu meðvitaðir um að ég er íslenskur höfundur.
Ég er mjög þakklát fyrir það hversu vel bókunum mínum hefur verið tekið og að ég hafi fengið tækifæri til að þroskast hér sem höfundur. Ísland skuldar mér ekki neitt og ég verð að viðurkenna að mér líkar vel að ég verði sjálf að marka mér pláss og vekja á mér athygli.
 
Er einhver sérstök ástæða fyrir því að þú skrifar Sjálfsát/Autosarcophagy á ensku en ekki móðurmáli þínu, spænskunni?
Það veitti mér öryggi að skrifa þessa bók á ensku. Það var nauðsynlegt fyrir mig að leyfa öllum tilfinningum að fljóta frjálst og óhindrað. Reyndar skrifaði ég sumar sögurnar á spænsku og flakkaði líka á milli tungumála þegar ég fann bara réttu orðin á móðurmáli mínu.
 
Þú skrifar Snúlla finnst gott að vera einn á spænsku ekki satt en bókin kom út í íslenskri og enskri þýðingu á sama tíma. Hvernig kom það til?
Ég skrifaði þessa bók á spænsku en vissi þó að ég vildi gefa hana út á íslensku. Ástæðan fyrir því að ég vildi líka hafa hana á ensku og spænsku er sú að fáar barnabækur eru til hérlendis á öðrum tungumálum en á íslensku, sérstaklega er lítið um spænskar bækur.
 
Finnst þér mikilvægt að bækurnar þínar séu aðgengilegar á íslensku?
 Já, ekki spurning. Ég bý á Íslandi, það er heimili mitt, og fyrir mér eru Íslendingar hluti af lífinu, samlandar og vinir. Ég hef valið að búa á Íslandi og ég elska íslenskuna. Hvers vegna ætti ég ekki að vilja gefa út bækur fyrst í heimalandinu mínu og á tungumálinu sem þar er talað?
 
Hvað er fram undan hjá þér?
Ég hlakka virkilega til að búa á Flateyri og halda áfram að uppgötva og njóta Vestfjarða. Við erum nýflutt þangað og ég er spennt að gera mig heimakomna. Ég hef verið að vinna í tveimur bókum og á planinu er að halda áfram með þær. Vonandi verð ég búin að gefa alla vega aðra þeirra út á næsta ári þótt ég sé alls ekki að drífa mig; ég hef jú alla ævina til að skrifa og vera rithöfundur.
 
Við þökkum Helen kærlega fyrir ánægjulegt og fróðlegt spjall og hlökkum til að fylgjast áfram með skrifum hennar. Við fengum góðfúslegt leyfi Helenar til að birta eina af sögunum úr Sjálfsáti í þýðingu Helgu Soffíu Einarsdóttur og fyrir valinu varð „Hár“ sem hljómar á þessa leið:
 
 
Hár
 
 
 
 
Ég sagði henni það oft. Ég sagði henni það á hverjum morgni, áður en ég sagði nokkuð annað. Ég sagði henni það á meðan ég burstaði í henni tennurnar, plokkaði burt afgangshár milli þeirra. Ég sagði það margoft, en hún hlustaði ekki. Hún hlustaði aldrei á viðvaranirnar mínar.
Hún hafði alltaf verið svona. Hver var ég að reyna að breyta henni?
Þegar ég ýtti henni út úr mér, lengsta dag lífs míns, lagði ég hana strax á bringuna á mér þar sem þrútið brjóst mitt beið hennar. En hún horfði framhjá því og fann huggun í lok af hári mínu.
Hún saug hann viðstöðulaust og róaðist. Hún brosti jafnvel, eins og níu mánaða hungur hefði loksins verið satt. Síðan sofnaði hún. Ég sofnaði líka, þreytt og ánægð.
Hún át aldrei, drakk aldrei, en hélt áfram að sjúga á mér hárið. Hún saug úr því allt sem hún þurfti, endalaus uppspretta næringar. Ég leyfði henni það. Á þeim stundum sem ég hefði átt að þvinga mjólkina mína ofan í hana leyfði ég henni í staðinn að nærast á svörtum hárlokkum mínum.
Hún var heilbrigt barn og í læknisskoðunum var hún alltaf á undan jafnöldrum sínum – stærri og hærri, augun iðandi af lífi. Ég þorði aldrei að minnast á að hún drykki einungis af hári mínu.
Ég hélt að þetta tæki enda þegar hún fékk fyrstu tennurnar, feimnar í litlum gómnum. En það gerðist ekki.
Ég keypti handa henni dýrustu ávexti og grænmeti og kjöt sem við höfðum efni á. En líkt og með mjólkina hafnaði hún þessu.
Ég barði hana oft í örvæntingu minni, aumingjans hárætubarnið mitt. Ég sé eftir því.
Ekkert. Þetta barn vildi ekkert annað éta.
Þegar tennurnar í henni voru nógu sterkar fór hún að naga, naga á mér hárið, á sér hárið, hárið á hundinum. Ekkert fékk stöðvað hana. Það var þá sem ég fór að segja henni að þetta myndi skaða í henni magann og ég gerði það oft, á hverjum degi, oft á dag, en hún hlustaði ekki.
Mæður vita svona lagað og ég vissi þetta. Frá fyrstu stundu sem ég sá hana sjúga fyrst vissi ég það. Þegar ég heyrði litlu tennurnar naga á mér hárið vissi ég það. En sama hversu mikið ég vissi hefði ég ekki getað komið í veg fyrir að koma að henni svona. Hún lá út um allt gólf eins og einhverskonar barn í vökvaformi, úthellt yfir teppið með sprunginn kvið, þakin hárum sem aldrei höfðu náð að meltast.
 
 
Á heimasíðu Helenar má nálgast frekari upplýsingar um hana og verk hennar.

 

 

 

Tengt efni