Steinunn Inga Óttarsdóttir∙16. október 2021
ÉG HELD ÉG HAFI STUNDUM FALLIÐ Í TRANS - Viðtal við Höllu Kjartansdóttur
Steinunn Inga átti spjall við Höllu Kjartansdóttur um bókmenntir, kennslu og þolinmæðisverk þýðandans. Halla hefur þýtt úr sænsku, norsku, dönsku og ítölsku, m.a. bækur eftir stórstjörnur eins og Stieg Larson og Elenu Ferrante.
Við komum okkur fyrir í garðstólum í 101 síðla sumars. Þetta er einn af þessum örfáu sólardögum, kaffið rýkur í rósóttum bollum, notaleg borgarstemning liggur í loftinu. Steinunn Inga lætur spurningarnar dynja og ekki stendur á svörum hjá Höllu. Hún er kvik og fjörug og stutt í smitandi hlátur.
Hver er Halla, hvaðan kemur hún? Og hvert stefnir hún? Hverjar eru áherslur þínar í lífinu? Hvað hefur á daga þína drifið sl tvö ár?
Ég er fædd og uppalin í Reykjavík og ólst upp fyrst á Freyjugötu og síðan í Álfheimum. Gekk í Vogaskóla, síðan í MS og svo Í HÍ. Er með meistaragráðu í íslenskum bókmenntum. Ég er önnur í röð fimm systra, alin upp á menningarheimili þar sem bækur voru upp um alla veggi, einn vefstóll, ein prjónavél og eitt píanó og hannyrðir mömmu flæðandi um borð, bekki og gólf. Foreldrar mínir eru Gíslrún Sigurbjörnsdóttir fyrrum handavinnukennari og Kjartan Ólafsson fyrrum ritstjóri Þjóðviljans, þingmaður og sagnfræðingur, bæði komin vel á níræðisaldur í dag.
Mig dreymdi um að verða leikkona sem barn en niðurstaðan varð kennarastarfið og svo bættist þýðendastarfið við, svolítill leikari leynist í hvorutveggja ef að er gáð, túlkun, miðlun, sviðssetning og endalaus vinna með texta, og svo blundar í mér skúffuskáld... Ég hef þó alltaf glímt við lágt sjálfsmat. Eftir fimmtugt fór ég að sækja í mig veðrið með það. Ég stefni almennt að auknum þroska sem manneskja og að ná sátt við sjálfa mig og stóra samhengið sem lífið er. Markmið mín eru að ná betra jafnvægi milli vinnu og einkalífs og muna að gleðiefnin í lífinu eru litlu hlutirnir eins og kaffibollinn á morgnana og brosið í augum barnabarnanna. Þau störf sem ég hef unnið hafa haft tilhneigingu til að verða frekari til fjörsins en ég sjálf, ég get ekki verið hversdagsmanneskja, læt verkefnin gleypa mig og kann ekki að verja mig fyrir álagi. Síðastliðin tvö ár hafa verið afskaplega frek í þeim skilningi og verkefni á færibandi drifið á daga mína.
Ertu frílans?
Ég vinn ekki eingöngu við þýðingar þótt ég hafi átt mér þann draum þegar ég sagði upp fastri stöðu við íslenskukennslu í framhaldsskóla fyrir sex árum síðan eftir nærri 25 ára farsælan starfsferil. Ég vinn núna svolítið við íslenskukennslu og svolítið á bókasafni í Myndlistaskólanum í Reykjavík, mátulega lítið þó til að geta unnið við þýðingar þegar verkefni bjóðast þar. Nægjusemin kemur sér vel þegar maður er einn á frílansbáti en frekjuleysið síður.
Hvað er heillandi við kennarastarfið / þýðandastarfið?
Það sem heillar mig við kennarastarfið er sköpunin í sjálfri kennslunni, töfrarnir sem verða í kennslustofunni, hugmyndirnar sem vakna, samskiptin sem geta verið svo frjó og skapandi þegar nemendur uppgötva nýja hluti eða þora að fara óvenjulegar leiðir í náminu, að geta hjálpað þeim áleiðis og hvatt þau. Ég ber mikla virðingu fyrir nemendum mínum og finnst þau oft kenna mér meira en ég þeim, ég reyni að hlúa að þeim, nálgast þau meira á einstaklingsgrunni núorðið og gef þeim meira frelsi, af því að ég kenni svo litlum hópi. Ég átti val á sínum tíma um að verða fræðimaður eða kennari. Ég valdi hið síðara af því að útopnan í kennslu átti betur við mig þegar ég var yngri en grúskið í holu minni á betur við mig núna. Ætli þýðendastarfið sé ekki einhver millivegur fyrir mig.
Ertu fræðikona líka?
Áhugasvið mitt í háskólanum var á tímabili þjóðfræði en svo leiddist ég út í að skrifa meistararitgerð um Gunnar Gunnarsson og tengsl hans við trú í víðum skilningi þess orðs. Sú ritgerð kom út í ritröðinni Studia Islandica fyrir 25 árum en þar með lauk líka fræðaferli mínum, sjálfsefinn var verri í fræðasamhenginu en á öðrum sviðum lífsins - leyfði menntaskólakennslunni að gleypa mig með húð og hári.
Það er mikil dulúð yfir starfi þýðandans. Hvernig ber hann sig að? Hvernig er venjulegur vinnudagur hjá þér?
Öll dulúð verður að vera óskilgreind svo ég reyni ekki að lýsa henni, ég skil stundum ekki sjálf hvernig ég fór að þegar ég horfi á bækurnar sem ég hef þýtt og ég get varla opnað þær eftir að þær eru komnar út. Ég held ég hafi stundum fallið í trans.
Annars snýst þetta um bullandi vinnu með kveikt á öllum batteríum í málstöðinni, og stundum gleymast fæturnir alveg þegar maður loksins stendur upp, og þá er eins og hálsinn sé stífur frá herðum upp í hvirfil. Allir dagar eru vinnudagar hjá frílans þýðanda, helgar og kvöld ef því er að skipta, en það geta líka komið góðar pásur inn á milli. Ef ég er komin í stuð með bók verð ég helst að þýða í löngum lotum, og best er að fara eitthvert í einangrun með tölvuna. Kúpla sig út úr lífinu. Þá gerast hlutirnir, en slíkur lúxus er ekki alltaf í boði. Venjulegur vinnudagur við þýðingar er að sitja við frá morgni til miðnættis ef ég fæ frið til þess.
Velur þú sjálf hvaða bækur þú vilt þýða? Úr hvaða tungumálum þá? Hvar lærðir þú norðurlandamál og ítölsku?
Ég hef aldrei gengið á milli forlaga með óskalista yfir bækur sem mig langar til að þýða. Ég hef verið svo heppin að forlögin hafa vitað af mér síðan ég fékk mitt fyrsta stóra tækifæri fyrir 20 árum síðan þegar ég þýddi Líflækninn eftir Per Olov Enquist en þá hafði ég búið í Svíþjóð í 4 ár og lært sænskuna þannig, að vísu ekki í skóla. Ég vann líka eitt sumar um tvítugt á sænskum spítala og lærði ákveðinn grunn þar og svo er mamma fædd í Svíþjóð og ég heyrði sænskuna í æsku hjá afa og ömmu og mömmu í gestaboðum. Sænskan lá því vel við höggi og svo hafa hin Norðurlandamálin flotið með af og til enda stutt á milli, sérstaklega ritmálsins.
Ég er afskaplega þakklát fyrir þau tækifæri sem ég hef fengið en hef aldrei verið með neitt plan, bara verið beðin um hitt og þetta, og þá verð ég bara að mæta hverju verkefni með opnum huga, en ég hef líka hafnað verkefnum.
Ég kem úr máladeild í menntaskóla og franskan og latínan sem ég lærði þar hjálpuðu mér þegar ég fór á miðjum sextugsaldri til Sikileyjar að læra grunn í ítölsku. Það átti bara að vera ,,grár fiðringur“ eða flipp hjá mér og svo ætlaði ég að snúa aftur fílefld á minn gamla vinnustað. En þegar til kom var ég komin með blý í fæturna, ég gat mig hvergi hrært. Ég var orðin ástfangin af tungumálinu. Svo það varð logandi ögrun fyrir mig að bjóða henni upp í dans eftir að hafa lifað og hrærst við að miðla íslenskum fræðum og bókmenntum í áratugi. Undirvitundin hafði greinilega planað þetta fyrir mig.
Hver var fyrsta bókin sem þú þýddir og hvernig gekk það, hverjar voru aðstæður þínar þá?
Fyrsta bókin var eiginlega alveg ótrúlegt tækifæri fyrir mig. Ég var rétt skriðin yfir fertugt, 3ja barna móðir í fullri kennslu á því tímabili og hafði engin áform um að gerast þýðandi. Hafði nóg á minni könnu. Mér fannst þetta samt ögrandi verkefni, og innst inni vissi ég að þetta ætti vel við mig. Bókin var engin önnur en Livläkarens besök eftir eitt merkasta skáld Svía á seinni hluta 20. aldar, Per Olov Enquist, ég þýddi hana árið 2001 en hún kom út 2002. Ég fer ekki í neinar grafgötur með það að ég fékk tækifærið í gegnum þáverandi eiginmann, Pál Valsson, sem þá starfaði á ritstjórn eins virtasta bókaforlags landsins, Mál og menningu. Ég fann líka mikinn velvilja frá útgáfustjóranum þar, Halldóri Guðmundssyni. Það var ómetanlegt að finna, enda voru þýðendur fyrst og fremst karlar, ef það var eitthvað annað en ástarsögur eða barnabækur. Átti ég svo bara að klifra? Þykjast vera jafnoki? Gera orðið að mínu?
Já, hiklaust! Það er það sem við þurfum! - Þú hlýtur að hafa gríðarlega einbeitingu og sterka málvitund. Lestu mikið og þá hvað helst?
Það er þetta með að falla í trans. Fórnirnar kom niður á einkalífinu, ég neita því ekki. Ef klaustur væru ennþá í boði væri ég kannski þar. Ég get lokað mig af og hef alltaf haft mikla þörf fyrir það, löngu áður en ég fór að þýða. Ég nærist á einveru.
Málvitund mín byggir auðvitað á þeim grunni sem ég fékk í foreldrahúsum, þar var mikið lesið, ég las talsvert sem barn, það var mikið bókasafn á heimilinu, og bókum var haldið að okkur systrum. Ég byrjaði að lesa Laxness 13 ára og heillaðist bæði af Brekkukotsannál og Sölku Völku, þótt ég botnaði stundum ekki neitt í neinu. Svo fékk ég snemma áhuga á því að setja saman ferskeytlur, það voru svona rímþrautir sem pabbi hafði gaman af að láta mig glíma við, en hann kallaði mig líka stundum,,rassbögu“ og hló.
Þegar svo vinnan fór að snúast um að lesa bækur, að ekki sé talað um að þýða þær, þá fór ég að reyna að gera eitthvað annað í ,,frítímanum“ ef hann var þá einhver. Lestrarnæðið tengist vinnunni alfarið í mínu lífi og ef ég næ því að lesa af nautn en ekki vegna vinnunnar, þá eru jól. Ég gríp helst í ljóðabækur til að næra mig í vinnutörnum, það er svo mikil hvíld í því formi. Svo held ég að píanónámið sem ég stundaði sem barn og fram að 14 ára aldri hafi hjálpað málvitund minni. Að spila eftir nótum, ná fram réttum takti og hljómi eftir forskrift er ekki ólíkt því að þýða. Það er nefnilega ekki nóg að lesa, það þarf að geta spilað á þetta hljóðfæri sem tungumálið er, og miðlað því. Ég var líka söngelskt barn, var í kórum og hef alltaf átt mjög auðvelt með að læra texta, verið taktviss og lagviss. Þarna er einhver tenging. Svo er ég skúffuskáld.
Hversu frjálslega má þýða? Hvernig ætti að þýða td svona senu svo hún hljómi eðlilega á íslensku?
„John,“ she said, smiling. „It´s John, isn´t it?“
„Yes. It is.“
Fyrstu viðbrögð mín eru að segja PASS. Þetta er óþýðanlegt sem stakar línur á floti. En svo get ég reynt að spila út einhverjum spilum:
„John,“ sagði hún brosandi. „Þú ert John, ekki satt?“
„Jú, ég er John.“
Eða: „Jú, mikið rétt/Jú, sá er maðurinn/Jú, passar/ Jú, þú átt kollgátuna/ Jú, ég heiti John/Jú, ég er hann“ o.s.frv. o.s.frv.
Annars er þessi setning gott dæmi um hvað samhengi er nauðsynlegt þegar þýtt er til að þýðandi geti valið stíl eða málsnið við hæfi. ,,Þú átt kollgátuna“ er orðalag úr gömlu Kim-bókunum sem ég skóflaði í mig sem barn. Það er síður notað í dag. ,,Mikið rétt“ er hins vegar algengari frasi hjá þeim sem eru hátíðlegir í tali, kannski smá ,,ungra manna MR-keimur“ af því. Mér fyndist líka freistandi að bæta spurningarmerki við. ,,John?“ til að undirstrika spurnina í ávarpinu. Svo veit ég ekkert hvort það eru börn sem tala, eða fullorðnir eða í hvaða samhengi. Jafningjar? Hver er statusinn á milli persóna? Álitamálin eru endalaus, dulúðin í þýðingunni felst kannski í því að lesandi fær aldrei að vita hvaða krókaleiðir og skúmaskot þýðandi var búinn að fara í gegnum áður en hann fann lausnina.
Hvernig gengur að forðast að frummálið smitist yfir í þýðingarmálið? Manstu eftir dæmum?
Ég kalla það að „vinda frummálið úr“ þegar ég er að fara yfir próförk eða prófarkir. Það gengur misvel eftir því undir hvaða pressu maður vinnur. Ef maður hefur tíma til að lesa þýðinguna aftur og aftur, helst upphátt, þá vinst frummálið úr smámsaman. Það er eins og með þeytivinduna í þvottavélinni, ef hún er sett á fullt kemur plaggið næstum þurrt út. Ég held að lesendur séu betur til þess fallnir að sjá keiminn að frummálinu en þýðandinn sem aldrei les þýðingar sínar eftir á, einmitt af ótta við að keimurinn hafi setið eftir. Svo ég vil ekki finna dæmi eða muna þau. En oftast eru þetta algjör smáatriði, samtengingar, atviksorð, greinarmerki og slíkt sem geta skipt sköpum, líka orðaröð.
Hefur þú gert e-a alvarlega / skemmtilega þýðingarvillu...?!
Ég hef stundum verið nálægt því að detta í pytt en þá koma yfirlesarar til sögunnar og kippa mér upp. Ég var einu sinni næstum búin að rugla morgunmat saman við hádegismat þegar ég var að þýða ,,frokost“ í danskri bók. Það er nefnilega hádegismatur á dönsku, en morgunmatur bæði á sænsku og norsku. Mér fannst persónurnar borða morgunmatinn ansi seint, satt að segja. Norðurlandamálin eru skeinuhætt hvert öðru, nefnilega. Lýsingarorðið ,,rar“ á norsku er furðulegur, eða einkennilegur en ,,rar“ á sænsku og dönsku er góður eða ljúfur.
Hálast á svellinu hefur mér orðið þegar ég þýddi fyrstu ítölsku bókina mína. Það vildi mér til happs að ég hafði ensku þýðinguna sem haldreipi á kantinum, en ég var svo þrjósk að ég kíkti helst ekki í hana fyrr en á lokametrunum, geymdi mér heilu efnisgreinarnar, þar til síðast og þá varð ég bara að kíkja á enskuna. Þá kom ýmislegt í ljós, sem ég segi engum, en vitaskuld var því bjargað, enginn verður óbarinn biskup og allt það. Ég man bara að einu sinni var ég hætt komin þegar ég var búin að þýða að ganga (camminare) á gangstíg (viale) sem að fara út að ganga í fjólubláu peysunni sinni (camica og violetto runnu einhvern veginn til í kollinum þegar ég fór að raða saman málsgreininni). Á ítölskunni þarf maður nefnilega að raða setningunum svo rækilega niður fyrir sér áður en maður íslenskar, vera viss um frumlagið og andlagið sem sagnmyndin vísar til. Svo man ég eftir því að ég var einu sinni orðin dauðþreytt, komið framyfir miðnætti og ég að þýða ,,Hugo har hatt en besvær natt“ og daginn eftir sá ég að ég hafði þýtt: Hugo er með hatt, nóttin var erfið. Maður hrekkur stundum úr gír, en gott að þá sé ekki orðið of seint að hlæja að mistökunum.
Pæling: Er þýðing sköpun eða endursköpun? Túlkun eða yfirfærsla..? Hvað með staðfærslu? Virkar hún? Þýðir þú nöfn á fyrirtækjum, verslun, hundategundum (gullinsækir?)...?
Þýðing er bæði sköpun og endursköpun. Hún er yfirfærsla úr einu tungumáli í annað en orðavalið er þýðandans og þar þarf að gæta þess að vera trúr frumtexta, að stíll, orðaval og blæbrigði haldist sem best, að taktur, tónblær og undirtexti komist til skila, og svo þarf texti að vera lipur og þjáll. Það þarf að vinda hann vel eins og ég kalla það, vinda frumtextann úr svo ekki verði smit á milli tungumála því það er alltaf lýti á þýddum texta ef hann ber þess merki að vera þýddur.
Það er allur gangur á því hvernig staðfærsla virkar, það er auðvelt að staðfæra, t.d. ef um hliðstæðar stofnanir eða fyrirtæki er að ræða, þetta eru þó alltaf vafamál sem þarf að skera úr í hverju tilviki fyrir sig og þarf alltaf að meta hvað passar. Tegundaheiti hunda er eitt af þessum álitamálum en lendingin hefur hingað til verið sú að nota þau heiti sem algengast er að nota í talmáli. Ég myndi hiksta á ,,gullinsækir“ bæði sem þýðandi og lesandi, stundum verður tilgerðarlegt að vera of stífur á að reyna að staðfæra. En ég veit að ég reyndi staðfærslu þegar ég þýddi Stieg Larsson, þ.e. að þýða nöfn á fyrirtækjum og stofnunum, og hafa síðan skammstafanir á þeim í samræmi við það. Ég myndi líklega ekki gera það með sama hætti í dag.
Er hægt að finna eina sanna merkingu milli tungumála? Ertu alltaf með viðtakandann í huga eða höfundinn? Eða eitthvað annað?
Það er alltaf hægt að komast mjög nærri kjarnanum í merkingunni þó óhjákvæmilega tapist alltaf eitthvað í þýðingu vegna þess að málheimur frummálsins er annar en þess máls sem þýtt er á, vísanir í hefðir og siðvenjur og sögulegar skírskotanir geta farið forgörðum, merkingarsvið einstakra orða drífa mislangt yfir í þýðingu, þýddu orðin ná því ekki að lýsa upp allt það svið sem frummálið felur í sér. Þetta er galdur tungumálsins og hann verður aldrei fangaður alveg til fulls. Ég reyni alltaf að lýsa upp öll þessi skúmaskot og þjóna þessum tveimur herrum, höfundi og lesanda, frummáli og þýddu máli, sjálf með tunguna tvíklofna.
Segðu mér frá Ferrante, hvernig rak það verkefni á fjörur þínar? Og hvernig var glíman við það? Var tímapressa?
Ferrante var eitt fyrsta verkefni sem rak á fjörur mínar eftir uppstokkun í þessu örheimi sem íslenskur útgáfubransi er. Guðrún Vilmundardóttir, sem ég hafði unnið mest með þegar hún var útgáfustjóri hjá Bjarti bókaútgáfu, stofnaði eigið forlag Benedikt og var svo elskuleg að leyfa mér að fylgja með í farteskinu en ég hafði þýdd allan Stieg Larsson á sínum tíma þegar hún var útgáfustjóri þar. Skáldsagan Dagar höfnunar eftir Ferrante var fyrsta verkefnið sem hún bauð mér að takast á við og ég var satt að segja tvístígandi og hélt að ég myndi ekki geta þetta. Annað kom í ljós, bókin vakti gríðarlega sterk viðbrögð og ég er enn að hitta fólk sem þakkar mér fyrir þá þýðingu. Ég get samt vel viðurkennt það hér og nú að hún gekk nærri mér og fyrir því liggja persónulegar ástæður, en líka reynsluleysi mitt sem ítölskuþýðanda. Ég vann langt upp fyrir mig þar og klukkustundirnar voru ómældar.
Undir væng Guðrúnar tók ég svo stökkið úr reyfaradeildinni, sem ég var aðeins farin að festast í eftir Stieg Larsson-ævintýrið. Nýjasta skáldsaga Ferrante kom svo út á örlagaríka covid-árinu en hún var unnin undir mun meiri pressu en ég hafði nokkru sinni upplifað áður. Þýðingin átti að koma út í fjölmörgum löndum á sama tíma, engar aðrar þýðingar voru tiltækar ef ég strandaði, fréttir frá Ítalíu voru skelfilegar, ótti og óvissa ríkti. Þegar vika var eftir af skilafrestinum, sem var í lok mars og ég farin að vinna 17-18 tíma á sólarhring til að ná í mark, var ég loksins skorin úr snörunni, útgáfudegi þýðinganna var frestað í öllum löndum fram á haust vegna faraldursins Þá tók við ljúfur tími, þar sem ég gat pússað og lagað og pússað og lagað. Það bjargaði mér fyrir horn í það skiptið.
Sem leiðir að Stieg Larsson - þar hlýtur líka að hafa verið tímapressa. Er pressa góð? Hvað þarf þýðandi sjálfur að hafa til að bera til að þýðing verði góð? Er til óþýðanleiki?
Ég virðist alltaf hafa rutt einhverja snjóskafla, þegar ég lít til baka. Byrjaði ekki á garðinum þar sem hann var lægstur; Per Olov, sem urðu tvær á endanum; fór síðan í Stieg Larsson sem engan óraði fyrir að yrði að svo miklu stórveldi á heimsmælikvarða. Svona gerist þegar maður hefur ekkert plan... Pressa er góð upp að vissu marki, sérstaklega á hráþýðingarstiginu, þ.e. fyrsta stigi í þýðingarvinnunni. Ef yfirlestrarstigið og lokapúss er í pressu þá er það vont, hættulegt beinlínis. Texti þarf að fá tíma til að sjatna, og það þurfa fleiri augu að koma að á lokametrunum. Ég er skæð með að breyta fram á síðasta dag, þar kemur sjálfsefinn sterkur inn, honum finnst ekkert nógu gott. Þá er eins gott að einhver þarna hinum megin rífi þýðinguna af mér með valdi. Það til óþýðanleiki og hann birtist t.d. í ljóðum og eins þegar blótsyrðum, t.d. á napólísku, er tvinnað saman eins og hjá Ferrante, en þá reynir á skáldið í þýðandanum, og kannski leikarann líka.
Er þýðing skapandi, hvað má fara langt frá frumtexta? Má bæta texta höfundar td? Má krydda með íslenskum orðtiltækjum til að textinn renni betur? Er allt leyfilegt til að þýðing verði lipur eða eru mörk sem höfundur eða útgefandi setur og ekki má fara yfir?
Sköpunin er alltaf með í för. Orðin eru alltaf val þýðandans og hann hefur oftast nær úr ýmsu að moða hverju sinni. Þýðing sem víkur hvergi frá frumtexta er ekki gerleg í bókmenntaþýðingum. Norskan á orðið,,gjenddiktning“ yfir þýðingu, þ.e. að endursemja. Ég held að það fari nærri lagi að lýsa því sem í þýðingu felst. Ýmislegt gerist í ferlinu. Stundum verður textinn liprari í þýðingu en í frumtexta, það getur vel skeð að hann verði slípaðri.
Þýðing er alltaf höfundarverk þýðandans. Það þarf vissulega að krydda með sem réttustu kryddi en helst ekki með því kryddi sem ekki var fyrir í frumtextanum, nema í algjörri neyð.
Ég laga hiklaust ef ég sé augljóst misræmi í frumtexta, yfirleitt í samráði við yfirlesara eða ritstjóra. Hús sem sagt er á einni hæð er allt í einu orðið tveggja hæða, fólk gengur upp stiga en var nýbúið að fara inn í lyftuna o.s.frv.
Þegar ég þýddi Hafbókina norsku, sem mér þykir einna vænst um af öllum mínum þýðingum, þá þurfti að leggjast í mikla rannsóknarvinnu við að finna réttu orðin yfir hluti sem tengdust sjómennsku, veðri og veiðum, og þar þurfti ég að grípa til eigin lausna með orðatiltæki t.d. og vísubrot. Sú þýðing reyndi mikið á mig og var fyrsta þýðing mín úr norsku t.d. en þar fékk ég líka tækifæri til að kynnast höfundi, fara á bókmenntahátíð í Lillehammer, taka þátt í málstofu með höfundi og þýðendum bókarinnar frá öllum heimshornum og þar gátum við borið saman bækur okkar. Ég var komin stutt á veg með þýðinguna þegar ég mætti á hátíðina en ég bjargaði andlitinu með því að bjóða öllum upp á íslenskan hákarl, enginn hafði smakkað hann, ekki heldur höfundurinn, en þó var hákarl aðalpersóna sögunnar. Í bókinni tók ég mér umdeilt bessaleyfi sem þýðandi og þýddi tegundarheitið beint úr norsku sem hákerling en ekki hákarl. Ég gerði það í listrænum tilgangi og lét skýringar fylgja með. Kannski voru ekki allir sáttir – ég veit það ekki, en þarna skildi ég eftir mig ,,spor“, vísvitandi.
Hversu langan tíma tekur að þýða 300 bls bók á venjulegri ensku td? Hvaða þýðing kemur út næst eftir þig?
Þýðing er aldrei unnin í tímamælingu. Ég legg aldrei út í slíkt nema til að gera grófa tímaáætlun fyrir mig. Stundum lofa ég upp í ermina með skil og þá er unnið í kvöld- og helgarvinnu og stundum er of mikið að gera á öðrum vígstöðum í lífinu svo að þýðing er unnin með afgangsorkunni án þess að slá megi af. Slík þýðing getur lukkast vel en þreytan segir þá bara til sín hjá mér eftir þannig tarnir. Engin bók er ,,venjuleg“ og það geta komið upp ótrúlegar gildrur þótt texti láti lítið yfir sér og virðist sakleysislegur á yfirborðinu. Stundum er eitt dagsverk 10 blaðsíður, stundum 20 blaðsíður eða meira ef ég kemst í stuð og fæ frið en þá er ég aðeins að tala um hráþýðingu sem er alltaf fyrsta útgáfa og hana fær enginn að sjá nema ég. Eftir hráþýðingu leggjast síðan ómældar vinnustundir í að pússa texta, fara í saumana á einstaka hlutum, leysa úr flækjum, fletta upp í orðabókum o.s.frv. Svo les þýðandi yfir próförk stundum einu sinni og stundum tvisvar. Allt tekur þetta tíma sem er ómældur. Næsta bók heitir Tríó, sem ég þýði úr sænsku.
Hefurðu þýtt ljóð? Dæmi?
Það hafa komið upp vísur og ljóð í þeim skáldverkum sem ég hef þýtt og það hefur sannarlega oft verið ögrandi verkefni og þá þarf að virkja brageyrað og opna á lýrísku æðina. En það getur verið ansi snúið. Ég þýddi sænskan skírnarsálm fyrir nokkru og hann mun væntanlega birtast í nýju sálmabókinni. Það er svona eitt dæmi. En ég hef stundum æft mig í að þýða ljóð, bara fyrir mig, svona eins og fingraæfingar á píanói.
Hefur þú þýtt af íslensku yfir á annað tungumál? Er það öðruvísi, hvernig?
Ég hef aðeins prófað það og það er allt öðruvísi. Þá kemur nefnilega svo berlega í ljós að þýðandi þarf að vera svo miklu, miklu betri í tungumálinu sem hann þýðir yfir á en í því sem hann þýðir úr.
Áttu heilræði, hvatningu eða varnaðarorð til lesenda og (skáld)kvenna sem langar að reyna sig við að þýða?
Farið gætilega með orð, þau leyna á sér og eru sannarlega ekki öll þar sem þau eru séð, stíll sögu og form liggur í orðunum. Góður bókmenntaþýðandi verður að hafa næmt auga fyrir stíl og blæbrigðum orða, helst þarf hann að vera bæði túlkandi og skáld inn við beinið svo hann nái að fanga andann í hverju skáldverki fyrir sig. Hann þarf að vera göldróttur, geta brugðið sér í allra kvikinda líki, búa yfir innsæi og smekkvísi til að velja þau orð sem hæfa hverju sinni. Vissulega þarf hann hafa góða þekkingu á því tungumáli sem hann þýðir úr en hitt er þó mest um vert, að vera með trausta þekkingu á íslensku, hafa næmni fyrir henni. Þýðandi er eins og leynilöggan eða innbrotsþjófurinn í glæpasögunni, hann þarf að kunna á þjófalykilinn eða kóðann, geta læðst um öll skúmaskot, brugðið vasaljósinu á loft, leyst gátuna, laumast svo út aftur, loka á eftir sér og skilja ekki eftir sig nein spor. Þýðandi getur stokkið fullskapaður fram ef réttar forsendur eru fyrir hendi, góður grunnur og hæfni, en reynslan hjálpar alltaf og svo er góður yfirlesari ómetanlegur.
Þýðandi verður að þola mikla einveru, langar setur, einangrun og stundum jafnvel að gleymast alveg þegar fjallað er um verk hans, vera ekki nefndur á nafn. Rithöfundar hafa sagt við mig að það sé að mörgu leyti flóknara að vera þýðandi en höfundur. Höfundur ræður öllu en þýðandi verður að vera auðmjúkur þjónn, höfundur má nota alla þá sérvisku sem honum lystir í texta, þýðandi má helst ekki skilja eftir sig nein sérviskuleg spor, hann á að vera fínstilltur, auðmjúkur og fullkomlega meðvirkur. Svo má gjarnan taka fram svona í lokin að það er ákveðin tilhneiging á tímu tæknivæðingar, vélþýðinga og nýrra útgáfumiðla að gleyma vinnu þýðandans, og vilja sem minnst af henni vita.
Sólar nýtur ekki lengur í garðinum og kaffibollarnir hafa verið tæmdir. Takk Halla fyrir spjallið og fyrir að færa okkur heimsbókmenntir. Við sem erum lesendur, kaupendur og bókmenntaunnendur undirstrikum mikilvægi þýðinga fyrir íslenskar bókmenntir og gerum þá sjálfsögðu kröfu að nafns þýðanda sé ávallt getið.