SKÁLD.IS

Konur skrifa um konur sem skrifa

Jóna Guðbjörg Torfadóttir14. júlí 2024

„EKKERT VÆL, ÉG GET SKRIFAÐ HVAR SEM ER“- VIÐTAL VIÐ ELÍSABETU JÖKULSDÓTTUR

Elísabet Jökulsdóttir er ein af okkar fremstu skáldkonum og löngu orðin kunn fyrir verk sín og gjörninga. Einn stærsti gjörningur hennar fór nú vart fram hjá neinum en það var þegar hún bauð sig fram til forseta og gerði þá baráttu mun skemmtilegri og eftirminnilegri en ella. Þá hefur hún hlotið fjölda verðlauna og viðurkenninga fyrir verk sín og glimrandi dóma.

Ég hringdi í Elísabetu og ræddi aðeins við hana þar sem hún var á leið til Siglufjarðar að vígja bát með nafni Hrafns Jökulssonar, honum til heiðurs.

 

Þú situr ekki auðum höndum; með bók í smíðum sem er nær tilbúin, sýningu í Hveragerði á hellamyndum og auk þess afar virk á Facebook. Fellur þér aldrei verk úr hendi?

Já, fólk segir þetta oft við mig. Ég verð að hafa eitthvað að gera annars leiðist mér óskaplega. Þegar ég er að skrifa og mála er það algjör himnasending. Það er nauðsynlegt að skapa eitthvað. Nú er ég með aðra skáldsögu í smíðum sem kemur ekki út fyrr en 2025. Sú saga er um konu sem lokast inni í Hveragerði.

 

Þú ert búin að opinbera það að bókin sem kemur út í haust mun bera nafnið Límonaði frá Díafani og þú hafir byrjað á henni árið 2016. Frá þeim tíma sendir þú hins vegar frá þér fimm önnur verk og raðaðir inn verðlaunum og tilnefningum. Hvers vegna hefur Límonaði frá Díafani beðið þennan tíma?

Forlagið vildi ekki gefa bókina út strax. Þau vildu sjá ýmsar breytingar og svo taka verk mismunandi tíma. Handritið hefur tekið miklum breytingum. Sigþrúður Silju Gunnarsdóttir ritstýrði bókinni og gerði það mjög vel. Úr verður lítil bók, líkt og þær sem ég gaf út hér áður fyrr í Melabúðinni. Þetta er minningabók eða öllu heldur ferðasaga.

 

Mun sagan kallast á við Dagbók frá Díafani eftir pabba þinn? Fjallar hún um sama sumarið árið 1966 frá þínu sjónarhorni?

Já, þær kallast á. Sagan segir frá lítilli stelpu sem er að fara út í hinn stóra heim og þessi litlu þorp eru algjörir gimsteinar í hennar augum. Hún upplifir heiminn upp á nýtt. Bernskan er frjóvgun ef vel er að verki staðið og börn fá að vera í friði í sínu uppeldi en það er nú ekki reyndin með börn sem þurfa að þola stríð og fátækt. Þarna tala ég við pabba minn líkt og ég talaði við mömmu mína í Saknaðarilmi. Jóhann Páll bað um að ég skrifaði um pabba minn árið 2016. Ég hélt nú að hann vildi kannski að ég skrifaði um forsetaframboðið, sem var nýafstaðið, en þetta reyndist rétt ákvörðun því að það hafa orðið til fleiri bækur úr þessari bók og eru nú tvær aðrar bækur í skúffunni í sama anda. Þetta verður trílógía þegar upp er staðið.

 

Þú ert mjög persónuleg og einlæg í mörgum verkum þínum. Reyna skrifin ekki á? Er ekki erfitt að leggja sig á borðið fyrir lesendur með þessum hætti?

Ég er að skapa sjálfa mig upp á nýtt eins og Þórbergur orðaði það á sínum tíma. Þá verður til ný Ella Stína, ný Elísabet. Mér finnst það gaman. Erfiðir hlutir verða ekki eins erfiðir þegar sagt er frá þeim blátt áfram, líkt og ég geri í Saknaðarilmi. Þar segi ég frá eins og um eðlilega hluti sé að ræða en ekki einhverja hádramatíska atburði. Ég vil skrifa blátt áfram um píku og fullnægingu, líkt og í Lásasmiðnum, þetta er líka spurning um kynfrelsi og kvenfrelsi.  

 

Þér tekst ævinlega að vera svo frumleg og ljóðræn í verkum þínum. Hvernig ferðu að? Hver er uppskriftin?

Þetta er gjöf sem mér hefur verið gefin. Ég er þó frekar frumleg en ljóðræn og ég nota ákveðna aðferð til að ná frumleikanum fram: Hvernig get ég sagt þetta öðruvísi og hvernig get ég sagt þetta upp á nýtt svo að þetta verði ferskt? Ljóðrænan kemur hins vegar frekar ósjálfrátt. Ég hef aldrei litið á mig sem ljóðskáld. Mér finnst ég hafa ort eitt gott ljóð um ævina, eða kannski tvö.  

 

Nú ertu búin að vera búsett í Hveragerði í nokkur ár. Hvernig er að skrifa í því umhverfi? Finnur þú mun frá því að vera á Framnesveginum í Vesturbænum?

Nei, veistu ég er svo heppin að geta skrifað alls staðar. Ég fékk herbergi í Skálholti og skrifaði þá hvað mest og vildi gjarnan fara þangað aftur. Og á námskeiði á Írlandi skrifaði ég leikrit sem er algjör snilld og allt öðruvísi en allt annað sem ég hef skrifað. Það er þó enn í skúffunni. Ég segi bara við sjálfa mig: Ekkert væl, þú skrifar bara þar sem þú ert.

 

Fyrr á árum gafstu gjarnan út bækurnar þínar sjálf og seldir í Melabúðinni, svo að eftir því var tekið. Þar komstu í gott samband við lesendur þína. Saknarðu þess eða er betra að vera komin með útgefanda til að standa í þessu öllu?

Það er miklu betra að vera með útgefanda. Það sýnir bókunum mínum virðingu en ég sýndi lesendum virðingu með því að vera í þessum samskiptum við þá í Melabúðinni. Það var dásamlegt og sá tími var nauðsynlegur. Samskiptin við fólkið urðu oft kveikja að ýmsum ljóðum. Þetta var gjörningur.  

 

Þú ert búin að senda frá þér þrjátíu verk, tuttugu leikrit og þá eru látnir  ótaldir ýmsir textar sem hafa ratað í tímarit og á hljómdiska. Fyrsta bókin kom út árið 1989, Dans í lokuðu herbergi, svo að þetta er nánast eitt verk á ári. Hvaða verk ertu einna ánægðust með?

Sagan sem kemur fyrst í hugann er Laufey, af gömlu bókunum, og svo Saknaðarilmur.

 

Nú ertu að fylgja eftir Límonaði frá Díafaní sem kemur út í haust. Ertu komin á kaf í næsta verk?

Já, ég var að vinna í þessu nýja verki í dag um innilokuðu konuna. Erfitt verk en spennandi. Það er um sjálfa mig. Sagan fjallar um hvernig innilokunin verður til þess að konan fer að rannsaka fyrri innilokanir sínar; hvort hún hafi lokast inni áður.

 

Innilokun virðist vera ákveðið þema í verkum þínum?

Já. Innilokun hefur verið ákveðið þema hjá mér undanfarin ár. Hún getur bæði valdið geðveiki en einnig verið falleg, þar sem rithöfundurinn ákveður að skrifa í notalegu umhverfi, er í kjól og kveikir á kerti.  

 

Ég þakkaði Elísabetu kærlega fyrir gott spjall en hún var rétt mátulega að renna inn í Borgarnes þegar viðtalinu lauk en þar átti að staldra við og fá sér einhverja hressingu áður en lengra yrði haldið.