SKÁLD.IS

Konur skrifa um konur sem skrifa

Soffía Auður Birgisdóttir17. janúar 2024

TILFINNINGAR ERU ELDSNEYTI FYRIR HUGMYNDIR

Um skáldskaparheim Elísabetar Kristínar Jökulsdóttur

(Greinin birtist fyrst í Ritinu, tímariti Hugvísindastofnunar, 1. hefti 2019)

 

 

 

Inngangur

Í maí á þessu ári eru þrír áratugir síðan Elísabet Kristín Jökulsdóttir sendi frá sér fyrstu bók sína, Dans í lokuðu herbergi (1989), en útgefin verk hennar telja nú 26 titla. Áður hafði hún birt ýmis konar skáldskapartexta í blöðum og tímaritum. Elísabet hefur sent frá sér átta ljóðabækur, sextán prósaverk, auk þess sem tvö leikrit hennar hafa komið út á bók og enn fleiri verið sviðsett. Þá hefur hún einnig gert útvarpsþætti, sett upp listsýningar, framið gjörninga og í sumum bókum hennar er að finna hennar eigin teikningar. Elísabet er sannkallaður fjöllistamaður.

Í þessari grein verður rýnt í höfundarverk Elísabetar og eru flest verk hennar undir í þeirri rýni, þó ekki barnabækur og leikrit. Fræðimenn hafa lítt sinnt skáldskap Elísabetar og hefur aðeins ein fræðigrein verið skrifuð um bók eftir hana.1 Því verður hér í upphafi varið nokkru rými í að gera grein fyrir höfundarverkinu, kynna helstu áherslur og aðferð Elísabetar. Í síðari hluta greinarinnar verður rýnt sérstaklega í skáldskaparheim Elísabetar, hugað að því hvernig hún notar tilfinningar sem „eldsneyti fyrir hugmyndir“, eins og hún orðar það í tilvitnuninni sem ég hef gert að yfirskrift greinarinnar.2 Þá verður dregið fram hvernig bæta má líkamanum við sem grundvallarviðmiði í því sem kalla má skáldskaparfræði þessa höfundar en textar Elísabetar fjalla mikið um kvenlíkamann, þrár hans og langanir, vanmátt og veikleika í ákveðnum aðstæðum – sérstaklega í samskiptum við karlmenn. Áhersla verður lögð á kvennapólitíska vídd skrifa Elísabetar því þegar bækur hennar eru lesnar saman verður ljóst að verk hennar lýsa baráttu fyrir því að marka sér stöðu í heiminum, til að heyrast og sjást, til að fá að skapa og um leið endurskapa sjálf sitt. Þessi barátta er í grunninn kvennabarátta því Elísabet er mjög meðvituð um þær skorður sem kynhlutverkið setur konum, eins og færð verða rök fyrir hér á eftir. Til að varpa enn betur ljósi á þennan grundvallarþátt í höfundarverki Elísabetar verður sótt í smiðju ýmissa feminískra fræðimanna.

Í skrifum Elísabetar koma endurtekið fram sömu stef og þemu. Efniviðinn sækir hún að stærstum hluta til eigin ævi og lífsreynslu, sér í lagi vinnur hún með reynslu sína af andlegum erfiðleikum sem eiga rætur í barnæskunni. Elísabet er skilnaðarbarn sem að eigin sögn upplifði mikla höfnun frá föður sínum sem var þekktur rithöfundur sem glímdi við alkóhólisma og dó langt fyrir aldur fram. Tvíbent afstaða til föðurins kemur fram í skrifum Elísabetar. Öðrum þræði þráir hún viðurkenningu hans og að hann geti verið henni fyrirmynd á ritvellinum en einnig heyr hún harða glímu við höfnunina og hræðist að fara inn á hans svið. Sjálf átti hún líka lengi við alkóhólisma og geðhvörf að stríða, eins og hún hefur fjallað um víða.3 Viðfangsefni Elísabetar tengjast gjarnan ástinni, geðveikinni, fíkninni, náttúrunni og dansinum en þessi stef fléttast gjarnan saman. Skrif hennar um sjálfið, líkamann og kynverund kvenna hnitast í raun öll um andstæðuna ást og höfnun. Þráin eftir ást og viðurkenningu er hið sterka afl sem knýr skrifin áfram og í skáldskaparheimi Elísabetar fer fram óvægin og djúp sjálfsskoðun. Dregnar eru upp sterkar myndir af sorg og ástarþráhyggju en einnig haldið á dýpri mið alvarlegrar geðveilu sem brýst út í óhugnaði og sjálfseyðingarhvöt. En þótt óhugnaðurinn setji þannig svip sinn á ýmislegt sem Elísabet skrifar er húmorinn sjaldnast langt undan og ekki síður hárbeitt íronía sem er eitt af meginstílbrögðum hennar. Elísabet hefur oft tjáð sig um persónulega reynslu sína af geðhvörfum en hún hefur einnig lagt sig eftir að kynna sér efnið fræðilega og beitir nokkurs konar sjálfssálgreiningu í skrifunum. Bergljót Soffía Kristjánsdóttir og Guðrún Steinþórsdóttir hafa bent á að í verkum sínum lesi Elísabet sig „í meginatriðum að þekktum hugmyndum úr læknisfræði og sálfræði, sem hún hefur án efa kynnt sér“.4

Prósaverk Elísabetar tilheyra öllum bókmenntategundum, hún skrifar nóvellur, smásögur, örsögur, barnasögur, skáldævisögu, auk sagna sem eru sambland af öllu framannefndu. Margir þessara texta eru sjálfsævisögulegir líkt og einnig gildir um ljóðin, Elísabet hefur ekki farið leynt með þá staðreynd og notar gjarnan eiginnafn sitt í skáldskapartextum. Hið sjálfsævisögulega „ég“ í textum hennar er þó vitaskuld bæði sviðsett og túlkað. Í skáldævisögunni, Heilræði lásasmiðsins, þar sem Elísabet notar eiginnafn sitt, skrifar hún: „Ég hef aldrei fyrren núna sagt sögu af sjálfri mér og þetta er ekki einu sinni saga af mér.“5 Þessi þversögn breytir því ekki að víða gefur hún færi á sjálfsævisögulegum lestri með vísunum í reynslu bæði bernsku- og fullorðinsára sinna og hér staðfestir hún það sem áður var áréttað, að um sviðsett sjálf er að ræða. Segja má að Heilræði lásasmiðsins sé grundvallartexti í þeirri greiningu sem hér fer á eftir því í bókinni koma saman flestir þeir þræðir sem Elísabet spinnur í sínum skáldskaparvef. Jafnvel mætti tala um bókina sem nokkurs konar lykil að höfundarverkinu.

Þótt sú sálræna skoðun og greining sem á sér stað í skrifum Elísabetar eigi rætur í hennar eigin lífi væri rangt að afgreiða skrif hennar sem einungis persónuleg. Elísabet leikur sér víða meðvitað á mörkum lífs og listar. Það má til dæmis sjá í ljóðabókinni Dauðinn í veiðarfæraskúrnum (2018) þar sem hún gerir grín að þeim sem krefjast hreins „sannleika“. Í bókinni eru þrjár raddir sem tala: „ég“, „dóttirin“ og „frúin á neðri hæðinni“. Bókinni lýkur á frásögn sem ber titilinn: „Frúin á neðri hæðinni leysir frá skjóðunni“, sem reyndar er einnig undirtitill bókarinnar. Þar eru sviðsett réttarhöld yfir einni af röddum frásagnarinnar: „Mætt er til yfirheyrslu Frúin á neðri hæðinni“. Þegar yfirheyrslan virðist ætla að fara úr böndunum er vitnið áminnt um að segja sannleikann: „Áminnt um sannsögli hver hún sé, skálduð eða raunveruleg hlær frúin tröllslega, gamla spurningin, spyrjið nýrri spurninga, þetta er einsog venjulega, hvað ef hún er bæði [...]“.6 Taka má fram að „Frúin á neðri hæðinni“ var nokkurs konar hliðarsjálf Jóhönnu Kristjónsdóttur, móður Elísabetar; tilbúin persóna sem kom oft við sögu á facebook-síðu Jóhönnu. Ljóðabókin er ort í minningu Jóhönnu sem lést sama ár og bókin kom út.

 

 

Allar átta ljóðabækur Elísabetar einkennast af hnitmiðaðri þematískri byggingu. Í þeirri fyrstu, Dans í lokuðu herbergi, er ort um rætur sálrænna erfiðleika í barnæsku. Í Sjáðu, sjáðu mig. Það er eina leiðin til að elska mig (1995) hnitast öll ljóðin um djúpa sorg sem er sprottin af þeirri tilfinningu ljóðverunnar að vera ósýnileg öðrum. Þriðja ljóðabókin, Vængjahurðin (2003), hefur að geyma 108 tölusett ástarljóð og þar er ort um ást og erótík á einlægan hátt. Ljóðabókina Englafriður (2004) sendi Elísabet frá sér eftir ferðalag til Sýrlands og Líbanons og þar er viðfangsefnið stríð og friður í heiminum, sem og í huga og hjarta mannsins. Í þremur nýlegum ljóðabókum fjallar Elísabet um afmörkuð tímabil í lífi sínu: Í Ástin ein taugahrúga. Enginn dans við Ufsaklett (2014) yrkir hún um reynslu sína af ofbeldis/ástarsambandi. Í Næturverðinum (2016) er yrkisefnið samband hennar við kúrdískan næturvörð á hóteli erlendis og í Dauðinn í veiðarfæraskúrnum (2017) yrkir Elísabet í minningu móður sinnar, eins og áður var getið. Í ljóðabókinni Stjarna á himni. Lítil sál sem aldrei komst til jarðar (2018) er ort um sorgina sem fylgir í kjölfar fósturláts og býr eftirleiðis í hjarta lifenda.

 

 

Það fyrsta af sextán prósaverkum Elísabetar var smásagnasafnið Rúm eru hættuleg (1991) þar sem viðkvæmt sálarlíf barna er viðfangsefnið, líkt og í fyrstu ljóðabókinni. Sama þema er einnig áberandi í örsagnasöfnunum tveimur, Galdrabók Ellu Stínu (1993) og Lúðrasveit Ellu Stínu (1996). „Ella Stína“ er gælunafn sem foreldrar Elísabetar gáfu henni sem ungbarni en hún ákvað sjálf að leggja af þegar hún var „að verða fullorðin“ tíu ára gömul og vildi „ekki bera svona smábarnalegt nafn“.7 Hún notar nafnið þó markvisst á bernskusjálf sitt: „Ég kalla barnið í mér Ellu Stínu og hafði töluvert fyrir því að finna hana á sínum tíma“ (39). Örsagnasafnið Fótboltasögur: tala saman strákar (2001) hefur að geyma frásagnir af fótboltamönnum, innan og utan vallar. Þar er skrifað af húmorískri hlýju um sálarlíf fótboltamannsins og erótísk tvíræðni setur svip á textann. Það sama má segja um Heilræði lásasmiðsins sem hnitast um ástríðufullt en erfitt samband Elísabetar við Algea, bandarískan trommuleikara og hattagerðarmann. Þar opnar Elísabet inn í kviku tilfinninga og kynlífs af mikilli hreinskilni. Í Ísbirninum á Hótel Viktoría (2006) og Kattahirðinum í Trékyllisvík (2011) byggir Elísabet á minningum úr barnæsku og frá unglingsárum.

 

 

Tvær nóvellur hefur Elísabet gefið út. Í þeirri fyrri, Laufeyju (1999), er dregin upp hrollvekjandi mynd af hatri og geðsýki og má segja að þar kanni höfundur eðli masókisma og sadisma í áhrifaríkri frásögn af vanræktum börnum. Þar verður ljóst að „í heimi þar sem illskan fær skjól er ekki pláss fyrir ást“, eins og Hrund Ólafsdóttir komst að orði í fyrirlestri um bókina á málþingi um verk Elísabetar.8 Síðari nóvellan ber þann skemmtilega titil Síðan þessi kona varð trúuð hefur hún verið til vandræða í húsinu (2005). Sögumaður í verkinu er afgreiðslumaður í byggingarvöruverslun sem stendur ráðþrota frammi fyrir konu sem kemur í búðina til hans allt að því daglega til að kaupa stálnagla, málningu og fleira sem hana vanhagar um. Hún er að gera upp húsið sitt, pússa gólf og mála svefnherbergið. Reyndar er hún „að sinna erindum fyrir guð. Hún er að gera upp húsið sitt samkvæmt fyrirmælum frá honum“.9 Vel má túlka þessa frásögn sem táknsögu um samband höfundar og lesanda og þá mætti laga titilinn að táknlestrinum: Síðan þessi kona varð skáld hefur hún verið til vandræða í bókmenntaheiminum. Færa mætti rök fyrir slíkri túlkun því verk Elísabetar eru mörg hver ögrandi og fjalla um viðkvæm málefni. Það kann að vera ástæða þess að minna hefur verið um þau fjallað en efni standa til. Kona sem gerir upp húsið sitt samkvæmt fyrirmælum frá guði er tilvalin myndlíking fyrir skáldkonu sem byggir upp sinn skáldskaparheim samkvæmt fyrirmælum frá sínum skáldskaparanda. Og afgreiðslumaðurinn óttast hana því hún hefur meiri áhrif á hann en hann kærir sig um og hann hefur verið varaður við henni. En hann dregst að konunni og á einum stað líkir hann sjálfum sér við „lax sem hefði bitið á öngul og barðist við að fá sig lausan“.10

 

Töfraheimurinn

Elísabet vísar endurtekið til þess að hún hafi skapað sér sinn eigin innri heim sem er nokkurs konar hliðarheimur við „raunveruleikann“ og hún nefnir hann stundum „töfraheiminn“ (184-187). Hún lýsir honum sem sínu eigin „heimsveldi“ sem „var sjónhverfingabústaður. Það breyttist um leið og maður steig þar inn fæti; það var gat, klaustur, lokað herbergi, sirkus, réttarsalur, garður, vegur, gröf“ (77). Sem táknmynd er töfraheimurinn mjög flókinn því hann má skilja hvort tveggja sem athvarf og fangelsi. Hann tengist erfiðri reynslu bernskunnar og undir lok Heilræða lásasmiðsins segir: „ég er hrædd við að fullorðnast og yfirgefa töfraheiminn því þarna úti er heimur sem ég hef ekki búið til“ (187). Töfraheimurinn er því skjól fyrir raunveruleikanum en eins og gefur að skilja er einnig fólgin hætta í því að loka raunveruleikann úti:

 

Eina undankomuleið mín var töfrar, draumar, ímyndanir, hugboð, goðsögur – nokkuð sem ég kunni ekkert á. Og þegar minn innri heimur opnaðist mér var hvergi pláss fyrir hann. Stundum varð hann hreinn og klár óskapnaður, þegar hann braust útí geðhvörfunum, þá hurfu öll skil á milli innri og ytri heims. Innri heimurinn minn var sjálfsprottinn en ég mokaði yfir hann með hugmyndum. Ég treysti ekki heiminum, ég þurfti sífellt að búa hann til. (58)

 

En töfraheimurinn er líka rými skáldskapar og sköpunar. Þetta er heimur þar sem ímyndunarafl skáldsins leikur lausum hala og hann er uppspretta skáldskapar Elísabetar. Þegar innviðir þessa heims eru skoðaðir kemur í ljós að hann hvílir á tveimur meginsögum sem um leið eru nokkurs konar skýringarfrásagnir sem Elísabet notar til að henda reiður á stöðu sinni í tilverunni. Önnur sagan á rætur í sársauka bernskunnar og sækir til sálgreiningarmódels Freuds og þar er faðirinn í aðalhlutverki. Hin sagan tengist móðurinni og fjallar um Demeter jarðargyðju og Persefónu dóttur hennar sem var rænt og haldið fanginni í undirheimum (sjá 159, 161).

 

Líkt og fyrri sagan á rætur í bernsku tengist sú síðari kynþroskanum, ástinni, kynlífinu og kvenhlutverkinu. Þar kemur einnig við sögu gríska gyðjan „Baubo sem var gyðja magans, húmorsins, klámbrandara, hláturs, skrípaláta, kynlífs og kunni umfram allt ekki að skammast sín“ (156). Í forngrískum goðsögum segir frá því þegar Baubo reyndi að hugga Demeter þegar hún syrgði dóttur sína og tókst að fá hana til að hlæja, þrátt fyrir sorgina. Það gerði hún með því að segja henni klámbrandra, fíflast og bera kynfæri sín.11 Mér virðist sem Elísabet reyni að hafa þessa gyðju að leiðarljósi í síðari bókum sínum þótt það sé stundum erfitt, ekki síst vegna þess að ástarþráin og hin kynferðislega þrá hefur viðfang (karlmann) sem oft reynist henni fjötur um fót og skömmina er erfitt að ráða við, eins og komið verður að síðar.

Í skáldskaparheimi Elísabetar fer fram stöðug barátta við að tengja töfraheiminn raunveruleikanum og það gerir hún vitaskuld með skrifum sínum og skáldskap. En stundum vefst fyrir henni að halda þessum tveimur heimum aðskildum:

 

Ég reyndi að aðskilja þessa tvo heima með því að fara gaumgæfilega yfir hugsanir mínar eins og skattstjóri yfir skattframtal. Ég þóttist vera orðin ansi góð að dvelja í raunveruleikanum en innri heimurinn átti svo sterk ítök í mér að ég sá stundum ekki líf mitt fyrir honum. Ég var oft hálfmeðvitundarlaus af draumum, ímyndunum og fantasíum. Það framkallaði vímu og ég fjarlægðist raunveruleikann.

Þráhyggja mín var táknkerfi fyrir raunveruleikann. (80)

 

Það má því vera ljóst að í skrifum sínum heyr Elísabet mikla baráttu, lífsháskinn er nálægur í flestum hennar verkum og aðalhættan er fólgin í að gefast geðveikinni á vald; að hverfa alveg inn í töfraheiminn. Skrifin verða sjálfshjálparleið hennar og meðferðarform og þau eru knúin áfram af djúpri þörf. Í viðtali segir Elísabet: „Ég veit ekki hvar ég væri stödd ef ég gæti ekki skrifað. Ég er eins og landkönnuður með landakort sem spyr sig hvar hann sé staddur og hvert hann sé að fara.“12 Eigi að síður eru skrif Elísabetar mjög greinandi, bæði á persónulegu sviði sem og samfélagslegu, ekki síst þegar kemur að málefnum sem varða stöðu kvenna í heiminum og bókmenntunum.

 

Landamæri

 

Hún bara varð að eiga heima
Að eiga heima
á landamærunum
Til að eiga hvergi heima
 
Til að týna sér ekki
öðru hvoru megin13

 

 

Helstu stef í verkum Elísabetar tengjast innbyrðis og mynda „splundraða heild“14 sem er samsett af frásögnum sem gjarnan dansa á mörkum veruleika og ímyndunar. Landamæri og mörk – bæði hlutlæg og huglæg – gegna mikilvægu hlutverki. Þeim tengjast endurteknar myndir af andstæðunni frelsi og innilokun, opnun og lokun. Rómverski guðinn Janus er Elísabetu hugleikinn en hann var „guð lása og lykla, guð hliða og allra dyra, guð allrar byrjunar og endaloka. Stundum sagður gæslumaður alheimsins“ (20). Þessi landamæravörður sér í tvo heima, býður vegfarendum eyru sín og opnar þeim nýjar leiðir: „Guðinn hafði tvö andlit sem sneru hvort í sína átt og munaði ekki um að opna og loka heldur hlustaði líka á harmatölur þeirra sem hann var að opna fyrir, vissi að nú tæki við annar heimur“ (20). Janus er guð umbreytingarinnar og tengist því einnig þránni eftir endursköpun sjálfsins sem er annað leiðarstef í skrifum Elísabetar. Þráin er nátengd kvenlíkamanum og kynorkunni og Elísabet glímir við spurninguna um ‚kveneðlið‘ og veltir fyrir sér hugmyndum um ‚alvörukonuna‘ á opinskáan, húmorískan og háðskan hátt. Kvenlíkamanum er stillt upp í verkum Elísabetar í allri sinni nekt og varnarleysi og oft er hann vettvangurinn þar sem helstu átök sjálfsverunnar við sjálfa sig og aðra eiga sér stað.

Andstæðan frelsi og innilokun kemur strax við sögu í fyrstu ljóðabók Elísabetar, Dans í lokuðu herbergi. Eins og áður var nefnt leitar Elísabet til goðsagna við túlkun á eigin lífi. Í raun má segja að hún hafi í skáldverkunum skapað sína eigin goðsögu þótt hún byggi á þekktu sálgreiningarmódeli. Sú saga snýst um innilokað og hrætt barn sem hún ber með sér í gegnum lífið: „Lokaða herbergið var andlegur veruleiki sem hafði tekið sjálfa mig mörg ár að finna“ skrifar hún í Heilræði lásasmiðsins (45) og leitin að því fór fram með hjálp sálfræðings: „Ég varð hálfmóðguð þegar hann sagði að innra barnið væri goðsögn. Mitt innra barn var raunveruleiki“ (55). Sálfræðingurinn túlkar frásögn hennar af innra barninu í lokaða herberginu sem skáldskap og ráðleggur henni að nota efniviðinn í skrifum sínum: „Lokaða herbergið er goðsögn, sagði hann, falleg goðsögn, skrifaðu um það og innra barnið sem hefur tröllriðið allri sálfræði Vesturlanda síðustu áratugi, það er ein goðsögnin enn. Það eru allir með eitthvað svona lokað inní sér“ (55). Innilokaða barnið mætir á sviðið strax í fyrstu bókinni og kemur ítrekað fram í þeim verkum sem á eftir fylgdu.

Sigmund Freud talaði um að fólk sem glímdi við sálræna erfiðleika þjáðist í raun „af endurminningum“ og hann skilgreindi einkenni þeirra sem „leifar og minningartákn tiltekinna atvika, sem hafa valdið sálrænum áföllum.“15 Hann benti jafnframt á þá staðreynd að sjúklingurinn sem þjáist af endurminningum hafi tilhneigingu til að ríghalda í hina löngu liðnu bitru reynslu: „Hann getur ekki losað sig frá fortíðinni, og hennar vegna vanrækir hann allt það, sem er raunverulegt og aðkallandi. Þessi fjötrun sálarlífsins við sálræn áföll er eitt mikilvægasta og raunar afdrifaríkasta sérkenni taugaveiklunar.“16 Elísabet gjörþekkir þetta sálræna munstur: „Ég var svo heppin að eiga sorg sem stjórnaði lífi mínu“, skrifar hún kaldhæðin og vísar þar til dauða og höfnunar föður síns (42). Hin frjálsa hugtengslaaðferð sem Freud beitti sjúklinga sína í sálgreiningu byggir á tungumálinu; sálgreinandinn og sjúklingurinn tala saman og sá fyrrnefndi hvetur þann síðarnefnda til að láta allt flakka sem upp í hugann komi. Freud komst að því að í frjálsum hugrenningartengslum opnaðist leið að dulvitundinni. Aðferð skáldskapar byggist að miklu leyti á frjálsum hugrenningatengslum og í gegnum skáldskapinn opnast einnig leið að dulvitundinni. Það skapandi ferli sem á sér stað í skáldskaparskrifum getur því verið heilandi meðferð fyrir þann sem glímir við sálræna erfiðleika líkt og samtalsmeðferð hjá geðlækni eða sálfræðingi.

 

Innilokaða barnið

Í fyrsta ljóði fyrstu bókar Elísabetar er ort um samfarir tveggja manneskja sem í „myrkri og ást“ geta barn sem ávarpað er í ljóðinu.17 Í næstu tveimur ljóðum er ort áfram til barnsins, um frelsi barnæskunnar en líka um einmanaleikann og þá von að börn geti fyllt út í heiminn – og þá ef til vill útrýmt einmanaleikanum – þegar þau verða stór. Í fjórða ljóði breytist tónninn og innilokaða barnið er kynnt til sögunnar: „Einu sinni var lítið barn sem lokaðist inni. / Því litla barnið varð svo óskaplega hrætt.“ Barnið hverfur inn í sig og felur sig þar svo „lengi að það vissi ekki lengur að það hafði / lokast inni“.18 Í lífi barnsins koma veruleiki og draumur saman „í mótsagnakennda heild án þess að / litla barnið yrði geðveikt. / Fyrr en löngu seinna.“ Draumur og veruleiki rennur saman „í splundraða heild“ og af því „skapaðist hrikaleg ringulreið / þó að litla barnið hefði loksins fundið // hlutskipi sitt. Í lífinu og lífið var. / Einn stór leikvöllur“.19

Það er flókin mynd sem brugðið er upp í þessum ljóðum: Mynd af barni sem er lokað inni í sjálfu sér, inni í eigin huga og stendur utan splundraðrar heildar sem er samsett af veruleika og ímyndunum. Með innilokuninni er barnið jaðarsett og skorið er á möguleika á að tengjast öðrum; að vera hluti af heild sem það þráir framar öðru. Sú þrá tengist því að barnið hefur verið yfirgefið og bíður enn eftir þeim sem yfirgaf það: „Því litlum börnum dettur aldrei í hug / að nokkur yfirgefi þau“.20 Einmanaleiki og þjáning barnsins er átakanleg og í sjöunda ljóðinu kemur kyn þess í ljós og örvænting sem brýst út á líkamlegan hátt með angist og uppköstum.

 

Ég verð að vera
Hluti af einhverju
Sagði hún
Og ældi
og ældi
og ældi21

 

Þessi upphafsljóð fyrstu ljóðabókar Elísabetar lýsa klofningi sjálfsins sem reynist vera eitt þrálátasta þemað í verkum hennar. Klofningurinn verður til við það að barnið lokast inni í sér og lifir eftir það á landamærum tveggja heima. Uppköstin túlka upplausn sjálfsins, því að skynja sig hvorki sem heild né sem hluta af heild. Elísabet hefur sjálf tengt þetta þema við þá staðreynd að faðir hennar yfirgaf fjölskylduna og hafnaði henni í kjölfarið. Einnig hefur hún sagt frá því að þegar faðir hennar dó hafi hún veikst á geði, tvítug að aldri. Þetta kemur víða fram, bæði beint og óbeint, í skrifum hennar. Hún segir föður sinn hafa læst sig inni og hent lyklinum (23) en jafnframt að móðir sín hafi haldið sér frá föðurnum til „að reyna að vernda mig fyrir honum“ (160).22

 

Innilokaða barnið kemur síðan enn betur fram á sjónarsviðið í fyrstu sagnasöfnum Elísabetar, Rúm eru hættuleg og Galdrabók Ellu Stínu. Þeirri síðarnefndu lýkur á sögu sem hefur yfirskriftina „Stelpa með tilfinningar“ og er ein af 52 örsögum bókarinnar. Þar segir frá stelpu sem er „beinlínis að springa úr tilfinningum“ sem hún sendir „í allar áttir“ en ræður illa við því hana „vantaði stjórn, auðmýkt og öruggi til að veita [þeim] farveg“. Hún reynist nota tilfinningarnar „mest til að verða skotin í strákum og svoleiðis fuðraði hún upp í ást og losta“. Þetta stjórnleysi kann ekki góðri lukku að stýra; andinn „var að tærast úr höfði hennar og hjarta og þannig á sig komin fetaði hún eftir einstigi í átt til felufjallanna“, eins og þar stendur. En þá kemur forsjónin til bjargar og sendir stelpunni „tvo engla með skilaboð“ sem koma henni í skilning um „að guð hafði skapað heiminn úr tilfinningum og að tilfinningar eru eldsneyti fyrir hugmyndir“.23 Sagan lýsir því vel skáldskaparaðferð Elísabetar; skrif hennar spretta af hennar eigin reynslu, hennar eigin tilfinningum sem hún síðan notar sem eldsneyti fyrir hugmyndir.  

 

Klofningur sjálfsverunnar og líkaminn

Eins og sýnt hefur verið fram á fjalla fyrstu bækur Elísabetar um hvernig sjálfsveran klofnar og í þeirri staðreynd liggja rætur þeirrar tilvistarangistar sem greina má í verkum hennar. Í örsögunni „Afrek“ er enn hnykkt á klofningi sjálfsverunnar á magnaðan hátt:

 

Einu sinni var stúlka sem klauf sig í herðar niður
og annar hlutinn sveif út í geim og líður þar
um en annar hlutinn gróf sig ofan í jörðina og
skríður þar um.24

 

Klofningurinn sem hér er á ferðinni vísar til klofinnar sjálfsmyndar um leið og vísað er til þekkts orðtaks úr bardagalýsingum Íslendingasagna. Það má því sjá átök milli kvenlægra og karllægra þátta í textanum sem  getur einnig vísað í átök á milli sálrænna áhrifa frá föður annars vegar og móður hins vegar. Klofningurinn „í herðar niður“ bendir á að það er líkaminn sem er klofinn, myndin sýnir ekki einfaldan aðskilnað sálar og líkama enda er sú sjálfsvera sem Elísabet lýsir í öllum sínum verkum bundin líkama sínum, líkaminn getur ekki logið og ef maður „kunni að lesa líkamann var hann einsog opin bók“ (29).25 Hér má því fara handan tvíhyggju í anda Descartes og tengja við kenningar Merleau-Pontys um sjálfsveruna sem líkamsveru en til þeirra sækir Simone de Beauvoir í Hinu kyninu þegar hún ræðir hvernig líkamleiki kvenna „hefur úrslitaáhrif á hlutskipti þeirra“.26 Örsögu Elísabetar má einnig túlka sem lýsingu á aðstöðu kvenna en Beauvoir leggur áherslu á að „frumaðstaða mannsins [sé] líkaminn“. Sigríður Þorgeirsdóttir segir umfjöllun Beauvoir um kvenlíkamann miða „öðru fremur að því að sýna hvernig hann hefur áhrif á stöðu kvenna“ og er „takmarkandi þáttur“ í athöfnum og áformum kvenna. Hún vísar til Debra B. Bergoffen sem fengist við heimspeki Beauvoir og skilgreinir hana sem kynbundna fyrirbærafræði:

 

Vegna þess að Beauvoir telur líkamann einkum vera heftandi afl þegar konur eiga í hlut segir Bergoffen að í kenningu Beauvoir birti líkaminn það sem hún kallar „tvíræðni sjálfsverunnar“. Þetta merkir að líkaminn skapar okkur aðstæður þar sem frelsi og nauðung takast á. Líkaminn er í senn staðurinn þar sem sjálfsveran getur hafið sig yfir sjálfa sig í „handanveru“ („transcendence“) og þar sem hún getur jafnframt lokast af inni í sér í „íveru“ („immanence“). Í handanverunni felst því ekki annað en frelsi mannverunnar til að skapa tilvist sína. Ívera merkir aftur á móti vanhæfni mannsins til að vera gerandi, vegna þess að hann festist í hlutverki þolanda sem tekur ekki sjálfráða ákvarðanir um eigin tilveru. Kvenlíkaminn felur að mati Beauvoir í sér þá hættu fyrir konur að þær festist í íverunni. Líf kvenna er í ríkara mæli en karla „í þjónustu tegundarinnar“ og í þeim skilningi tekur líkaminn af konum ráðin.27

 

Líkaminn hefur verið mikið til umræðu í heimspeki á undanförnum áratugum og hefur, að mati Sigríðar Þorgeirsdóttur „opnað heimspekinni nýjar víddir á margvíslegan hátt“ og „gefið okkur heildstæðari sýn á manninn með því að víkka út hugmyndir okkar um manninn sem þekkingar, siðferðis- og samfélagslega veru“.28 Sigríður bendir á að líta megi á líkamann sem samnefnara ólíkra strauma innan femínískrar heimspeki og að hann sé „jafnframt hinn heimspekilegi skurðpunktur umbreytingarafls femínískrar heimspeki fyrir heimspeki almennt“.29

Hér á eftir verður rýnt nánar í lýsingar á kvenlíkamanum í textum Elísabetar, inn í þá tvennd tilfinninga og hugmynda sem rædd var hér að framan er nauðsynlegt að bæta þessum þriðja vinkli. Hvort tveggja tilfinningar og hugmyndir eiga sér uppruna í líkamanum, tilfinningarnar búa í líkamanum og þaðan spretta hugmyndirnar. Það má því bæta við áðurnefnda ályktun úr örsögunni „Stúlka með tilfinningar“: „Tilfinningar eru eldsneyti fyrir hugmyndir“ sem miðlað er um líkama.30 Samspil tilfinninga, hugsana og líkama kemur sérstaklega við sögu þegar Elísabet skrifar um ‚kveneðlið‘ og kynverund kvenna og spáir í hvað sé fólgið í því að vera ‚alvörukona‘. Slíkar hugleiðingar finnast víða í verkum hennar og tengjast ætíð sambandinu við karlmenn.31 „Heilinn í mér taldi karlmenn skyldulesningu“ skrifar hún í Heilræði lásasmiðsins (57) og á öðrum stað: „Ég var að forrita heilann svo ég gæti örugglega afhent öðrum yfirráð yfir lífi mínu“ (51). Í lýsingum Elísabetar á samböndum sínum við karlmenn má því sjá íveruna sem Beauvoir talar um, þar er oft lýst konu sem lætur líkamann taka af sér ráðin.

 

Kynjastríðið og kynlífið

 

Venjulega þegar ég hafði fengið áhuga á karlmanni fyllti hann útí heilabúið einsog nýlenduherra þar sem ég var nýlendan; arðrænd hugsunum mínum og framkvæmdum. Karlmenn höfðu einstakt lag á að draga úr mér allan mátt. Eða ég gaf þeim það vald. (57)

 

Mörg verk Elísabetar fjalla um leitina að ástinni og um erfitt samband karls og konu. Glíman við líkamann, sem felst oftar en ekki í að forðast að hann taki „af konum ráðin“, er tengd þeirri tilfinningu „að verða skotin í strákum“ og fuðra „upp í ást og losta“. Hún vísar í sjúkraskýrslu þar sem haft er eftir móður hennar að þegar Elísabet „fór að vera með karlmönnum var einsog hún missti allt sitt skap“ (160). Sjálf viðurkennir hún að hún „hefði alveg eins getað verið strengjabrúða í höndunum á manninum sem [hún] elskaði fyrst“; hún „var ástfangin og til í að missa skapið í [sér] fyrir ástina“ (160). En afstaða Elísabetar til karlmanna er í hæsta máta tvíbent. Að einu leyti er hún föst í neti hefðbundinna rómantískra hugmynda um að finna „hinn eina rétta“ og giftast honum en að öðru leyti virðist hún meðvituð um að í samböndum hennar við karlmenn er sífelldur blekkingarleikur í gangi: „Mér fannst oft að ég gæti platað karlmenn með gáfum mínum. Einsog samskipti kynjanna ættu að snúast um eitt allsherjar plat eða stríð“ (36).

 

Í Heilræði lásasmiðsins, þar sem lýst er sambandinu við Algea, fer fram áhugaverð greining á samskiptum karls og konu, sem og á þeim ranghugmyndum og þráhyggjum sem gjarnan lita ástarsambönd. Elísabet kynnist Algea í New York, á í ástríðufullu ástarsambandi við hann í örfáa daga og býður honum til Íslands. Hann kemur til landsins nokkrum mánuðum síðar og hagar sér að flestu leyti eins og sá nýlenduherra sem lýst er í tilvitnuninni hér að framan. Hann er auralaus, þiggur mat og húsaskjól og ýmis konar aðstoð við að halda sýningu á hattagerðarlist sinni. Smám saman tekur hann yfir heimili Elísabetar sem öðrum þræði óttast hann þótt hún dragist að honum kynferðislega og næri með sér giftingarfantasíur (30, 170-173). Í raun þekkir Elísabet Algea ekki neitt og þegar hún tekur á móti honum á flugvellinum kannast hún jafnvel ekki við hann í sjón: „Þessi maður leit allt öðruvísi út en maðurinn sem ég hafði hitt í New York. Kannski hafði hann sent bróður sinn“ (61). Þegar hann fer er hún heldur engu nær: „Ég hafði ekki hugmynd um hvaða maður var lentur í eldhúsinu hjá mér þennan janúarmorgun og var engu nær þremur mánuðum seinna þegar hann kvaddi einn örlagaþrunginn aprílmorgun“ (61). Hún veltir stöðugt fyrir sér hver hann sé og spyr vini, fjölskyldumeðlimi og kunningja álits því hún treystir ekki eigin dómgreind. En hugmyndin um að hann sé að villa á sér heimildir er áleitin: „Ég var viss um að hann væri ekki sá sem hann sagðist vera, hattagerðarmaður og trommuleikari, heldur einhver allt annar. Ég hélt hann væri giggoló, næstu vikuna þóttist ég viss um að hann væri melludólgur, hann gat verið raðmorðingi, kókaínþræll, borderline og svo framvegis“ (121).

Samband Elísabetar og Alega dansar á þessum mörkum ótta og ástríðu allt frá byrjun. Þegar hún lýsir fyrstu samförum þeirra í Central Park í New York skrifar hún: „Allt var á mínu bandi þessa nótt, ég tók um axlir hans og sagðist elska hann í miðjum klíðum og kom þannig í veg fyrir að hann skæri mig á háls og mokaði yfir mig í þessum heimsfræga garði sem var paradís á daginn en martröð á nóttunni“ (8). Það er engu trausti fyrir að fara í sambandinu og er fyrst og fremst kynferðisleg þrá sem viðheldur því. Þótt Elísabet viti að það sé hætta fólgin í því að missa stjórnina og fuðra upp í ást og losta þá þráir hún einmitt það ástand og tengir saman kynlíf og endursköpun sjálfsins: „Ég er alltaf að leita eftir fullnægingu sem rífur mig á hol og skapar mig upp á nýtt“ (8).

Hamskipti, umskipti, umbreyting og endurfæðing eru orð sem lesandi rekst víða á í skrifum Elísabetar. Þau tjá þrána eftir nýju sjálfi sem er laust undan þungu oki fortíðarinnar. Ein af örsögum Elísabetar ber titilinn „Hamskipti“ og fjallar um unga konu sem hefur hamskipti á hverjum vetri:

 

Síðasta sumar var skemmtileg gáfuð ung kona að hafa hamskipti. Í hamskipti þarf súrefni og allir vita að öndun er ekki sársaukalaus og ekki hægt að sjá fyrir hvað gerist. Hún dreifði þurrkuðum blómum í svefnherbergið, lagðist til hvílu í stóra mjúka rúminu sínu með ótal útsaumaða silkikodda og sæng úr æðardúni. Hún lá með augun opin og andaði af einskærri lotningu og hamingju vegna sjálfrar sín og perlutár streymdu niður vangana. Englar og álfar komu, svifu í loftinu og sungu himneska söngva svo hún gæti andað eins og jörðin og hafið í öllum mögulegum stellingum. Allan veturinn var gamli hamurinn að falla og nýr hamur að spretta eins og fíngert kraftaverk. Unga konan varð að fremja þetta forna ritúal á hverju fullu tungli svo hún gæti gengið undir blæ himins blíðan í sumar.32

 

Hugmyndin um hamskipti – eða endurfæðingu sjálfsins – er þó oftast tengd kynlífi: „Ég hafði upplifað í samförum að hryggsúlan í mér lifnaði við einsog snákur og ég hvæsti, þetta gerðist ósjálfrátt og ánþess ég reyndi að stjórna. Þessvegna þóttist ég vita að samfarir gátu boðið uppá umbreytinguna sem ég sóttist svo ákaft eftir“ (11). Hún heldur í þá trú að í gegnum ástina og kynlífið megi særa fram „drekann, djöfulinn eða hið óþekkta inní manni sem verður að komast út. Svo maður læknist, hreinsist, umbreytist og hafi helst af öllu hamskipti“ (42). Hún ber þá von í brjósti að Algea geti stuðlað að slíkri umbreytingu: „Hann myndi tromma úr mér sorgina. Ef ég þyrði að sleppa henni lausri. Ég geymdi sorgina í líkamanum“ (43) og viðurkennir síðan: „Að öllum þessum pælingum slepptum vakti aðeins eitt fyrir mér: kynlíf. Það ætti að gera sama gagn og þessar endalausu hugmyndir um lækningu, heilun og sjálfskoðun“ (43).

Þó að kynlífið sé oft gott og fullnægjandi þá koma átök kynjanna vel fram í hispurslausum lýsingum Elísabetar á því, sem og hvernig kynlífið lýtur fastmótuðum reglum um ólík hlutverk karla og kvenna: „Algea vildi hinsvegar hafa stjórnina í kynlífi, ég mátti varla leita á hann eða reyna við hann. Einhverntíma snerti ég á honum hnéð inní stofu, það var einsog ég hefði potað í blettinn á Sigurði Fáfnisbana“ (114). Með því að vísa til Sigurðar Fáfinsbana, einnar helstu hetju norrænna miðaldabókmennta, er dregið skýrt fram að vegið er að karlmennsku elskhugans. Elísabet má ekki sýna frumkvæði, helst „að snúa í hann rassinum þegar við vorum komin uppí á kvöldin og þá gat gamanið byrjað“ (115). Hann vill eiga frumkvæðið, ráða aðferðunum, stellingunum, hvenær og hvar eigi að njóta kynlífs. Hann neitar að sofa hjá henni út í náttúrunni og refsar henni með fýlu og kynlífssvelti þegar þannig liggur á honum. Algea beitir í raun andlegu ofbeldi sem Elísabet greinir af innsæi: „Svona verður kannski masókisti til. Þegar búið er að svelta mann og hrinda manni í burtu verður maður svo þakklátur fyrir brauðmolana sem falla af borðinu að maður tekur fegins hendi við allri athygli, meira að segja þótt hún sé í formi líkamlegs ofbeldis“ (119). En hún viðurkennir líka að „hann gat stjórnað mér með kynlífi [...] búinn að finna minn veikasta hlekk, ég stóðst ekki kynlíf. Mér fannst það svo gott“ (118).

Þótt Algea taki að sér eldamennskuna á heimilinu (kryddar reyndar matinn svo mikið að Elísabet getur ekki borðað hann), baki og vaski upp þá er hann í raun rígbundinn hefðbundnum hugmyndum um kynjahlutverk:

 

Einhverntíma snerti ég á honum rassinn þegar hann var að vaska upp. Ég ætlaði að sýna léttlyndi og daðra einsog hann kunni svo vel. Hann trylltist og hóf uppþvottaburstann á loft og sagðist ekki vera kerling eða pussy einsog hann orðaði það. Ég skyldi ekki halda að ég gæti snert hann við eldhússtörfin einsog karlmaður snertir kerlingu. Ég fór næstum að gráta, þetta var svo óvænt og fáránlegt. Hann hafði reyndar séð ástæðu til þess fyrr að segja mér að hann væri ekki kerling þótt hann vaskaði upp og eldaði matinn. Þetta væri einfaldlega algengt meðal blökkumanna. Karlmenn væru mikið í eldhúsinu. (108-109)

 

Enn og aftur ver Algea ‚karlmennsku‘ sína og afneitar ‚kvenlegum‘ eiginleikum þótt hann sinni hefðbundnum kvennastörfum. Kynjastríðið sem lýst er í bókinni er byggt á andstæðupörum, því upp hleðst „ósýnilegur múr og hlykkjaðist um húsið. Byggður úr því að vera hvítur eða svartur, maður eða kona, Íslendingur eða Ameríkani“ (109). Og það er hvíta konan sem smám saman brotnar niður í þessum aðstæðum. Henni er í mun að sanna að hún „væri ekki haldin blökkumannafordómum“ (64) og: „Það var búið að innræta mér að hvíti kynstofninn væri ómögulegur og óspennandi“ (109).

Meðan á sambúð Elísabetar og Algea stóð horast hún, „ég var að verða að engu, það hrundu af mér kílóin útaf ástalífinu og spennunni“ (106), en hann fitnar, „fékk svolitla bumbu og varð vel á sig kominn“ (108). Þetta er í raun frábær táknmynd sambandsins, hann tekur yfirráðin og stjórnina í sínar hendur, enda lærði Elísabet „að forrita heilann svo [hún] gæti örugglega afhent öðrum yfirráð yfir lífi [sínu]“ (51) strax á barnsaldri. Sú forritun tengist kynmótuninni og kynlífinu eins og Elísabet lýsir þegar hún greinir rætur þeirrar skammar sem hún á í raun erfitt með að aðskilja frá kynlífinu, þrátt fyrir hispurslausar lýsingarnar. Skömmin tengist að auki  kvenhlutverkinu sem henni finnst hún passa illa inn í.

 

‚Alvörukonan‘
 
Ég er kona. Kona.
 
Ég er svo mikil kona.
 
Svo mjúk. Svo glitrandi.
 
Í húsinu er rósabað og sinfónía.
 
 
Dirrendí.33

 

 

 

Í inngangi að Hinu kyninu skrifar Simone de Beauvoir að hver sú kona sem vilji gera grein fyrir sjálfri sér þurfi að byrja á fullyrðingunni: „Ég er kona.“ Hún heldur áfram: „Þessi sannleikur er sá grunnur sem allar aðrar fullyrðingar byggja á. Karl byrjar aldrei á því að lýsa sér sem einstaklingi af ákveðnu kyni. Það er sjálfgefið að hann er karl.“34 En hvað er þá „kona“? Elísabet fjallar víða um leitina að konunni í sjálfri sér sem staðið hefur yfir áratugum saman en hófst „um það bil eftir að barnið fannst“ (162). Leitin að konunni tengist  ávallt samböndum við karlmenn og gjarnan andstæðunum hart og mjúkt:

 

 

Mér fannst ég stundum vera karlmaður og hefði lokað allt mjúkt inní mér. Seinna datt mér í hug að konan í mér væri hörð og grimm og eitthvað sem hægt væri að kalla karlmann í mér væri mjúkt. Kannski var þetta blandað. Og fór eftir einstaklingum. Mér fannst ég vera kona af því ég var kona. Svo einfalt var það. Samt var ég hrifin af karlmönnum sem höfðu svokallaða karlmannlega eiginleika og sýndu þá.

En ég var alltaf að hugsa um hvort ég væri nógu mikil kona og spyrja konuna í mér að hinu og þessu, hvort ég ætti að hreyfa mig svona eða segja þetta. (162)

 

Með því að vísa í „hart“ og „mjúkt“ og „svokallaða karlmannlega eiginleika“ sýnir Elísabet að erfitt er að losna undan aldagömlum hugmyndum og staðalmyndum. En hún tekst hinsvegar ítrekað á við slíkar hugmyndir og dregur margoft upp háðslegar myndir af ‚kveneðlinu‘. Í örsögunni „Kona sem breytti sér í konu“ fær hugmyndin um ‚alvörukonuna‘ hárbeitta meðferð:

 

Einu sinni var kona sem fannst hún ekki líta út einsog kona svo hún reyndi að breyta sér í konu og þetta sagði hún mér í fyllsta trúnaði: Fyrst keypti ég mér gervineglur, háhælaskó, perlufestar, varalit, gerviaugnhár, andlitspúður, hárlakk, brjóstapúða, hliðartösku, bleikt mínipils og netsokkabuxur. Þegar ég var búin að hafa mig til og gáði í spegil, svona til öryggis, leit ég út einsog klæðskiptingur eða frumstæður þjóðflokkur og þá var mér bent á konu sem stundaði handayfirlagningar og hún sagði mér að þetta kæmi að innan: Kvenleikinn. En þér að segja, bætti hún við og lækkaði róminn, þá hef ég alltaf verið hrædd við það sem er fyrir innan, maður veit aldrei hvað kann að leynast þar.35

 

 

Hér er kvenleikinn settur fram sem gjörningur byggður á gervi og minnir á kenningar bandaríska heimspekingsins Judith Butler um að hvort tveggja kyn (e. sex) og kyngervi (e. gender) séu tilbúningur. Samkvæmt Butler eru allar hugmyndir um ‚alvörukonur‘ samfélagslegur tilbúningur því líffræðilega kynið er ekki síður en kyngervið gjörningur sem við fremjum í sífellu.36 Sérlega athyglisverð er samlíking Elísabetar á ‚alvörukonu‘ – sem er í raun gervi – við klæðskipting. Fátt bendir á eins afgerandi hátt á gervimennsku ‚kvenleika‘ og ‚karlmennsku‘ og klæðskiptingar, sem og sá gjörningur sem felst í drag-sýningum hinsegin fólks. Á þetta benti róttæki femínistinn Kate Millett strax árið 1969 þegar hún fjallaði um verk franska rithöfundarins og leikskáldsins Jean Genet. Hún segir klæðskiptinga Genet:

 

 

apa með nákvæmni og ýkja „karlmennsku“ og „kvenleika“ hins gagnkynhneigða samfélags, hommarnir hans bjóða upp á bestu innsýnina sem hægt er að fá í samtímanum inn í gerð þess og viðhorf. Þótt skopmyndir þeirra séu vissulega gróteskar, og Genet sé vel ljóst hversu afkáraleg eftirlíking þeirra er, þá hafa hommarnir hans engu að síður réttilega náð inn að kjarna þess sem hið gagnkynhneigða samfélag ímyndar sér að einkenni „karlmennsku“ og „kvenleika“ og sem það misskilur sem eðli karla og kvenna og viðheldur þannig hinum hefðbundnu tengslum kynjanna.37

 

Líkt og Jean Genet sýnir Elísabet fram á að hugmyndin um ‚kvenleika‘ byggir á afkáralegri eftirlíkingu, á hlutverkaleik fremur en veruleika.

Þegar Elísabet á von á Algea finnst henni ljóst „að konan var týnd og tröllum gefin“. Í leit að konunni fyrir Algea gengur sögukona inn í hlutverkaleikinn en greinilega ekki af heilum hug:

 

Það varð að finna konuna fyrir Alega. Ég hafði lakkað táneglurnar á mér og rakað fótleggina áður en hann kom. Nú fór ég að ganga í kjólum heima hjá mér, sem var ólíkt mér. Algea var hrifinn af mér í kjól. Ég var svo feimin í kjólnum að ég vissi ekki hvernig ég átti að vera. Svo setti ég blóm í hárið. Ég myndi enda í gröfinni. (162)

 

Algea er hrifinn af ‚alvörukonunni‘ þótt hann geti ekki skilgreint nánar í hverju hugtakið er fólgið:

 

Algea hélt á lofti einhverri hugmyndafræði um „real woman“ [...] Þegar ég spurði hann út í þessa alvörukonu vafðist honum tunga um tönn, glotti og gerði grín að mér við vinkonu mína. Þetta hljómaði eins og innantómt slagorð. Svo sneri hann við blaðinu og sagði að auðvitað væri ég alvöru kona. Þá var mig hætt að langa til að vera alvöru kona. Ég var bara að benda honum á að maður yrði að vita hvað maður vildi segja. En ég hafði nógu lengi verið að leita að konunni í mér til að vita að hún var ekki alvöru kona. (146)

 

Alvörukonan er „innantómt slagorð“ og ekki eftirsóknarvert hlutverk að leika en það er erfitt að sleppa undan því. Það fær Elísabet að reyna bæði í sambandinu við Algea sem og í sambúð með íslenskum ofbeldismanni sem hún yrkir um í ljóðabókinni Ástin er ein taugahrúga. Enginn dans við Ufsaklett. Upphafsljóðið heitir einfaldlega „Alvörukonan“:

 

 

 
Hann sagði að ég væri alvörukona og ég féll í trans á
staðnum, loksins var einhver sem sá mig einsog ég var,
loksins var einhver sem sá mig, að ég var ekki einsog
konurnar sem þurftu háhælaskó, þrönga mittisjakka, púður,
meik og augnskugga, sléttujárn og brjóstin svellandi upp úr
brjóstahaldaranum, eða stoppaðar upp með sílíkonpúðum,
eitthvað svo brosandi, ég gæti aldrei verið einsog þær, mér
fannst þær nefnilega alvörukonur og ég væri í þykjustunni,
strákur, eða hlægileg, gæti ekki verið með, þættist vera
eitthvað, svo ég fór að vera með honum og ég sagði honum
að hann væri fallegur og ætlaði með því að gera á honum
fegrunaraðgerð, þá gæti hann haldið áfram að segja mér að ég
væri alvörukona en áður en ég vissi af var hann búinn að gefa
mér háhælaskó, púður, meik, varalit, augnskugga, klæða mig í
nælonsokka og korselett, eitthvað sem ég hafði engan tíma
til að pæla í.38

 

Í þessu ljóði hefur Elísabet í raun snúið hugmyndinni um ‚alvörukonuna‘ á haus því hér er það kona sem ekki þarf á neinum fegrunarmeðulum að halda. En sú hugmynd reynist aðeins draumur því í ljós kemur að karlmaðurinn sem ljóðveran hélt að kynni að meta sig „einsog ég var“ þráir í raun gervið og reynir að þröngva henni í það; að klæðast búningnum „sem ég hafði engan tíma til að pæla í.“

Bergljót Soffía Kristjánsdóttir og Guðrún Steinþórsdóttir benda réttilega á að í ljóðinu „Alvörukonan“ séu „áhrif menningar á samskipti einstaklinga sett á oddinn“.39 Í ofannefndri örsögu, „Kona sem breytti sér í konu“, er hins vegar líka vísað inn á við og bent á að maður viti aldrei hvað það er sem leynist „fyrir innan“. Þar með er því gefið undir fótinn að ‚kvenleikinn‘ komi ekki bara að utan (frá menningunni) heldur einnig að innan eða úr líkamanum. Tilraun konunnar sem „fannst hún ekki líta út eins og kona“ og reynir því „að breyta sér í konu“ er því skilyrt bæði af ytri og innri þáttum enda illmögulegt að aðgreina hið menningarlega, sálfræðilega og líkamlega þegar kemur að kyni og kyngervum sem læst eru inn í menningarbundnum staðalmyndum. Hvoru tveggja er afrakstur kyngervisgjörnings.40 

 

Kvenlíkaminn: skömmin og hláturinn

Heilræðið sem lásasmiðurinn gefur Elísabetu – og skáldævisaga hennar dregur nafn sitt af – snýst um að hún eigi ekki að lifa lífi sínu „þannig að það sé helgað skömminni“ (20).

 

Írskur lásasmiður hafði svarað skammarkveini mínu. Írar fundu upp skriftastólinn. Áður skriftaði fólk fyrir söfnuðinum. Ég hef lifað lífi mínu í skriftastól, alltaf jafn hrædd um að enginn sé að hlusta á mig. Að syndir mínar séu svo útþynntar að enginn hafi áhuga. Að ég geti ekki komið orðunum frá mér. [...] Ég er að byggja upp málsvörn mína. Það geri ég alla daga á bak við tjöldin, raða orðunum á sinn stað, það þýðir ekki að stama fyrir réttinum. Hvert orð verður að hljóma eins og klingjandi bjalla. Raðast niður í heila réttarins einsog stjörnumerkin á himni. Í miðjum réttarhöldum er ég komin til New York of all places og hitti lásasmið.

Hann færði mér engar leiðbeiningar á silfurfati um það hvernig ég ætti að losna við skömmina en treysti mér tilað leysa málið. (20-21)

 

Skömmin tengist kvenhlutverkinu, kvenlíkamanum og kynlífinu. „Ég er alltaf að leita eftir fullnægingu sem rífur mig á hol og skapar mig uppá nýtt, kannski kemur hún aldrei því ég kalla píkuna á mér musteri í staðinn fyrir dimmu, dimmu holuna mína“, segir Elísabet (8) og tengir saman kynlíf, kvensköp og sjálfsköpun og kinkar um leið kolli til Freuds sem talaði um hina „dimmu álfu kvenleikans“ þegar hann glímdi við að lýsa kynmótun kvenna.41 Þegar Algea segir við hana: „You have a good pussy“, og bætir við að það sé í raun það eina sem hann hafi áhuga á, segir Elísabet:

 

Barnæska mín hafði farið í það að kveljast útaf píkunni. Í fyrsta lagi pissaði ég í rúmið til tólf ára aldurs svo þetta kynfæri var tengt skömm og stjórnleysi. Í öðru lagi var ég bara krakki, sennilega sjö eða átta ára, þegar ég uppgötvaði að skapabarmarnir á mér væru of stórir og ég var viss um að píkan á mér væri vansköpuð. [...] Og svo var ekkert orð til yfir hana. [...] Það var ekki fyrren ég var komin hátt á þrítugsaldur að ég ákvað að kalla píkuna á mér píku. Það var eftir samræður við vinkonu mína sem fannst þetta sterkt og einfald orð. Ég hafði spurt aðra vinkonu mína sem var tíu árum eldri því ég þóttist viss um að hún væri með orðið en hún kallaði píkuna „þetta hérna“. (156-157)

 

Skömmina tengir Elísabet einnig við sjálfsfróun (51) og þá tilfinningu að hún væri „afbrigðilegt barn“ (53). Sjálfsfróunin er „leyndarmál“ (53) og henni fylgir ekki bara skömm heldur einnig einmanaleiki. Og hún finnur einmanaleikanum stað í líkamanum: „Ég geymdi einmanaleikann í píkunni [...] Einsog maður geymir sorgina í maganum eða áhyggjurnar í herðunum geymdi ég einmanaleikann á vísum stað. Þarsem engum dytti í huga að leita hans“ (53). Síðar segir hún: „Mér fannst píkan á mér yfirleitt frek, ljót og gráðug, einhver vandræðagripur“ (157). Skömm á kynfærum kvenna er rótgróin okkar menningu og órjúfanlegur hluti kynferðisbælingar kvenna. Hvergi verður tvöfalt siðgæði og kynjamismunun ljósari en í afstöðunni til kynfrelsis kvenna annars vegar og karla hins vegar. Í bókinni Kynferðispólitík42 fjallar Kate Millett um hvernig greina má ótta við og viðbjóð á kynfærum kvenna í flestum trúarbrögðum og goðsagnakerfum heimsins og ekki síður í samfélagslegum veruleika kvenna í flestum heimshlutum. Undir formerkjum „hefða“ er ráðist á kvenlíkamann og kvensköpin með böndum og hnífum, svo sem fótabindingar í Kína fyrr á öldum og fram á öndverða tuttugustu öld og umskurður á kvensköpum sem enn tíðkast víða í ýmsum löndum Afríku bera vitni um. Þá má tengja allskyns ‚lýta‘-aðgerðir nútímans sem miða að því að laga kvenlíkamann að stöðluðum fegurðarímyndum karlveldis við fyrirlitningu á hinum ‚náttúrlega‘ kvenlíkama.43

Í skrifum sínum um kvenlíkamann og skömmina sem honum tengist hefur Elísabet beint kastljósinu að og orðað hluti sem lengst af hafa legið í þagnargildi allt fram á þessa öld þótt ýmsar kvenréttindahreyfingar hafi reynt að setja þá á dagskrá. Þær kynslóðir kvenna sem ólust upp fyrir tíma #metoo, druslugöngunnar, free-the-nipple, kynjafræði og annarra álíka byltinga upplifðu þögn og skömm í kringum flest sem viðkom líkama kvenna, kynverund þeirra og kynlífi; um slíkt var ekki fjallað nema þá helst í formi kláms og annars konar kvenfjandsamlegrar umræðu. Því má halda fram að skrif Elísabetar um þessi málefni séu meðal mikilvægasta framlags hennar til íslenskra bókmennta.

Þótt Elísabet gangist hikstalaust við skömminni hefur hún einnig reynt að sporna á móti henni með því að leita til gyðjunnar Baubo sem, eins og áður var nefnt, „var gyðja magans, húmorsins, klámbrandara, hláturs, skrípaláta, kynlífs og kunni umfram allt ekki að skammast sín, þá fór ég að hugsa hvaða sögu píkan mín ætti“ (156). Þegar hún hefur rifjað upp þá sögu og skömmina sem tengist píkunni segir hún: „Fyrir mörgum árum datt mér í hug að ég gæti hugsanlega fengið hláturskast í staðinn fyrir allar þessar sársaukastunur sem ég heyrði í sjálfri mér og kynsystrum mínum. Mér fannst eðlilegt að fullnægingin opnaði fyrir hláturinn“ (158). Í femínískum fræðum hefur mikið verið skrifað um hláturinn sem frelsandi afl í kvennabaráttu.44 Hlátur getur verið hárbeitt vopn í baráttu gegn valdníðslu og yfirgangi, líkt og gildir um háðið, og því sjá konur í hlátrinum byltingarafl líkt og aðrir lægra settir hópar sem beita grótesku og hlátri gegn yfirvaldi. Um andófsafl hlátursins fjallaði Mikael Bakthin í bók sinni um skáldskaparheim Rabelais þar sem hann sýndi fram á hvernig karníval miðalda gegndi óopinberu andófshlutverki fyrir lægri stéttir samfélagsins.45 Þar sem það fór fram utan kirkjulegra ramma einkenndist það af róttækni, frelsi, ósvífni og hlátri. Helga Kress hefur bent á að í skáldsögunni Tímaþjófnum eftir Steinunni Sigurðardóttur megi sjá „vísbendingu um þau öfl sem gætu unnið á“ karlveldinu og nefnir hún meðal annars „neikvæðið, gróteskuna og hláturinn“.46 Þá hefur hún einnig bent á að í íslenskum fornbókmenntum sé hlátur „líkamsmál“ sem „fylgir oft því að konur niðurlægi karlhetjur, og hlátur kvenna eiga karlar bágt með að þola“.47 Elísabet kemur auga á sömu möguleika hlátursins þegar hún skrifar:

 

[...] ég uppgötvaði eitt og það var að stelpur eru stríðnispúkar, flissandi og vilja fara yfir strikið, færa valdmörkin. En strákarnir eru verðir og passa uppá þau. [...] Þannig eru stelpur, alltaf hlæjandi, flissandi, organdi af hlátri. Og þannig sáldrast veggirnir niður. Sem reistir hafa verið utan um ekkert.48

 

Athyglisvert er einnig að Elísabet tengir hláturinn við fullnæginguna og er þar á sömu nótum og franskir heimspekingar á borð við Roland Barthes49 og Juliu Kristveu50 sem (undir áhrifum frá kenningum Bakhtins) hafa skrifað um hláturinn sem hluta af fjölbreytilegu nautnalífi líkamans.51 Franska skáld- og fræðikonan Hélène Cixous er sama sinnis og vill að við skoðum kynjamun út frá gleðinni, líkamanum og kynnautninni (f. jouissance) fremur en byggja á skilgreiningu á konunni sem skorti (e. lack).52 Eins og Dagný Kristjánsdóttir hefur skrifað um smíðar Cixous (og fleiri franskir femínistar) kenningar sínar út frá „reynslu kvenna, líkama kvenna, gleði og nautn, reynslu með upphafi í tengslunum við móðurina í frumbernsku og vellíðunarlögmálinu sem var upphaf okkar allra“.53 Með því að ganga út frá „öðru vísi reynslu kvenna og kvenlíkamanum (margræðum, margbrotnum, djúpum, opnum, flæðandi) er síðan búin til útópía, eins konar óður til konunnar og máls hennar, tjáningar sem gæti byggst á öðrum lögmálum, annarri reynslu og hagsmunum en miðleitin, rökföst orðræða feðraveldisins“.54 Slíka „kvenlega“ tjáningu kallar Cixous „écriture féminine“ eða „kvenlega skrift“ og tákngerir það þannig að konur eigi að skrifa með „hvítu bleki“ og vísar þar til móðurmjólkurinnar.55

Hér skal því ekki haldið fram að skrif Elísabetar einkennist fyrst og fremst af því ‚kvenlega‘ flæði sem Hélène Cixous kallar eftir – þótt færa mætti rök að því í tilviki ljóðagerðarinnar – en hitt er ljóst að í skrifunum reynir Elísabet að mola niður veggi í margs konar skilningi, persónulegum og samfélagslegum. Og um líkamlegar rætur skáldskaparins eru þær Cixous á sama máli eins og skýrt kemur fram í einu ljóða Elísabetar:

 

Elsku jörð.
 
Nú veit ég
hvað var svona
sorglegt.
 
Að vera.
Svo ég fór
en ég er komin.
Til að vera.
 
Og þá heyri ég hljóð
og heyri að þetta muni vera
rödd mín,
sem hefur sofið í líkamanum.
 
Hún kemur úr beinum mínum,
vöðvum, taugum og innyflum,
rödd úr eldgömlu myrkri,
rödd úr ókomnu ljósi.
 
Hugsa sér. Rödd,
 
hún kemur úr frumunum,
úr hverri einustu frumu
 
hvíslandi,
þróttmikil,
segjandi:
 
Ég er til.
 
Viltu hafa hljóð.
 
Hljóð.
 
Og gefa það frá þér.56

 

 

Það má reyndar sjá ýmsa fleiri snertifleti í skrifum Hélène Cixous og Elísabetar Kristínar Jökulsdóttur, hugsun þeirra um konur og heiminn er í mörgu sambærileg og báðar leita á mið goðsagna, drauma og sálgreiningar í tilraun sinni til að skilja og túlka sjálfið og veruleikann. Líkt og Elísabet segir Cixous skrif sín eiga rætur í bernsku og tengir þau sérstaklega dauða föður síns57 og líkt og Elísabet fjallar Cixous um skömmina sem tengist bæði líkamanum og skrifunum.  Cixous hvetur konur til að varpa skömminni fyrir róða, skrifa og nota líkama sinn sem uppsprettu merkingar.58 Hún talar einnig um óttann við nautnir líkamans sem karlmenn hafi lagt eignarhald á og notar í því sambandi myndmál „nýlendukúgunar“ líkt og Elísabet.59 Cixous hvetur konur til að brjóta niður múra og óhlýðnast: „Innimúraðar, þessar litlu stúlkur með ‚óþekku‘ líkamana sína. Geymdar, öruggar fyrir sjálfum sér og ósnertar, á ís. Frystar. En hvílík merki um óróleika þarna niðri! Hvílík vinna fyrir kynlífslögguna, þarf alltaf að byrja upp á nýtt, að koma í veg fyrir hina ógnandi endurkomu kvennanna.“60

 

Útgönguleiðir

 

Ég hafði farið úr lokaða herberginu og í garðinn. Þaðan ætlaði ég í dauðann.
 
Þetta var allt sami staðurinn. Hausinn á mér.
 
Sem bjó yfir töframætti einsog þeir karlmenn sem ég lagði ást á.
 
Það mátti enginn segja mér að pabbi minn væri dauður.
 
Þá hefði ég engan stað til að vera á. Ég var að bíða eftir að hann opnaði því ég gat ekki opnað sjálf. (40-41)

 

Í inngangi er því haldið fram að skrif Elísabetar lýsi baráttu fyrir því að marka sér stöðu í heiminum, til að heyrast og sjást, til að fá að skapa og um leið endurskapa sjálf sitt. Þá fjallaði ég um hið sálræna skýringarmódel sem hún dregur ítrekað fram í verkum sínum, að sálrænir erfiðleikar hennar eigi rætur í þeirri staðreynd að faðir hennar hafnaði henni og hafi (í táknrænum skilningi) lokað hana inni í rými sem henni hefur reynst erfitt að yfirgefa. Með þetta í huga má segja að í skrifum sínum sé Elísabet að leita útgönguleiða, einhverra annarra leiða en þeirra bakdyra sem leiða beint í geðveikina eða dauðann.

Í frægri grein sem ber titilinn „Útgönguleiðir“ (f. „Sorties“)61 fjallar Cixous meðal annars um hvernig hægt sé að brjóta upp það rými kynjamunar og kynjamismunar (andstæðukerfin) sem vestræn samfélög byggjast á og hafa lokað konur inni í óviðunandi aðstæðum. Slík módel þagga niður í konum, að mati Cixous, og hún veltir fyrir sér hvernig konur geti skrifað án þess að vera fastar á klafa hefðar og ómögulegra skilgreininga; hvaða (útgöngu)leiðir séu þeim færar.62 Cixous ítrekar að þegar konur byrji að skrifa verði þær að vera gagnrýnar á hefð og tungumál og finna nýjar leiðir; þær verði að fjarlægja sig frá fyrirframgefnum mynstrum og sjálfsmyndum og kanna það sem hún kallar ‚þriðja líkamann‘ sem er hvorki hið innra né ytra heldur rýmið þar á milli.63 Þessi orð leiða hugann líka að Svövu Jakobsdóttur sem í greininni „Reynsla og raunveruleiki“ velti fyrir sér stöðu kvenna í bókmenntahefð karla, hvernig þær geti komist hjá því að fleyta „nánast viðstöðulaust áfram hefðbundinni hugsun“.64 Til þess að komast undan þess háttar hefðbundinni ánauð orðanna ákvað hún að umbylta orðunum, snúa út úr þeim og snúa þeim út: ,,Við hina karlmannlegu bókmenntahefð segi ég: Gott og vel, ég skal ræða við ykkur á grundvelli hins hlutlæga raunsæis en með mínum skilyrðum – innra borðið skal snúa út.“65 Tengja má þriðja líkama Cixous við hin ‚ranghverfu‘ skrif Svövu Jakobsdóttur; Irma Erlingsdóttir lýsir skáldskap Cixous einmitt sem skáldskap sem „fer út fyrir mörkin – sem flettir tungumálinu við.“66 Hélène Cixous og Svava Jakobsdóttir eru báðar að reyna að finna sér útgönguleiðir út úr hefð sem karlar hafa markað.

Þótt föðursystir Elísabetar (Svava Jakobsdóttir) hefði átt að geta verið henni fyrirmynd þegar hún hóf að skrifa stendur faðir hennar (Jökull Jakobsson) henni nær: „Ég hafði fengið ritvélina hans pabba í arf en afturganga hans stóð yfir mér: Þú kannt ekkert á vélina“ (134). Í þessari mynd birtist sálrænn ótti við skriftirnar, við að ryðjast inn á svið föðurins sem hafði tungumálið á valdi sínu. Enda segir hún í framhaldinu: „Svona dæmdi ég og ritskoðaði sjálfa mig“ (134). Elísabet veit að í tungumálinu er fólgið vald og umbreytandi kraftur. Hún segir Algea hafa viljað þagga niður í henni þegar hún talaði í samförum og ályktar: „En auðvitað var hann að taka frá mér tungumálið einsog karlmenn gera við konur og hafa gert svo lengi, þetta flæði sem getur molað á þeim hausinn og fært okkur það á silfurfati“ (113).

Á sama hátt og Hélène Cixous og Svava Jakobsdóttir gerir Elísabet sér vel grein fyrir ólíkri og ójafnri stöðu kvenna og karla innan bókmenntaheimsins. Að marka sér stað innan karllægs bókmenntaheims getur fylgt ótti og angistarfull sjálfsgagnrýni. Hún lýsir því hvernig óttinn braust út í líkamlegum einkennum þegar hún gaf út Fótboltasögur:

 

 

 

Ég fékk hjartslátt og verki sem tengdust því hvað fótboltamennirnir myndu segja um það að ég væri að ryðjast inná þeirra svið, mér sortnaði fyrir augum og missti mátt í fótunum. Helst vildi ég hætta við og átti fullt í fangi við að telja kjark í sjálfa mig. Karlmenn voru heilagir og ég haldin karlfyrirlitningu á háu stigi. Fyrirlitning er lúmsk í eðli sínu. Ég fyrirleit líka sjálfa mig þótt mér þætti vænt um sjálfa mig. En fyrirlitningin dulbjóst í endalausri sjálfsgagnrýni, það var svo göfugt að gagnrýna sjálfan sig. (57-58)

 

 

 

 

Óttinn við þetta ‚einkarými‘ karlmanna er vitaskuld einnig ótti við að ‚ryðjast‘ inn í bókmenntirnar og upplifa sig bæði sem boðflennu og óhæfa. Þótt byltingarafl geti falist í hlátri, eins og lýst var hér að ofan, er sumt grafalvarlegt: „Allt í sambandi við karlmenn varð grafalvarlegt“ skrifar Elísabet og bætir við: „Það varð grafalvarlegt þegar kom að skrifum mínum enda réðu karlmenn yfir bókmenntaheiminum“ (57). Þessi orð koma beint í kjölfarið á því þegar Elísabet hefur lýst „nýlenduvaldi“ karlmanna yfir sér, hvernig ástarþráin gat dregið úr henni máttinn. Þessi tenging valdsins yfir kvenlegri þrá og bókmenntunum er einkar áhugaverð en Elísabet berst á báðum vígstöðvum og skáldskapurinn leggur henni vopn í hendur og varnarskjöld: „Þó að [Algea] hefði séð hversu auðveldlega hann gat spilað á mig, og að ég væri blind á það, þá gerði hann ekki ráð fyrir því að ég hefði í mér afl sem væri sterkar en allt annað í mér, skáldskapinn [...] Því skáldskapurinn lifir allt af ef maður segir satt“ (181). Hér er ítrekað það sem áður sagði að skáldskapurinn er Elísabetu bæði lífsnauðsynlegt haldreipi og vegvísir um leið og hann er vettvangur sjálfssköpunar og gagnrýni á kvenfjandsamleg samfélagsleg munstur.

 

 

Eins og fram hefur komið eru skrif Elísabetar leið hennar til að glíma við tilvistina og erfiðleika sem eiga rætur í bernsku. Skrifin eru útgönguleiðin sem henni gefst kostur á og þau má skilgreina sem sjálfs-sálgreiningu og þerapíu. En í skrifum Elísabetar felst einnig persónuleg goðsagnasmíði sem hún tengir síðan baráttu kvenna fyrir sjálfssköpun, frelsi og samfélagslegu rými. Í skáldskapnum býr umbyltingarafl, það er þess vegna sem Cixous hvetur konur til að skrifa; skrifin geta þjónað sem stökkpallur fyrir umbyltingarhugsun, verið undanfari samfélagslegra og menningarlegra breytinga.67 Í skrifum Elísabetar felst umbyltingarafl sem er tilkomið vegna þess að hún hikar ekki við að berskjalda sig, hún leggur sjálfa sig, líkama og sál undir, og í þeirri staðreynd felst áhrifamáttur skrifanna. Hrund Ólafsdóttir segir að „með því að lýsa því sem er, tala gegn þöggun, nota skáldskapinn til þess að hrista upp í teprum, eða bara öllum þeim sem hafa siglt með straumnum“ taki Elísabet sér mikilvægt vald.68 Taka má undir með Hrund að „verk Elísabetar Jökulsdóttur eru borðleggjandi valdefling“ – í samfélagslegum skilningi sem og fyrir hana sjálfa, eins og kemur skýrt fram í tilvitnuðum orðum Elísabetar hér að ofan, um aflið sem er „sterkara en allt annað,“ skáldskapinn sem „lifir allt af ef maður segir satt“ (181). Með skáldskap sínum hefur Elísabetu Kristínu Jökulsdóttur tekist að marka sér stöðu og um leið sérstöðu í íslenskri bókmenntasögu. Með skrifum sínum um líkamann, kynverund kvenna, sálræna og líkamlega kynjabaráttu, hefur hún varpað nýju ljósi á þær skorður sem kvenhlutverkið hefur sett konum. Í greiningunni hér að ofan á skrifum Elísabetar hefur verið sýnt fram á hvernig hún notar tilfinningar sem „eldsneyti fyrir hugmyndir“ sem miðlað er um líkama. Í þeirri aðferð Elísabetar að nota kvenlíkaminn sem skurðpunkt hugmynda felst hennar skáldskaparfræði.

 

Aftanmálsgreinar:

[1] Bergljót Soffía Kristjánsdóttir og Guðrún Steinþórsdóttir, „„eða er það ástin sem er að missa hárið“. Um ást, þrá og sársauka í bókinni Ástin ein taugahrúga – Enginn dans við Ufsaklett eftir Elísabetu Jökulsdóttur“, Són, Tímarit um óðfræði 15/2017.
[2] Elísabet Kristín Jökulsdóttir, „Stelpa með tilfinningar“, Galdrabók Ellu Stínu. Hjartasögur, Reykjavík: Viti menn, 1993, bls. 62.
[3] Vísanir til skrifa Elísabetar um þetta koma síðar í samhengi við umfjöllunina hverju sinni.
[4] Bergljót Soffía Kristjánsdóttir og Guðrún Steinþórsdóttir, „„eða er það ástin sem er að missa hárið““, bls. 66.
[5] Elísabet Jökulsdóttir, Heilræði lásasmiðsins, Reykjavík: JPV, 2007, bls. 27. Framvegis verður vísað í þessa bók með blaðsíðutölum innan sviga í meginmáli, í aðrar bækur Elísabetar verður vísað neðanmáls.
[6] Elísabet Jökulsdóttir, Dauðinn í veiðarfæraskúrnum. Frúin á neðri hæðinni leysir frá skjóðunni, Reykjavík: Viti menn, 2017, bls. 47.
[7] Jóhanna Kristjónsdóttir, Perlur og steinar. Árin með Jökli, Reykjavík: Almenna bókafélagið, 1993, bls. 73.
[8] Hrund Ólafsdóttir, „Ekkert pláss fyrir ást“, óbirt erindi flutt á málþinginu Elísabet sextug, Gunnarshúsi, 22. apríl 2018.
[9] Elísabet Kristín Jökulsdóttir, Síðan þessi kona varð trúuð hefur hún verið til vandræða í húsinu, Reykjavík: Viti menn, 2005, bls. 7.
[10] Sama rit, bls. 24.
[11] Sjá um Baubo, t.d. Marina Warner, From the Beast to the Blonde. On Fairy Tales and Their Tellers, London: Vintage, 1994, bls. 150-152. Það er athyglisvert að fleiri íslenskar skáldkonur tengja sig við Baubo í bókum sínum. Það gerir Eva Rún Snorradóttir í Fræ sem frjóvga myrkrið, Reykjavík: Benedikt, 2018, sjá aðfaraorð ljóðanna.
[12] Kolbrún Bergþórsdóttir, „Eins og landkönnuður með landakort“, viðtal við Elísabetu Jökulsdóttur, Dagblaðið Vísir – DV, 30. janúar 2015, bls. 52.
[13] Elísabet Kristín Jökulsdóttir, Dans í lokuðu herbergi, Reykjavík: s.n., 1989, bls. 32.
[14] Sama rit, bls. 19.
[15] Sigmund Freud, Um sálgreiningu, íslensk þýðing Maia Sigurðardóttir, Reykjavík: Hið íslenska bókmenntafélag, 1976, bls. 47.
[16] Sama rit, bls. 49.
[17] Dans í lokuðu herbergi, bls. 7.
[18] Sama rit, bls. 10.
[19] Sama rit, bls. 10.
[20] Sama rit, bls. 13.
[21] Sama rit, bls. 15.
[22] Elísabet hefur einnig tjáð sig um þetta í blaðaviðtölum, sjá t.d. Erla Björk Gunnarsdóttir og Snærós Sindradóttir, „Sterkasti drifkrafturinn er höfnun“. Viðtal við Elísabetu Jökulsdóttur, Vísir, 10. júní 2016, sótt 8. apríl 2019 af http://www.visir.is/g/2016160608802/sterkasti-drifkrafturinn-er-hofnun- Þá hefur hún á undanförnum árum unnið markvisst með höfnun og ótímabæran dauða föður síns, sem og önnur áföll í lífi sínu, í þeim tilgangi að ræsa hin sálrænu áhrif þeirra út. Þann 4. september 2016 framdi Elísabet t.a.m. gjörning í Bæjarbíó í Hafnarfirði þar sem tilgangurinn var „að lofta út og viðra áföllin“ því hún var orðin „leið á dauða föður [síns]“ og hvernig áfallið við að missa hann var búið að stjórna lífi hennar í 40 ár: „Bæði mér sem listamanni og rithöfundi og sem manneskju. Og sem konu í ástarsamböndum“, hdó, Fréttatíminn, 3. sept. 2016, bls. 32.
[23] Elísabet Kristín Jökulsdóttir, Galdrabók Ellu Stínu, bls. 62.
[24] Sama rit, bls. 18.
[25] „Opin bók“ vekur einnig hugrenningartengsl við klofning; bókaropna hefur tvær aðskildar blaðsíður sem liggja sitthvoru megin við miðju bókarinnar. Myndin tengist því þeim klofningi sem ræddur var hér á undan.
[26] Sigríður Þorgeirsdóttir, „Konur og líkaminn“, „Hitt kynið í fimmtíu ár. Viðtökur og viðhorf í Frakklandi,“ Simone de Beauvoir, heimspekingur, rithöfundur, femínisti, ritstj. Irma Erlingsdóttir og Sigríður Þorgeirsdóttir, Reykjavík: Rannsóknarstofa í kvennafræðum, Háskólaútgáfan, 1999, bls. 101-119, hér bls. 109.
[27] Sama rit, bls. 112-113. Sjá einnig Debra B. Bergoffen, The Philosophy of Simone de Beauvoir. Gendered Phenomenologies, New York: SUNY Press, 1997, bls. 147.
[28] Sigríður Þorgeirsdóttir, „Heimspeki líkamans og heimspeki í líkamanum og hvers vegna hugsun er ekki kynlaus“, Hugur, 27/2015, bls. 65-80, hér bls. 67.
[29] Sama rit, bls. 69.
[30] Í gjörningi sem Elísabet framdi í veislu sem hún hélt í tilefni af sextugsafmæli sínu, í Tjarnarbíói 24. apríl 2018, gaf hún upp „formúlu fyrir sköpun“. Grundvallaratriði formúlunnar voru: Tilfinningar, hugsanir, líkami og leikur.
[31] Sjá t.d. Heilræði lásasmiðsins og Ástin ein taugahrúga. Enginn dans við Ufsaklett.
[32] Galdrabók Ellu Stínu, bls. 43.
[33] Elísabet Kristín Jökulsdóttir, Sjáðu, sjáðu mig. Það er eina leiðin til að elska mig. Sorgarljóð, Reykjavík: Viti menn, 1995, bls. 31.
[34] Simone de Beauvoir, „Inngangur“, Simone de Beauvoir, heimspekingur, rithöfundur, femínisti, bls. 25-46, hér bls. 27-28.
[35] Lúðrasveit Ellu Stínu, Reykjavík: Mál og menning, bls. 11.
[36] Um þetta fjallar Judith Butler í eftirfarandi verkum: Gender Trouble. Feminism and the Subversion of Identity, New York: Routledge, 1990, Bodies That Matter. On the Discursive Limits of Sex, New York: Routledge, 1993, og Undoing Gender, New York: Routledge, 2004.
[37] Kate Millett, Sexual Politics, London, Virago Press, 1977, bls. 17, þýðing greinarhöfundar.
[38] Elísabet Jökulsdóttir, Ástin ein taugahrúga. Enginn dans við Ufsaklett, bls. 11.
[39] Bergljót Soffía Kristjánsdóttir og Guðrún Steinþórsdóttir, „„eða er það ástin sem er að missa hárið““, bls. 66.
[40] Gjörningskenning er til umfjöllunar í öllum áðurnefndum bókum Judith Butler en benda má á að Geir Svansson ræðir kenningar hennar um kyngervisgjörning nokkuð ítarlega í greininni „Ósegjanleg ást. Hinsegin sögur og hinsegin fræði í íslensku samhengi“, Skírnir (haust), 1998, bls. 476-512. Sjá sérstaklega bls. 482-486.
[41] Sigmund Freud, The Question of Lay Analysis, ensk þýðing James Strachey, London & New York: W.W. Northon & Company, Inc., 1978, bls. 38.
[42] Kate Millett, Sexual Politics, bls. 46-54. Bókin kom fyrst út 1969 og er eitt þeirra rita sem markaði upphaf annarrar bylgju femínisma í Bandaríkjunum. Ritið hafði gríðarleg áhrif á baráttuna fyrir réttindum kvenna enda var þar í fyrsta sinni ráðist í að greina innviði karl- og feðraveldis út frá mismunandi sjónarhornum, svo sem hugmyndafræðilegum, félagslegum, sálfræðilegum og hagrænum þáttum, sem og mýtum og trúarbrögðum (í stað lífræðilegra þátta um mismun kynjanna sem einblínt hafði verið á). Millet sýndi fram á hvernig valdbeiting í garð kvenna var innbyggð í alla þessa þætti.
[43] Í þessu sambandi má benda á að í dag eru framdar aðgerðir til að minnka ytri skapabarma kvenna ef þeir þykja of stórir og „vanskapaðir“, sbr. tilvitnuna í Heilræði lásasmiðsins hér að ofan.
[44] Sjá t.d. Jo Anna Isaak, Feminism & Contemporary Art. The Revolutionary Power of Women‘s Laughter, London & New York: Routledge, 1996.
[45] Bakhtin, Mikael, Rabelais and his World, ensk þýðing Helen Iswolski, Bloomington: Indiana University Press, 1984. Fyrsta enska þýðing bókarinnar kom út 1968 en endurskoðuð útgáfa kom út 1984.
[46] Helga Kress, „Dæmd til að hrekjast. Um ástina, karlveldið og kvenlega sjálfsmynd í Tímaþjófnum eftir Steinunni Sigurðardóttur“, Tímarit Máls og menningar, 49. árg.: 1/1988, bls. 55-93, hér bls. 89.
[47] Helga Kress, Máttugar meyjar. Íslensk fornbókmenntasaga, Reykjavík: Háskólaútgáfan, 1993, bls. 122.
[48] Elísabet Kristín Jökulsdóttir, „Stelpur eru stríðnispúkar“, Knúz – femínískt vefrit, 13. júní 2016, sótt 8. apríl 2019 á af https://knuz.wordpress.com/2016/06/13/stelpurerustridnispukar/
[49] Roland Barthes, The Pleasure of the Text, ensk þýðing Richard Miller, New York: Hill and Wang, 1975.
[50] Julia Kristeva, About Chinese Women, ensk þýðing Anita Barrows, London: Marion Boyars Publishers Ltd., 1977.
[51] Sjá einnig Jo Anna Isaak, Feminism & Contemporary Art. The Revolutionary Power of Women‘s Laughter, bls. 15.
[52] Hér er vísað í freudíska kenningu um þroska og kynmótun kvenna sem byggist á því að konan sé vanaður karl, hana skorti reðurinn og þjáist af reðuröfund upp frá því. Cixous vill að við skilgreiningu á því kvenlega sé tekið mið af því sem er fremur en því sem skorti. Sjá Hélène Cixous & Catherine Clement, The Newly Born Woman, ensk þýðing Betsy Wing, Manchester: Manchester University Press, 1986.
[53] Dagný Kristjánsdóttir, „Kvennamál og kvennamenning. Af nýjum kvennarannsóknum í bókmenntum“, Tímarit Máls og menningar, 43. árg.: 1/1986, bls. 73-89, hér bls. 82.
[54] Dagný Kristjánsdóttir, „Kvennamál og kvennamenning“, bls. 82.
[55] Hélène Cixous, „The Laugh of the Medusa“, ensk þýðing Keith Cohen & Paula Cohen, Signs, 1: 4, Summer, 1976, bls. 875-893, hér bls. 881. Það er mikilvægt að átta sig á að Cixous er að tala um ákveðna aðferð í skrifum fremur en kyn rithöfundarins. Karlhöfundar geta beitt „kvenlegri skrift“ (hún nefnir t.d. Jean Genet) og kvenhöfundar beita margir „orðræðu feðraveldisins“, en að mati Cixous eiga þær að reyna að forðast það til að verða ekki fórnarlömb hefðar og endurtekninga. Irma Erlingsdóttir hefur fjallað um hugtak Cixous um kvenleg skrif í greininni „Lesin: epli og kynjamunur. Um kynjafúgur Hélène Cixous“ í greinasafninu Flögð og fögur skinn, ritstjóri Jón Proppé, Reykjavík: Íslenska menningarsamsteypan art.is, 1998, bls. 147-151.
[56] Sjáðu, sjáðu mig, bls. 46-47.
[57] Cixous, Hélène, „Coming to Writing“, „Coming to Writing“ and Other Essays, ritstj. Deborah Jenson, Cambrigde og London: Harward University Press, 1991, bls. 1-58, hér bls. 19-20 og Morag Shiach, Hélène Cixous: A Politics of Writing, London: Routledge, 1991, bls. 24-26.
[58] Hélène Cixous, „The Laugh of the Medusa“, bls. 876-877.
[59] Hélène Cixous og Catherine Clement, The Newly Born Woman, bls. 68.
[60] Sama rit, bls. 69.
[61] Franski titillinn er mjög margræður því orðið sorties (flt. af sortie) getur þýtt útganga, útgönguleið, vegur, rennsli, leki, útstreymi, útflutningur, útgjöld, útgáfa, birting, útrás, úthlaup, sem og hnyttiyrði, smellin athugasemd; óvarlegt orðalag; skætingur. Sjá má flestar þessar merkingar að verki í grein Cixous.
[62] Hélène Cixous og Catherine Clément, The Newly Born Woman, bls. 63-132.
[63] Morag Shiach, Hélène Cixous. A Politics of Writing, bls. 25-26.
[64] Svava Jakobsdóttir, „Reynsla og raunveruleiki. Nokkrir þankar kvenrithöfundar“, Konur skrifa til heiðurs Önnu Sigurðardóttur, ritstj. Valborg Bentsdóttir, Guðrún Gísladóttir og Svanlaug Baldursdóttir, Reykjavík: Sögufélag, bls. 221-230, hér bls. 227.
[65] Sama rit, bls. 228.
[66] Irma Erlingsdóttir, „Ó-orðið milli bókmennta og heimspeki“, Ritið, 3/2010, bls. 55-72, hér bls. 64.
[67] Hélène Cixous, „The Laugh of the Medusa“.
[68] Hrund Ólafsdóttir, „Ekkert pláss fyrir ást“.

Tengt efni