SKÁLD.IS

Konur skrifa um konur sem skrifa

Steinunn Inga Óttarsdóttir 1. apríl 2021

FERILLINN STUTTUR, DJARFUR OG FRJÓR

 
 
 
 
Skáldkonan Didda hefur sent frá sér langþráða bók en síðast kom út eftir hana hetjusagan Gullið í höfðinu árið 1999.
 
Gullið gerist á geðveikrahæli þar sem Katla kvelst, þegir kuldalega en hugsar sitt. Þar áður kom út hin berorða, viðkvæma og kaldhamraða ljóðabók sem var í senn dæmigerð fyrir tíðarandann og markaði tímamót: Lastafans og lausar skrúfur (1995) en hún inniheldur m.a. hið fræga ljóð Af mér.
 
Þá var Didda komin með það orð á sig að vera berorð og íronísk og óspör á kynlífslýsingar. Um Lastafans skrifaði Sigríður Albertsdóttir ritdóm sem birtist í Kvennablaðinu Veru og er að finna í greinasafni skáld.is:
 
„Hún er ruddaleg, kjaftfor, hörð, töff og kaldhæðin en samt svo agnarsmá inni í sér. Skrifar um líf utangarðsmannsins, drykkjukonunnar og dópistans af þvílíkri ástríðu að lesandinn fær einsemdina og ömurleikann beint í æð, verður dapur en um leið hugfanginn yfir snilld skáldkonunnar sem hlífir hvorki sér né lesendum sínum...Svo mikil er vantrúin að stúlkan reynir að má út eigin tilvist í ljóðum sem eru hvert öðru magnaðra og rífa í hjartað. Það er langt síðan mér hafa borist jafn hispurslaus, berorð, sjokkerandi og um leið vönduð og vel gerð ljóð í hendur.“
 
Síðan kom skáldsagan Erta (1997) - verulega ertandi, ofurraunsær og gróteskur hvunndagur er þar dreginn fram í dagbókarformi - textabrot og ljóð lýsa leit stúlku að ástinni.
 
Skáldskaparferill Diddu er stuttur, djarfur og frjór. Lastafans þótti frumleg og sterk ljóðabók en skáldsögur hennar fengu harða dóma gagnrýnenda. Síðan hafa birst stöku ljóð og greinar eftir Diddu hér og þar en ekkert bólað á meiri skáldskap, fyrr en nú að Hamingjan birtist í bókabúðinni.
 
Bókin er fallega myndskreytt af hinni snjöllu Alexöndru Buhl og inniheldur glaðlega frasa, myndhverfingar, margvíslega ljóðrænu. En er þetta skáldskapur eða eitthvað annað? Hvernig er bók er Hamingjan? Heilræði, viskumolar, handbók, ljóðabók?
 
Það er aldrei á vísan að róa með Diddu.
 
 
 
 

 

 

Tengt efni