SKÁLD.IS

Konur skrifa um konur sem skrifa

Soffía Auður Birgisdóttir 5. nóvember 2022

KONA / SPENDÝR komin út

Þriðja ljóðabók Ragnheiðar Lárusdóttur, Kona / Spendýr, er komin út.

Skáld.is birti nokkur ljóð úr bókinni nýverið sem vöktu mikla athygli enda eru ljóðin bæði beinskeytt og feminísk. Ragnheiður yrkir um mismunandi hlutverk kvenna; sem dætur, eiginkonur, mæður og kyntákn.

Í nýlegu viðtali við Fréttablaðið segir Ragnheiður innblásturinn koma einfaldlega frá sínu eigin kynferði og þetta séu pælingar sem hún hafi haft frá því að hún var barn.

Titill bókarinnar vísar til þess hlutskipti kvenna að fæða af sér afkvæmi og hafa þau á brjósti, eða eins og hún segir í áðurnefndu viðtali: „Þetta er líka um það að vera spendýr, að fæða barn og mjólka,“ útskýrir hún. „Maður verður svolítil belja á bás þegar maður er óléttur.“

Ragnheiður hlaut Bókmenntaverðlaun Tómasar Guðmundssonar fyrir fyrstu bók sína 1900 og eitthvað árið 2020 og ári síðar sendi hún frá sér ljóðabókina Glerflísakliður. Innkoma Ragnheiðar á íslenska ljóðasviðið er því mjög sterk og Skáld.is óskar henni hjartanlega til hamingju með nýju bókina.

 

 

Tengt efni